Nýr meirihluti í Bolungarvík - Grímur missir stólinn

Elías Jónatansson Nýr meirihluti er að myndast í bæjarstjórn Bolungarvíkur, eftir dramatísk endalok hins skammlífa vinstrimeirihluta. Flest bendir til að Elías Jónatansson, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins verði bæjarstjóri í stað Gríms Atlasonar, sem hefur verið bæjarstjóri í innan við tvö ár. Það hefur gustað um Grím á bæjarstjórastóli, verið umdeildur allt frá því að hann var ráðinn til starfa, mörgum þótti reyndar afleitt að ráða hann fram yfir marga hæfa sveitarstjórnarmenn fyrri tíðar, en látum það liggja á milli hluta.

Bolungarvík hefur um áratugaskeið verið eitt traustasta vígi Sjálfstæðisflokksins, enda hafði hann hreinan meirihluta þar í yfir sextíu ár. Flokkurinn klofnaði í Bolungarvík í aðdraganda síðustu kosninga vegna trúnaðarbrests á milli Elíasar og Önnu Guðrúnar Edvardsdóttur, sem fór að lokum í sérframboð og náði inn og felldi þar með meirihlutann. Í kjölfarið myndaði hún meirihluta með vinstriframboði undir forystu Soffíu Vagnsdóttur. Hann hefur nú gefist upp eftir innan við tvö ár, samstarfinu lýkur með deilum um endalokin og hversu mikill trúnaðarbrestur var orðinn milli aðila.

Nú eru Sjálfstæðisflokkurinn og Anna Guðrún að mynda meirihluta. Með því verða væntanlega sættir innan Sjálfstæðisflokksins, enda hefur Anna Guðrún tilheyrt honum og snýr aftur til samstarfs við þá sem hún vann með áður svo lengi. Auðvitað er það ánægjulegt fyrir sjálfstæðismenn alla að þær væringar sem voru til staðar áður heyri sögunni til og hægristjórn komist til valda í sveitarfélaginu. Óska öllum sjálfstæðismönnum þar til hamingju með það.

Elías, verðandi bæjarstjóri í Bolungarvík, er eins og flestir vita sonarsonur Einars Guðfinnssonar, athafnamanns, og því eru Elías og Einar Kristinn Guðfinnsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, bræðrasynir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Jóhannsson

Grímur gleymdi því bara að hann var "ráðinn" og gerðist póitískur.

Gunnar Jóhannsson, 22.4.2008 kl. 22:18

2 Smámynd: Óðinn Þórisson

Er ekki rétt að óska Bolvíkingum til hamingju með nýja meirihlutann.

Óðinn Þórisson, 22.4.2008 kl. 22:44

3 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ég verð nú samt að spyrja. Er Grímur ekki búinn að gera mjög góða hluti fyrir Bolungarvík? Þarf ekki að gusta um bæjarstjóra á svæði sem á undir högg að sækja?

Þótt mér þyki gott að sjálfstæðismenn í Bolungarvík geti sæst og unnið saman aftur, þá finnst mér, allavega eins og þetta lítur út á yfirborðinu vera voðalega miklar átillis ástæður. síðan vitum við ekkert hvað gekk á á bak við tjöldin og hver sé hin raunverulega ástæða slitanna.  

Fannar frá Rifi, 22.4.2008 kl. 23:40

4 identicon

 

Ein dýrmætustu og mikilvægustu réttindi í því lýðræðisþjóðfélagi sem við búum í er tjáningar- og skoðanafrelsi sem þú hefur nýtt þér ótæpilega.

Hinsvegar er það mikill löstur á ráði manna að úttala sig um alla skapaða hluti án þess að vita nokkuð um málavöxtu. Um það gerir þú þig alltof oft sekan. Ekki síst í þessu máli.

 

með kveðju

 

Pálmi Gestsson

Pálmi Gestsson (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 16:55

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka ykkur kommentin.

Vil svara þér sérstaklega Pálmi. Þannig er að ég tjái mínar skoðanir, eins og svo margir. Það er ekkert einstakt við það. Þú segir þínar skoðanir, ert með bloggsíðu og ættir ekkert að vera að skammast yfir öðrum.

Hvað varðar þetta mál eru þessi skrif byggð á skrifum vefsíðunnar Orðsins á götunni á þriðjudagskvöldi, eftir að ég sá þau. Þú getur lesið þau hér á þessari slóð.

Enn hefur ekki verið myndaður nýr meirihluti í Bolungarvík. Vonandi tekst það fljótlega. Það er aldrei gott þegar að meirihlutar falla eins og gerðist í þessu tilfelli. Þekki ekki sögu þeirra mála og ekki ætla ekki að vanvirða einn né neinn í því. Einhver trúnaðarbrestur hefur orðið milli fólks, sem kemur mér ekkert við í sjálfu sér. En það er eðlilegt að skrifað sé um það.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.4.2008 kl. 17:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband