Goðsögnin mikla - fórnarlamb frægðarinnar



Michael Jackson varð fórnarlamb þeirrar yfirgengilegu og sjúku frægðar sem einkenndi líf hans allt frá því hann var smákrakki. Ég sé Jacko í raun í sama glampa frægðarinnar og einkenndi stjörnuna Judy Garland, undrabarn og ein mesta stjarna sögunnar sem var misnotuð af fólki í bransanum - notuð algjörlega eins og sölu- og markaðsvörur þar til ekkert var eftir og þau voru sálarlausar verur sem fengu hvorki einkalíf né að njóta þess sem við hin köllum líf.

Judy Garland varð fangi í pillufíkn sinni og söm eru örlög Jacko. Michael Jackson, barnastjarnan mikla sem fór á toppinn og varð kóngur poppsins - einn mesti skemmtikraftur sögunnar - kvaddi heiminn sem sérvitringur og einstæðingur í raun, rétt eins og Howard Hughes. Þetta eru nöpur örlög fyrir þann mann sem lengi vel (og að mörgu leyti enn) var fyrirmynd og hin sanna stjarna tónlistarbransans. Ferill hans gufaði upp í móðu glötunar. Sorglegt.

En saga Michael Jackson er samt sem áður stórmerkileg. Hann var einstök stjarna sem fór á toppinn hæfileika sinna vegna og var þrátt fyrir allt andlit eins merkilegasta tímabils tónlistarsögunnar - elskaður og dáður, sumpart hataður og fyrirlitinn. En rétt eins og fyrrum tengdafaðirinn Presley er Jacko harmdauði. Báðir áttu í stríði við innri djöfla þegar þeir kvöddu og þeir eiga merkilega lík leiðarlok. Báðir voru hylltir í dauðanum.

En Jacko var goðsögn í lifanda lífi - ein merkilegasta stjarna sögunnar, hæfileikaríkur skemmtikraftur og við munum hann öll þannig, þrátt fyrir súrsætt einkalíf og harmleikinn mikla þegar andlitið varð fjarlægt og múmíulegt... stjarnan mikla hvarf í móðuna langt fyrir aldur fram.

Jacko var í raun alltaf lítið barn.... hann var fórnarlamb frægðarinnar, eitt sorglegasta dæmið um hvernig hægt er að éta upp sál. En svona er víst bransinn.

mbl.is Jackson æfði af kappi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband