Valla frá Lómatjörn kveður pólitíkina

Valgerður Sverrisdóttir
Hvaða skoðun svo sem stjórnmálaáhugamenn hafa á Valgerði Sverrisdóttur verður varla um það deilt að með brotthvarfi hennar af Alþingi kveður ein öflugasta forystukona íslenskra stjórnmála vettvang stjórnmálanna. Mér finnst nokkur eftirsjá af Valgerði úr pólitísku starfi hér í kjördæminu og á landsvísu, enda held ég að allir hafi virt mikils pólitíska elju hennar og sérstaklega góð verk fyrir Norðausturkjördæmi og Norðurlandskjördæmi eystra áður, þrátt fyrir að margir hafi verið ósammála henni um leiðirnar að markmiðum fyrir svæðið og í pólitískum hitamálum á landsvísu.

Hún markaði söguleg skref sem kona í karlaflokki á borð við Framsóknarflokkinn og komst áfram á eigin krafti. Valgerður vann hér á svæðinu sinn mesta pólitíska sigur, þegar hún fór inn við fjórða mann í kosningunum 2003 í Norðaustri, sem enginn átti von á enda tók Framsókn þær kosningar síðustu tíu daga baráttunnar, og mesta ósigur, þegar hún fór ein inn í gamla Norðurlandskjördæmi eystra árið 1999, sem var sögulegt afhroð. Valgerður vann svo mikinn varnarsigur hér í kjördæminu í kosningunum 2007 þegar flokkurinn náði þremur þingsætum þvert á nær allar spár.

Valgerður hefur alla tíð verið vinnusöm í pólitík og lagt sig alla í verkefnin sem henni er treyst fyrir - hún hefur haft traust samherja sinna til verka. Valgerður hefur alltaf verið hörkutól í pólitísku starfi. Hún þorði alltaf að láta vaða og gerði hlutina eftir sínu höfði. Þó stundum hafi oft verið harkalega að henni sótt, innanflokks sem utan, stóð hún sem sigurvegari eftir öll átökin. Ekki fyrr en kom að hruni bankanna og uppgjörinu við það varð hún að láta í minni pokann og taka þann skell á sig með sitjandi forystu frá gamla Halldórstímanum.

Valgerður hefur alltaf þurft að berjast fyrir sínu og ávallt haft betur innan síns flokks. Valgerður er vissulega mikil kjarnakona. Hún er langrækin og lætur enga, allra síst pólitíska andstæðinga, eiga eitthvað inni hjá sér. Ég verð að viðurkenna að ég hef dáðst að elju hennar, sérstaklega þegar hún var utanríkisráðherra. Þrátt fyrir annir og fundi um allan heim var hún mætt á fundi og samkomur hér í Norðaustri. Þar sást best kraftur hennar.

Í gegnum kynni mín af henni hef ég kynnst öflugri og beittri konu sem talar af krafti þegar að hún hefur skoðanir. Það er mikilvægt að svoleiðis fólk sé í stjórnmálum. Þrátt fyrir allt tel ég að hún verði metinn einn sterkasti forystumaður Framsóknarflokksins á síðustu áratugum og augljóst er að hún markaði söguleg þáttaskil fyrir konur í Framsókn með verkum sínum.

Kveðjuræða Valgerðar á Alþingi


mbl.is 22 ára þingferli Valgerðar lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

hún hefur allavegana ekki verið tengd fólkinu í landinu í nokkur misseri, sorglegt af glæstum ferli lesið hér að ofan að hún hafi ekki beitt sér meira fyrir þá sem hafa þurft að standa sína plikt

ég segi nei við þessari konu, never again

Jón Snæbjörnsson, 4.4.2009 kl. 22:26

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband