5.10.2008 | 17:56
Lífeyrissjóðir færa 200 milljarða til landsins
Allir bíða eftir niðurstöðu helgarfundanna í Ráðherrabústaðnum þar sem tugir manna labba inn og út af fundi Geirs Haarde, forsætisráðherra, og Össurar Skarphéðinssonar, starfandi utanríkisráðherra og leiðtoga Samfylkingarinnar. Ég bíð samt eftir því að vita hvernig það fari í fólk að 200 milljarðar af erlendum eigum lífeyrissjóðanna verði fluttar til landsins og notaðar í björgunaraðgerðirnar margfrægu. Finn vel að skoðanir eru skiptar um það.
Sögusagnirnar af því hverjar tillögurnar munu verða eru reyndar orðnar svo margar að erfitt er að vita hver sé sönn. Þó er eitt ljóst að eitthvað fer að gerast, fréttamönnum til gleði og ánægju. Mér skilst reyndar að fréttamenn fái ekki einu sinni að fara á klósettið í Ráðherrabústaðnum, svo mikil er leyndin, þar sem fundað er í öllum herbergjum.
![]() |
Biðlað til helstu vinaþjóða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.10.2008 | 15:16
Biðin mikla við Ráðherrabústaðinn
En að fylgjast með fréttamönnunum núna minnir á biðina við Höfða fyrir 22 árum þegar öll heimsbyggðin beið eftir Reagan og Gorbachev. Ætla að vonbrigðin eftir þá bið verði ekki eins mikil núna.
![]() |
Ráðherrar og þingmenn koma og fara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.10.2008 | 11:56
Kuldalegt haust - timburmennirnir eftir veisluna
Þetta haust hefur verið kuldalegt að mörgu leyti. Góðærisfylleríið er svo sannarlega búið og timburmennirnir orðnir svæsnir og verða það á næstunni. Mitt í öllum erfiðleikunum hér heima á Fróni er áhugavert að heyra sjónarmið annarra á vandamálin sem steðja að okkur. Fannst fróðlegt að' lesa ítarlega umfjöllun Sunday Telegraph og svo sá ég fína samantekt á Sky um þetta og þar voru umræður í setti þar sem okkur var ekki beint spáð góðu.
Áhugi breskra fjölmiðla á ástandinu hér er mjög mikill og þeir virðast dekka okkur ansi vel í fréttatímunum og á netinu. Einn sérfræðingurinn sagði að það væri sérstaklega áhugavert fyrir sig sem fræðimann að skoða svona míkró-vandamál efnahagslega, þar sem ekki væri einu sinni hægt að beila út bankana eftir allt fylleríið. Merkilegar yfirlýsingar.
En vonandi verður veturinn betri en haustið, segi ég eins og einn grínistinn.
![]() |
Veislan búin á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2008 | 21:32
Frábær þáttur hjá Spaugstofunni
Spaugstofan hefur jafnan verið best í stuttum þáttum með heilsteyptum brag um eitt lykilmál í kastljósi fjölmiðlanna - þáttur unninn í hraða stórmálanna. Ég hef stundum gagnrýnt Spaugstofuna þegar ég hef verið ósáttur við þá en hrósa þeim núna.
4.10.2008 | 17:55
Mun ESB-hnútukastið verða stjórninni að falli?
Mér finnst nú svolítið sérstakt ef umræðurnar á milli aðilanna í Ráðherrabústaðnum um efnahagsaðgerðir séu að snúast upp í hnútukast um Evrópusambandsaðild og Evruna. Mér sýnist sem aðilar séu að reyna að læða þeim tillögum inn í pakkann, sem skiptimynt fyrir aðild sína að viðræðum. Því má búast við að mikil ólga sé á fundinum og tekist á um áherslur ef það á að vera leið til niðurstöðu málsins.
Ég velti því fyrir mér hvort ríkisstjórnin muni kannski springa á ESB-talinu. Hvað gerist ef Samfylkingin setur þetta sem skilyrði. Er þá ekki stjórnin sprungin miðað við afstöðu Sjálfstæðisflokksins? Ef það gerist er VG komið í oddastöðu í íslenskum stjórnmálum.
![]() |
Tekist á um ESB-tillögu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2008 | 17:42
Barnaleg ályktun hjá UJ
Mér finnst svosem allt í lagi að UJ sé ósátt við Davíð Oddsson. Þau mega það mín vegna. Orðalagið finnst mér hinsvegar barnalegt, svo ekki sé nú fastar að orði kveðið. Að tala um gjöreyðingarvopn í sömu andrá og Davíð Oddsson finnst mér kostulegt. Ég veit ekki hvað yrði sagt um SUS, t.d., ef þaðan kæmi ályktun eða flutt yrði ræða þar sem embættismanni, sem er flokksbundinn í Samfylkingunni, yrði líkt við gjöreyðingarvopn.
En kannski tekur enginn þessa ræðu trúanlega - mun frekar sem gríni. Má vera.
![]() |
Krefjast þess að Davíð víki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.10.2008 | 16:38
Löngu tímabær fundur - beðið eftir niðurstöðu
Steingrímur J. sagði í umræðum um stefnuræðuna að sitja ætti á fundi þar til lausn væri í sjónmáli. Ég er sammála því. Fólkið við borðið á helst ekki að fara þaðan út fyrr en eitthvað traust stendur eftir sem hægt er að ná saman um og vonandi fer það svo, sem fyrst. Því er ekki óvarlegt að ætla að fundurinn standi fram eftir kvöldi.
Í veikindum Ingibjargar Sólrúnar hefur Össur Skarphéðinsson tekið tímabundið við embætti utanríkisráðherra og greinilega stjórnar nú málum af hálfu Samfylkingarinnar. Enginn vafi leikur lengur á því hver er næstráðandi ISG þar á bæ. Þeir Geir sitja allavega saman hlið við hlið andspænis þeim sem rætt er við.
Ég vona að fundurinn gangi vel. Allir landsmenn bíða eftir einhverju alvöru tillögum í stað mikils blaðurs um það sem allir vita.
![]() |
Geir: Langur fundur að hefjast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2008 | 14:22
Skuldsett æska landsins - ófjárráða skuldarar
Því væri áhugavert að vita hvað þeir skulda sem í raun eru ábyrgir fyrir sínum skuldum, þeir sem hafa náð átján ára aldri. En kannski er þetta ein lexían enn. Þegar æska landsins er orðin skuldug upp fyrir haus er ekki von á góðu, meira að segja ungt fólk sem er ekki fjárráða. Hinsvegar heyrir maður margar sögur af þeim sem hafa skuldsett sig mikið fyrir tvítugt og eiga mjög erfitt þessa dagana.
![]() |
Íslensk ungmenni eru mörg mjög skuldsett |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2008 | 13:43
Dramatíkin í heimi stjórnmálanna
Lengi í gær bjóst ég við stórtíðindum, eitthvað myndi gerast í málinu. Ekki fór það svo. Enn þarf þjóðin að bíða eftir því að eitthvað komi frá stjórnvöldum. Ég ætla að vona að sú bið taki ekki mikið lengri tíma. Mikilvægt er að eitthvað komi á borðið, annað en staðlað blaður.
Ólafur Ragnar talaði reyndar til þjóðarinnar. Mér fannst hann tala í þeim örfáu lausnum sem eru í stöðunni. Fyrir einhverja virkaði þetta hughreystandi ef marka má netskrif. Ég fór ósjálfrátt að hugsa um hvað forsetinn hefði nú treyst útrásarvíkingunum mikið.
Reyndar fór ég að hugsa um hvort forsetinn væri að senda út þau skilaboð að hann yrði við stjórnvölinn myndu stjórnmálamenn ekki standa sig í stykkinu, svona svipað og dr. Kristján Eldjárn í umbrotatímum síðari hluta áttunda áratugarins.
Könnun Stöðvar 2 í gær var reyndar stórtíðindi dagsins að mínu mati. Þar kom fram að ríkisstjórnin hefur tapað miklu fylgi. Þegar spurt var um flokka var fylgið meira og minna í sömu skorðum og áður. Ergó: stjórnarandstaðan græðir ekki á stöðunni.
![]() |
Blikkandi gemsar í þingsalnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.10.2008 | 22:39
Glitnismyndbandið segir alla söguna
Ég mæli með myndbandinu um söguna á bakvið það sem gerst hefur í Glitni að undanförnu sem lauk með því að bankinn var þjóðnýttur. Vel gert myndband - fullt af ískyggilegum staðreyndum.
Bendi á myndböndin tvö um FL Group, sem voru ekki síður vel gerð.
3.10.2008 | 15:16
Þorsteinn Már stjórnarformaður Glitnis áfram?
Auðvitað var þetta ljóst alla vikuna, enda fór þetta ekki í þetta ferli af algjörri tilviljun. Þetta er vond niðurstaða fyrir hluthafa en yfirlýsing stjórnarformannsins skýrir línur í þessum efnum til muna. Væntanlega felst í þessu líka yfirlýsing um að hann ætli sér að taka tilboði ríkisins um að gegna formennsku áfram.
![]() |
Hvetur hluthafa Glitnis til að samþykkja tilboð ríkisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.10.2008 | 15:02
Dómsdagsspá fræðimannsins
Ég er ekki hissa á því að allt sé orðið vitlaust vegna ummæla Gylfa Magnússonar. Ummæli fræðimanns í Háskólanum um að íslenska fjármálakerfið sé komið í greiðsluþrot er aðeins til þess fallið að leiða til ofsahræðslu almennings. Þetta er dökk spá og greinilegt að stjórnmálamenn og yfirmenn Seðlabankans eru ekki tilbúnir til að skrifa undir hana og skal engan undra. Gangi þessi spá eftir er samfélagið orðið frosið í gegn og við öll komin á vonarvöl.
Vissulega er staðan vond en þegar fræðimenn nota stöðu sína til að koma með svona spár er ekki við öðru að búast en samfélagið fari í panik-ástand. Tal fræðimannsins rímar reyndar við það sem forstjóri N1 sagði í gær og yfirlýsingar Baugs um að nú þurfi að fara að hamstra mat. Þetta eru alvarlegar yfirlýsingar og leiða aðeins til þess að þjóðin sekkur í þunglyndi og vonleysi, ekki aðeins um næstu vikur heldur framtíð sína á komandi árum.
![]() |
Davíð: Menn tali varlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.10.2008 | 14:34
Snjókornin og stefnuræðan
Mér fannst mjög táknrænt að það skyldi fara að snjóa þegar Geir Haarde flutti stefnuræðu sína. Þetta einhvern veginn rammaði inn alvarlega stöðuna sem blasir við. Ræðan var mjög tómleg og engin þau tíðindi í henni sem átt var von á. Ég heyri það á öllum sem ég tala við að ræðan var gríðarleg vonbrigði og einhvern veginn til marks um lánleysi þeirra sem ráða för. Einn kallaði ræðuna skipbrot fjármálaráðherrans á góðæristímunum á meðan annar nefndi hana snjókornaræðuna.
Bind vonir við að eitthvað gerist í dag, eins og fram kemur víða nú eftir því sem liðið hefur á daginn. Allir bíða eftir aðgerðum, sama hvar þeir eru í samfélaginu. Nú er þörf á traustri forystu, landsmenn sjái að það er röggsamt og ákveðið fólk við stjórnvölinn þegar mikilvægast er að einhver standi við stýrið.
![]() |
Búist við tíðindum í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.10.2008 | 10:59
Eru stjórnarslit í uppsiglingu?

Mér finnst ráðaleysi ríkisstjórnarinnar, sem kom fram í því að ekki var tilkynnt um neitt stórvægilegt í stefnuræðunni, koma fram í þessu. Afleitt er ef ekki tekst samkomulag sem fyrst um næstu skref í þeirri stöðu sem blasir við íslensku þjóðinni. Nú er mjög mikilvægt að náð verði samkomulagi um áherslur og hugsað til framtíðar en ekki litið í baksýnisspegilinn.
Ég hef haft það á tilfinningunni seinnipart vikunnar að ríkisstjórnin komi sér ekki saman um mikilvægar áherslur og sé hikandi á örlagatímum þjóðarinnar. Auðvitað er það vont og enn verra verður það ef stjórnarslit verða í þessari krepputíð sem blasir við þjóðinni. En á það verður að líta að stjórnin hefur verið ráðalaus mjög lengi og átt erfitt með að stilla saman strengi í lykilmálum.
En þessi fréttaskýring kemur fréttaviðtalinu með Þorgerði og Björgvini í annað ljós, svo sannarlega. Hitt er svo annað mál að Samfylkingin hefur verið veik í atburðarás vikunnar. Formaðurinn er víðsfjarri vegna veikinda, varaformaðurinn utan stjórnar, án hlutverks, og sá sem í raun leiðir flokkinn hefur ekki leiðtogahlutverk innan hans, þó vissulega sé hann fyrsti formaður hans.
![]() |
Íhuguðu að slíta stjórnarsamstarfinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.10.2008 | 00:58
Geir leiðréttir Davíð - sammála Þorgerði

Er hún með þessu að hugsa næstu skref og tryggja sér eigin sess og sýna sjálfstæði eða bara að tækla stöðuna eina og sér? Geir tekur reyndar undir með Þorgerði en leiðréttir samt Davíð í næstu setningu og telur rangt eftir honum haft.
Hvernig stendur á því að sömu ráðherrar og sátu fundinn þar sem ummælin komu fram túlka þau svo gjörólíkt?
![]() |
Var ekki að viðra hugmyndir um þjóðstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.10.2008 | 22:31
Semur Bubbi lag gegn FL Group og Hannesi?
Ætli hann semji ekki lag gegn þessum stórbissnessmönnum og hvernig þeir stóðu sig í þessu stóra fyrirtæki? Held að fáir geti samið listrænan óð um þetta allt saman. Allavega er Bubbi í þannig stuði að geta samið lag gegn þessum mönnum.
Veit ekki hvort mótmælin hans Bubba ná samhljómi. Þjóðin virðist á síðustu stigum hafa orðið æ meira ósammála Bubba og áherslum hans. Kannski súmmerar hann andstöðuna upp með lagi gegn þeim sem fóru illa með peningana hans.
![]() |
Bubbi boðar til mótmæla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.10.2008 | 21:00
Tómleg stefnuræða á örlagatímum þjóðarinnar
Þetta eru þannig tímar að traust forysta þarf að vera til staðar. Í þeim efnum dugar ekkert hálfkák og blaður um annað. Verkefnið framundan er alveg augljóst, en það þarf líka að hafa leiðtoga sem tala afgerandi og traust til landsmanna og ná tiltrú þeirra. Allir landsmenn finna á eigin skinni hvert stefnir.
Orð eru að mörgu leyti góð, það þarf að tala kraft og kjark í þjóðina við þessar aðstæður. Ég skil vel að stjórnarandstaðan geti talað út og suður, en það skiptir minna máli. Þeir sem fara með völdin í landinu þurfa að ná tiltrú þjóðarinnar og tala þannig að fólk telji að eitthvað verði gert. Þetta vantaði í kvöld.
Stefnuræða forsætisráðherrans var þó vissulega full af ágætis vangaveltum og stefnumálum. Farið var yfir verksvið ráðuneytanna. Mér fannst það ágætt að heyra stefnumálin. En í raun skipta þau litlu máli meðan krónan er í frjálsu falli og landsmenn stefna í þrot. Þar þarf að tala um lausnir á vandanum.
Ef pólitíska forystan nær ekki tökum á stöðunni fyrir landsmenn alla mun illa fara. Ég neita að trúa því að stefnuleysið sé svo algjört sem raun ber því miður vitni í þessum umræðum um tómlegu stefnuræðuna.
![]() |
Glitnisaðgerð ekki endapunktur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.10.2008 | 19:41
Váleg tíðindi - Geir og væntingarnar
Mér fannst reyndar fróðlegt að sjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, í kvöldfréttum fréttastofu RÚV og í Íslandi í dag ekki aðeins vísa þjóðstjórnarhugmyndunum hans Davíðs á bug heldur setja honum sín mörk. Hún ætlar greinilega að sýna sjálfstæði sitt í þessari stöðu og virðist óhrædd við að gagnrýna seðlabankastjórann.
![]() |
Gjaldeyriskreppa á Íslandi? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.10.2008 | 14:45
Skelfileg staða - mikilvæg ræða fyrir Geir
Á þessum erfiðu tímum er mikilvægt að leiðtogar þjóðarinnar tali til hennar, hreint út og komi með aðgerðir í stöðunni. Í kvöld mun Geir H. Haarde, forsætisráðherra, flytja stefnuræðu sína og hlýtur þar að koma með eitthvað á borðið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Annað hljómar ekki trúverðugt. Þetta verður mikilvægasta ræða Geirs á ferlinum til þessa, allt að því úrslitaræða fyrir forystu hans og hvernig hann geti tekið á þeirri alvarlegu stöðu sem komin er upp.
Sumum fannst ég tala óvarlega fyrir nokkrum vikum þegar ég sagði að pólitísk staða Geirs myndi ráðast í vetur. Það var þá, en annað er nú. Ég held að það blasi við öllum að hans staða muni ráðast mikið á því hvernig tekst til á næstu vikum og mánuðum. Við erum komin í kreppu sem við höfum ekki upplifað áður og fylgst með hverju því sem ráðamenn gera á svo erfiðum tímum.
![]() |
Hlutabréf og króna hríðfalla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.10.2008 | 09:57
Þjóðstjórnarhugmyndin hans Davíðs
Þjóðstjórnarhugmyndin sýnir vel hversu sterka stöðu Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, hefur fyrr og nú í íslenskum stjórnmálum. Hitt er svo annað mál hvort skynsamlegt sé að mynda slíka stjórn á krepputímum. Kannski væri það snilld ef allir flokkar landsins væru sterkir og gætu höndlað völd á þessum tímapunkti.
Mér finnst stjórnarandstöðuflokkarnir mjög veikir. Framsóknarflokkurinn hefur ekki náð vopnum sínum í stjórnarandstöðu og hefur ekki bætt stöðu sína þrátt fyrir allar kjöraðstæður - að óbreyttu eru formannsskipti framundan þar mjög fljótlega. Staða forystunnar er veik og ræðst af gengi í könnunum á næstunni.
Frjálslyndi flokkurinn getur ekki einu sinni stjórnað sjálfum sér, hvað þá heilli þjóð. Enda sýndust mér flestir líta á hann sem óstjórntækan eftir síðustu kosningar. Velt var fyrir sér að bæta honum við sem aukahjóli undir áframhaldandi stjórn B og D vorið 2007 en það varð aldrei neitt nema talið eitt. Var óraunhæft.
VG er eini flokkurinn þar sem hægt er að hafa á tilfinningunni að formaðurinn fari með flokk sinn alveg örugglega í kosningar. Og þó, mér finnst Steingrímur J. orðinn svolítið þreyttur. Vonbrigðin eftir síðustu þingkosningar voru mikil. Flokknum var spáð miklu fylgi og forystuhlutverki til vinstri en náði ekki að sækja það.
Hitt er svo annað mál að ríkisstjórnin hefur virst veik á mikilvægum stundum að undanförnu. Sérstaklega er Samfylkingin í erfiðri stöðu núna, með formanninn fjarri vegna veikinda og varaformann utan ríkisstjórnar og án hlutverks. Stóra spurningin er hvort skipt verði um varaformann þar næst.
Þjóðstjórnin er góð hugmynd á krepputímum, enda eðlilegt að velta öllu fyrir sér á slíkum tímum, en verður sennilega ekkert meira en það, hugmyndin ein, þar sem ekkert bit er í stjórnarandstöðunni.
![]() |
Seðlabankastjóri viðrar hugmynd um þjóðstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)