Líður að jólum

JólabjöllurÞað líður að jólum - aðeins tæpur sólarhringur í hátíð ljóss og friðar. Þetta var notalegur dagur. Passa mig á því að vera sem allra minnst við tölvu, enda eiga þetta að vera dagar þar sem farið er um, hitt fólk og notið jólastemmningar í verslunum, þó án stressins alræmda sem æði oft verður fylgifiskur þorláksmessu rétt eins og hin illa lyktandi skata. Var aðallega að klára smáu atriðin sem eftir eru, sem oft verða fleiri en manni óraði fyrir.

Fyrst og fremst er stefnt að því að fara um og spjalla við vini í verslunarhugleiðingum. Hitti fjölda fólks á Glerártorgi. Þar er straumurinn þessi jól, sem þau hin fyrri. Rakst á marga pólitíska félaga og góða vini. Þó að jólahátíðin sé handan við hornið er ekki hægt annað en að tala örlítið um pólitíkina, enda margt um að vera. Skemmtilegt spjall við fjölda fólks, flestir hægra megin við miðju en sumir allverulega til vinstri. Ekkert nema gaman af því bara. Þó að pólitíkin ætti að vera komin í notalegt jólafrí slæðist hún með sem eðlilegt er.

Eftir röltið á Glerártorgi fékk ég mér góðan labbitúr um miðbæinn, hitti góða vini og naut þess í rólegheitum að fara um og spjalla við ýmsa sem maður þekkir þar, sérstaklega í Pennanum. Það koma ekki jól í huga mér fyrr en eftir skemmtilegt miðbæjarrölt síðustu kvöldin fyrir jólin, hitta fólk, fara á kaffihús, fá sér heitt kakó og kynna sér miðbæjarbraginn. Mér finnst hafa lifnað aðeins yfir miðbænum. Verslun Eymundsson er stórglæsileg eftir breytingarnar og það er engu líkt að fara þar inn og þefa af nýjum bókum og skoða þær.

Í kvöld fór ég í skötuveislu til Hönnu ömmu í Víðilundi og var þar með pabba og bræðrum hans og konum þeirra. Áttum notalegt og gott spjall yfir borðhaldinu. Verð seint talinn mikill áhugamaður um skötu og illa lyktandi mat, en þetta er ágætt sport einu sinni á ári svosem og gott sem slíkt. Ágætt rétt fyrir allar stórsteikurnar sem eru í aðsigi og svo maður tali nú ekki um gamla góða hangikjötið með uppstúf og laufabrauði.

Í dag hefur það því verið hið hefðbundna. Í hádeginu hittumst við nokkrir góðir félagar á Greifanum og fengum okkur góðan mat og tókum út pólitíkina og bæjarmálin. Nóg framundan þar, enda bæjarstjóraskipti framundan hér á Akureyri í júní og farið yfir það sem gerist í pólitík á landsvísu vel að merkja. Svo hefur það verið auðvitað bæjarröltið, finna stemmninguna og hlusta á jólakveðjurnar hjá RÚV. Ekta þorláksmessa!

Er ekki fjarri því að jóladiskurinn hans Stebba Hilmars hafi endanlega komið mér í jólaskapið í morgun. Mikið innilega er það notalegur og góður diskur; hugljúfur og traustur. Nafni minn klikkar ekki frekar en fyrri daginn. Svo er það auðvitað að hlusta á öll hin klassísku jólalög. Nóg er af þeim hér í vefspilaranum mínum.



Uppáhaldsjólalagið mitt er lagið um hvítu jólin eftir Irving Berlin. Enginn syngur það eins fallega og söngvarinn Bing Crosby, sem söng það fyrst í kvikmyndinni Holiday Inn árið 1942 og síðar í samnefndri mynd árið 1954 og gerði það heimsfrægt. Enn í dag er það vinsælasta lag sögunnar, mest selda lagið. Eina lagið sem hefur komist nærri því er Candle in the Wind - 1997-útgáfan til minningar um Díönu prinsessu.

Vel við hæfi að hlusta á Bing syngja eitt sitt frægasta og goðsagnakenndasta lag, þarna með snillingnum Frank Sinatra; sannarlega tveir af eftirminnilegustu söngvurum 20. aldarinnar.

Vona að þið hafið öll átt notalegan og góðan dag, með eða án jólastressins. :)



mbl.is Skötuveisla á Kanarí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir skemmtilegan pistil og pistla á árinu, þú gefur oft glatt mig með fréttum að norðan. Njóttu jólanna með fjölskyldu þinni. Kær kveðja :)

Ásdís Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 24.12.2008 kl. 18:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband