Obama tilnefnir Soniu Sotomayor í Hæstarétt

Barack Obama og Sonia Sotomayor
Val Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, á Soniu Sotomayor sem hæstaréttardómara er skynsamlegt og traust. Með því slær hann tvær flugur í einu höggi; velur konu sem dómara og ennfremur fyrsta dómaraefnið af spænskum uppruna. Obama var undir miklum þrýstingi að velja konu í réttinn en ennfremur var augljóst að hinir fjölmörgu stuðningsmenn forsetans úr röðum spænskra og blökkumanna gerðu kröfu um að fá sinn fulltrúa í réttinn, sem viðurkenningu fyrir mikinn stuðning í forsetakosningunum á síðasta ári.

Telja má líklegt að Obama velji blökkumann næst þegar sæti losnar í réttinum sem gerist eflaust á þessu kjörtímabili þar sem vangaveltur eru um hversu lengi hinn níræði John Paul Stevens, sem verið hefur dómari frá árinu 1975, muni sitja í réttinum og hvort Ruth Bader Ginsburg muni hætta af heilsufarsástæðum en hún greindist með briskrabbamein fyrir nokkrum mánuðum og er nýkomin úr læknismeðferð. Aðeins er einn blökkumaður í réttinum; Clarence Thomas, sem skipaður var af George H. W. Bush árið 1991.

Ronald Reagan setti það fram sem kosningaloforð í forsetakjöri 1980 að velja fyrstu konuna í Hæstarétt yrði hann kjörinn forseti Bandaríkjanna. Sumarið 1981 ákvað Reagan að skipa Söndru Day O´Connor, dómara frá Arizona, í réttinn. Reagan talaði aðeins við Söndru í valferlinu, en hún kom til greina í hópi nokkurra kvendómara. Hann hreifst af gáfum hennar og uppruna hennar úr vestrinu. Frægt var að þau töluðu meira um hesta og búgarðalífið í suðurríkjunum en lög í hinu formlega viðtali.

Bill Clinton valdi Ruth Bader Ginsburg í Hæstarétt árið 1993 eftir að hann hafði áður ætlað að velja annað hvort Stephen Breyer (sem hann valdi ári síðar þegar sæti losnaði aftur) eða Mario Cuomo, ríkisstjóra í New York, (sem vildi ekki svara símtölum forsetans og taldi sig ekki eiga neitt vantalað við hann). Ginsburg heillaði Clinton með víðtækri þekkingu á lagalegum álitaefnum og fyrir brautryðjendastörf sín í jafnréttismálum í lagakerfinu. Eftir að hafa rætt við Ginsburg mun Clinton hafa sagt: Ef Cuomo svarar ekki strax mun ég bjóða Ruth sætið.

George W. Bush skipaði Harriet Allan Myers sem dómara við Hæstarétt í stað Söndru Day O'Connor haustið 2005. Valferlið strandaði vegna þess að honum tókst ekki að tryggja stuðning við Harriet á meðan þingrepúblikana og forsetinn varð að fá Harriet til að afþakka sætið og bauð Samuel Alito það skömmu síðar. Bush gerði þau miklu mistök að velja konu í réttinn sem naut ekki þingstuðnings og hafði ekki þann trausta bakgrunn sem krafist var í hinni pólitísku refskák sem fylgir valinu, enda verður öldungadeildin að staðfesta útnefninguna.

Ekki er nokkur vafi á því að valið á Soniu Sotomayor mun styrkja Obama í sessi meðal kjósenda af spænskum ættum og meðal kvenna. Þar sem aðeins ein kona var í réttinum (og hún orðin veik og líkleg til að hætta) var pressan mikil á að kona yrði valin og auk þess að dómarinn yrði af spönskum ættum. Þetta val sameinar þessa kosti.

Blökkumenn gerðu miklar kröfur líka, enda fyrsti þeldökki forsetinn við völd í Hvíta húsinu, og þeir lögðu mikið á sig til að tryggja kjör hans og töldu sigur hans mikinn sigur í langri réttindabaráttu. Ekki þarf að efast um að á meðal helstu blökkumannahópanna, t.d. í Illinois, í Suðurríkjunum og í Kaliforníu er óánægja með valið.

En við getum líka verið viss um að Obama mun hugsa til þeirra þegar sæti losnar næst.


mbl.is Obama tilnefnir hæstaréttardómara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Jónsson

Ég myndi nú ekki veðja á blökkumann næst, miðað við það hversu gaman Obama hefur þótt á miðjunni hingað til þá kæmi mér ekki sérstaklega á óvart þó næst yrði valinn hvítur karlmaður.

Páll Jónsson, 26.5.2009 kl. 19:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband