Yndislegt sumarfrí á Austfjörðum

AustfirðirÞað hefur verið virkilega notalegt síðustu dagana að dvelja austur á fjörðum. Veðrið hefur verið eins best og hægt verður á kosið, fyrir utan laugardaginn reyndar. En þessir dagar voru nýttir vel og farið um öll svæði, hitt vini og kunningja og notið rólegra daga. Sérstaklega fannst mér gaman að kúpla mig algjörlega frá tölvunni, ég tók fartölvuna mína einfaldlega ekki með en leit örsjaldan á ferðinni í tölvu hjá vinum og fór aðeins í póstinn og leit örlítið hér inn á vefinn, sem fór í frí, að mestu, rétt eins og ég.

Það sem mér fannst skemmtilegast í ferðinni var hiklaust að fara á þá staði sem ekki hefur verið gefinn nógu góður tími á síðustu árum. Ég þræddi hægt og rólega firðina milli Reyðarfjarðar og Hornafjarðar. Það voru orðin þrettán ár liðin frá því að ég færi til Fáskrúðsfjarðar, Stöðvarfjarðar og Djúpavogs, meira en svo að spana í gegn á hraðferð. Þannig að nú var notaður vel tíminn í að fara á öll söfnin á svæðinu og rölta aðeins um staðina smástund. Það var virkilega áhugavert að líta á safnið í Löngubúð á Djúpavogi. Þar eru vegleg söfn til minningar um Ríkharð Jónsson og Eystein Jónsson, fyrrum ráðherra og pólitískan héraðshöfðingja fyrir austan.

Á Stöðvarfirði fór ég í fyrsta skipti í yfir áratug í Steinasafn Petru Sveinsdóttur. Það er einstök upplifun, að því er segja má, að fara í það safn. Þetta safn ber vitni þeirri hugsjón Petru að varðveita steina og hlúa að þeim. Garðurinn hennar og heimilið að Fjarðarbraut á Stöðvarfirði er svo sannarlega einstakt að öllu leyti. Þar er allt fullt af steinum úr öllum áttum og safnið er minnisvarði um ævistarf Petru, sem ber vitni krafti hennar. Þar er öllu raðað upp með nostursamlegum hætti. Það eru annars fá góð orð til að lýsa safninu. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari. Ég hvet alla þá sem fara þarna um að líta við. Petru nýtur ekki lengur við, en dóttir hennar var á safninu er ég átti leið um og var áhugavert að ræða við hana um þetta merkilega safn, sem er hlúð vel að af börnum Petru.

Það var gaman að fara í Sjóminjasafnið á Eskifirði. Þar var Diddi frændi minn safnvörður er ég leit við og það var því um margt að tala á safninu. Það var áhugavert að labba þar um og skoða fallega safngripi og kynnast merkilegri innsýn í söguna á Eskifirði. Það er ekki svo langt síðan að ég leit í Stríðsminjasafnið á Reyðarfirði, svo að ég staldraði þar ekki við, en það er ennfremur mjög gott safn, svo og öll önnur þarna. Það er mjög áhugavert að fara þar um, og gefa sér tíma til að kynna sér það sem þar er. Heilt yfir var svo litið til fjölda ættingja, þá vantar mig ekki á svæðinu. Það fór drjúgur tími í þær heimsóknir og alltaf gaman að líta við og spjalla, oftast langt fram á kvöldin.

Sérstaklega fannst mér áhugavert á ferðinni austur að fara þó í Skriðuklaustur í Fljótsdal. Það er rúmur áratugur, merkilegt nokk, síðan að ég hef farið þar inn og svo sannarlega kominn tími til að bæta úr því. Þegar að ég fór þangað á mánudag var mjög rólegt og gott andrúmsloft yfir. Fékk ég mjög góða leiðsögn um safnið af starfsmanni sem þar var. Það er góður andi í Skriðuklaustri. Sýningin þar á verkum og ævi Gunnars Gunnarssonar er mjög skemmtilega sett upp og notalegt fyrir ferðamanninn að koma þar við og fræðast um húsið og skáldið sem reisti þennan hallargarð í sveitinni sinni. Þar var líka falleg myndlistasýning á verkum Hrafnhildar Ingu Sigurðardóttur.

Það hefur eflaust verið merkileg tilfinning fyrir kotbændur í dalnum þegar að Gunnar Gunnarsson kom í dalinn og reisti sér þessa höll, sinn hallargarð í fögrum dal. Enn í dag, sjö áratugum síðar, er þetta höll og fallegast húsa á svæðinu. Svo mun lengi vera. Þegar að ég kom í Skriðuklaustur angaði þar yndisleg kleinulykt, enda verið að baka í kaffistofunni í kjallaranum. Það var veglegt kaffihlaðborð þar og ómögulegt annað en láta freistast af því góðmeti sem þar var. Þar var hlaðborð á gamla móðinn, yndislegt brauð og ekta heitt súkkulaði með. Þetta var yndisleg stund og við skemmtum okkur vel þarna.

Á sjómannadag var hið fínasta veður en hin vænsta gjóla. Þar var áhugavert að fara og taka þátt í þeim hátíðarhöldum sem þar voru. Það voru veglegri hátíðarhöld þar en hér í mínum heimabæ, þar sem glansinn er farinn af þeim, sem er okkur öllum hér til skammar. Það fór svo að ég fór í tvær messur á þessum sjómannadegi í Fjarðabyggð. Fyrir hádegið var messa í Eskifjarðarkirkju. Þar messaði sr. Davíð Baldursson, prófastur. Davíð og ég erum systrasynir. Hann hefur þjónað þar frá árinu 1977. Á Norðfirði eftir hádegið fór ég í messu, enda er Ágúst Ármann, frændi minn, þar organisti. Björg Þórhallsdóttir söng þar fallega - bróðir hennar, Höskuldur þingmaður, var þar staddur líka. Guðmundur Bjarnason, fyrrum bæjarstjóri, flutti þar öflugt og gott erindi um sjávarútveginn.

Ennfremur fór ég svo auðvitað í Borgarfjörð eystri og Seyðisfjörð. Það stóð til að fara upp að Kárahnjúkum, en það varð ekki af því í þessari ferð í Fljótsdalinn, einfaldlega vegna þess að það var ekki tími þann daginn. Það verður farið þangað síðar í sumar, þegar að maður fer styttri ferð, væntanlega yfir helgi. En það er mikilvægt að fara þangað. Það var sól og blíða þessa daga, eins og best verður á kosið. Það er alltaf gaman að fara austur, þar er mikið að sjá staldri maður við og njóti kyrrðarinnar og fari yfir möguleikana þar, skoði söfnin og menningarsetrin á svæðinu. Svo er auðvitað yndislegt bara að finna kyrrðina.

Á Hornafirði er alltaf gott að vera, virkilega notalegt að líta þangað. Það var fínasta veður er ég dvaldi þar yfir nótt. Þar fékk ég mér góðan göngutúr að kvöldlagi sem var hressandi mjög. Það er magnað að fara austur þessar vikurnar og hefur verið um langt skeið auðvitað. Krafturinn í framkvæmdum í Fjarðabyggð er enn mikill og gaman að sjá álverið vera orðið að veruleika. Þar verða til mörg tækifæri fyrir þetta samfélag, það sést vel á öllu sem þar hefur gerst undanfarin tvö til þrjú ár. Það eru spennandi tímar framundan.

Það er samt alltaf best að koma heim eftir langferð. Það var afskaplega notalegt að koma aftur heim í fjörðinn fagra síðdegis. Það er alltaf gott að fara í ferðalag, en samt er alltaf best að koma heim að því loknu. En þetta var yndisleg ferð og mjög notalegir dagar sem ég átti á ferðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Skemmtilegur pistill!

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.6.2007 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband