McCain trompar demókrata með valinu á Palin

John McCain og Sarah Palin Demókratar hafa átt mjög erfitt með að leyna gremju sinni yfir því að John McCain skyldi velja Söru Palin, ríkisstjóra í Alaska, sem varaforsetaefni sitt. Valið er sem kjaftshögg framan í þá. Barack Obama þorði ekki að velja Hillary Rodham Clinton við hlið sér af ótta við að hún myndi skyggja á sig og gæti ekki trompað stjörnuljóma hennar og afskrifaði konu sem varaforsetaefni í kjölfar þess. Og nú fær hann það heldur betur framan í sig.

Sárindi demókrata eru augljós, enda hefur McCain gert það sem þeir vildu að sinn frambjóðandi gerði með því að velja konu í framboðið. McCain virkar líka djarfur og ákveðinn með valinu. Tekur pólitískar áhættur og fetar sögulegar slóðir innan síns flokks. Ef Obama hefði valið Hillary eða Kathleen Sebelius með sér hefði þessi umræða ekki komið upp og þeir ekki verið svo viðkvæmir. McCain nýtti sér einfaldlega traustan veikleika þeirra með snilldarbragði. Þeir eru algjörlega mát og veittu sjálfir höggstað á sér.

Fyrstu viðbrögð frá yfirstjórn kosningabaráttu Obama við valinu á Palin fólu í sér nokkra kvenfyrirlitningu þar sem reynsluleysið var dregið upp. Þar á bæ var gengið beint í gildruna; talað var um að Palin skorti þekkingu og vit á utanríkismálum. Þetta var algjört sjálfsmark hjá talsmanni Obama, enda var viðkomandi fljótlega tekinn úr umferð við að tjá sig um málið. Með þessu opnaði talsmaðurinn bæði á reynsluleysi Obama í pólitík og þekkingarleysi hans um utanríkismál, sem leiddi til þess að Joe Biden varð varaforsetaefnið.

Síðla kvölds gáfu svo Obama og Biden út yfirlýsingu þar sem talað var um sögulegt val á Palin, henni hrósað með hlýlegum lýsingum. Ég held að Obama og menn hans hafi séð að betra væri að þegja heldur en fara með málið sömu glapstigu og fólst í fyrstu yfirlýsingunni. Bara sú yfirlýsing ein leit út eins og kvenfyrirlitning og viðurkenning á reynsluleysi Obama. Af hverju valdi frambjóðandi breytinganna þingmann með 36 ára starfsreynslu bakvið tjöldin í Washington með sér í framboðið og fórnaði þar með breytingastimplinum? Því Obama hafði svo mikla reynslu? Onei.

Þarna var því gengið beint í gildruna. Í ofanálag vakti mikla athygli sérstök yfirlýsing frá Hillary Rodham Clinton þar sem hún talaði vel um Palin og hrósaði McCain fyrir að velja hana. Merkileg skilaboð. Í herbúðum demókrata, þar sem allir töldu sig vera með pálmann í höndunum eftir flokksþingið, þarf skyndilega að tækla þetta skynsamlega val hjá McCain. Og þeir eiga ekkert svar við því, ekkert traust og afgerandi. Held að demókratar hafi verið búnir að gera ráð fyrir því að Romney yrði valinn. Voru með heilt vopnabúr tilbúið gegn því. En þeir eiga ekkert svar nú.

Obama getur heldur ekki hjólað í Palin með þeim rökum að hún sé hluti af valdakerfinu. Hún er miklu hreinni af tengslum við Washington en hann sjálfur svo að það gengur ekki upp. Eftir stendur mögulega að hægt er að ráðast að henni fyrir hugsjónir sínar og persónulegan bakgrunn. En þeir komast stutt á því. Og með reynsluleysið. Palin hefur sem ríkisstjóri haft meiri tengsl í framkvæmdavaldið en Obama hefur nokkru sinni náð eða Biden ef út í það er farið. Þannig að varla verður séð hvernig þeir geti tæklað McCain eftir þetta val. Hann trompaði þá einfaldlega.

Fyrstu viðbrögðin hjá Obama og co voru svolítil karlremba. Þeir græða ekki mikið á því og auðvitað voru þeir fljótir að skipta um plötu. Ef framboðið talar áfram eins og talsmaðurinn í gær færir það McCain enn meiri tromp á hendi. Staðan er bara einföld: demókratar eiga ekki svar við þessu. Þeir geta kannski sótt Hillary og farið með hana hringinn í kringum landið. En hún er ekki varaforsetaefni. Hún er ekki í framboði. Þetta er dæmt til að mistakast. Obama hefur ekkert svar við fyrstu konunni í framboði fyrir repúblikana í forsetakjöri. Þvílíkur bömmer sem hlýtur að vera í þeim herbúðum nú.

Sumir spunameistarar demókrata fundu svo það eitt að Palin í gær að hún þekkti nú ekkert inn á Washington, vissi ekki hvernig pólitíkin það væri. Ekki hægt annað en hlæja að þessu, enda hefur McCain næga reynslu af Washington fyrir þetta framboð og það er skynsamlegt að hann vilji alvöru frambjóðanda breytinganna með sér; konu sem hvorki á heimili í Washington né er hluti af valdakerfinu þar. Þingið undir forystu demókrata er óvinsælla en Bush forseti svo að það er aðeins hrós að vera ekki með tengingar þar inn.

Þetta verða spennandi kosningar - annaðhvort verður fyrsti blökkumaðurinn forseti Bandaríkjanna eða fyrsta konan varaforseti Bandaríkjanna. Sögulegra verður það ekki. En ég held að allir séu sammála um það að McCain trompaði demókratana í gær. Enda eiga þeir ekkert svar við valinu. Þeir eru mát.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svona svona ... leyfðu nú rykinu að falla aðeins.  Þeir eru mát segir þú ... það er engin mát í stjórnmálum.  Þetta veist þú alveg eins og ég.  Palin hefur sína kosti en hún hefur sína galla.  Mundu að Palin gæti vel verið forseti Bandaríkjanna að innan skamms ef McCain yrði kosinn og ef hann færi ekki vel með heilsuna sína.  Palin er enginn stórkostlegur reynslubanki. 

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 30.8.2008 kl. 16:01

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Auðvitað eru þeir mát. Þeir geta ekki gagnrýnt valið að neinu leyti, geta ekki notað reynsluleysi án þess að benda á reynsluleysi Obama og þeir geta ekki talað gegn henni því hún sé of tengd valdakerfinu. Þeir hafa ekki getað tæklað þetta val og eiga erfitt með það. Staðreyndirnar blasa við.

Stefán Friðrik Stefánsson, 30.8.2008 kl. 16:53

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Maður  er þessu algerlega sammála Stefán Friðrik,Þetta voru afglöp Obama að taka ekki Hillary/en jafn sniðugt af MacCain að taka Palin/ svona er að vera eigingjarn!!!/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 30.8.2008 kl. 17:19

4 identicon

Þessi greining hjá þér er gjörsamlega röng. 

Demókratar eru himinlifandi með valið á Söruh Palin enda er það gjörsamlega út í hött - manneskjan hefur engan vegin sýnt það að hún hafi nokkuð í það að gera að taka við af John McCain ef svo ólíklega færi að hann ynni forsetaembættið en þá alls ekki eins ólíklega að McCain falli frá.

Það hefur enginn neitað því að Barack Obama hefur ekki mikla reynslu úr stjórnmálum - hvorki Barack Obama sjálfur né nokkur af hans stuðningsmönnum.  Þvert á móti, það hefur verið einn af kjörnunum í baráttu hans fyrir forsetaembættinu.  Hann þekkir stjórnkerfið í Washington (maður þarf ekki að veraí áratugi til að öðlast reynslu) án þess að vera orðinn samdauna því.

Margir hafa í upphafi sett þetta reynsluleysi Barack Obama fyrir sig og hafa ekki viljað styðja hann þess vegna.  En þegar þeir sjá meira af manninum kemur í ljós að þekking og dómgreind hans eru það mikið ofar öllu öðru sem hefur sést í stjórnmálum í langan tíma að það vegur vel upp.  Hæfileikar hans til að fá fólk til að starfa með sér bætast síðan við, ásamt mörgu fleiru, og fleiri og fleiri sjá að Barack Obama er rétti maðurinn til að stýra Bandaríkjunum eftir að George W. Bush er búinn að leggja þau nánast í rúst með dómgreindarleysi sínu.

Val hans á varaforsetaefni sýnir að hann er tilbúinn að velja sem sinn helsta ráðfgjafa mann sem getur veitt honum ögrandi aðhald og ráðgjöf byggða á allri þeirri þekkingu sem Joe Biden hefur safnað að sér.  Heimurinn verður eins öruggur og hægt er þegar þessir menn eru við stjórnvölin í Hvíta húsinu.

Menn geta svo sem deilt um það hvort reynsla Söru Palin sem ríkisstjóri í þriðja fámennasta ríki bandaríkjanna í tvö ár sé meiri eða minni en reynsla Barack Obama sem fylkisþingmaður 5 stærsta fylkis bandaríkjanna í sjö ár og hvað fjögur ár í öldingadeild bandaríkjanna bætir við hjá Obama.  En það skiptir ekki máli - það er enginn að fara að kjósa Obama út af langri reynslu hans. 

Það sem skiptir máli þegar Barack Obama og Sarah Palin eru borin saman er dómgreind þeirra og þekking.  Og nota bene - það er mjög eðililegt að bera þau saman því það það verður að segjast eins og er að það eru verulegar líkur á því að Sarah Palin þurfi að taka við starfi John McCain.

Í fyrsta lagi - mun Sarah Palin hafa tíma til að sýna dómgreind sína á þeim tveimur mánuðum sem er til kosninga?

Í öðru lagi - hvað hefur hún sýnt nú þegar?

Jú, hún hefur barist á móti spillingu í heimaríki sínu, Alaska, en hún er líka í rannsókn fyrir að hafa rekið undirmann sinn sem aftur hafði neitað að reka fyrrum mág hennar!

Hún átti að hafa boðið olíufélögunum birginn, en samt veitt einu þeirra sérmeðhöndlun - þ.e. því sem maður hennar vinnur hjá og er hátt settur yfirmaður!

Hún ákvað að eignast síðasta barn sitt þrátt fyrir að það hafi verið greint með Downs heilkenni sem er mjög aðdáunarvert og fer vel í þessa öfgakristnu stuðningsmenn repúblikanaflokksins - en þremur dögum síðar hendir hún barninu til hliðar og fer til vinnu og nú fimm mánuðum síðar er hún komin í forsetaframboð!

Við eigum svo sem eftir að heyra meira af þessari konu á næstu tveimur mánuðum - en síðan ekki söguna meir!

Steingrímur jónsson (IP-tala skráð) 30.8.2008 kl. 17:56

5 identicon

Demókratar og stuðningsmenn þeirra (lesist: helstu fjölmiðlar vestra) eru einnig nokkuð nervusir útaf því hversu rækilega McCain náði með valinu á Palin að festa framboðið í sessi hjá grasrótinni, þe. þeim íhaldssinnaðri og öðrum sem voru aldrei spenntir fyrir honum. Nú munu þeir fylkja sér um framboðið. Þá er einnig ljóst að með henni getur McCain höfðað til alþýðunnar og kvenna, þe.  "Blue Collar" Demókratana sem studdu Reagan, sem má víða finna í Pennslyvaníu og Ohio og víðar, og svo óflokksbundinna kvenna. Athygli vekur að skv. Gallup er McCain með verulegt forskot hjá hvítum karlmönnum, og frambjóðendurnir eru nánast jafnir í hópi hvítra kvenna. Það er hinsvegar Obama sem á langmesta fylgið hjá unga fólkinu, 18-29 og svo hjá minnihlutahópunum, 93% hjá blökkumönnum og 58% hispanics. Ef Obama nær ekki að fá þessa hópa á kjörstað er hann í miklum vanda.

Sigmundur (IP-tala skráð) 30.8.2008 kl. 17:59

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentið Halli og góð orð.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 30.8.2008 kl. 18:05

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sigmundur: Takk fyrir góða greiningu. Er sammála hverju orði.

Steingrímur: Fyndið hjá þér. Obama hefur litla reynslu og það er allt í lagi að hann verði forseti Bandaríkjanna en Palin hefur of litla reynslu til að verða varaforseti. Þetta eru bara pólitísk rök hjá þér eftir því hvern þú styður. Snýrð einum hlut á hvolf til að verja annan. Ágætis tilraun svosem hjá þér. Palin hefur komist nærri stjórnun í framkvæmdavaldinu en bæði Obama og Biden og fjarstæða að segja að hún sé óreynd. Hún er kannski lítið þekkt en hún er fjarri því óhæf til að taka við forystunni í Washington. Mér finnst það plús fyrir hana að vera lítið tengd Washington og vera ekki samdauna því. Palin hefur barist gegn spillingu af krafti og staðið sig vel. Þetta val hristir upp í bandarískum stjórnmálum eins og öll viðbrögðin sanna. Og Obama á erfitt með að ráðast að Palin án þess að virka sem hin mesta karlremba, fá á sig sömu rökin og stuðningsmenn Hillary notuðu á hann.

Stefán Friðrik Stefánsson, 30.8.2008 kl. 18:07

8 identicon

Jæja ... "auðvitað eru þeir mát" og "staðreyndir blasa við".  Til hvers að grípa til rökræðunnar framar?  Þetta er þá ... búið.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 30.8.2008 kl. 19:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband