Mun Ólafur F. sprengja meirihlutann í RVK?

Ólafur F. Magnússon Pólitísk endurkoma Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa, vekur sannarlega spurningar um framhald vinstrimeirihlutans í Reykjavík. Ekki er óeðlilegt að rætt sé um hvernig hann muni nota völd sín og áhrif innan meirihlutans þegar að hann snýr aftur. Ólafur F. var mjög einbeittur í meirihlutaviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn á sínum tíma og öll teikn eru uppi um það að hann ætli að láta vel finna fyrir sér er hann snýr aftur, í þeirri oddastöðu sem hann er í.

Hávær orðrómur er um að Ólafur F. muni sprengja samstarfið þegar að honum hentar. Víst er að hans staða er mjög sterk í væntanlegum meirihluta og hann getur orðið örlagamaður af sama kalíber og Björn Ingi Hrafnsson var áður en hann lokaði sig inni í nýjum meirihluta, án möguleika á því að fara í aðrar áttir. Þeir sem þekkja Ólaf F. vita að hann er mjög ákveðinn í verkum og ekki þekktur fyrir að láta sinn hlut. Ólafur F. veit vel að honum bjóðast önnur tækifæri horfi hann til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn og jafnvel gæti fengið meiri völd. Það verður held ég mun meira spennandi að fylgjast með þessum meirihluta við endurkomu Ólafs F.

Eitt lykilmálanna í borgarstjórn á komandi árum er flugvöllurinn í Vatnsmýrinni. Ólafur F. fór fram í síðustu kosningum með það sem sitt lykilmál að flugvöllurinn yrði á sama stað og hefur ekki ljáð máls á neinum málamiðlunum með það. Athygli hefur vakið að Margrét Sverrisdóttir, starfandi forseti borgarstjórnar og varamaður Ólafs F, hefur talað um möguleika á því að færa hann til innan borgarmarkanna. Það er ekki stefna F-listans eins og allir þekkja sem muna kosningabaráttuna 2006 þar sem Ólafur talaði ákveðið um völlinn á sama stað óháð öðrum möguleikum, og það innan borgarmarkanna.

Ein kjaftasagan segir að Ólafur F. og Vilhjálmur hafi eitthvað plottað saman um nýjan meirihluta. Það vakti enda mikla athygli að sá sem fyrstur tilkynnti um endurkomu Ólafs í borgarstjórn var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, og samstarfsmaður Ólafs í borgarmálum innan Sjálfstæðisflokksins í rúman áratug. Þeir þekkja hvorn annan mjög vel og vita um áherslur hvors annars - geta sameinast um margt. Vissulega var Ólafur F. mjög kalinn á hjarta eftir meirihlutamyndun Björns Inga og Vilhjálms, en víst er að Ólafur F. yrði mun valdameiri í tveggja framboða meirihluta en fjögurra flokka.

Áhugaverðir tímar eru framundan í borgarmálunum. Það er ekki óvarlegt að spá því að áhrifamaður nýja meirihlutans verði Ólafur F, er hann snýr aftur. Hann hefur að mörgu leyti pálmann í höndunum og á eftir að selja sig dýrt í vinstrimeirihlutanum við að tala sínu máli og hikar varla við að líta í aðrar áttir, eins og sást af orðalagi Margrétar Sverrisdóttur um endurkomu Ólafs F. í fjölmiðlum, þar sem hún getur ekkert fullyrt um afstöðu Ólafs á komandi misserum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það er mjög gott að Ólafur er að ná sér eftir langvinn veikindi.  Hann mun örugglega láta margt gott af sér leiða fyrir Reykvíkinga.

Sigurður Þórðarson, 27.11.2007 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband