Dagný Jónsdóttir gefur ekki kost á sér

Dagný Jónsdóttir

Dagný Jónsdóttir, alþingismaður, ætlar ekki að gefa kost á sér í alþingiskosningunum að vori. Hún tilkynnti þetta á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, sem haldið er á Djúpavogi, í dag. Þetta teljast mikil tíðindi, enda hafði Dagný margoft lýst því yfir að hún ætlaði að fara aftur í framboð og bjuggust flestir við að hún myndi taka slaginn við Birki Jón Jónsson um annað sæti listans. Samkvæmt þessu er því orðið ljóst að báðir Austfirðingarnir innan Framsóknarflokksins í Norðaustri á þingi, Jón Kristjánsson og Dagný, verða ekki í kjöri að vori.

Dagný varð aðalstjarna Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í þingkosningunum 2003. Henni var falin mikil ábyrgð og mikið bar á henni í baráttunni. Framsóknarflokkurinn skreytti öll auglýsingaspjöld sín með henni og hún var sá frambjóðandi sem mest var auglýstur í kosningunum þá. Mun minna bar á Valgerði Sverrisdóttur og Jóni Kristjánssyni en Dagnýju. Hún var sett fram sem baráttukona í baráttusæti og var Dagný vissulega táknrænn sigurvegari kosninganna, en með þessari taktík tókst bæði að tryggja henni þingsæti og ekki síður Birki Jóni sem datt inn í lok talningar.

Dagný var dugleg í sinni stjórnmálabaráttu. Hún var þó aldrei hugsjónastjórnmálamaður. Ég hef oft velt fyrir mér hennar pólitík og vil halda þeim skoðunum fyrir mig. En dugleg var hún, það verður ekki af henni tekið og hún vann mikið í baráttunni fyrir sig og sinn flokk. Sögusagnir eru nú um að Sæunn Stefánsdóttir, eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar á þingi, verði í þriðja sæti flokksins í kosningunum. Öllum er væntanlega ljóst nú að Birkir Jón verður í öðru sætinu, enda eini þingmaður flokksins í kjördæminu sem fram fer auk leiðtogans Valgerðar.

Það stefnir svo sannarlega í spennandi kosningar hér í Norðaustrinu að vori og spennandi að sjá hvort að ritarinn Sæunn kemst inn ef hún skipar þriðja sætið. Enn er svo þeirri spurningu ósvarað hvort að Jakob Björnsson, fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, gefi ekki kost á sér og vilji komast á þingi. Skv. nýjustu könnun Gallups er Framsóknarflokkurinn með 20% fylgi í Norðausturkjördæmi og tvo þingmenn inni. Vissulega er það sögulega lítið fyrir Framsókn en þó mesta fylgið sem flokkurinn mælist með í kreppu sinni þessa mánuðina.

mbl.is Dagný Jónsdóttir býður sig ekki fram til þings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján Þór og Þorvaldur í leiðtogaframboð?

Kristján Þór Júlíusson Þorvaldur Ingvarsson

Telja má öruggt að á mánudag í síðasta lagi ráðist hvað þeir Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, og Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA, ætlast fyrir í framboðsmálum sínum. Flest bendir þó til að þeir muni takast á í væntanlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem væntanlega verður haldið laugardaginn 25. nóvember nk. Eftir viku verður haldið kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi og þar verður tekin afstaða til þess hvort haldið verði prófkjör eða stillt upp á lista. Tillaga stjórnar kjördæmisráðsins er að fram fari prófkjör. Óhætt er þó að segja að Akureyringar í flokksstarfinu bíði eftir ákvörðun Kristjáns Þórs og Þorvaldar. 

Ákvörðun þeirra mun hafa áhrif á prófkjörið, sést þess vel merki í því að beðið er eftir hvað þeir hyggjast fyrir. Nú þegar hafa enda aðeins þrír tilkynnt formlega um framboð. Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, hefur tilkynnt um leiðtogaframboð, og Kristinn Pétursson og Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrum þingmenn, hafa tilkynnt um framboð í 2. - 3. sætið. Öruggt má teljast að bæði Kristján Þór og Þorvaldur fari í prófkjörið. Nær alla tíð frá afsögn Tómasar Inga Olrich árið 2003 hefur verið rætt um að Kristján Þór færi í landsmálin við þessar kosningar og sá orðrómur var mikill fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar þegar að fréttamenn gengu nærri honum með svör.

Það leikur enginn vafi í huga fólks hér að Kristján Þór fari í leiðtogaslaginn. Vangavelturnar snúast meira um Þorvald. Hann var í sjötta sæti framboðslista flokksins í Norðausturkjördæmi í síðustu kosningum og hefur verið formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar frá haustinu 2003, þegar að Helgi Vilberg, ritstjóri Íslendings, lét af formennsku félagsins. Þorvaldur hefur verið að þreifa fyrir sér með sín framboðsmál og eftir því sem sagan segir vill hann reyna á leiðtogasætið sjálft, enda sé það laust. Þorvaldur sagðist í sumar í viðtali við Akureyrarblaðið Vikudag stefna á 1. - 3. sætið. Spurningin nú er sú hvort hann fari beint í leiðtogaframboð eða stefni á neðri mörkin.

Það má búast við spennandi átökum fari svo að Þorvaldur Ingvarsson bætist í fyrirfram planaðan leiðtogaslag Arnbjargar Sveinsdóttur og Kristjáns Þórs Júlíussonar. Flest bendir til að þeir tilkynni um framboð sín og fyrirætlanir sínar fyrir mánudagskvöldið í síðasta lagi. Það kvöld verður aðalfundur fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri haldinn í Kaupangi og má telja öruggt að eigi síðar en þá verði staða mála ljós með þeirra framboðsmál. Fari svo að þetta verði þriggja til fjögurra manna leiðtogaslagur má eiga von á miklu fjöri næstu vikurnar.

Umdeild gerviheimildarmynd um George W. Bush

George W. Bush

Það leikur enginn vafi á því að George W. Bush er einn umdeildasti forsetinn í sögu Bandaríkjanna. Hann hefur þó sigrað tvær forsetakosningar með sögulegum hætti, þær fyrri með naumasta hætti í sögu kjörmannasamkundunnar í forsetakjöri í Bandaríkjunum (fékk færri atkvæði en Al Gore) og átti í sögulegum lagadeilum fyrir dómstólum við keppinaut sinn í tæpa 40 daga eftir kjördag, og í þeim seinni varð hann fyrsti forseti Bandaríkjanna frá 1988 til að hljóta meirihluta greiddra atkvæða. Nú eru þáttaskil framundan á stjórnmálaferli hans - síðustu kosningarnar sem hann tekur þátt í verða til þingdeildanna í nóvember. Hann getur ekki farið fram í forsetakjörinu 2008.

Eitt helsta umræðuefnið vestanhafs síðustu mánuðina hefur verið umdeild gerviheimildarmynd, sem ber heitið Dauði forseta, Death of a President. Er þar lýst umdeildri og fyrirfram markaðri sögulegri atburðarás á bakvið morð á forseta Bandaríkjanna. Það er vissulega ekki nýtt viðfangsefni eða nýr raunveruleiki. Fjórir forsetar Bandaríkjanna hafa verið myrtir, þeir Abraham Lincoln, 16. forseti Bandaríkjanna, árið 1865, James Garfield, 20. forseti Bandaríkjanna, árið 1881, William McKinley, 25. forseti Bandaríkjanna, árið 1901 og John F. Kennedy, 35. forseti Bandaríkjanna, árið 1963. Auk þess hefur andlát forseta oft orðið umfjöllunarefni í skáldskaparverkum og kvikmyndum.

Það sem er frábrugðið þessu öllu í tilfelli fyrrnefndrar myndar er að lýst er morði á George W. Bush sem gerast á í Chicago á árinu 2007 og framhaldinu sem við tekur eftir lát forsetans er Dick Cheney, varaforseti, á að taka við völdum sem 44. forseti Bandaríkjanna. Um er að ræða afar kalt umfjöllunarefni og verið er með frekar lágkúrulegum hætti að leika sér að sögunni. Það virðist skv. fréttum ganga erfiðlega fyrir Newmarket Films-fyrirtækið, sem sér um dreifingu á myndinni, að koma henni í ýmis stærstu kvikmyndahús í Bandaríkjunum. Myndin er gríðarlega umdeild, af skiljanlegum ástæðum, og við blasir að hún stuðar marga landsmenn.

Það telst vart annað en lágkúra að uppdiktuð sé saga um morð á forseta sem er lifandi og beitt þeim brögðum sem virðist gert í þessu tilfelli.
Blandað er saman í myndinni raunverulegu fréttaefni og tilbúnu svo úr verður saga sem virðist raunveruleg en er það auðvitað ekki. Það er alveg eðlilegt að fólk hafi ólíkar skoðanir á verkum og stjórnmálaskoðunum Bush forseta, en þessi mynd gengur yfir öll eðlileg mörk og því vart undrunarefni að ekki gangi vel að sýna hana í kvikmyndahúsum vestan hafs.


mbl.is Neita að sýna mynd um morð á George W. Bush
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

19 gefa kost á sér í prófkjöri í Reykjavík

Sjálfstæðisflokkurinn

Það stefnir í mjög spennandi prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. 19 gáfu kost á sér í prófkjörinu, sem mun fara fram 27. og 28. október nk. Í síðasta prófkjöri fyrir þingkosningarnar 2003 gáfu kost á sér 17 einstaklingar.

Í kjöri í prófkjörinu verða:

Ásta Möller, alþingismaður
Birgir Ármannsson, alþingismaður
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra
Dögg Pálsdóttir, hæstaréttarlögmaður
Geir H. Haarde, forsætisráðherra
Grazyna M. Okuniewska, hjúkrunarfræðingur
Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík
Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður
Illugi Gunnarsson, hagfræðingur
Jóhann Páll Símonarson, sjómaður
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur
Marvin Ívarsson, byggingafræðingur
Pétur H. Blöndal, alþingismaður
Sigríður Andersen, lögfræðingur
Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður
Steinn Kárason, umhverfishagfræðingur
Vilborg G. Hansen, landfræðingur
Vernharð Guðnason, slökkviliðsmaður
Þorbergur Aðalsteinsson, sölu- og markaðsstjóri

Ljóst er að um verður að ræða spennandi átök og fróðlegt að sjá hvernig niðurstaðan verður að kl. 18:00 að kvöldi 28. október þegar að fyrstu tölur verða birtar.

mbl.is Alls hafa 19 gefið kost á sér í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ragnheiður Ríkharðsdóttir í þingframboð

RR

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, hefur nú tilkynnt formlega um framboð sitt í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Stefnir hún á þriðja sætið í prófkjörinu. Ákvörðun Ragnheiðar um framboð kemur ekki að óvörum eftir að Sigríður Anna Þórðardóttir, fyrrum ráðherra, lýsti því yfir á miðvikudagskvöldið að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér til endurkjörs. Sigríður Anna og Ragnheiður hafa verið í stjórnmálum í Mosfellsbæ og greinilegt að Ragnheiður vill fylla skarð Sigríðar Önnu. Ragnheiður verður ekki eini Mosfellingurinn í framboði því að Bryndís Haraldsdóttir, varabæjarfulltrúi í Mosfellsbæ, hefur tilkynnt um framboð sitt í 4. - 5. sætið.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur verið lengi í pólitísku starfi. Hún leiddi Sjálfstæðisflokkinn í Mosfellsbæ til glæsilegs sigurs vorið 2002 þar sem að Sjálfstæðisflokkurinn hlaut hreinan meirihluta atkvæða. Ragnheiði og sjálfstæðismönnum mistókst naumlega að halda meirihlutanum í kosningunum í vor, en mynduðu meirihluta með vinstri grænum. Samið var um að Ragnheiður yrði bæjarstjóri framan af kjörtímabilsins en svo tæki Haraldur Sverrisson við embættinu í síðasta lagi á miðju kjörtímabili. Mosfellsbær hefur styrkst í bæjarstjóratíð Ragnheiðar og ekki verður deilt um að Ragnheiður hefur verið öflugur og traustur leiðtogi flokksins í sveitarfélaginu.

Það stefnir í spennandi prófkjör í Suðvesturkjördæmi um neðri sætin. Greinilegt er að góð samstaða mun verða um Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í fyrsta sætið og Bjarna Benediktsson í annað sætið, en þau eru einu kjörnu þingmenn flokksins í kraganum vorið 2003 sem fara fram aftur. Baráttan verður um þriðja til sjötta sætið. Skv. nýjustu skoðanakönnun Gallups mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 49% fylgi í kraganum sem myndi færa honum sex þingsæti, en þingsætum kragans fjölgar úr 11 í 12 í kosningunum í vor.

mbl.is Ragnheiður Ríkharðsdóttir stefnir á 3ja sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungir framsóknarmenn minnast Alfreðs

Alfreð Þorsteinsson

Nú hafa ungir framsóknarmenn í Reykjavík suður skírt félagið sitt í höfuðið á Alfreð Þorsteinssyni, sem var í áraraðir borgarfulltrúi framsóknarmanna í Reykjavík. Finnst þetta svolítið fyndin persónudýrkun sem felst í því að nefna ungliða- og flokksfélög eftir mönnum innan flokksins. Hvað yrði t.d. sagt ef að ungliðafélag sjálfstæðismanna einhversstaðar úti á landi myndi skíra sig Davíð í höfuðið á Davíð Oddssyni, seðlabankastjóra og fyrrum forsætisráðherra. Ansi er ég nú hræddur um að viðkomandi ungliðar fengju það í hausinn einhversstaðar frá að um væri að ræða hlægilega persónudýrkun á einum stjórnmálamanni.

Blessunarlega erum við ungir sjálfstæðismenn þannig gerðir að við veljum sígild og góð nöfn af ýmsu tagi, utan stjórnmála, til að velja á félögin okkar. Það má alltaf heiðra fyrrum stjórnmálamenn með ýmsum hætti en að nefna félögin eftir þeim er ekki góðráð, tel ég. Ég geri mér fulla grein fyrir að Alfreð er framsóknarmönnum í Reykjavík eftirminnilegur. Hann sat þó ekki í borgarstjórn í tólf ár bara í nafni framsóknarmanna, heldur í samtryggðu umboði krata, komma og rauðsokka. Hann hafði víðtækt umboð í þessu samkrulli sem R-listinn var. Satt best að segja er Alfreð eftirminnilegur fyrir að tryggja Framsókn mikil völd og hans verður eflaust minnst þannig.

En þessi nafngift vekur vissulega athygli, enda þekkist það ekki í flokkum að þar séu félög nefnd eftir leiðtogum hvað þá borgarleiðtogum. Enda eru svo margar aðrar leiðir til að nefna félög. Mér finnst þetta frekar hallærislegt og undrast nafngiftina. En ungir framsóknarmenn ráða sínum leiðum til að ná athygli. Það verður fyndið að fylgjast með verkum "Alfreðs" á vettvangi stjórnmála í vetur meðan að fyrirmyndin vinnur við hátæknisjúkrahúsið. Allir vita hversu vel honum gekk með Orkuveituna og hallargarðurinn er "gott" dæmi um það.


mbl.is Alfreð fagnar frumvarpi um endurgreiðslur til kvikmyndagerðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattar lækka í Svíþjóð - ráðherraval kynnt

Carl Bildt

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, var rétt í þessu að kynna skipan nýrrar ríkisstjórnar borgaralegu flokkanna í Svíþjóð, sem tekur við völdum nú fyrir hádegið, og helstu stefnuatriði hennar. Helstu tíðindi ráðherravalsins eru auðvitað þau að Carl Bildt, fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, verður utanríkisráðherra Svíþjóðar. Það eru mjög mikil tíðindi og stórpólitísk að Bildt komi aftur í forystu sænskra stjórnmála og taki við utanríkisráðuneytinu af Jan Eliasson. Bildt var einn forvera Reinfeldt á leiðtogastóli Moderaterna, leiddi flokkinn 1986-1999 og var forsætisráðherra 1991-1994. Enginn vafi er á að endurkoma Bildt eflir stjórnina.

Carl Bildt varð að loknum forsætisráðherraferlinum farsæll diplómat og var t.d. sáttasemjari í deilunum við Balkanskaga. Flestir höfðu talið að Bildt myndi ekki taka sæti í stjórninni og það vakti því athygli er það spurðist út síðdegis í gær að hann yrði utanríkisráðherra í stjórn Reinfeldts. Allir leiðtogar borgaralegra fá valdamikil embætti í ríkisstjórninni. Lars Leijonborg, leiðtogi Þjóðarflokksins, mun verða menntamálaráðherra, Maud Olofsson, leiðtogi Miðflokksins, tekur við atvinnumálaráðuneytinu og Göran Hägglund, leiðtogi Kristilegra, verður félagsmálaráðherra. Anders Borg tekur við sem fjármálaráðherra.

Stærstu stefnutíðindi stjórnarinnar er vitaskuld að hún ætlar sér að lækka tekjuskatta í Svíþjóð um tæpa 40 milljarða sænskra króna á næsta ári. Það er í takt við stærsta kosningaloforð borgaralegu flokkanna og gleðiefni að sjá þessa áherslu verða að veruleika. Mér líst vel á ráðherraskipan stjórnarinnar og tel sérstaklega mikinn feng fyrir Reinfeldt að Carl Bildt verði utanríkisráðherra, enda mjög reyndur og traustur stjórnmálamaður sem á mikla pólitíska sögu í sænskum stjórnmálum.

Allar nýjustu sænsku fréttirnar eru á fréttavef Aftonbladet.

mbl.is Sænska stjórnin ætlar að lækka tekjuskatta; Bildt utanríkisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfellisdómur yfir valdatíð R-listans

Ráðhús Reykjavíkur

Það er ekki hægt að segja annað en að úttekt KPMG á fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar í tólf ára valdatíð R-listans sé áfellisdómur yfir þessum valdabræðingi félagshyggjuaflanna. Þetta er frekar svört skýrsla og sýnir vel stöðu mála. Til fjölda ára deildu meirihluti R-listans og minnihlutinn um stöðu borgarinnar og reyndi R-listinn að verjast fimlega með allskonar kúnstum sem minntu helst á sirkusbrögð töframanna frekar en skynsamlega og ábyrga forystu meirihlutaafls í sveitarstjórn. En staðan er mjög skýr í þessari úttekt og þar sést án nokkurs vafa hvernig hlutirnir eru. Það sést svo best á tali minnihlutaflokkanna nú að þau eiga ekkert svar við þessari úttekt.

Það verður ekki betur séð en að mikið verkefni sé fyrir framan meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við að laga stöðuna sem uppi er. Eru greinilega framundan stórtækar aðgerðir til að fara yfir alla fjármálastjórn borgarinnar og stokka hana upp. Það er þarfaverk eigi ekki illa að fara. Greinilegt er að R-listinn hefur velt vandanum á undan sér ár frá ári. Það er fátt gott sem ver þá stöðu eins og vel sést af tali fyrrum borgarstjóra og núverandi prófkjörsframbjóðanda Samfylkingarinnar í fréttum í gær. En vandinn liggur fyrir og hann dylst engum lengur. Það verður verkefni ábyrgra og traustra forystumanna í borginni að leysa þann vanda.

Fyrst og fremst blasir við að málflutningur Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn undanfarinn áratug hefur verið á rökum reistur. Stór hluti þeirrar gagnrýni var rétt eins og vel sést við lestur þessarar úttektar. En það er svosem enginn bættur með að benda á hvorn annan. Staðan liggur fyrir og hana þarf að leysa. En þetta er áfellisdómur yfir R-listanum sáluga og þeim sem ríktu á valdatíma hans. Þessi fortíðarvandi liggur nú fyrir. Það er mikilvægt til að geta horfst í augu við framtíðina.

mbl.is Brýnt að fara yfir fjármálastjórn Reykjavíkurborgar í heild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Bjarnason í 2. sætið

Björn Bjarnason

Það stefnir í spennandi prófkjör hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík. Ég tel mjög mikilvægt að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, verði leiðtogi flokksins í öðru kjördæminu og verði því í 2. sæti í þessu prófkjöri. Ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir yfirgripsmikilli þekkingu Björns á utanríkis- og varnarmálum og segja má með sanni að hann sé sá þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem mest þekkir þann málaflokk. Það er mikilvægt að hans framlag verði áfram til staðar í forystusveit flokksins í Reykjavík.

Björn hefur verið fyrirmynd fyrir mig og fleiri í vefmálum. Hann byrjaði með heimasíðu fyrstur íslenskra stjórnmálamanna og hefur haldið henni úti með mikilli elju og vinnusemi allan þann tíma. Hann hefur þar tjáð af miklum krafti skoðanir sínar og skrifað um pólitík og fleiri þætti þjóðmálaumræðunnar, birt þar dagbók og ennfremur allar ræður og greinar sínar. Var Björn brautryðjandi í vefskrifum stjórnmálamanna á netinu og er fyrirmynd margra í netvinnslu og í því að skrifa á vefnum.

Framlag Björns í stjórnmálum og þá einkum forysta hans í netmálum hefur skipt mjög miklu máli. Ég tel eins og fyrr segir mikilvægt að hann fái kjör í annað sæti framboðslistans í Reykjavík og styð hann til þess. Hann mun um helgina opna kosningaskrifstofu sína og hefja baráttuna. Ég hef aldrei farið leynt með stuðning minn við hann og ég t.d. er honum eilíflega þakklátur fyrir að hafa á vef sínum tengil á heimasíðu mína. Það mun ég alla tíð meta mjög mikils og önnur tengsl.

Guðmundur og Róbert í þingframboð

Guðmundur Steingrímsson Róbert Marshall

Fjölmiðlamennirnir Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall hafa nú gefið kost á sér í prófkjör Samfylkingarinnar í Suðvestur- og Suðurkjördæmi. Guðmundur, sem er sonur Steingríms Hermannssonar, fyrrum forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, var til fjölda ára virkur í stúdentapólitíkinni en lítið sinnt pólitík síðan. Stefnir hann nú á öruggt sæti í kraganum. Það stefnir í spennandi prófkjör hjá Samfylkingunni í kraganum, en þegar hafa 14 gefið kost á sér og stefnir í að hið minnsta 15 muni fara fram, ef marka má þá frétt að Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður, fari fram þar ennfremur, en hann er nú varaþingmaður Samfylkingarinnar í borginni.

Róbert Marshall, sem stýrði fréttastöð 365-miðla NFS fram í andlátið, ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og gefur kost á sér í 1. - 2. sætið í Suðurkjördæmi. Róbert er þó enginn nýgræðingur í pólitík, enda var hann formaður ungra alþýðubandalagsmanna hér fyrir áratug og var formaður ungliðahreyfingarinnar sem mynduð var úr flokksbrotunum í sameiningarferlinu sem síðar varð Ungir jafnaðarmenn. Róbert er því öllu vanur og heldur ótrauður í slaginn við þá þingmenn Jón Gunnarsson, Björgvin G. Sigurðsson og Lúðvík Bergvinsson. Hann heldur þarna til pólitískra átaka við fjölda reyndra stjórnmálamanna sem lengi hafa verið í stjórnmálum.

Sá sem fagnar minnst leiðtogaframboði Róberts er væntanlega Eyjamaðurinn Lúðvík, en heldur má telja ólíklegt eftir þetta að hann muni leiða lista flokksins í Suðurkjördæmi við þetta. Má telja mjög líklegt nú að sá sem gleðjist mest við framboð Róberts sé Árnesingurinn Björgvin G. sem mun hafa fullan stuðning Margrétar Frímannsdóttur í væntanlegum leiðtogaslag, en Björgvin hefur starfað í pólitík undir hennar forystu lengi og verið fóstraður til verka þar í hennar leiðtogatíð innan Alþýðubandalagsins í gamla daga.

En þarna verður hörkuslagur og má telja líklegt að naumt verði milli manna og líklegt að gríðarleg uppstokkun verði á forystusveit Samfylkingarinnar. Ofan á allt annað er merkilegt að sjá Guðmund kominn í slaginn, afkomanda framsóknarhöfðingjanna Steingríms og Hermanns, í framboði fyrir jafnaðarmannaflokk. Annars hafa rætur Guðmundar í stjórnmálum alltaf verið til vinstri og allir þekkja vinskap hans og Dags B. Eggertssonar, borgarfulltrúa, sem börðust saman fyrir Röskvu í stúdentapólitíkinni.

Verður Carl Bildt utanríkisráðherra Svíþjóðar?

Carl Bildt

Eins og fram kom hér fyrr í kvöld hefur Fredrik Reinfeldt verið kjörinn forsætisráðherra Svíþjóðar og hann mun tilkynna ráðherralista sinn á morgun. Nú berast fregnir af því á sænskum fréttavefum að Carl Bildt, fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, muni verða utanríkisráðherra í ríkisstjórn borgaralegu flokkanna. Teljast þetta vissulega mikil tíðindi. Bildt var forsætisráðherra Svíþjóðar á árunum 1991-1994 og því síðasti forsætisráðherra hægrimanna í Svíþjóð á undan Reinfeldt. Mun hann hafa þegið utanríkisráðherrastólinn eftir miklar samningaviðræður. Bildt var eins og kunnugt er sáttasemjari við Balkanskaga eftir forsætisráðherraferilinn og þekktur fyrir sín diplómatastörf.

Fari svo að orðrómurinn sé réttur mun Carl Bildt taka við embættinu af Jan Eliasson, fyrrum forseta allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Eliasson var skipaður utanríkisráðherra í apríl af Göran Persson, fráfarandi forsætisráðherra, í kjölfar þess að hann vék Lailu Freivalds úr embættinu. Eliasson þótti standa sig vel sem utanríkisráðherra, en fékk vissulega ekki langan tíma til verka. Eliasson var þekktur fyrir verk sín í alþjóðastjórnmálum og maður reynslu og þekkingar. Hann vann í utanríkisþjónustunni frá 1965 og var til fjölda ára ráðgjafi Olof Palme í forsætisráðherratíð hans. Hann var til fjölda ára sendiherra Svíþjóðar hjá SÞ og leiddi undir lokin allsherjarþingið.

Eliasson þótti standa sig mun betur en Freivalds sem þótti vera mistækur ráðherra og aldrei ná að höndla embættið, en hún tók við utanríkisráðuneytinu í kjölfar morðsins á Önnu Lindh haustið 2003. Greinilegt var að Persson valdi Eliasson til að reyna að snúa vörn í sókn fyrir jafnaðarmannaflokkinn í aðdraganda kosninganna. Hann var líka að veita utanríkispólitík flokksins meiri vigt en verið hafði allt frá því að hin vinsæla Anna Lindh hvarf af pólitísku sjónarsviði fyrir þrem árum. En það dugði ekki til. Ef marka má fréttir á sænsku fréttavefunum mun diplómatinn Jan Eliasson nú ætla sér að kenna við háskólann í Uppsölum í kjölfar þess að hann lætur af ráðherraembættinu.

Fari svo að Carl Bildt verði á morgun utanríkisráðherra Svíþjóðar verður fróðlegt að sjá hann aftur í fremstu víglínu sænskra stjórnmála. Hann var einn valdamesti stjórnmálamaður Svía um nokkurra ára skeið og leiddi ríkisstjórn landsins fyrir rúmum áratug. Endurkoma hans í forystu sænskra stjórnmála, nú sem forystumaður hins öfluga sænska utanríkisráðuneytis mun verða mjög athyglisverð og tryggja nýrri ríkisstjórn meiri þunga og vigt í alþjóðastjórnmálum vegna reynslu og þekkingar Carls Bildt.


mbl.is Carl Bildt sagður verða næsti utanríkisráðherra Svía
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fredrik Reinfeldt tekur við völdum í Svíþjóð

Fredrik Reinfeldt

Fredrik Reinfeldt var í dag kjörinn forsætisráðherra Svíþjóðar á sænska þinginu. 175 þingmenn kusu Reinfeldt en 169 þingmenn stjórnarandstöðunnar greiddu atkvæði gegn honum. Reinfeldt mun á morgun kynna ráðherralista sinn og flytja stefnuræðu sína í þinginu. Hann verður fjórði forsætisráðherra borgaralegra afla í sænskum stjórnmálum síðustu áratugina. Við embættistöku Reindeldts lýkur valdaferli Göran Persson, sem verið hefur forsætisráðherra í áratug, frá árinu 1996. Valdaferill sænskra jafnaðarmanna hefur staðið í áratugi, að undanskildum tveim tímabilum, 1976-1982 og 1991-1994.

Síðasti hægrimaðurinn sem var forsætisráðherra í Svíþjóð var Carl Bildt á árunum 1991-1994. Thorbjorn Fälldin og Ola Ullsten sátu við völd á árunum 1976-1982. Mikil þáttaskil verða með þessum valdaskiptum. Sænskir jafnaðarmenn hafa haft gríðarleg áhrif og lykilleiðtogar valdaskeiðs þeirra hafa verið gríðarlega valdamiklir. Tage Erlander var t.d. forsætisráðherra Svíþjóðar í 23 ár, 1946-1969 og Olof Palme var forsætisráðherra 1969-1976 og 1982-1986, er hann féll fyrir morðingjahendi í miðborg Stokkhólmar. Kratar voru lengi að fylla skarð hans. Eftirmenn Palmes, Ingvar Carlsson og Göran Persson, voru þó vissulega öflugir leiðtogar.

Sænsk pólitík hefur því lengi verið mjög vinstrilituð og áherslurnar vinstritengdar. Nú breytist það og aftur hefst valdaskeið borgaralegra afla í landinu. Þessar breytingar marka krossgötur fyrir sænska jafnaðarmannaflokkinn. Göran Persson mun hætta sem leiðtogi jafnaðarmanna í marsmánuði. Þar er enginn afdráttarlaus eftirmaður á leiðtogastóli til staðar. Mikið var talað eftir ósigurinn meðal jafnaðarmanna um að Margot Wallström yrði eftirmaður hans. Hún hefur nú með öllu aftekið að hún verði í kjöri. Helst er talað um Thomas Bodström, Carin Jämtin, Wönju Lundby-Wedin, Monu Sahlin, Leif Pagrotsky, og Pär Nuder sem leiðtogaefni nú.

En já, Reinfeldt er tekinn við. Valdaskeiði sænskra krata er lokið í bili og nú geta borgaralegu öflin tekið til við að efna sín kosningaloforð og stýra af krafti. Nú reynir á þau öfl hvernig að þeim muni ganga að vinna saman af þeim krafti sem lofað var.

mbl.is Reinfeldt kjörinn í embætti forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg fréttamennska

Alþingi

Það var mjög undarleg fréttamennska sem blasti við okkur áhorfendum kvöldfrétta Stöðvar 2 í gærkvöldi. Þar var fjallað um varnarumræðurnar á þingi. Það eina sem vísað var til í þessari frétt voru einhliða ummæli þriggja þingmanna Samfylkingarinnar. Glefsur komu úr ræðum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, Össurar Skarphéðinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, og Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Annað var það nú ekki. Það vekur mikla athygli að ekkert kom úr ræðu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, né heldur Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra. Um var að ræða eitt sjónarhorn á öryggis- og varnarmálin.

Spurning vaknar við þetta við stöðu fréttastofu NFS þegar að svo einhliða og undarlegt sjónarhorn er sett á stöðu mála. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt að skoðun Samfylkingarinnar komi fram en það er stórundarlegt að ekki sé víðara sjónarhorn á hinar löngu og ítarlegu umræður í þinginu. Það vekur mikla athygli að Þóra Kristín Ásgeirsdóttir sé enn þingfréttamaður Stöðvar 2. Móðir hennar, Sigríður Jóhannesdóttir, fyrrum alþingismaður Alþýðubandalagsins og Samfylkingarinnar, er í prófkjörsframboði fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi. Undarlegt var að Þóra Kristín skyldi fjalla um framboðsmál sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi um síðustu helgi.

Mér finnst svona einhliða sjónarhorn vart boðlegt og það kastar rýrð á fréttastofuna sem trúverðuga. Það á að vera markmið þeirra sem segja fréttir að báðar hliðar komi fram og þeim sé gert jafnt skil og ekki hallað í aðra áttina. Það sem sást í fyrrnefndri frétt telst ekki eðlileg fréttamennska og vekur margar spurningar að mínu mati.

Prófkjör eða uppstilling í Norðvestri?

Norðvesturkjördæmi

Það stefnir í spennandi kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi á Ísafirði um helgina. Stjórn kjördæmisráðs leggur ekki til eina tillögu um hvernig valið verði á lista. Það verður kosið á milli þess hvort fram fari prófkjör eða stillt verði upp á lista af kjörnefnd. Þetta verður því væntanlega átakaþing, enda eru kjörnir fulltrúar varla sammála um það hvora leiðina eigi að fara. Lengi hafði verið rætt um það að nær öruggt væri að stillt væri upp en eitthvað virðist það hafa breyst og stjórnin leggur ekki fram neina afgerandi tillögu. Fundarmenn fá því valdið í hendurnar. Það má telja að þetta verði því spennandi þinghald.

Þegar liggur fyrir að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fara fram. Í kosningunum 2003 hlutu Sturla Böðvarsson, Einar Kristinn Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson. Í næstu sætum á eftir urðu Guðjón Guðmundsson, Adolf H. Berndsen, Jóhanna Pálmadóttir og Birna Lárusdóttir. Í aðdraganda kosninganna var haldið umdeilt prófkjör í kjördæminu. Þar munaði rétt rúmlega 40 atkvæðum að sveiflur yrðu með þeim hætti að Sturla yrði undir fyrir Vilhjálmi Egilssyni, sem varð fimmti, og þeir hefðu sætaskipti. Vilhjálmur tók ekki sætið og umræða varð um brot á prófkjörsreglum vegna utankjörfundarkosningar.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig verður með stöðu mála. Það er ljóst að flokkurinn á tvo ráðherra í kjördæminu. Sturla hefur verið samgönguráðherra frá 1999 og Einar Kristinn sjávarútvegsráðherra frá haustinu 2005. Báðir hljóta þeir að vilja leiða listann. Einar Oddur fer svo aftur fram. Auk þeirra hafa Borgar Þór Einarsson, formaður SUS, Bergþór Ólason, aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar, og Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og varaþingmaður, tilkynnt um áhuga sinn á framboði. Það má því búast við spennandi prófkjöri verði sú ákvörðun ofan á. Það eru skýrar fylkingar þarna og spennan um hvaða leið verður ofan á við að velja listann.

Í kosningunum 2003 fékk Sjálfstæðisflokkurinn góða útkomu í Norðvesturkjördæmi. Það var eina kjördæmið þar sem flokkurinn annaðhvort hélt sinni stöðu nokkurnveginn og bætti örlitlu við sig. Það gerðist þrátt fyrir umdeilt og harðvítugt prófkjör sem skilaði fylkingamyndun og illindum. Nú er spennan enn í Norðvestri og verður fróðlegt að sjá hvaða leið verður ofan á um helgina.

mbl.is Kosið á milli tveggja kosta við uppstillingu á lista í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisstefna í felulitunum

ISG

Fyrir nokkrum vikum kynntu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og félagar hennar svokallaða umhverfisstefnu, sem gerði ekki ráð fyrir nýjum stóriðjukostum næstu fimm árin. Þar var Kristján L. Möller reyndar með kökkinn í hálsinum við að tala sér þvert um geð, en hvað með það. Vandræðin voru ekki fullnumin þar, fjarri því. Kynningunni hafði varla lokið á blaðamannafundinum þegar að flokksfélagar Ingibjargar Sólrúnar sem eru í forystusveit Samfylkingarinnar um allt land voru komnir í fjölmiðla með grátstafinn í kverkarnar lafmóðir við að tilkynna nú kjósendum sínum að auðvitað yrði stóriðjukosturinn heima í héraði fyrstur á dagskrá. Þetta ætti ekki við það.

Það var með ólíkindum að horfa á þennan vandræðagang Samfylkingarinnar. Þau komu í fjölmiðla eitt af öðru: Örlygur Hnefill Jónsson, varaþingmaður á Húsavík, Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs á Akureyri, Jón Gunnarsson, alþingismaður í Reykjanesbæ, Anna Kristín Gunnarsdóttir alþingismaður í Skagafirði, og svona mætti lengi telja. Ekki fyrr hafði heldur kynningunni lokið en farið var að rifja upp afrek Samfylkingarinnar innan R-listans, t.d. í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur þar sem farið var yfir fjölda virkjunarkosta og verkefna á vegum fyrirtækisins. Þessi umhverfisstefna fuðraði því hratt upp eins og flugeldur á hinu fallegasta gamlárskvöldi.

Í dag berast fréttir af því t.d. að skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur samþykkt að í aðalskipulagi verði gert ráð fyrir og sýnd möguleg svæði til virkjunar Héraðsvatna, einkum við Villinganes og Skatastaði. Hverjir fara nú annars með völd í Skagafirði? Jú, það eru Samfylking og Framsóknarflokkur. Samfylking mun t.d. stýra fyrrnefndri bæjarnefnd sem samþykkti þetta. Það fer því ekki saman tal og ákvarðanir innan Samfylkingarinnar. Annars er þessi stefna greinilega vandræðabarn flokksins og virðist hvorki falla í kramið né vera sett fram að vilja og með áhuga flokksmanna. Það sést altént vel af öllum vinnubrögðunum.

Er annars rétt sem sagt er að umhverfisstefnan brjóstumkennanlega hafi verið samin af einum manni í starfi á flokkskontórnum? Heyrast hafa sögusagnir um að Dofri Hermannsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hafi verið settur beinlínis í þetta verk að búa til stefnu um málið. Hann virðist hafa verið kallaður til verka til að reyna að muna hversu margir stóriðju- og virkjunarsinnar væru í Samfylkingunni. Þar sem ég starfa í flokki er fyrirbæri sem heitir landsfundur þar sem starfa málefnanefndir sem móta drög að ályktunum sem fara svo fyrir landsfundinn. Það er hið sanna lýðræði, ekki það að skipa einvald við alla stefnumótun.

Vandræði Samfylkingarinnar virðast sér fá mörk eiga þessar vikurnar. Þessi umhverfisstefna í felulitunum er eitt klúðrið. Á meðan að andstæðingar hlæja að henni eru forystumenn flokksins um hinar dreifðu byggðir að sverja hana af sér eins og erfðasyndina. Þessi fagurgalastefna flokkast því sem hver önnur mistök höfuðborgarmiðuðu forystunnar sem er að reyna að vera hip og kúl á kostnað landsbyggðarforystunnar. Skondið fyrirbæri þessi stefna í felulitunum.

Feilskot Frjálslyndra

Guðfinna Bjarnadóttir

Það er með ólíkindum að fylgjast með árás Sigurjóns Þórðarsonar, þingmanns Frjálslyndra, að Guðfinnu Bjarnadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík, sem fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Þar var vitnað í skrif á heimasíðu þingmannsins þar sem hann fordæmir að Guðfinna hefði sent út tölvubréf til starfsmanna og nemenda skólans þar sem að hún tilkynnti um þingframboð sitt, áður en það var gert opinbert á blaðamannafundi um síðustu helgi. Mér finnst þetta í einu orði sagt feilskot hjá þingmanninum og í takt við allt annað sem frá frjálslyndum kemur þessar vikurnar. Þar virðist hvorki standa steinn yfir steini og ef marka má kannanir er flokkurinn á góðri leið með að þurrkast út.

Að mínu mati var algjörlega hárrétt hjá Guðfinnu að senda nemendum þetta tölvubréf og tilkynna þessa ákvörðun sína, enda sést með þessu að hún telur nemendurna samstarfsfólk sitt í skólanum og virðir þau það mikið að láta þau vita hvernig staða hennar er. Mér finnst þetta óttaleg lágkúra hjá þingmönnum frjálslyndra og kannski afhjúpar þetta allra mest vandræði þessa örflokks. Allavega fannst mér Guðfinna bregðast rétt við og gera þetta rétt og heiðarlega. Hún er að fjalla um framtíð sína í starfi, það kemur skólanum við og öll staða málsins á þessum tímapunkti er mál sem henni bar að kynna þeim sem í skólanum eru.

En annars kemur þessi lágkúra frjálslyndra mér ekki á óvart. Allir sem þekkja til vinnubragða og talsmáta þingmanna flokksins eru varla hissa. Það er svosem varla undrunarefni að liðsmenn stjórnarandstöðunnar fari á taugum við framboð Guðfinnu Bjarnadóttur, en þetta er slíkur fellibylur í vatnsglasi að annað eins hefur vart sést lengi.

Sigríður Anna Þórðardóttir gefur ekki kost á sér

Sigríður Anna Þórðardóttir

Sigríður Anna Þórðardóttir, alþingismaður og fyrrum ráðherra, tilkynnti á kjördæmisþingi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í kvöld að hún myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs í komandi þingkosningum. Það eru nokkur tíðindi að Sigríður Anna hafi ákveðið að draga sig í hlé, en hún hefur verið öflug í forystusveit flokksins undanfarin 15 ár og gegnt mörgum trúnaðarstörfum. Hún var kjörin til setu á Alþingi Íslendinga árið 1991. Hún gegndi formennsku í menntamálanefnd Alþingis 1991-2002, utanríkismálanefnd 2002-2003 og umhverfisnefnd 2003-2004. Sigríður Anna var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins 1998-2003.

Sigríður Anna Þórðardóttir er eini þingmaðurinn í sögu Sjálfstæðisflokksins sem gegnt hefur embætti umhverfisráðherra, en hún sat á ráðherrastóli 2004-2006. Hún var vinnusöm og dugleg sem ráðherra, eins og í öðrum verkum. Fannst mér hún standa sig betur en nokkur annar ráðherra málaflokksins til fjölda ára og hún leiddi fjölda mála innan ráðuneytisins af miklum krafti. Það segir mest um verk hennar að meira að segja stjórnarandstæðingar sáu eftir henni er hún hætti sem ráðherra. Það var okkur sjálfstæðismönnum mikil vonbrigði að hún skyldi ekki verða áfram ráðherra við uppstokkunina innan ríkisstjórnarinnar við afsögn Halldórs Ásgrímssonar í sumar.

Persónulega vil ég þakka Siggu öll verk hennar fyrir Sjálfstæðisflokkinn, nú við þessi þáttaskil hennar. Hún hefur verið duglegur félagi í flokksstarfinu og lagt sig alla fram í verkin fyrir hönd flokks og þjóðar á sínum stjórnmálaferli. Sérstaklega vil ég þakka allt sem hún hefur gert fyrir mig í minni pólitík, t.d. gestapistilinn góða sem ég bað hana að skrifa til okkar ungliðanna á sus.is fyrir um ári, og lagt af mörkum fyrir okkur flokksfélaga hér fyrir norðan, en hún hélt hér öflugan fund um umhverfismál í samráði við Sjálfstæðisfélag Akureyrar hér í sinni ráðherratíð og sýndi okkur hvers hún mat flokksstarfið hér á svæðinu.

Það er mikil eftirsjá af Siggu að mínu mati og við hæfi að henni sé þakkað fyrir sitt góða verk. Ég vil óska henni alls góðs á nýjum vettvangi, þegar að stjórnmálaferlinum lýkur.


mbl.is Sigríður Anna Þórðardóttir hyggst hætta á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón staðfestir sögusagnir um borgarframboð

Jón Sigurðsson

Mér skilst á því sem kemur fram á vef Steingríms Ólafssonar í kvöld að nú hafi Jón Sigurðsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tilkynnt formlega um það sem allir vissu, þ.e. að hann ætli að gefa kost á sér í Reykjavík nú í komandi þingkosningum að vori. Allt frá afsögn Halldórs Ásgrímssonar og því er Jón Sigurðsson kom inn í ríkisstjórn hefur verið rætt um það sem næstum öruggan hlut að Jón færi fram í borginni og það var svo staðfest í raun þegar af honum sjálfum er fram kom að hann færi ekki gegn sitjandi kjördæmaleiðtogum flokksins í aðdraganda kosninganna við að stilla upp lista.

En það er svo hinsvegar staðreynd að ekki er beint um auðugan garð að gresja í borginni fyrir framsóknarmenn. Björn Ingi Hrafnsson komst naumlega inn í borgarstjórnarkosningunum í vor og skv. könnunum hefur flokkurinn aðeins 5% fylgi í báðum borgarkjördæmunum. Það er því ljóst að formaður flokksins er ekki öruggur um kjör í borginni skv. stöðunni á þessari stundu. Það verður verkefni hans að vinna að því að efla flokkinn á kosningavetrinum í borginni og víða um land. Staða Framsóknarflokksins er veikust í þéttbýlinu og þar er hann vart að mælast reyndar nú.

Í gærkvöldi flutti Jón Sigurðsson jómfrúrræðu sína á þingi. Það var vissulega mjög settleg viðhafnarræða, en ekki full af eldmóð eða baráttuhug svosem. Það var svolítið undarlegt að Jón skyldi ekki gefa meira upp um sínar skoðanir og áherslur í stjórnmálum. Hann þarf kynningar við, enda er hann ekki stjórnmálamaður frá fornu fari. Jón er ekki þekktur stjórnmálamaður og þarf að gefa meira upp um afstöðu sína í málum og kynna manninn á bakvið þennan einn valdamesta stjórnmálamann landsins. Það verður verkefni hans á þessum vetri, tel ég.

Þetta verður örlagavetur Framsóknar. Nái hann ekki að eflast undir forystu hins nýja formanns gæti svo farið að framtíðarfólk hans falli allt út og eftir standi lið fortíðar fyrrum forystu og þá er hann á leið í stjórnarandstöðu. Það blasir við að hann endar í því hlutskipti fái hann ekki yfir 10% sem hann hefur verið að mælast með undanfarnar vikur hjá Gallup.

Mamma sextug

Vilborg Friðriksdóttir

Móðir mín, Vilborg Guðrún Friðriksdóttir, er sextug í dag. Ég vil í tilefni dagsins óska henni því að sjálfsögðu innilega til hamingju með daginn.

Hún er stödd á Benidorm nú þessar vikurnar í tilefni afmælisins. Hátíðarhöld verða því ekki í fjölskyldunni vegna afmælis hennar fyrr en heim er komið. Við systkinin komum þó saman í dag hér á Akureyri og fengum okkur létt og gott afmæliskaffi en heyrðum í afmælisbarninu á þessum merkisdagi með sínum hópi úti. 

Merkileg umræða um varnarmál á þingi

Alþingi

Ég fylgdist áðan lauslega með umræðum um varnarmál á Alþingi. Þar flutti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, munnlega skýrslu um niðurstöðu varnarviðræðnanna við Bandaríkin og fór yfir stöðu mála á þeim þáttaskilum að bandaríski herinn hélt héðan á brott um síðustu helgi. Það markaði endalok 66 ára hersetu á Íslandi og þar af lykilbreytingar á 55 ára gömlum varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Forsætisráðherra flutti ítarlega ræðu um málið og við tók umræða um stöðuna sem uppi er nú við þessi þáttaskil í varnarmálum landsins. Það var miklu fróðlegra að hlusta á umræðuna, en ég hafði búist við áður, þó að ég átti von á að þar kæmu fram ólíkar skoðanir.

Það fer ekki á milli mála hversu ólíkar meginlínur liggja í öryggis- og varnarmálum milli t.d. Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Þær komu mjög áberandi fram bæði í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi og ekki síður í umræðunni á þingi í dag. Greinilegt er að Samfylkingin firrir sig allri ábyrgð á varnarmálum og spilar sig stikkfría. Þetta eru svosem engin stórtíðindi, en teljast þó stór í sögulegri merkingu sé litið til þess hvaðan að Samfylkingin er ættuð. Einu sinni áður en þetta allrahanda vinstritól var stofnað átti það að sækja rætur inn í gamla Alþýðuflokkinn. Utanríkispólisía Samfylkingarinnar á ekkert skylt við þær rætur. Svo mikið er víst.

Eitt sinn var það nú svo að lýðræðisflokkarnir íslensku studdu allir sem einn það sem vestrænar þjóðir voru að gera og voru með viss áþekk meginstef í utanríkismálum. Nú hefur það greinilega gerst að gamla Alþýðubandalagið hefur náð yfirhöndinni í Samfylkingunni í utanríkismálum. Það blasir við öllum sem horfa á þá stefnu sem frá þingmönnum flokksins kemur. Þar eru enda nú í forystusveit rauðsokkur og gamlir sófakommar. Ég hélt að ég myndi aldrei skrifa eða segja þetta en jæja hér læt ég flakka það: ég sakna áherslna og skoðana gömlu kratanna í utanríkismálum, einkum varnar- og öryggismálum. Þær skoðanir eru orðnar algjört eyland í því vinstrajukki sem Samfylkingin er. Þar eru áherslur og hjal gamaldags sossa í forgrunni og virðast vera ráðandi í stefnutali.

Þetta er merkileg niðurstaða umræðnanna í dag. En mér fannst forsætisráðherra komast vel að orði og fara vel yfir stöðu mála. En enginn hefur reyndar orðað Samfylkinguna og ráðleysi hennar betur en Davíð Oddsson. Hann var flottur á þingi fyrir tveim árum er hann kom í pontu og sagði að Samfylkingin væri eins og hver annar afturhaldskommatittsflokkur. Það er nú sem þá rannsóknarefni fyrir sagnfræðingana að greina hvað varð um kratana og áherslur þeirra í öryggis- og varnarmálum eftir að Alþýðuflokkurinn varð hornreka aumingi innan Samfylkingarinnar.

mbl.is Furðar sig á því að Samfylkingin firri sig ábyrgð á varnarmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband