Er Samfó að eignast nýtt forystutvíeyki?

Eftir margra vikna vangaveltur um pólitíska framtíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur virðist hún hafa tekið ákvörðun um hvort hún fari sem sjúklingur inn í erfiða kosningabaráttu í fram- eða aftursætinu eða segir skilið við pólitíkina. Í seinni tíð hefur ekki verið mögnuð upp eins mikil bið og dramatík um eina ákvörðun og þessa. Hún hefur farið í viðtöl nú síðustu dagana til að magna upp þá spennu. Þetta er eitt besta dæmið um pr-mennskuna í Samfylkingunni. Fáir eru meiri snillingar til að búa til spuna, ómerkilegan eða merkilegan, en Samfylkingarmenn. Stundum hafa þeir þó flækst illa í hann.

Uppsetningin á blaðamannafundinum er óneitanlega merkileg. Forsætisráðherrann Jóhanna og flokksformaðurinn Ingibjörg ætla að sitja saman fyrir svörum og kynna pólitísku framtíðina þeirra beggja í einu. Fyrst dettur manni í hug einn klaufalegasti og undarlegasti blaðamannafundur Íslandssögunnar þegar Ingibjörg Sólrún og Össur voru á Hótel Borg í janúar 2003 að tilkynna að Ingibjörg yrði sérstakt forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar en Össur ætlaði sér að halda áfram sem formaður, bara svona upp á punt og sem aukaleikari á sviðinu.

Síðar stakk Ingibjörg hann Össur í bakið og ekki allt fagurt við þá atburðarás. Getur verið að Ingibjörg Sólrún verði nú fórnarlambið í sömu skák, enda sliguð eftir bankahrunið og eini minnisvarðinn um það sem eftir er í pólitíkinni, og hún bauð Össuri upp á fyrir sex árum - nú stígi hún til hliðar fyrir prímadonnu flokksins, gefi sviðið eftir en haldi samt eftir aukahlutverki til hliðar, verði eins og skuggamynd á sviðinu? Óneitanlega fyndið.

Merkilegast af öllu er að nú hefur Jóhanna Sigurðardóttir öðlast forystusess hjá Samfylkingunni. Barist var harkalega gegn því að hún yrði talsmaður Samfylkingarinnar í kosningunum 1999 eftir merkilegan prófkjörssigur í Reykjavík og hún sett harkalega í aftursætið. Hún varð ráðherra árið 2007 en samið um að Samfylkingin fengi þingforsetaembættið á miðju tímabili. Þangað ætlaði Ingibjörg Sólrún að senda hana, á sína endastöð.

Oftast nær er fyndið að fylgjast með þeim sem geta ekki hætt í pólitík á réttum tíma. Verði þetta það sem koma skal á morgun er ekki annað hægt en að vorkenna Samfylkingarfólki sem hefur afskrifað Ingibjörgu Sólrúnu í skoðanakönnun með mjög afgerandi hætti og í gengisfellt hana. En þetta verður spennandi, enda PR-dramatíkin greinilega í miðpunkti alls.

Svona forystutvíeyki eru dæmd til að mistakast. Þetta gekk ekki vel hjá Thorbjörn Jagland og Jens Stoltenberg og allir muna fíaskóið og núansana á milli Ingibjargar og Össurar. Mér finnst þessi tilkynning gefa til kynna að Samfó sé að eignast nýtt par í forystunni, annarsvegar prímadonnu og einstakling sem getur ekki hugsað sér að fara af sviðinu.

Og þó; kannski kann Ingibjörg Sólrún bara að hætta eftir allt saman og gefa sviðið eftir hinni nýju prímadonnu flokksins, hlutverk sem hún kannast við frá því forðum daga.

mbl.is Jóhanna og Ingibjörg með fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú segir "Oftast nær er fyndið að fylgjast með þeim sem geta ekki hætt í pólitík á réttum tíma" Já eins og seðlabankastjórar.

Arnljótur Arnarson (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 10:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband