Hillary Clinton og John McCain sigra í Kaliforníu

John McCain og Hillary Rodham ClintonAllar helstu sjónvarpsstöðvarnar í Bandaríkjunum spáðu því nú á sjötta tímanum að John McCain og Hillary Rodham Clinton myndu sigra í forkosningunum í Kaliforníu, sem var stærsta hnossið á ofur-þriðjudeginum og mikilvægur áfangi í útnefningaferlinu. Hillary vinnur þar mikinn sigur á skoðanakönnunum, en margar þeirra nýjustu gerðu ráð fyrir sigri Obama í fylkinu, en hún virðist hafa unnið sannfærandi sigur.

Óvíst er þó enn hvernig þingfulltrúar skiptast, en þetta er ekki fylki þar sem sigurvegarinn tekur allt. En Kalifornía er eitt sterkasta vígi demókrata og það að taka fylkið er mikill móralskur sigur fyrir Hillary eftir harða baráttu, enda var staðan þannig síðustu dagana að Obama væri að raka að sér fylgi í fylkinu, en hann hefur greinilega verið ofmetinn þar. Kannski sést þarna vel Bradley-heilkennið margfræga, sem kennt er við þeldökka borgarstjórann sem mældist vel í könnunum en vann ekki er á hólminn kom.

Sigurinn er mjög mikilvægur fyrir McCain sem með því hlýtur alla 173 þingfulltrúa fylkisins og færist sífellt nær útnefningu flokksins. Það er orðið óhugsandi í sjálfu sér annað en að hann verði forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins í nóvember og þá hann hafi ekki enn náð fulltrúafjöldanum hefur hann tekið stærstu fylkin í körfunni á þessum ofur-þriðjudegi og er kominn langleiðina að markmiðinu mikla. Fyrir átta árum tapaði hann forkosningunum hjá repúblikunum fyrir George W. Bush á ofur-þriðjudegi. Nú er hann með pálmann í höndunum og fær á áttræðisaldri tækifærið til að leiða flokkinn.

Staðan eftir ofur-þriðjudaginn er í heildina með þeim hætti að enginn frambjóðandanna fékk rothögg og þau eru öll enn í slagnum. Samt hafa línur skýrst nokkuð. McCain hefur konungstign í flokki sínum. Sumir hafa ekki enn áttað sig á því þar og vakna brátt upp við það - hvernig þeim gangi að sætta sig við það er svo annað mál. Obama og Hillary eru í jafnri baráttu. Það er þó mikilvægt fyrir Hillary að hafa sigrað í Kaliforníu og New York - henni tókst að vissu marki að stöðva stórsókn Obama. Enn er allt opið þar og baráttan stendur þar allavega einhverjar vikur enn.

Ofur-þriðjudagurinn er æsispennandi fyrir alla sanna áhugamenn um stjórnmál. Hann olli sannarlega ekki vonbrigðum að þessu sinni. Eftir stendur að McCain er orðinn nokkuð öruggur - Huckabee og Romney eru að splitta fylginu lengst til hægri. Þeir eru að færa McCain þetta endanlega ofan á alla stóru sigrana í dag. Enda brosti sá gamli breitt í Phoenix í kvöld. Hillary fékk latínófylgið og stuðning hvítra og kvenna sem skipti máli í Kaliforníu og Obama virðist með blökkumennina og ungt fólk traust með sér.

Yndislegt að finna kraftinn í kosningunum, það eru líka breytingar í loftinu. Bush-tíminn virðist brátt að baki, hvernig sem fer úr þessu, þar sem nýjir tímar virðast framundan meðal repúblikana og demókratar bjóða nýja sýn. Enginn fékk farmiðann alla leið á þessum degi en samt vekur athygli hvað þetta var traustur sigur hjá McCain og Hillary í gullna fylkinu. Það er freistandi að velta því fyrir sér hvort að þau, vinnufélagarnir og vinirnir í öldungadeildinni, muni fara alla leið í aðalslaginn í nóvember.

Það verður nú spurt að því hvort Hillary eða Obama nái mestum byr í kjölfar þessa ofur-þriðjudags. Bæði náðu þau að sigra í fjölda fylkja um gervöll Bandaríkin og hvorugt þeirra var afgerandi sigurvegari, þó að Hillary hafi vissulega náð merkilegri sigrum með því að taka þau hin stóru. Nú þegar að McCain er orðinn allt að því öruggur um útnefninguna er spurt um hversu lengi fyrsta konan og fyrsti blökkumaðurinn með alvöru forsetadrauma sláist um að mæta honum í nóvember.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Eg lifi ennþá i von minni/og er bara nokkuð viss!!!!/Clinton vinnur!!!!! Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 6.2.2008 kl. 06:26

2 Smámynd: Reynir Jóhannesson

neinei, ekkert svona. Obama nær þessu alveg. Clinton for visepresident!

Reynir Jóhannesson, 6.2.2008 kl. 11:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband