Spurt í könnun um kynlíf eftir andlát makans

Ég heyrði það í dag að í gangi væri könnun af hálfu sálfræðinema á lokaári sem beint er að fólki sem hefur misst maka sinn. Meðal þess sem spurt er um er kynlíf eftir lát makans, sem og lyfja- og áfengisnotkun viðkomandi, auk þess hvernig líðan sé eftir andlát makans. Finnst þetta vera svona frekar mikið dómgreindarleysi sem felst í þessari könnun og mjög óvarlegar spurningar. Það er varla hægt annað en telja þetta svolitla innrás í einkalíf fólks og eða hreinlega móðgun við fólk sem er í sárum eftir makamissi.

Mér finnst þetta ekki bera vitni um fagleg vinnubrögð og undrast eiginlega að fólki gangi þetta langt. Það er kannski eðlilegt að spyrja um líðan fólks eftir þau þáttaskil að maki kveður þennan heim, en það hljóta að vera mörk fyrir öllu sem gert er, meira að segja af fólki sem ætti með réttu að vera flokkað sem fagfólk. Það er varla hægt að kalla væntanlega sálfræðinga annað en fagfólk sem ætti að vera með það á hreinu hversu langt ætti að ganga og hvar mörk hins skynsama séu, hvenær farið sé yfir þau.

Það er tekið fram að boðin er áfallahjálp með könnuninni og varla er vanþörf á því fyrir þá sem komast alla leið að svara þessum spurningum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

En finnst þér í lagi að spyrja um kynlíf og lyfjanotkun ef makinn er lifandi?

Heiða B. Heiðars, 26.9.2007 kl. 19:54

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég gæti ekki verið meira sammála.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 26.9.2007 kl. 21:07

3 Smámynd: Emelia Einarsson

Og sú sem starfar við Landsspítalann, er hún löggildur sálfræðingur á stofnun sem heyrir undir heilbrigðisráðuneytið? Hvað segir heilbrigðisráðuneytið?  Þetta fer að líkjast meðferðunum í fangabúðunum i  (tilraunastarfsemi) Þýskalandi á tíma annarrar heimstyrjaldar. Verklag hjá fólki með hjarta steingervinga, hversu mörg "diplomas" sem síðan hanga á veggnum.

Hvernig er með þagnarskyldu? Hvernig fengu þessir sérfræðingar nöfn þeirra einstaklinga sem lentu í þessu? Hvar eru siðferðisreglur sálfræðinga? kanski líka skrifaðar á einhverju steinaldrusmáli sem gefum þeim réttinn að sálfræðilega nauðga hverju/hverjum sem er.  Hvenrig er sálfræðimenntun háttað hér?  Er svarið: því fleiri sem þú nauðgar því hærri einnkunn færðu. 

Emelia Einarsson, 26.9.2007 kl. 21:34

4 identicon

Jahh. Er þetta samt ekki nauðsynlegur partur af sáðfræðilegri könnun? Eru þetta ekki lykilupplýsingar um fólk sem misst hefur nákomin?

Einar Ben (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 22:50

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin.

Heiða: Mér finnst það kannski í lagi að spyrja fólk að þessu sem er gift. En að spyrja fólk sem hefur jafnvel vikum eða örfáum mánuðum áður misst makann er alveg fyrir neðan allt. Finnst þetta bara rugl og algjört dómgreindarleysi. Stend við þessi orð allavega. Þetta er ekki boðlegt, ofan í sorg fólks, fólks með tilfinningar og er enn í sorg.

Emelia: Góðar hugleiðingar. Virkilega vel skrifað og gott innlegg.

Einar: Má vera. En samt þetta er ekki mannlegt og þetta er dómgreindarleysi finnst mér, í besta falli sagt.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 27.9.2007 kl. 00:24

6 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

Stefán gerir þú þér grein fyrir að ef ekki má spyrja fólk sem hefur misst maka sinn um kynlíf þá er búið að útiloka þekktasta, virtasta og mest notaða mælitæki heims á þunglyndi?  Það eitt að meta þunglyndi þeirra sem hafa misst maka sinn er bara ansi mikilvægt.  Ég vil taka það fram að ég veit ekkert um þessa tilteknu könnun - ég er að tala almennt.

Annars þá hvet ég þig til þess að lesa blogg Péturs Tyrfingssonar um málið

Hafrún Kristjánsdóttir, 27.9.2007 kl. 00:50

7 Smámynd: Guðmundur D. Haraldsson

Emelia: Þagnarskyldan er mjög rík, það sérðu allt í lögum um sálfræðinga (hér). Siðareglurnar eru á netinu, þær eru mjög einfaldar (einfaldari en lagamál) - aðgengilegar hér.

Ég botna ekkert í þér, Stefán, að segja að innilegg Emeliu sé "vel skrifað" og innihaldi "góðar hugleiðingar", einfaldlega vegna þess að innleggið virðist byggjast á miklum fordómum. Sem betur fer ríkir ekki seinni heimstyrjaldar viðhorf meðal sálfræðinga. Og ég þori næstum að hengja mig upp á það að tilgangurinn með téðri rannsókn er heiðvirður.

Nei, ég er ekki sálfræðingur og verð það trúlega aldrei.

Guðmundur D. Haraldsson, 27.9.2007 kl. 01:37

8 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Stefán og Emilía eru á sama máli... það er nóg til að fá hrós;)

Ég er algjörlega ósammála ykkur. Til að komast að sálarástandi fólks og bregðast við því þarf að þekkja vandann! Sorry...that´s life

Heiða B. Heiðars, 27.9.2007 kl. 10:44

9 Smámynd: Gunnar R. Jónsson

Þarna verð ég að vera þér algjörlega ósammála.

Ef aðstæður þeirra sem misst hafa maka sinn eru ekki kannaðar hvernig eigum við þá að átta okkur á þeim? Nægir brjóstvitið þarna að þínu viti?

Það er mikilvægt að afla þekkingar á aðstæðum fólks sem misst hefur maka sinn. Ég held að allir átti sig á þeim viðkvæma tíma sem í hönd fer eftir slíkt en þessarar þekkingar verður einfaldlega ekki aflað án rannsókna á borð við þessa.

Það er velþekkt að sumir leita í flöskuna eða önnur deyfandi lyf eftir mikinn missi, hvort sem það er á maka eða einhverju öðru, og því er ekkert eðlilegra í heiminum heldur en að spyrja út í slíkt í könnuninni, annað væri í rauninni ámælisvert að mínu viti.

Hvað kynlífið varðar þá er mér sagt að kynlíf sé m.a. notað til þess að meta þunglyndi hjá einstaklingum. Að auki má kannski benda á það að kynhvötin hverfur ekki þótt maki falli frá og ekki allir missa maka sinn í hárri elli.

Að lokum verð ég að játa að mér finnst þú kominn út á hála braut þegar þú dregur fagmennsku sálfræðistúdentanna í efa. Ég veit ekki betur en svona kannanir séu gerðar undir handleiðslu kennara og allt gert til þess að vinna þetta á sem öruggastan og “fagmannlegastan” hátt.

Að lokum er rétt að taka það fram að ég þekki ekki til þessarar rannsóknar utan þess sem þú hefur heyrt og sagt okkur frá. Ég tala því almennt um þessa hluti.

Ég held þó að þú ættir að endurskoða þessi skrif þín.

kv úr rokinu í Reykjavík,

Gunnar R. Jónsson, 27.9.2007 kl. 10:51

10 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Mér finnast skrif þín Stefán Friðrik yfirleitt mjög góð og þú gætir þess að horfa á hlutina frá ýmsum hliðum.  Hins vegar upplýsir þú ekki oft skoðanir þínar og ert oft í fréttaskýrandhlutverkinu (hrikalegt orð hjá mér). 

Nú segir þú skoðun þín á þessari rannsókn sem þú hefur greinilega takmarkaðar upplýsingar um.  Það virðist þó ljóst að það er verið að spyrja fólk sem er í sorg um kynlíf þeirra og persónulega hluti sem undir venjulegum kringumstæðum væru einnig dálítið viðkvæm málefni.  Vissulega er þetta viðkvæmt tímabil en fólk hættir ekki endilega að vera kynverur þó það sé í sorg.  Kannski þarf einmitt að vita það, þ.e. hversu lengi fólk er afhuga kynlífi eftir fráfall maka og hvaða hlutir hafa áhrif á slíkt.  Það er einfaldlega þannig að vísindafólk tekur á sig þau erfiðu hlutverk að kanna mannshugann við erfiðar aðstæður og það þarfnast góðs undirbúnings rannsakandans og skilnings þátttakandans í skjóli algers trúnaðarsambands þar á milli.  Heldur þú virkilega að þessir sálfræðingar fari ekki varlega að fólki við þessar aðstæður?  Rannsóknir eiga að svara mikilvægum spurningum og þessi rannsókn ætti að gera það.   það er mjög mikilvægt vel sé vandað til verksins og að þátttaka þessa syrgjandi einstaklinga verði því til einhvers gagns, en að dæma þessa rannsókn ósiðlega eða harðneskjulega á þeim forsendum sem þú hefur í höndunum er fráleitt.

Svanur Sigurbjörnsson, 27.9.2007 kl. 11:59

11 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Sama tilfinning kom yfir mig þegar ég las athugasemdina á undan og þegar ég sá Matrix í fyrsta skiptið.
Þúsund þakkir Svanur!

Gunnar Helgi Eysteinsson, 27.9.2007 kl. 14:05

12 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin. Það er ágætt að heyra í öðrum um skoðanir mínar.

Hafrún: Ég endurtek þá skoðun mína að mér finnast svona spurningar algjörlega óviðeigandi til fólks sem hefur misst maka sinn örfáum vikum áður. Ég heyrði í gær frétt um þessa könnun þar sem dóttir konu sem missti manninn sinn fékk svona spurningalista. Hún var í sjokki vegna þess og þau töluðu um salt í sár sín. Ég stend við þessa umfjöllun.

Guðmundur: Ég er ekki að væna sálfræðingana um að fara alla leið yfir strikið. Sumt er eðlilegt að spyrja um og annað ekki. Annað þarf líka tíma til að láta líða áður en spurt er nærgætinna spurninga. Dæmi eru um að fólk hafi fengið svona lista framan í sig vikum eftir dauðsfall maka. Það hefur verið kvartað yfir því í fjölmiðlum. Þessi gagnrýni er ekki bara mín.

Thor: Er ekki að saka þessa sálfræðinema um að halda ekki vel utan um upplýsingar, heldur að tjá skoðanir mínar á því hversu langt eigi að ganga í garð fólks sem er í sorg og jafnvel enn að meðtaka dauðsfall maka.

Gunnar Ragnar: Það er mikið högg að missa maka. Sumir ná sér aldrei af því. Sumir giftast heldur aldrei aftur, sumir ná aldrei að feta sig áfram. Dæmin eru mörg. En að fá svona spurningalista framan í sig vikum eftir lát maka, þegar að fólk er enn að vinna sig frá dauðsfallinu, eins og kom fram í fréttum í gær það er fyrir neðan allt. Ég segi það hreint út. Það má svosem margt kanna og í heildina er ég ekki að kvarta yfir könnuninni í heild, heldur sumum spurningum. Ég hef ekki lagt það í vana minn að endurskoða skoðanir mínar þó einhverjir séu mér ósammála og ætla ekki að byrja á því í þessu máli.

Svanur: Ég hef heyrt nokkuð um þessa könnun. Heyrði líka um hana í fréttum í gær þar sem að fjölskylda konu sem missti maka sinn fer hörðum orðum um hana í fréttum Bylgjunnar og Stöðvar 2. Það má vel vera að þér finnist mjög mikilvægt að fá fram tölfræði og athugun á þessum þætti, en mér finnst þetta svolítið langt gengið að demba svona spurningum framan í fólk sem missti maka sinn örfáum vikum áður. Sumir hafa einfaldlega ekki enn tekið næsta skref út úr sorgarferlinu þegar að þar er komið. En ég er ekki að bölva þessari rannsókn allri, tek það aftur fram.

Bendi annars á frétt Stöðvar 2 og Bylgjunnar um þessa könnun í gær
Ráðist inn í sorg sjötugrar ekkju - frétt

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 27.9.2007 kl. 15:36

13 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Stefán Friðrik

Ég varast að dæma rannsóknir út frá sögum í fréttum.  Þessi kona hefur tekið það nærri sér að fá þessar spurningar og af einhverjum ástæðum talið rannsóknina ósmekklega, þ.e. þá væntanlega ósiðsamlega.   Nú veit maður ekkert hvernig bréfið er skrifað eða spurningarnar orðaðar þannig að það algerlega út í bláinn að taka einhverja ákveðna afstöðu í þessu tiltekna máli.  Það sem hefði getað mátt fara betur er að fólk hefði fengið bréf eða upphringingu fyrst þar sem það væri spurt hvort að það mætti senda því allan spurningarlistann, þ.e. hvort að það vilji taka þátt.  Út frá fréttinni að dæma var eins og fólk hefði fengið allan pakkann án þess að hafa verið beðið um þátttöku áður.  Ég treysti þó því ekki fullkomlega að skýrt sé rétt frá smáatriðum í fréttum blaða og sjónvarps.   Það kom einnig fram í fréttinni að margir hefðu lýst yfir ánægju sinni með rannsóknina.  Fleiri orð um þetta án frekari upplýsinga þjóna vart tilgangi.

He he, það er naumast Gunnar Helgi.  Ég vona að þetta sé jákvætt í minn garð, þ.e. að upplifun þín að Matrix hafi verið ánægjuleg á sínum tíma he he

Svanur Sigurbjörnsson, 27.9.2007 kl. 16:53

14 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta er bara umdeild könnun Svanur. Sitt sýnist hverjum. Við verðum að horfast í augu við það að það er engin almenn gleði með þessa könnun.

Stefán Friðrik Stefánsson, 27.9.2007 kl. 17:28

15 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

Hvaðan hefur þú það að það sé engin almenn gleði með þessa könnun?

Fyrst þér finnst ósmekklegt að spyrja fólk út í kynlíf og áfengis og lyfjanotkun stuttu eftir að það hefur misst maka sinn hvað finnst þér þá um að spyrja fólk sem nýlega hefur greinst með t.d. krabbamein, misst barn, lent í áföllum eins og slysum eða nauðgunum?

Ef þér finnst það óeðlilegt þá ertu eins og ég hef áður sagt búin að útiloka mest notaða þunglyndispróf heims sem og flest öll skimunartæki fyrir geðraskanir.  Viltu í alvöru Stefán að það sé ekki hægt að meta vanda þessa fólks eins og best verður á kosið?

Ég vil taka það fram að ég veit ekkert um þessa tilteknu rannsókn en ég veit að til þess að fá að gera rannsóknir almennt þarf að fara í gegnum langt og strangt ferli til að fá leyfi.  Ég veit það líka að öllum er frjálst að hafna þátttöku án þess að það hafi nokkrar afleiðingar.

Hafrún Kristjánsdóttir, 27.9.2007 kl. 20:31

16 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég hef fengið pósta og símtöl frá fólki eftir þessi skrif. Hef heyrt ýmislegt eftir að ég skrifaði þessa færslu. Það er ekkert óeðlilegt að skiptar skoðanir séu uppi og svo er alveg greinilega.

Stefán Friðrik Stefánsson, 28.9.2007 kl. 14:51

17 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

Þótt að þú heyrir eitthvað jafnvel frá 10, 20 eða 30 manns þá flokkar maður það ekki sem eitthvað almennt.  Ég gæti á sömu forsendum og þú alveg eins sagt að það sé almenn gleði með þess könnun því fólk í kringum mig hefur sagt það við mig.  En ég nota ekki svona sjálfvalið úrtak til þess álykta eitthvað um skoðun almennings á þessu.

En þú ert ekki búin að svara spurningunni minni

Hafrún Kristjánsdóttir, 28.9.2007 kl. 22:10

18 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það eru sumir sáttir við þessa könnun og sumir ósáttir. Það er víst bara þannig og ekkert við því að gera. Ég vildi tjá mína skoðun og í mínu nafni skrifa ég víst hér. Þetta var allavega frétt að mati fjölmiðils og ágætt í sjálfu sér að opna þessa umræðu. Það hljóta allir að fagna því að rætt sé um þessa könnun.

Ég tek það enn og aftur fram Habba mín að ég er alls ekki að tala gegn þessari könnun í heild sinni. Hafi einhver talið það er það sannarlega misskilningur. Það er eðlilegt að spyrja fólk út í aðstæður og líðan sína sem eru á krossgötum. En mér finnst það ónærgætið að spyrja sumra þessara spurninga örfáum vikum eftir lát maka. Það er stóra pointið í þessum skrifum og það virðist vera að ég þurfi að segja það mjög mörgum sinnum áður en það skilst.

En hvað með það, mér finnst eðlilegt að sumir þættir séu í svona könnunum en ekki aðrir og þeir sem ég hef talað sérstaklega um og í fyrirsögn. Þetta er að stóru leyti spurning um að sýna fólki nærgætni. Það er ekki allra að geta tekið svona spurningum eftir sársaukafullt lát maka. Það var allavega sérstaklega þessi eina spurning sem fékk mig til að skrifa. Það sést vel af fyrirsögninni.

Stefán Friðrik Stefánsson, 29.9.2007 kl. 00:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband