Í minningu Sigurbjörns biskups

Dr. Sigurbjörn Einarsson Útför dr. Sigurbjörns Einarssonar var látlaus en hátíðleg. Minningarorð séra Jóns Dalbú Hróbjartssonar voru virkilega falleg og innihaldsrík. Þar var þó í mjög fáum orðum talað um þann mæta mann sem var verið að kveðja, en mun frekar talað um kristna trú og vangaveltur um lífið sjálft að ósk Sigurbjörns sjálfs.

Dr. Sigurbjörn Einarsson var biskup allrar þjóðarinnar. Allir landsmenn hlustuðu þegar hann talaði um kristna trú og hann var sterkara sameiningartákn trúar og kærleika en nokkur forystumaður þjóðkirkjunnar á síðari tímum. Mér þótti vænst um hversu vel honum tókst að tala kjarnríkt íslenskt mál til þjóðarinnar. Hann var íhugull og ljáði orðum sínum meiri kraft en nokkur íslenskur trúarleiðtogi á síðustu öldum. Áhrif hans voru líka mikil.

Allt frá því ég man eftir mér var hann til staðar, hann var áttaviti þjóðarinnar ekki aðeins í trúmálum heldur í öllu hinu smáa og mannlega í dagsins önn. Ræður hans voru afgerandi og traustar, hann talaði til þjóðarinnar en ekki niður til hennar. Hann var alla tíð forystumaður sem landsmenn allir treystu og virtu. Ég leit alltaf á hann sem afa minn. Er viss um að hið sama gildir um ótalmarga Íslendinga. Mér fannst notalegt að hlusta á hann og þegar að mér fannst illa ára í samfélaginu talaði hann kraft og kjark í okkur öll. Hann var leiðarljós okkar allra.

Allt frá því ég var smábarn sótti ég styrk til hans. Hann var þannig maður að okkur fannst allt vera rétt sem hann sagði. Hann var boðberi hins rétta, var mannlegur og kærleikurinn í tali hans var leiðarstef í hugleiðingum okkar um lífið og allar hliðar þess. Þannig mun ég minnast hans og mun áfram sækja styrk í það sem hann kenndi mér um lífið og tilveruna. Hann er og verður í huga mér alla tíð. Mér þótti vænt um hann og verk hans og passa upp á orðin hans, arfleifð hans til mín og okkar allra.

Fáir hafa þá náðargáfu að tala af visku og kærleika svo fólk hlustar - það sé bæði einlægt og traust. Sigurbjörn biskup talaði fumlaust og af visku og það var þjóðinni ómetanlegt að eiga hann að í blíðu og stríðu í stormasamri sögu þjóðarinnar. Ásýnd íslensku þjóðkirkjunnar verður öðruvísi án Sigurbjörns biskups. En hann lifir með okkur. Svo lengi sem við munum það sem hann kenndi okkur og við virðum það lifa hin mannlegu gildi sem hann kenndi okkur.

Dr. Sigurbjörn Einarsson - In Memoriam

mbl.is „Allir hlustuðu þegar hann talaði"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú skirfar hér um Sigurbjörn Einarsson biskup það sem við flest vildum sagt hafa um þennan andlega leiðtoga þjóðarinnar, þakka þér kærlega fyrir

Áslaug (IP-tala skráð) 6.9.2008 kl. 21:02

2 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

Hún mamma mín sagði alltaf að hún vildi ekki hafa það að skrifuð yrði um hana dauða einhver mærðarrulla sem henni félli ekki í geð.  Þess vegna fékk hún mig til að skrifa eins konar minningagrein um sig, leyfa sér svo að lesa og dæma með eða á móti.  Formið var bundið mál.  Hún var hæstánægð með útkomuna og hnýtti m.a.s. við hana nokkrum erindum.  Háttvís sem ég er, söng ég þetta ekki við jarðarförina hennar, en er viss um að hrikt hefði glaðlega í kistunni hennar ef ég hefði látið verða af því.  Mamma mín var frábær kona og alveg jafn gáfuð og biskupinn sálugi.  Blessuð sé minning beggja.

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 7.9.2008 kl. 00:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband