Össur í vondum málum

Össur Skarphéðinsson

Það vekur athygli að á sama tíma og Össur Skarphéðinsson ver ráðningu orkumálastjóra með þeim rökum að viðkomandi hafi af öllum umsækjendum haft mesta menntun, reynslu og sérþekkingu á sínu sviði að hann velji líffræðing án sérþekkingar í ferðamálum í embætti ferðamálastjóra. Val ráðherrans er hreint klúður og greinilegt að það er ólga víða vegna þess. Fæ ekki betur séð en að kenning mín frá því um daginn sé rétt, þ.e.a.s. að Össur hafi valið ferðamálastjóra til að vega upp á móti hinni ráðningunni.

Ef marka má stöðuna nú mun Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, aðstoðarorkumálastjóri, sem hafði reynslu af embætti orkumálastjóra, fara til umboðsmanns Alþingis eða höfða jafnréttismál. Varla verður það til góðs fyrir jafnréttisásýnd Samfylkingarinnar. Það hlýtur að teljast eðlilegt að hún leiti lengra miðað við rökstuðninginn, en athygli vekur orðalag ráðherrans um að hann hafi valið nýjan orkumálastjóra til að hleypa nýju blóði í stofnunina. Margir tala um þetta sem vinavæðingu, en ekki er langt síðan að Andrés Magnússon ritaði grein á vef sinn og fór yfir pólitísk tengsl ráðherrans og nýs orkumálastjóra.

Hvernig mun ráðherrann verja skipan ferðamálastjóra? Það væri gaman að vita. Mér finnst sú skipan hálfu verri en orkumálastjórans, þó afleit sé. Ætlar hann kannski að svara eins um að hann hafi valið líffræðing sem ferðamálastjóra vegna fagþekkingar hennar? Held að hann muni eiga erfitt að verja það með rökstuðningi. Ef hann ætlar að verja skipan ferðamálastjórans með jafnréttisrökum er hann kominn í öngstræti, eftir að hafa hafnað aðstoðarorkumálastjóra með starfsreynslu af embættinu og sem var mjög hæfur umsækjandi. Össur fellur hratt í áliti þessa dagana, hann fer allavega ekki vel af stað.

------

Leit yfir rökstuðning Árna M. Mathiesen vegna skipunar Þorsteins Davíðssonar sem héraðsdómara. Hann er vægast sagt mjög rýr í roðinu. Er það virkilega svo að ráðherrann hafi ekki haft önnur viðmið við skipan í embættið? Var að vona að það hefðu verið aðrar faglegar ástæður haldbærar, en svo virðist ekki vera. Það er full ástæða til að gagnrýna rökstuðning beggja ráðherranna í dag með sama hætti.


mbl.is Ósátt við rökstuðning ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Gunnlaugur B Ólafsson, 8.1.2008 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband