Spáð og spekúlerað í aðstoðarmönnunum

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og SamfylkingarÞað er mikið spáð og spekúlerað í því þessa dagana hverjir verði aðstoðarmenn ráðherranna nýju. Það kom fáum að óvörum í dag að Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, ákvað að velja Einar Karl Haraldsson sem aðstoðarmann sinn og eins fyrir helgina þegar að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, ákvað að velja Kristrúnu Heimisdóttur sem aðstoðarmann sinn. Nöfn beggja voru í umræðunni og talin bæði líkleg til að vera valin.

Einar Karl og Kristrún voru framarlega í flokki helstu trúnaðarmanna Össurar og Ingibjargar Sólrúnar í formannskjörinu í Samfylkingunni árið 2005. Einar Karl var reyndar áður fyrr mjög framarlega í Alþýðubandalaginu og framkvæmdastjóri flokksins í formannstíð Ólafs Ragnars Grímssonar og hefur því þekkt Össur lengi, en Össur starfaði innan Alþýðubandalagsins allt þar til árið 1990 og var varaborgarfulltrúi flokksins um nokkuð skeið, áður en hann fór í Alþýðuflokkinn. Einar Karl var varaþingmaður Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili og hefur verið áberandi í starfinu þar eftir að flokkurinn varð til.

Það sem við hér í Norðausturkjördæmi veltum eflaust mest fyrir okkur í þessum ráðherrakapal er hvern Kristján L. Möller, samgönguráðherra, muni velja sem aðstoðarmann sinn. Ekki yrði ég hissa þó að hann veldi flokksmanneskju héðan úr kjördæminu sér við hlið. Það yrði nærtækt fyrir hann að líta til Láru Stefánsdóttur og Margrétar Kristínar Helgadóttur, varaþingmanna Samfylkingarinnar í kjördæminu. Það var Kristjáni og Samfylkingunni auðvitað talsvert áfall að ná ekki að tryggja kjör Láru, en hún var þó vissulega mjög nærri því að detta inn sem jöfnunarmaður, og að tryggja Möggu Stínu sem fyrsta varaþingmann. Staðan fyrir flokkinn hér er því óbreytt.

Samfylkingin í Norðausturkjördæmi tapaði þriggja prósentustiga fylgi og varð fyrir nokkru áfalli og mistókst að verða stærra afl í kjördæminu en áður. Það er samt sem áður mjög merkilegt í ljósi úrslitanna að aðeins Samfylkingin hafi ráðherrastól í kjördæminu. Það kæmi mér ekki að óvörum að Kristján veldi aðstoðarmann úr kjördæminu m.a. til að tengjast betur flokksmönnum á svæðinu, enda er þetta stórt og viðamikið kjördæmi og honum vantar tengilið við flokksmenn á svæðinu vegna mikilla anna og til að byggja upp við starfið á svæðinu. Þetta gerði Sturla Böðvarsson t.d. sem samgönguráðherra áður. Ég tel Láru og Möggu Stínu mjög líklegar í þessu ljósi.

Ennfremur verður fróðlegt að sjá hverja hinir ráðherrarnir velja. Orðrómur er um að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, velji Guðnýju Hrund Karlsdóttur eða Róbert Marshall. Talað er um að Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, velji jafnvel Dofra Hermannsson, varaborgarfulltrúa og starfsmann þingflokks Samfylkingarinnar, sem aðstoðarmann sinn. Svo er auðvitað talað um að Jóhanna Sigurðardóttir velji aðstoðarmann af höfuðborgarsvæðinu. Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, mun væntanlega velja aðstoðarmann úr ungliðastarfinu eða náinn samstarfsmann innan flokksins.

Fróðlegt verður svo að lokum að sjá hvern Geir H. Haarde, forsætisráðherra, velur sem aðstoðarmann sinn, en Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður hans, varð alþingismaður í kosningunum 12. maí sl. Mjög líklegt er að hann velji aðstoðarmann innan úr flokkskjarnanum eða einhvern sem hefur staðið honum nærri í starfi flokksins.

Það er líklegt að þessi aðstoðarmannakapall skýrist fyrir lok mánaðarins, en Alþingi kemur saman á fimmtudag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Eg hefi nú meiri áhuga á hvað öll Rikisstjornin gerir á þessu Sumarþingi en hvaða aðstoðarmenn þeir taka ser/Það virðist sem þeir ætli ekki að hafa okkur Gamlingjana á dagskrá/Kveðja Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 30.5.2007 kl. 10:47

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Halli

Þetta verður skemmtilegt sumarþing vonandi. Ég er nú ekki í vafa um að aldraðir eigi góðan málsvara í Jóhönnu Sigurðardóttur sem tekur við málaflokki þeirra. Það er eitt stærstu markmiða stjórnarsáttmála flokkanna að hlúa vel að öldruðum og öryrkjum. Vonandi verður það raunin.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 30.5.2007 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband