Samgöngusagan endalausa um Sundabrautina

Sundabraut Ekki var laust við að ég vorkenndi Reykvíkingum þegar að Vaðlaheiðargöng voru sett á dagskrá og ekkert ákveðið endanlega um leið varðandi Sundabraut. Deilt hefur verið um Sundabrautina og allt sem tengist legu hennar svo lengi sem ég man eftir. Nú er deilt um hvort Sundabrautin verði ofan- eða neðanjarðar. Þetta er orðið meira ruglið.

Samt eru auðvitað allir hlynntir því að hún verði lögð en deilt er um hvernig og hvar. Sagan um Sundabrautina er fyrir löngu orðin samgöngusagan endalausa. Mér finnst álit Ísleifs Jónssonar mjög merkilegt, en þar er í raun gangnapælingin mikla og rándýra slegin út af borðinu og vandséð hvernig hægt sé að draga álit Ísleifs, sem er fyrrum yfirmaður hjá Jarðborunum, í efa. Eflaust er þar komin upp enn ein nýja hliðin sem deilt verður um von úr viti. Sumir vilja svo að auki meina að Vegagerðin vilji ekki göng og þar komi að auki að samgönguráðherrann vilji ekki Sundagöng og sé á móti hugmyndinni.

Þegar að ég fór í rútuferð með borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins um borgina haustið 2003 var rætt mikið um Sundabrautina og fórum við að þeim stað þar sem brautin átti að liggja þá og kynntu Hanna Birna Kristjánsdóttir og Kjartan Magnússon okkur sem þátt tókum í ferðinni þær tillögur sem þá var rifist um. Ekkert gerðist í málinu í borgarstjóratíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem eftirminnilegt er og man ég eftir að þá töluðu Hanna Birna og Kjartan mjög mikið um hábrú eða lágbrú og innri eða ytri leið Sundabrautar. Þá talaði enginn um göng og óraði sennilega ekki fyrir að koma með þann valkost.

Fimm árum eftir þessa ferð eru mál komin fjarska skammt á veg nema þá að ræða um misjafnlega háleitar og dýrar hugmyndir af þessum samgöngukosti. Það er enn svolítið sérstakt að fylgjast með umræðunni þó að hún sé gegnumslitin og eiginlega hundleiðinleg, einkum fyrir borgarbúa sem greinilega eru að missa þolinmæðina og skal engan undra. Þrátt fyrir allrahanda meirihlutamynstur í borginni hefur þetta mál ekkert þokast fram og ekki var að sjá að Samfylkingin græddi eitt né neitt á því að hafa samgönguráðuneytið samhliða því að þeir réðu Ráðhúsinu í hundrað daga á pólitískum hitavetri í borginni.

Það er ekki laust við að reiði borgarbúa beinist að Kristjáni Möller, samgönguráðherra, rétt eins og að Sturlu Böðvarssyni áður. Báðir eru landsbyggðarmenn og Reykvíkingar tala um að landsbyggðarliðið sé að drepa málinu á dreif. Minna verður þó á að enginn landsbyggðarmaður verður ráðherra eins síns liðs, verða jú að hafa stuðning borgarbúa í þingflokkum stjórnarflokkanna. Tveir fyrrum borgarstjórar í Reykjavík eru á Alþingi og báðir úr Samfylkingunni; Ingibjörg Sólrún og Steinunn Valdís - sú síðarnefnda er reyndar formaður samgöngunefndar Alþingis og virðist súr á svipinn.

Samgöngusagan endalausa um Sundabrautina virðist fjarri því að enda á næstunni, þökk sé deilum um göng eða ekki göng, legu hennar og hvort eigi að tengja þær við eyjar eður ei og Guð má vita hvaða deilur aðrar eru í þessum viðkvæma pólitíska pakka. Á meðan að allir lofsyngja drauminn um Sundabrautina er biðin löng eftir því að efna eigi hina veglegu pólitísku drauma höfuðborgarstjórnmálamanna fyrr og nú.

mbl.is Varar við Sundagöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Stebbi.

Já þetta er nærtækt dæmi um hinn fádæma vandræðagang manna til þess að forgangsraða og framkvæma í stað þess að deila og drottna.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 30.3.2008 kl. 02:15

2 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Já, maður er orðinn langeygður eftir þessari blessuðu braut. En nota bene, borgarráð Reykjavíkur hefur tvisvar ályktað einróma um að það vill göngin. Sem sagt, af borgarinnar hálfu liggur fyrir skýr vilji um hvaða leið hún vill fara. Og já, Reykvíkingar eru orðnir hund- og sárreiðir samgönguráðherrum dreyfbílisins sem ekki sitja á strák sínum við að dreyfa göngum til sárafárra á meðan úrgöngubætur til handar langstærsta hluta landsmanna koma ekki, eða bara þegar banaslysin keyra úr hófi fram (tvöföldun Reykjanesbrautar og Suðurlandsvegar). Maður fer að halda að Mölbúinn sæti afgangi hjá vissum ráðherrum. Fyrir utan það topic að einungis 1/5 af olíugjaldinu, sem var sett til handa samgöngumálum, fer í þann málaflokk.

Sigurjón Sveinsson, 30.3.2008 kl. 09:03

3 identicon

Einhversstaðar heyrði ég að fjármagnið væri fyrir hendi, hinsvegar væru það hinar endalausu deilur ýmissa aðila í stjórnsýslunni um staðsetningu brautarinnar sem væru að slá þessu máli endalaust á frest. Endilega leiðréttið mig ef ég fer með fleipur

Gestur (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 15:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband