Ólafur F. reynir að mynda pólitískt bakland

Ólafur F. Magnússon Ekki kemur mér að óvörum að Ólafur F. Magnússon, fráfarandi borgarstjóri, taki þann kostinn að flokksbinda sig til að reyna að byggja eitthvað pólitískt bakland fyrir sig og eygja þar með einhverja von á endurkjöri. Greinilegt er að F-listinn eins og hann lítur út núna er ekki til stórræðanna og Ólafur F. á enga möguleika á endurkjöri nema hafa einhvern traustan fylgisgrunn með sér.

Alla borgarstjóratíð Ólafs F. háði það honum mjög að hafa ekkert traust pólitískt bakland, sem bakkaði hann upp í gegnum súrt og sætt. Enginn talaði hans máli í umræðunni, nema nefndadrottningin Ásta Þorleifsdóttir, aðstoðarmaðurinn Ólöf Guðný (á meðan hún var í náðinni hjá borgarstjóranum) og miðborgarstjórinn Jakob Frímann. Fáir aðrir voru sýnilegir í því. Fáir voru virkir talsmenn hans í ólgusjó óvinsældanna og reyndu að bæta erfiða stöðu hans. Hann var mjög einmana, var einn síns liðs á pólitískum berangri.

Velti reyndar fyrir mér hvað þeir segja um flokksfélagann í borgarmálunum, þeir Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður flokksins, og Jón Magnússon, alþingismaður (eini alþingismaður frjálslyndra í borginni í sögu flokksins utan stofnandans Sverris Hermannssonar). Báðir voru þeir iðnir við þann kola að ráðast að Ólafi F. og voru sérstaklega áberandi í því meðan meirihluti F-lista og Sjálfstæðisflokksins var í burðarliðnum í janúar og fyrsta slagið á eftir. Síðan hefur minna heyrst.

Á reyndar eftir að sjá hvernig kosningabarátta það verður þegar Ólafur F. fer fram með hreinan flokkslista frjálslyndra og dassa af óháðum eftir allt sem gengið hefur á í samskiptum manna á kjörtímabilinu. Ekki minna verk verður að samstilla þann hóp heldur en að selja Ólaf F. Magnússon sem traustan frambjóðanda aftur eftir sólóspil hans og fjölmiðlayfirlýsingar á borgarstjórastóli. Hans ímynd þarf heldur betur á aðstoð sérfræðinga að halda.

Er reyndar viss um að Ólafur F. nær ekki endurkjöri nema hann hreinlega fái pólitískt kraftaverk upp í hendurnar. En kannski verður Jón Magnússon, þingmaðurinn hans Ólafs, hans kraftaverkamaður. Hver veit.

mbl.is Ólafur F. til liðs við Frjálslynda flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgerður Jóna Flosadóttir

Sæll Stefán, ágætis hugleiðingar hjá þér.  Ég tel mjög ólíklegt að Ólafur verði andlit flokksins.  Búið er að stofna Borgamálafélag Frjálslynda flokksins í Reykjavík þar sem Jón Magnússon er í formannssætinu og mjög líklegur sem borgarstjóraefni Frjálslynda flokksins í Reykjavík í næstu kosningum.

Með kveðju,

Ásgerður Jóna Flosadóttir, 19.8.2008 kl. 15:27

2 identicon

...ef hann nær þá kosningu. Kveðja, Þorgils Hlynur Þorbergsson.

Þorgils Hlynur Þorbergsson (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 15:38

3 Smámynd: 365

Þetta sem Ólafur er að reyna að gera minnir mig á þann sem er haldin er örvæntingunni einni saman.  Ætlar og vill einhver að vinna með manninum?

365, 19.8.2008 kl. 15:43

4 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ég dreg það í efa þeir fáu er styðja Frjálslynda vilji að Óli F. leiði listann - kanski skiptir það ekki máli því ekki eru miklar líkur á að þessi flokkur nái manni inn

Óðinn Þórisson, 19.8.2008 kl. 17:53

5 Smámynd: Auðun Gíslason

Fyrirsögn lesist:  Ólafur F. reynir að myrða pólitískt bakland!  (undirritaður er pólitískt lesblindur).

Auðun Gíslason, 20.8.2008 kl. 20:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband