Neyðarúrræði þjóðar á örlagastundu

Svo er nú komið fyrir þjóðinni í lok útrásarinnar, sem margir lofuðu í bak og fyrir, að þjóðin þarf að leita til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og væntanlega er nokkuð öruggt að þegið verði liðsinni þeirra í enduruppbyggingu landsins. Auðvitað er þetta algjört neyðarúrræði, sem er ekki ánægjulegt skref fyrir stolta þjóð sem hefur vanist því lengi að geta bjargað sér sjálf og vera ekki upp á neinn kominn í lífsbaráttu sinni.

Síðast leitaði íslenska þjóðin til sjóðsins í valdatíð ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens árið 1982, en þá var verðbólgan upp úr öllu valdi og tók nokkurn tíma til að ná einhverju jafnvægi aftur. Íslenska þjóðin hefur verið skuldlaus við sjóðinn frá árinu 1987 í valdatíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, og hefur eftir þjóðarsátt átt mikið góðærisskeið sem síðar náði hámarki með útrásinni.

Þessu skeiði er nú lokið með harkalegri brotlendingu. Þeir sem ég hef talað við eru sammála um að aðeins sé tímaspursmál hvenær björgunaraðstoð sjóðsins verði þegin og væntanlega er rætt um skrefin í þeirri vegferð á fundum í Washington. Þetta er neyðarúrræði og er til marks um slæma stöðu þjóðarinnar. Íslendingar brjóta odd af oflæti sínu með þessu úrræði og þangað er ekki farið brosandi.

Hinsvegar tel ég að ekkert annað sé í stöðunni, því miður. Tek ég undir það sem Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, og aðrir stjórnmálaleiðtogar fyrri tíðar og sérfræðingar hafa sagt um að við séum í öngstræti og þurfum aðstoð af þessu tagi. Ég efast um að allt kerfi landsins yrði tekið í gjörgæslu við þær aðstæður þar sem íslenska ríkið er sem slíkt ekki illa statt.

Þessi enduruppbygging sem er framundan verður mikið sársaukaskeið fyrir þjóðina. Byggja þarf að mörgu leyti nýtt Ísland á grunni þess sem áður var. Vonandi lærum við af mistökum og sukki góðærisáranna í því ferli.


mbl.is Fundað stíft með IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Stebbi.

Því miður var svokallað góðæri sem kvótabraskið orsakaði frá upphafi vita vonlaust og aðeins spurning hvenær, kæmi að skuldadögum, þar bera þeir tveir ráðherrar sem þú nefnir meginábyrgð.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 13.10.2008 kl. 02:24

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég er sammála þér, Stefán. Aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) mun veita okkur mikilverða fagþekkingu og liðsinni við fjármálastjórn (sem áfátt hefur verið undanfarið), einnig lán frá sjóðnum sjálfum (þegar lofað, ef við þiggjum hjálpina), og þar að auki munu aðrar þjóðir þá hjálpa okkur líka. Japanir hafa boðizt til þess, ef við þiggjum hjálp IMF, ennfremur Norðmenn og fleiri; Japanir vilja raunar, að Rússar hjálpi okkur aðeins á skilmálum IMF. Það helzta, sem gæta þarf, er að fórna ekki of miklu í samningum um skilmála þá, sem IMF mun setja okkur.

Jón Valur Jensson, 13.10.2008 kl. 03:07

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Stefán, það er rétt hjá þér að þetta er neyðarúrræði. Við verðum að reyna aðrar leiðir fyrst.

Sigurður Þórðarson, 13.10.2008 kl. 07:47

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Hvernig geturðu sagt að ekkert annað sé í stöðunni? Hvað með rússa og norðmenn? Ertu ennþá fastur í flokkapólitík og hræddur við vondu kommana sem keypu af okkur fisk og seldu olíu í staðinn án þess að senda herskip inn í Eyjafjörð? IMF hræðir mig meira en þeir.

Villi Asgeirsson, 13.10.2008 kl. 09:16

5 Smámynd: Fannar frá Rifi

Að leita til IMF myndi steypa þessu landi í áratuga glötun.

IMF hefur undanfarna áratugi skilið eftir sig sviðna jörð hvar sem hann fer. 

Eitt af frum skilyrðum sem IMF hefur sett allstaðar er að orku auðlindirnar yrðu seldar. Í dag sjá það allir að þær yrðu seldar úr landi. 

Að selja bestu mjólkurkúna þegar hungrið sverfur að er ekki gáfulegt. 

En er ekki komið nóg af þessum Aftursætibílstjórum upp í Háskóla sem blaðra útí eitt og þurfa síðan aldrei standa skil eða ábyrgð á eigin orðum? Menn sem er verndaðir af ríkisstofnun þar sem þeir eru ósnertanlegir. 

Er ekki komið nóg að þessir "fræðimenn" eins og þeir kalla sig, spúi út endalausu hatri og sundrung? 

Fannar frá Rifi, 13.10.2008 kl. 10:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband