23.2.2009 | 00:55
Spádómar um Óskarsverðlaunin 2009
Óskarsverðlaunin verða afhent í 81. skiptið í Los Angeles í nótt. Óskarinn er án nokkurs vafa helsta kvikmyndahátíð sögunnar, ein mesta uppskeruveisla kvikmyndabransans og þar koma helstu leikarar og kvikmyndagerðarmenn samtímans saman.
Ég ætla hér og nú að pæla í verðlaununum og spá í úrslitin í nokkrum af helstu flokkunum, svona mér mest til gamans. Mikil vonbrigði eru þó að engin íslensk sjónvarpsstöð sýni frá hátíðinni. Önnur úrræði verða því að verða til að horfa á en stóla á Stöð 2.
Kvikmynd ársins
The Curious Case of Benjamin Button
Frost/Nixon
Milk
The Reader
Slumdog Millionaire
Pælingar: Allt frábærar kvikmyndir í algjörum sérflokki og mjög sigurstranglegar. The Curious Case of Benjamin Button er langdregin en heilsteypt og vönduð kvikmyndaútfærsla á ævi með öfugum formerkjum. Frost/Nixon færir okkur bakvið tjöldin í besta pólitíska viðtal sögunnar, þar sem Nixon reyndi að verja heiður sinn eftir niðurlægjandi valdamissi. Milk er heillandi saga af hinum samkynhneigða stjórnmálamanni Harvey Milk sem féll fyrir morðingjahendi árið 1978. The Reader er sannkölluð eðalmynd og Slumdog Millionaire einlæg og kjarnmikil.
Spá: Veðja á að Slumdog Millionaire fái óskarinn. Var sú mynd sem mér fannst pottþéttust sem kvikmyndaáhugamaður. Hafði einfaldlega allt, traustur heildarpakki. Sem pólitískur áhugamaður heillaðist ég samt að Frost/Nixon alveg frá upphafi til enda, traust kvikmynd að öllu leyti en þetta verður samt ekki árið hennar. Slumdog er blæbrigðarík og pottþétt, mannbætandi og traust. Mæli hiklaust með henni.
Leikstjóri ársins
David Fincher - The Curious Case of Benjamin Button
Ron Howard - Frost/Nixon
Gus Van Sant - Milk
Stephen Daldry - The Reader
Danny Boyle - Slumdog Millionaire
Er ekki í vafa um að Boyle vinnur óskarinn. Slumdog Millionaire er traust að öllu leyti og leikstjórann sem setti hana saman og gerði hana svo yndislega á að heiðra. Einfalt mál.
Leikari í aðalhlutverki
Richard Jenkins - The Visitor
Frank Langella - Frost/Nixon
Sean Penn - Milk
Brad Pitt - The Curious Case of Benjamin Button
Mickey Rourke - The Wrestler
Sean Penn og Mickey Rourke berjast um sigurinn í þessum flokki. Endurkoma Rourke er stórmerkileg og hann á sannkallaðan leiksigur í sinni rullu. Penn túlkar Harvey Milk af mikilli innlifun og snilld og á besta leik sinn síðan í Mystic River. Frank Langella er stórfenglegur í hlutverki Nixons forseta - túlkar hann bæði sem skúrk og fórnarlamb innri flækja. Brad Pitt á túlkun ferilsins í frábærri rullu. Vonast eftir því að Rourke vinni en hallast að því að Penn taki þetta.
Leikkona í aðalhlutverki
Anne Hathaway - Rachel Getting Married
Angelina Jolie - Changeling
Melissa Leo - Frozen River
Meryl Streep - Doubt
Kate Winslet - The Reader
Mér finnst blasa við að Kate Winslet vinni óskarinn. Fimm sinnum hefur hún tapað á óskarshátíð og oftast nær verðskuldað að sigra. Hennar tími er kominn. Ef hún tapar er ein ástæðan sú að myndin er mjög umdeild. Væri vissulega gaman að sjá Hathaway vinna, enda átti hún stórleik, og Meryl Streep, sem hefur ekki unnið óskar í 26 ár og hefur verið tilnefnd oftast allra leikara. En þetta er árið hennar Winslet.
Leikari í aukahlutverki
Josh Brolin - Milk
Robert Downey Jr. - Tropic Thunder
Philip Seymour Hoffman - Doubt
Heath Ledger - The Dark Knight
Michael Shannon - Revolutionary Road
Engin spurning. Heath Ledger vinnur óskarinn. Hann átti stórleik í hlutverki Jókersins í The Dark Knight og verðskuldar að sigra, enda að mínu mati ein besta leikframmistaða áratugarins.
Leikkona í aukahlutverki
Amy Adams - Doubt
Penélope Cruz - Vicky Cristina Barcelona
Viola Davis - Doubt
Taraji P. Henson - The Curious Case of Benjamin Button
Marisa Tomei - The Wrestler
Erfiðast að spá um úrslit í þessum flokki. Mér finnst Penelope Cruz verðskulda mest sigur, enda stórglæsileg í sinni mynd og var sigurstrangleg fyrir nokkrum árum fyrir túlkun sína í Volver. Viola Davis var hinsvegar frábær í Doubt og Amy Adams átti stórleik í sömu mynd ennfremur. Henson var yndisleg í BB. Held að þetta verði árið hennar Cruz.
Þrátt fyrir að engin sé sjónvarpsútsendingin vona ég að þeir sem geta horft og eins sem skanna netið í staðinn skemmti sér vel. Sendi hinsvegar skammarkveðjur til Stöðvar 2 fyrir að úthýsa keppninni!
Fróðleikur um Óskarsverðlaunin - samantekt SFS 2008
Óskarinn afhentur í kvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Noh, spáðir öllu rétt, góður :)
Óskar Örn Arnarson (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 19:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.