Í minningu Jónasar - dagur íslenskrar tungu

Jónas HallgrímssonTvær aldir eru í dag frá fæðingu þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar frá Hrauni í Öxnadal. Jónas er í hugum Íslendinga táknmynd hins fallega íslenska máls og meistaralegrar túlkunar í ljóðum. Að mínu mati stendur Jónas fremstur ljóðskálda sem ritað hafa á íslensku. Kveðskapur hans er tímalaus, á jafnvel við á okkar dögum og er hann lifði fyrir tveim öldum. Þjóðerniskennd hans, innileg tjáning og náttúrulegar íhuganir hans lifa með þjóðinni.

Jónasar hefur verið minnst víða í dag. Eðlilega, enda er arfleifð hans sterk í huga landsmanna, alla tíð hafa ljóðmæli hans skipt okkur máli, kynslóð fram af kynslóð. Það skiptir líka máli að við stöndum vörð um verk hans, enda má það aldrei gerast að tjáning Jónasar gleymist okkur. Ljóðin hans eru einfaldlega með því besta sem ritað hefur verið á tungumálið okkar. Ég les alltaf reglulega Jónas. Finnst ljóðin hans algjörlega einstök og finnst þau stór partur af því að vera Íslendingur, svo innilega íslensk eru þau.

Það er vel við hæfi að við hugsum um íslenskt mál og mikilvægi þess að standa vörð um íslenskuna á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar. Björn Bjarnason ákvað sem menntamálaráðherra að dagur íslenskrar tungu skyldi koma til sögunnar og dagurinn var valinn af kostgæfni. Í þann rúma áratug sem dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hefur menntamálaráðuneytið beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það og veitt verðlaun í nafni Jónasar til að verðlauna þá sem hafa unnið að málrækt og gildi þess.

Það var farsælt og gott skref að helga minningu þjóðskáldsins Jónasar dag íslenskrar tungu. Valið staðfestir enda sterka stöðu Jónasar í bókmenntasögu landsins. Mér fannst það upplifun þegar að ég las fyrst Jónas, það er svo að ég tel fyrir okkur öll sem byrjum að kynna okkur þann mikla fjársjóð sem forfeður okkar skildu eftir sig í rituðu máli, ljóðum og skáldverkum. Amma mín gaf mér ljóðabók með verkum Jónasar í bernsku minni og síðar erfði ég ljóðasafnið hennar. Það er alltaf mikil upplifun að lesa verk Jónasar, hann er það ferskur og einbeittur í lýsingu.

Á degi íslenskrar tungu á það að vera lykilverkefni Íslendinga að muna það eilífa gullna veganesti að við stöndum vörð um málið okkar. Íslenskan á að vera okkar helsta stolt og helsti fjársjóður. Ef við glötum virðingunni fyrir málinu okkar glötum við sjálfsvirðingunni að mínu mati. Málrækt og varðveisla tungumálsins er mjög mikilvæg. Það er mikilvægasti boðskapurinn á tveggja alda afmæli meistara Jónasar.


------

Tvö fallegustu ljóð meistarans eru að mínu mati Ferðalok og Gunnarshólmi, en það er samt erfitt að velja eitthvað eitt. Hvet alla til að lesa öll ljóð hans á ljóð.is. Í tónlistarspilaranum eru í tilefni dagsins (og verða næstu daga) m.a. lög Jóns Nordal og Inga T. við ljóð Jónasar; Smávinir fagrir og Ég bið að heilsa, sem var hinsta kveðja skáldsins heim á sínum tíma - tær og fögur kveðja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband