Dómur yfir Libby mildaður - mistök forsetans

George W. Bush George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hefur nú mildað dóm yfir Scooter Libby, fyrrum skrifstofustjóra Dick Cheney, sem nú þarf ekki í fangelsi. Ég tel að þetta séu mjög mikil mistök hjá forsetanum, sérstaklega tel ég að þau brennimerki hann illa á erfiðum hjalla á forsetaferlinum. Hann mælist einn óvinsælasti forsetinn í sögu Bandaríkjanna á þessum tímapunkti og virðist mælast á svipuðum slóðum og Nixon áður en hann gafst upp og sagði af sér vegna Watergate, máls sem eyðilagði virðingu hans og pólitískan heiður að eilífu.

Bush er í mjög erfiðri stöðu, nú þegar að rétt rúmlega eitt og hálft ár er enn eftir af forsetaferli hans. Hann hefur þingið ekki með sér lengur og þjóðin hefur misst alla trú á pólitískri leiðsögn hans og forystuhæfileikum. Það er erfitt að snúa svo töpuðu tafli sér í vil. Þessi ákvörðun mun aðeins verða til að gera hann enn óvinsælli og gæti gert það að verkum að repúblikanar eygji enga von á því að vinna Hvíta húsið að nýju, með nýjum frambjóðanda af hálfu Repúblikanaflokksins. Það stefnir í örlagatíma fyrir flokkinn og nær útilokað að hann muni hafa nokkur áhrif á það hvaða flokksmaður muni sækjast eftir embættinu þegar að hann hættir.

Óvinsældir forsetans hafa þegar gert það að verkum að þingmenn og forsetaefni flokksins vilja frekar stökkva fyrir björg en leita eftir stuðningi og atbeina hans. Þetta er vissulega mjög erfið staða. Nú þegar að innan við eitt og hálft ár er til forsetakosninganna reyna forsetaefni flokksins að leggja lykkju á leið sína í baráttunni fyrir Hvíta húsinu til að minnast ekki orði á forsetann og fyrri verk hans. Það er metinn pólitískur dauðadómur að hafa stuðning hans og flokkurinn er að leita í aðrar áttir. Þetta sést best af því að þeir sem sækjast eftir endurkjöri í þingdeildunum að ári vilja ekkert með forsetann að hafa og þora að snúast gegn honum.

Ég veit ekki til fulls nú hver endanleg pólitísk örlög Bush forseta verða, en það er þó hægt að segja með nokkurri vissu að lokasprettur embættisferilsins verður erfiður. Ég spáði því í ítarlegum pistli í nóvember 2006 þegar að repúblikanar töpuðu báðum þingdeildunum og landsmenn felldu ótvíræðan dóm gegn forsetanum að ekki aðeins ægivald hans í landsmálunum væri liðið undir lok heldur líka ægivald hans innan eigin flokks. Hann væri lamaður leiðtogi án umboðs.

Það mun að öllum líkindum fara svo. Þessi ákvörðun um að milda dóminn yfir Libby mun ekki mælast vel fyrir og fær á sig allan blæ alvarlegra mistaka að mínu mati.

mbl.is Bush mildar dóm yfir Libby
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef maður lítur yfir málið frá upphafi, þá eru skilaboðin:

"Ef þú gagnrýnir aðgerðir forsetans, þá fer mjög illa fyrir þér, og þeir sem munu fara ill með þig sleppa við refsingu.

Fransman (IP-tala skráð) 3.7.2007 kl. 09:22

2 Smámynd: Dunni

Er eiginlega ekki sammála þér um Nixon. Auðvitað eyðilagði Watergate orðstýr Nixons. En Nixon er eins og KFUM drengur við hliðina á Bush. Sagan segir okkur ekki bara frá Watergate þegar við minnumst Nixons. Hann lagði líka þung lóð á vogarskálarnar þegar bundinn var endir á Viet Nam stríðið.

En það er svo merkilegt þegar litið er yfir sögu rebúblikana á forsetastóli að það er Ronald Regan sem sennilega hefur verið fremstur flokksbræðra sinna í Hvíta húsinu. Hef þá trú að sagan muni hampa honum æði hátt eftir því sem árin líða.

Dunni, 3.7.2007 kl. 16:30

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Arngrímur: Libby var dæmdur og hann átti að taka út sína refsingu. Nenni ekki að spá í öðru, en því að mér finnst þessi næstum-því-náðun algjörlega afleit. Það er það mál sem ég er að skrifa um.

Árni: Takk kærlega fyrir góð orð.

Fransman: Eflaust er þetta vinargreiði, en þetta er pólitískt afleitt. Ég hallast að því að Bush sé algjörlega blindur orðinn á hvað sé rétt og rangt. Þetta mál er aðeins til þess fallið að skaða enn stöðu hans og ekki síður þeirra repúblikana sem munu sækjast eftir Hvíta húsinu að ári.

Dunni: Er alveg sammála þér með að Nixon var mjög merkilegur stjórnmálamaður. Hann átti sínar hæðir og lægðir. Hann var fjarri því algjörlega afleitur en fallið varð mikið er á hólminn kom vegna Watergate. Það var auðvitað algjörlega skelfilegt mál, hreinn pólitískur dauðadómur. Bush verður dæmdur pólitískt síðar. Þann dóm fella næstu kynslóðir, rétt eins og fór með Nixon. Ein mistök geta eyðilagt heila ævi. Bush er þegar orðinn stórlega skaddaður og ekki mun þetta mál bæta mikið fyrir honum. Svo mikið er víst.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.7.2007 kl. 17:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband