Uppskerukvöld fyrir LA - stjarnan Brynhildur

Brynhildur sem Brák Ég afrekaði það í kvöld að horfa á Grímuna frá upphafi til enda í fyrsta skiptið. Auðvitað var dagskráin misjafnlega spennandi en þar voru magnaðir hápunktar sem var þess virði að horfa á. Fyrst og fremst er ég virkilega stoltur af því hvað Leikfélag Akureyrar fékk mörg verðlaun. Fló á skinni vann áhorfendaverðlaunin í símakosningu og auk þess unnu Þröstur Leó og Lay Low verðlaun fyrir Ökutíma, hann fyrir stórleik sinn og hún fyrir sína flottu tónlist.

Magnús Geir hefur auðvitað unnið frábært starf með Leikfélag Akureyrar. Undir hans stjórn reis leikfélagið upp úr miklu niðurlægingartímabili þar sem staða leikfélagsins var komin í vafa, ekki vitað hver framtíðin yrði og allt í rokna mínus. Síðan hefur leikfélagið verið í fremstu röð. Hver sýningin á eftir annarri slegið áhorfendamet, fjöldi hæfileikaríkra ungra leikara hafa séð tækifæri í því að koma norður og vinna með því og síðast en ekki síst hefur fólk komið af öllu landinu hingað norður og notið kvöldstundar í leikhúsinu okkar gamla og góða.

Sá ferski vindblær sem hefur einkennt þessa velgengni er að mínu mati Magnúsi Geir einum að þakka, þó margir hafi lagt hönd á plóg. Magnús Geir var í forystu og bjó til þá stemmningu sem síðan hefur orðið leiðarljós Leikfélags Akureyrar í frábærum sýningum. Nægir þar að nefna; Fullkomið brúðkaup, Óvita, Ökutíma, Svartan kött, Dubbeldusch, Herra Kolbert, Maríubjölluna, Lífið - notkunarreglur, Óliver og Litlu hryllingsbúðina. Eftirsjá er af Magnúsi Geir nú þegar að hann er farinn héðan og heldur til verka í Borgarleikhúsinu. Veit að hann mun standa sig ekki síður vel þar. Öll væntum við mikils af Maríu Sigurðardóttur.

En þetta var ekki aðeins uppskerukvöld Leikfélags Akureyrar. Brynhildur Guðjónsdóttir var skærasta stjarna kvöldsins, vann verðlaun sem leikkona ársins og leikskáld. Að mínu mati er Brynhildur ein skærasta stjarna íslensks leikhúss. Hef fylgst með henni mjög lengi og fundist hún frábær. Hún vakti þó fyrst virkilega athygli mína og eflaust flestra þegar að hún brilleraði í hlutverki Edith Piaf fyrir nokkrum árum. Hún varð hin franska söngstjarna með slíkum glæsibrag að ekki mun gleymast. Hún vann Grímuna fyrir það hlutverk og endurtekur leikinn sem Brák. Hlakka til að sjá sýninguna vonandi fljótlega.

Var notalegt að sjá óperusöngkonuna Þuríði Pálsdóttur fá heiðursverðlaunin. Varð hugsað til hennar ömmu minnar þegar að Þuríður fékk verðlaunin og leikin voru nokkur lög með henni á meðan farið var yfir ævi hennar og hin merku verk sem söngkona og stjarna á leiksviði í óperunum. Amma dýrkaði Þuríði og Guðrúnu Á. Símonar, hinar frábæru óperustjörnur, sem voru á heimsmælikvarða og stóðu sig frábærlega, gerðu allt sitt fagmannlega og meistaralega vel. Er ekki langt síðan að ég las ævisöguna hennar Þuríðar sem er í bókasafninu hennar ömmu. Var það skemmtileg bók um mæta konu.

Þuríði man ég líka eftir sem stjórnmálamanni. Þegar ég sat minn fyrsta landsfund hjá Sjálfstæðisflokknum var Þuríður þar og einbeitt í umræðu um menningarmál, fylgdi sínum málum vel eftir einbeitt og ákveðin. Hún hafði áður verið varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og staðið sig vel í því og eiginlega var það dapurlegt að hún náði ekki kjöri sem alþingismaður fyrir flokkinn áður fyrr. Mörgum fannst hún víst reyndar orðin of gömul undir lokin þó í sjálfu sér hún væri á besta aldri og leiftraði af orðheppni og krafti.

Í kvöld flutti Þuríður fallega ræðu úr hjólastólnum sínum. Hún er farin heilsu og orðin mjög máttfarin, skugginn af þeirri öflugu konu sem við munum öll eftir frá fyrri tíð, en einbeiting hennar og orðheppni enn til staðar eins og sást af ræðunni. Flott að hún var heiðruð, enda á hún það svo innilega vel skilið fyrir sitt merka æviframlag til íslenskrar sönglistar á 20. öld.

Síðast en ekki síst vil ég hrósa Góa og Jóa fyrir frábæra frammistöðu sem kynnar kvöldsins. Fínir brandarar og magnaðar söngframmistöður. Var alveg sprenghlægilegt að sjá þá félaga endurtaka allt að því ramma fyrir ramma magnað söngatriðið úr Dirty Dancing og leika eftir fræga frammistöðu Swayze og Grey. Magnað móment, en þau voru mörg fleiri ansi góð.

mbl.is Brynhildur leikkona og leikskáld ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Guðný

Sá bara seinni hluta þáttarins og já flott hvað LA kom flott út. Sammála þér með Þuríði Pálsdóttur. Var svo heppin að kynnast Guðrúnu Á. Símonar og umgangast hana mikið síðustu tvö æviár hennar og hún talaði mikið um Þuríði. En því miður missti ég alveg af Jóa og Góa, hefði verið gaman að sjá það almeininlega.

Ég hreint út sagt dýrkaði Dirty dancing og það er sú mynd sem ég hef oftast séð um ævina.  Svona 50-100 sinnum á meðan hún var og hét. Eignaðist hana svo á DVD í fyrra og verð að fara að kíkja á hana aftur.

Anna Guðný , 14.6.2008 kl. 01:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband