Sundraðir demókratar þrem vikum fyrir flokksþing

Hillary og Obama Þrem vikum fyrir flokksþing demókrata virðist sundrung meðal stuðningsmanna Hillary og Obama enn vera algjör. Þegar Hillary þarf enn að tjá stuðning við Obama og stuðningsmenn hennar velta því alvarlega fyrir sér að leggja nafn hennar fram í kosningu um forsetaefnið á gólfinu á flokksþinginu er alveg ljóst að enn vantar samstöðuna á sögulegu kosningaári.

Obama virðist nú reyna allt til að tryggja friðinn við Clinton-hjónin. Hillary verður aðalræðumaður annars flokksþingskvöldsins, þann 26. ágúst og nú er ljóst að Bill Clinton mun flytja ræðu kvöldið eftir, áður en varaforsetaefnið mun ávarpa flokksþingið. Þau verða í sviðsljósinu á þinginu og fá sína stjörnustund. Obama veit að án þeirra verður erfitt að vinna kosningarnar, einkum þar sem kannanir sýna að staðan er algjörlega í járnum. Ekkert má klikka til að Obama landi sigri eftir þrjá mánuði.

Enn hefur Obama ekki ljáð máls á að Hillary verði varaforsetaefnið. Hann skaut það niður með tveim ákvörðunum sem vöktu þó mismikla athygli. Hin fyrri að ráða Patti Solis-Doyle sem starfsmannastjóra fyrir varaforsetaefnið og hin síðari að láta Hillary tala annað kvöldið, en hefð er fyrir því að varaforsetaefnið tali hið þriðja, kvöldið áður en forsetaefnið þiggur formlega útnefningu flokksins. Patti Solis-Doyle var ein þeirra sem klúðruðu forsetaframboði Hillary með röngum ákvörðunum á mikilvægum tímapunkti. Hillary rak hana og þær hafa ekki talast við síðan í mars.

Michelle og Barack Obama vilja ekki Hillary sem varaforsetaefnið. Þau vilja einhvern við hlið Obama sem skyggir ekki á hann og dómínerar ekki framboðið, en það er vitað mál að fari Hillary á póstinn mun hún taka sviðsljósið frá Obama, hversu mikið er erfitt að spá en hún yrði mjög fyrirferðarmikil með sína pólitísku sögu og auk þess með Bill Clinton á eftir sér. Clinton forseti er viss stofnun í bandarískum stjórnmálum sem forseti tvö kjörtímabil og hann er líka óútreiknanlegur og ekki hægt að hafa hann í taumi. Það ætti Hillary að vita manna best reyndar.

En staðan er brothætt. Margir stuðningsmenn Hillary hafa ekki sætt sig við tapið og eru enn að brugga Obama launráð, þrem vikum áður en hann þiggur útnefninguna formlega. Verði einhver læti á flokksþinginu, t.d. með formlegri skráningu Hillary í útnefningaferlið sem forsetaefnið má búast við sködduðu flokksþingi og Obama myndi veikjast gríðarlega. Niðurstaðan yrði þá sú að hann réði ekki við hlutverk sitt sem flokksleiðtogi í aðdraganda mikilvægra kosninga. Hann myndi verða veikur og færi skaddaður í mikilvægasta hluta baráttunnar.

Og enn þarf Hillary að segjast styðja Obama, tveim mánuðum eftir að forkosningaferlinu lauk. Þetta er flokkur í vanda og virðist á góðri leið með að klúðra kosningunum algjörlega án hjálpar.

mbl.is Clinton styður Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband