Hillary lýsir yfir stuðningi við Obama á laugardag

Hillary Rodham Clinton Framboðsyfirstjórn Hillary Rodham Clinton staðfesti nú skömmu eftir miðnættið formlega að hún myndi binda enda á forsetaframboð sitt með samkomu fyrir stuðningsmenn sína á laugardag og þá lýsa yfir stuðningi við Barack Obama. Engin stórtíðindi úr því sem komið er, en samt sem áður táknræn endalok á forsetaframboð einu konunnar sem hefur náð að klára forkosningaferlið og hlotið fjöldahylli.

Eflaust má fullyrða að þessi endalok séu visst áfall fyrir konur. Í fyrsta skipti var raunhæfur möguleiki á að kona yrði kjörin valdamesta manneskja heims og greinilegt var að sterkur kjarnastuðningur kvenna tryggði Hillary afl til að fara lengra en hún sennilega ella náð. Þrátt fyrir það varð þetta ekki ár konu í bandarískum forsetakosningum. Aðeins ein kona hefur verið í forystu framboðs stóru flokkanna; Geraldine Ferraro árið 1984. Fróðlegt verður að sjá hvort að kona verði við hlið Obama eða McCain.

Þó að Hillary hafi tapað má hún samt vel við una þrátt fyrir allt. Henni tókst að tryggja sterkan stuðning við framboð sitt mánuðum saman og naut mikils stuðnings og markaði söguleg skref með framboðinu, þó því hafi lokið mun fyrr en að hafi verið stefnt. Hún átti mjög góðan endasprett í framboðinu, vann 8 af 15 síðustu forkosningunum þó fjölmiðlar og stjórnmálaspekingar vestanhafs hafi talið hana af og náði að sýna og sanna að hún er pólitískt hörkutól sem gat staðið sig vel í erfiðri stöðu og náði vissulega ennfremur að sýna að kona getur náð langt í forkosningaslagnum. Henni tókst að opna nýjar dyr í bandarískri stjórnmálasögu, þó ekki hafi hún náð útnefningunni.

Hef aldrei farið leynt með aðdáun mína á Clinton-hjónunum. Þó að ég hafi alls ekki alltaf verið sammála þeim og stundum reyndar mjög ósammála þeim virði ég þau bæði mjög mikils, þó sérstaklega Hillary. Hún hefur verið hörkutól í stjórnmálabaráttu, verið mjög öflug og einbeitt í sinni stjórnmálabaráttu og vakið heimsathygli með verkum sínum. Með hinum góða lokaspretti í forkosningaslagnum tókst henni að sýna afl sitt við mjög erfiðar aðstæður og úr hverju hún er gerð. Hið mikla afrek að hljóta 18 milljón atkvæða stendur eftir sem mjög merkilegur áfangi.

Hvað svo sem Hillary gerir úr þessu, hvort sem hún gerir aðra tilraun til að hljóta Hvíta húsið, verði varaforsetaefni að þessu sinni eða tekur að sér aðrar baráttur á öðrum vettvangi getur hún verið stolt af sínu. Enda sést vel að Barack Obama þarf á henni að halda og hún fer með viss tækifæri, sterk tromp á hendi, af velli þrátt fyrir tapið.

mbl.is Clinton mun lýsa sig sigraða á föstudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband