Obama nær forskotinu - styttist í kappræður

McCain/Obama Allt stefnir í harðskeyttan og æsispennandi lokasprett í baráttunni um Hvíta húsið. Þegar 44 dagar eru til stefnu blasir við að barist er af mikilli hörku og stefnir slagurinn nú í að verða persónulegur og óvæginn rétt eins og í kosningunum 2000 og 2004 þar sem öllum brögðum var beitt.

Barack Obama hefur nú aftur náð forskotinu í baráttunni. Ekki kemur það að óvörum. Veik staða efnahagsmála skiptir alltaf máli og kemur auðvitað mun meira niður á fulltrúa þeirra sem fara með völdin heldur en þeim sem hefur frítt spil og getur gagnrýnt meira. Þó hefur John McCain nú hafið að skjóta á Bush forseta vegna efnahagsmálanna og ætlar að reyna að sækja fylgi þrátt fyrir stöðuna.

John McCain tók mikla áhættu með því að velja ekki Mitt Romney sem varaforsetaefni. Romney hefði sem varaforsetaefni getað tæklað efnahagsmálin, enda með mikla reynslu í þeim efnum, og hefði séð algjörlega um þann málaflokk í baráttunni. Sarah Palin mun þrátt fyrir sinn stjörnuljóma ekki geta lagt McCain lið í efnahagsmálunum. Því stendur það algjörlega upp á McCain að tala um efnahagsmálin og reyna að tala niður þá sem hafa talað um að hann sé veikur á svellinu þar.

Ef þessar kosningar snúast algjörlega um efnahagsmálin minnka sigurmöguleikar McCain til muna. En enn eru rúmar sex vikur eftir af baráttunni og fjarri því öruggt að þau verði aðalkosningamálið, þó flest bendi til þess núna. Mér finnst það reyndar merkilegast hvað bæði forsetaefnin standa veikt í efnahagsmálum. Obama græðir auðvitað á því að vera nýliðinn, hann getur sótt að McCain vegna stöðu mála eftir átta ára samfellda forsetatíð repúblikana og verk þeirra.

Fyrirsjáanlegt er að mikið verður rætt um efnahagsmálin í kappræðunum. Fyrstu kappræðurnar fara fram á föstudaginn í Mississippi. Þetta verður í fyrsta skipti sem Obama og McCain hittast á sama vettvangi og fara í debatt um lykilmál baráttunnar og pólitísk álitaefni. Þeir hafa báðir verið í forsetaframboði í rúmt eitt og hálft ár og tekið margar kappræður, einkum Obama í langri baráttu sinni við Hillary, en þurfa nú að fóta sig þar á nýjum forsendum.

McCain bauð reyndar Obama að taka þátt í kappræðufundum vítt um Bandaríkin í aðdraganda kappræðnanna þriggja en Obama afþakkaði það boð. Obama hefur alltaf verið miklu betri í ræðuflutningi og tali á kosningafundum en því að fara í kappræður. Hillary Rodham Clinton var miklu betri í því formi kosningabaráttunnar - Obama vildi er leið á baráttuna í vor ekki mæta Hillary lengur í kappræðum eftir að staða hans veiktist í kjölfar Wright-málsins.



Kappræðurnar eru hið formlega upphaf lokaspretts baráttunnar. Báðir frambjóðendur hafa æft sig mjög mikið að undanförnu fyrir kappræðurnar. Minnstu mistök þar fylgir frambjóðendum eftir miskunnarlaust. Fyrstu kappræðurnar árið 1960 tryggðu sennilega sigur Kennedys gegn Nixon, þar sem sá síðarnefndi vanmat mátt sjónvarpsins - var sveittur og ófarðaður á meðan kjörþokkinn geislaði af Kennedy.



Oft síðan hefur klúður frambjóðenda á viðkvæmum kappræðutímapunkti haft úrslitaáhrif. Gleymir annars nokkur þegar gamli Bush forseti leit á klukkuna sína í kappræðunum 1992 við Bill Clinton og Ross Perot? Þetta leit út eins og hann nennti þessu ekki og gæti ekki beðið eftir að komast burt. Andstæðingarnir voru fljótir að notfæra sér þetta og birtu myndir af þessu og sögðu að tími hans væri liðinn.

Lítið annars á klippuna af Bush þar sem hann flaskar rosalega á spurningunni hjá konunni en Clinton nýtir sér veikleika forsetans og gengur á lagið. Frábært svar og gott dæmi um hversu mikill pólitískur snillingur Clinton var. Lánleysi gamla Bush í þessum kosningum var reyndar algjört og allan tímann ljóst að Clinton myndi rúlla honum upp.

mbl.is Obama vinnur á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband