Össur brosir sínu breiðasta eins og jólabarnið

Össur Skarphéðinsson Mér fannst það skondið að sjá Össur iðnaðarráðherra í Silfri Egils um helgina. Hann minnti mig þar einna helst á smákrakka klukkan sex á aðfangadagskvöld - biðin eftir jólunum hefur tekið enda og bráðlega skal sökkva sér í sjálfa jólapakkana - þegar að hann var að tala um hina svokölluðu orkuútrás sem hann heldur varla vatni yfir. Háfleyg ofdýrkun á fjárhætturekstri með almannafé hefur ekki verið presenteruð með annarri eins glassúrhúð síðan að Alfreð Þorsteinsson var og hét í Royal Alfreð Hall á Bæjarhálsinum.

Þetta var áhugavert að sjá, þeir sem eru ósammála mér með uppveðrun Össurar mega ekki misskilja mig. En er ekki hægt að ætlast til þess að iðnaðarráðherrann verði ekki eins og smábarn á aðfangadagskvöld af fögnuði og reyni aðeins að hemja gleði sína? Fréttaflutningurinn af Asíuför Össurar var svo háfleygur að ég hélt stundum að ég væri að fylgjast með fréttum af sigurförum landnema fyrr á öldum þegar að þeir voru að nema fjarlæg lönd. Slík var presentering ráðherrans í skrifum frá einhverju austurlensku hótelherbergi.

Ráðherrann fór reyndar út með REI-málið allt sprungið í loft upp; samruna sem enginn kjörinn fulltrúi vildi kynna er á hólminn kom og fór Bjarnalaus út því að Svandís bannaði honum að fara. Og Össur var bara hissa á þessu en hafði reyndar á orði að enginn hefði saknað Bjarna, sennilega vegna þess að hann var ábyggilega áfjáðari í bissnessnum en Bjarni sjálfur. Það er kannski svo gaman að dæla út fyndnum bröndurum um fjárfestingar og pólitíska sigra á erlendri grundu. Veit ekki.

Það er greinilegt að Svandís Svavarsdóttir var ekkert alltof hamingjusöm með yfirlýsingar ráðherrans sem var háfleygari í spádómum sínum en nokkur kjörinn borgarfulltrúi, eftir að meirihlutinn sló á puttana á Birni Inga það er að segja. Enda er þetta mál kjörinna fulltrúa í Reykjavík. Þar hafa menn tekið réttar ákvarðanir og markað kúrsinn betur eftir klúður fyrri meirihluta. Og Svandís vill auðvitað stjórna þeirri för en ekki setjast afturí hjá honum Össuri.

Iðnaðarráðherrann veit vonandi að í þessu skattpeningaævintýri sem hann talar fyrir eins og gamaldags brosmildur bílasali eru fólgnar áhættur. Öll fjárfesting, hversu vel hún mögulega lítur út á pappír, er fúlasta alvara. Áhættan í þessum bransa er sérlega mikil. Össur talar mikið um skoðanaskipti sjálfstæðismanna. En eftir stendur að afstaða sexmenninganna í borgarstjórn hefur að mestu orðið ofan á. Samruninn er úr sögunni og þá Lilju vilja flestir kveðið hafa. 

Það eru annars svo margar spurningar í þessum efnum. Peninga skattborgara verður að meðhöndla af alvöru og ekki leika með þá eins og spilapeninga í Las Vegas. Það verður að hugsa málin vel og í því ljósi skil ég ekki söluherferð iðnaðarráðherrans, sem virðist áfjáðari en borgaryfirvöld í að nema lönd í austurvegi og fetar þar í fótspor bissnessmanna á borð við Hannes og Bjarna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðan dag

Þetta fólk sem lenti í því að ákveða sig í snúnu prinsippmáli, á samúð mína alla.  Stundum er þetta svona þegar maður er ekki alveg búinn að hugsa sína afstöðu og ýtt er á eftir af miklum þunga.  Þetta sýnir líka hversu erfitt er fyrir opinbera stjórnsýslu og lýðræðisleg vinnubrögð að vinna með töffurum úr viðskiptalífinu.  Lýðræðið er byggt á fulltrúavali og það getur ekki annað en tekið tíma að ganga í gegnum umræður og skoðanaskipti.  Þetta er að sumu leyti vont stjórnkerfi, en samt það besta sem fundið hefur verið upp, þegar kemur að ráðstöfun almannahagsmuna.

Orkuveita Reykjavíkur er alla daga að missa af stórum áhættusömum, en um leið, ábatavænlegum tækifærum úti í heimi.  Hvers vegna hefur hún ekki verið að taka þátt í þeim, Reykvíkingum til mögulegra hagsbóta?  Líklega vegna þess að hingað til hefur mönnum þótt óeðlilegt að hætta almannafé í slíkar æfingar.  Auk þess að hafa þekkingu, helst innherjaþekkingu, þarf talsverða heppni.  Nú telja menn sig hinsvegar hafa allt í hendi og vilja hætta miklum fjármunum í kaup á happdrættismiðum.  OR ætlar að mylja undir Reykvíkinga milljarða hagnað af ævintýrum í útlöndum.  Gróðinn á að koma frá fólki sem vart hefur til hnífs og skeiðar.

Eitt er að selja þekkingu (og hafa jafnvel þokkalegt uppúr) og annað er að flækja sig í fjárfestingum með loftkökubakarameisturum.  Einkum ættu opinber fyrirtæki að hugsa sig vel um.

Elvar Eyvindsson

Elvar Eyvindsson (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 07:44

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Elvar. Góðir og áhugaverðir punktar. Er sammála þér í öllum meginatriðum.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.11.2007 kl. 02:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband