Eru þulurnar orðnar úreltar hjá Sjónvarpinu?

Ellý Ármanns Sumir hafa talið það einn helsta aðal Ríkissjónvarpsins að hafa þulur á skjánum, fagrar konur til að kynna dagskrána, í stað þess að hafa bara dagskrárrödd eins og hinar stöðvarnar hafa. Flestar þeirra hafa orðið landsþekktar í kjölfarið; nægir þar að nefna Sigríði Arnardóttur, Ásu Finnsdóttur, Ellý Ármanns, Ragnheiði Clausen, Guðmundu Jónsdóttur, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur, Sigurlaugu Jónasdóttur, Evu Sólan og Rósu Guðnýju Þórsdóttur.

Einkareknu stöðvarnar hafa farið aðrar leiðir og haft rödd, oftar en ekki karlmanns sem aðalrödd. Stöð 2 hefur í fimmtán ár haft söngvarann Björgvin Halldórsson sem rödd stöðvarinnar og hefur hann sett svip á dagskrána með kynningum sínum, beitt röddinni bæði milt og léttilega og ennfremur talað með draugalegum hætti sérstaklega þegar að kynntar eru spennu- eða draugamyndir. Atli Rafn Sigurðarson, leikari, hefur verið rödd Sirkuss og Ólafur Darri Ólafsson var rödd Skjás 1, en ég held að Valur Freyr Einarsson hafi tekið við af honum.

Ég hef verið einn þeirra sem finnst þulurnar tákn síns tíma. Sé eiginlega ekki þörfina á þeim lengur. Þó er vissulega ánægjulegt að horfa á fallegar konur lesa dagskrána. Það er skemmtilega gamaldags og sjarmerandi upp að vissu marki. Þó er augljóst að tími þulanna á skjánum hefur minnkað mjög. Þær vaka ekki fram yfir miðnættið eftir dagskrárlokum um helgar og byrja seinnipartinn á vakt, fylgja ekki dagskránni alla daga frá byrjun. Þær eru þó á vakt á stórhátíðisdögum. Fyrirfram hélt ég að kynningar þeirra væru teknar upp fyrirfram þá, en svo mun ekki vera.

Sumir hafa viljað halda í þulurnar til að halda í gömlu góðu tímana. Þórhallur Gunnarsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins, hefur nú ákveðið að ráða fjórar nýjar þulur, svo að það er ekki beint að stefna í endalok þuluhlutverksins í tíð Þórhalls. Spyrja má sig; eru þulurnar orðnar úreltar hjá Sjónvarpinu? Er ekki kominn tími til að hætta með þulurnar og hafa bara svipað fyrirkomulag og er hjá einkareknu stöðvunum? Væri gaman að heyra í öðrum með það.

Persónulega skil ég þessa sérstöðu Ríkissjónvarpsins, sem hefur staðið allt frá því að Ása Finnsdóttir kynnti dagskrána sem fyrsta þulan á fyrsta útsendingadeginum 30. september 1966, en myndi ekki kippa mér upp við það þó að þulurnar liðu undir lok. En kannski eru stærstu rökin þau að fólk vilji horfa á fallegar konur. Það eru vissulega góð rök í sjálfu sér.
mbl.is Flugfreyja flýgur í þulustarfið á RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að allar ríkisreknu sjónvarpsstöðvarnar á norðulöndum séu þula(r)lausar. Kannski Páll Magnússon taki þetta að sér líka?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 11:56

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Kannski Páll taki bara líka að sér að verða jóla- og ármótaskreyting um næstu jól og áramót? Tvær flugur í einu höggi, eða 4 jólaljós, eða þannig...

Nei, frekar fallegt þulubros um jólin, síðasta lag fyrir fréttir og allan pakkann. Lifi Mokka og rúv í óbreyttri mynd (ef einhver efast þá er ég bláedrú)...

Greta Björg Úlfsdóttir, 9.11.2007 kl. 16:40

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Thor: Það er gömul nostalgía yfir þessu, rétt eins og síðasta lagi fyrir fréttir.

Gísli: Góð hugmynd, þá kannski fær Páll einhverja þúsundkalla í viðbót. :)

Gréta: Vel orðað. ;)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.11.2007 kl. 15:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband