Hillary verður í lykilhlutverki í forsetatíð Obama

Barack Obama og Hillary Rodham Clinton
Enginn vafi leikur á því að Hillary Rodham Clinton, verðandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, muni verða einn valdamesti stjórnmálamaður heims í hlutverki sínu - hiklaust einn valdamesti utanríkisráðherrann í stjórnkerfinu síðan Henry Kissinger sat á þeim stóli. Hún verður fyrst þeirra sem kemur í ráðuneytið beint úr pólitískt kjörnu embætti síðan Edmund Muskie gegndi embættinu síðla á forsetaferli Carters undir lok áttunda áratugarins. Hún hefur mikinn stjörnuljóma, er vel þekkt á alþjóðavettvangi og með mikla innsýn í pólitískri baráttu eftir fjögurra áratuga feril, bæði sem áhrifakona á eigin forsendum og við hlið eiginmanns síns.

Varla þarf að koma að óvörum að fyrsta konan sem náði eitthvað áfram í forkosningaferlinu fyrir forsetakjör vestanhafs, hlaut átján milljón atkvæða, leiði mál á eigin forsendum fumlaust heldur en verði litlaus embættismaður á bakvið tjöldin. Umboð hennar verður miklu traustara og meira afgerandi en forvera hennar um langt skeið. Sem forsetafrú og öldungadeildarþingmaður hefur hún byggt upp eigin valdastöðu og allir vita hver hún er á þeim forsendum. Því blasir við að valið sé í senn djarft útspil fyrir Barack Obama en um leið mjög klókt.

Hlutverk Joe Biden á varaforsetavakt verður mjög óljóst í þessu samhengi. Obama valdi Biden sem varaforsetaefni sitt til að hífa upp reynsluhliðina, enda Obama með mjög litla pólitíska reynslu, aðeins verið í öldungadeildinni í tæp fjögur ár og þar áður stjórnmálamaður í Illinois. Reynsla hans í utanríkismálum var engin og fáir vita enn hvar hann stendur í lykilmálum, þó eitt sé vitað að tryggð hans við Ísrael er innmúruð með Rahm Emanuel sem starfsmannastjóra Hvíta hússins.

Með valinu á Hillary er öllum ljóst að á vaktinni verður konan sem sagðist geta tekið örlagaríka símtalið klukkan þrjú að nóttu, kona sem hefur verið virk í umræðu um alþjóðastjórnmál og heimsþekkt sem slík. Hún er manneskja með traustan prófíl, sem þarf ekki að taka tímann sinn í að kynna sig og sín afrek eða þekkingu á málaflokknum. En um leið er grafið eilítið undan Biden. Enginn þarf að búast við að Hillary hringi fyrst í Biden og svo Obama til að leiða mál áfram.

Kröfur hennar fyrir því að taka við embættinu voru að ráða sjálf starfsliði sínu og hafa úrslitaáhrif um mótun utanríkisstefnunnar með Obama sjálfum. Joe Biden verður altént enginn Dick Cheney og Al Gore á áhrifamælikvarða. Nú verður það mun frekar utanríkisráðherrann en varaforsetinn sem verður leikmaður á alþjóðavettvangi, svipað og þegar Kissinger skyggði á Agnew og Ford þrátt fyrir að þeir væru næstir forsetanum að völdum og sá síðarnefndi orðið forseti síðar meir.

Lekinn af vali Obama á Hillary var kerfisbundinn og traustur, einkum til að kanna hvort þeir sem kusu breytingar í forsetakosningunum, kusu Obama fram yfir Hillary á flokksvísu og McCain á landsvísu myndu sætta sig við Hillary. Skilaboðin voru giska einföld. Valið á henni féll í góðan jarðveg meira að segja meðal repúblikana. Þó heyrast raddir þess efnis að nánir samstarfsmenn Obama treysti enn ekki Hillary og telji að hún muni spila sóló vel fram úr hófi.

Augljóst er að allir munu fylgjast með keppinautunum úr einum harkalegasta forkosningaslag bandarískrar stjórnmálasögu vinna saman á forsetavakt. Þeir sem þekkja til Hillary vita að hún mun nota sviðsljósið í botn og leika sína rullu í aðalhlutverki. Hún er ekki með kalíber í annað.

mbl.is Clinton verði kjölfestan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband