Sigur Árnanna í Suðrinu - þrír þingmenn falla

Árni M. Mathiesen Úrslit lágu fyrir undir morgun í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, er nýr leiðtogi flokksins í kjördæminu. Árni M. hefur setið á þingi frá árinu 1991 og verið ráðherra allt frá árinu 1999. Hann hefur verið kjördæmaleiðtogi frá 1999, fyrst í Reykjaneskjördæmi og síðar í Suðvesturkjördæmi. Árni hlaut innan við helming atkvæða í fyrsta sætið í þessu prófkjöri. Það hljóta að teljast gríðarleg tíðindi, sem um verður rætt, miðað við samkeppnina sem hann hlaut um sætið.

Árni Johnsen, fyrrum alþingismaður, snýr aftur og vinnur góðan sigur í prófkjörinu. Hann er aftur á leið á þing. Árni Johnsen er svo sannarlega ekki óvanur þingmennsku, en hann var alþingismaður á árunum 1983-1987 og 1991-2001, en hann varð þá að segja af sér vegna hneykslismáls. Hann tók út sína refsingu og dvaldi m.a. á Kvíabryggju. Hann hlaut uppreist æru síðsumars af handhöfum forsetavalds. Endurkoma Árna í stjórnmálin er umdeild. Mér líkar ekkert alltof vel þessi endurkoma, hreint út sagt. Þetta á eftir að verða umdeilt að flestu leyti. En flokksmönnum í Suðurkjördæmi gafst færið á að kjósa og ekki betur hægt að sjá en að þeir vilji Árna aftur í fremstu víglínu hjá sér.

Drífa Hjartardóttir Þrír þingmenn flokksins féllu í prófkjörinu. Drífa Hjartardóttir, Guðjón Hjörleifsson og Gunnar Örn Örlygsson eru öll á leið af þingi. Eini sitjandi þingmaður svæðisins sem hélt velli í prófkjörinu var Kjartan Ólafsson á Selfossi, sem hlaut þriðja sætið. Fjórða varð Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ og fimmta varð Unnur Brá Konráðsdóttir. Rétt eins og hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi eru þrír karlmenn í þrem efstu sætunum. Konur verða þar undir.

Það vekur gríðarlega athygli að Drífa Hjartardóttir, alþingismaður, sem tók við leiðtogastöðu kjördæmisins við andlát Árna Ragnars Árnasonar árið 2004, fær verulegan skell og verður í sjötta sæti. Hennar þingmannsferill er á enda. Ég verð að harma þá útreið sem að hún fær í kosningunni. Guðjón Hjörleifsson og Gunnar Örn Örlygsson voru undir meginhluta talningarinnar. Er á leið tókst Guðjóni að komast upp í þriðja sætið, falla svo niður í það fjórða og detta svo aftur niður í óvissuna í sjöunda sætið.

Gunnar Örn, sem gekk í Sjálfstæðisflokkinn vorið 2005 eftir að hafa verið kjörinn þingmaður Frjálslynda flokksins vorið 2003, fékk mikinn skell og verður ekki í framboði fyrir flokkinn. Kristján Pálsson, sem fór í sérframboð árið 2003 eftir að hafa verið hafnað á kjördæmisþingi, fékk gríðarlegan skell og varð ellefti af þrettán frambjóðendum. Það er því mörgum sparkað eftir þetta prófkjörið og fyrir suma er skellurinn sárari en aðra. Það er með ólíkindum að sjá hversu miklar breytingar verða. En þetta eru greinilega mjög skýr skilaboð.

Þetta er því prófkjör sviptinganna. Þingmönnum er hafnað eftir langt starf, sumum eftir skemmra starf. Tveim af þrem efstu frá því síðast er sparkað með augljósum hætti. Þetta eru gríðarlega mikil tíðindi, sem eiga eftir að vekja athygli og það langt út fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

mbl.is Kjartan endaði í þriðja sæti í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Johnsen aftur á þing - sviptingar í Suðrinu

Árni JohnsenMikil spenna er nú í Tryggvaskála á Selfossi þar sem líður nú að lokum talningar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Árni M. Mathiesen og Árni Johnsen hafa verið í fyrsta og öðru sætinu alla talninguna. Miklar sviptingar hafa þó orðið eftir því sem liðið hefur á nóttina. Um eittleytið féll Drífa Hjartardóttir, sem verið hefur leiðtogi flokksins í kjördæminu frá árinu 2004, eða frá andláti Árna Ragnars Árnasonar, niður í sjötta sætið, en hún var í því fjórða í fyrstu tölum. Björk Guðjónsdóttir hafði sætaskipti við Drífu. Annað óbreytt.

Nú laust fyrir þrjú komu nýjar tölur og höfðu þá verið talin 4000 atkvæði af 5200. Þá var Guðjón Hjörleifsson, alþingismaður, kominn upp í þriðja sætið og Kjartan Ólafsson fallinn niður í það sjöunda. Skömmu síðar komu tölur er talin höfðu verið 4400 atkvæði og þá var Kjartan aftur þriðji en Guðjón fjórði. Björk var þar með fallin aftur í sjötta sætið og Drífa komin í sjöunda sætið. Þetta eru ótrúlegar sviptingar og sér jafnvel ekki fyrir endann á þeim. Athygli vekur að eins og staðan er nú eru fjórir karlmenn í efstu sætunum. Ennfremur er orðið vel ljóst að fátt fær því breytt að Árni Johnsen nái öruggu sæti.

Það verður fróðlegt að fylgjast með lokastund talningar. Þetta er vel þess virði að vaka eftir, þó staddur sé ég í öðru kjördæmi. Það verður spennandi að sjá lokaröðun sex efstu sætanna. Síðast þegar ég vissi var Gunnar Örn Örlygsson, alþingismaður, í tíunda sætinu, svo að það er greinilegt að hann er að falla af þingi. En spennan eykst - atkvæðum fækkar sem telja þarf. Það verða klárlega miklar pólitískar sviptingar á Selfossi í nótt.

Viðbót - kl. 05:10

Þegar talin hafa verið 5000 atkvæði, eða nærri öll atkvæði, í prófkjörinu er Drífa Hjartardóttir komin upp í fjórða sætið og Guðjón Hjörleifsson fallinn niður í sjöunda sætið. 



Fyrri færsla - skrifuð 00:19  (uppfærð tvisvar)

Þegar að helmingur atkvæða í prófkjöri sjálfstæðismanna hefur verið talinn á Selfossi er staðan frá fyrstu tölum óbreytt. Árni Johnsen er enn í öðru sætinu og greinilega á leið á þing aftur að vori. Það er alveg augljóst nú og það kemur ekkert í veg fyrir það. Árni M. Mathiesen leiðir listann og fyrir neðan þá Árnana eru eins og áður; Kjartan Ólafsson, Drífa Hjartardóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Björk Guðjónsdóttir.

Guðjón Hjörleifsson og Gunnar Örn Örlygsson virðast á útleið af þingi ef marka má þetta, en hvorugur þeirra hefur komist á blað enn. Kristján Pálsson, fyrrum alþingismaður, er ekki heldur sjáanlegur og virðist ekki hafa haft erindi sem erfiði. Það verður fróðlegt að sjá hvert stefnir í talningunni. Úrslitin ráðast einhverntímann í nótt væntanlega. Endurkoma Árna virðist staðreynd, hún verður umdeild. Meira segi ég ekki um það á þessari stundu.

Það eru því sviptingar í Suðrinu. Tveir þingmenn úti í kuldanum og einn umdeildur þingmaður aftur að fara á þing. Unnur Brá, vinkona mín, er að vinna góðan sigur í fimmta sætið, sem hún óskaði eftir og Björk í Reykjanesbæ kemur sterk til leiks. Það verður fróðlegt að sjá endanlegar tölur og þær fleiri sem koma á eftir.

Viðbót - kl. 01:15

Þegar talin hafa verið 3200 atkvæði í prófkjörinu er Björk Guðjónsdóttir komin í fjórða sætið og Drífa Hjartardóttir fallin í það sjötta.

Viðbót - kl. 03:10

Þegar talin hafa verið 4000 atkvæði er Guðjón Hjörleifsson kominn upp í þriðja sætið og hefur fellt Kjartan Ólafsson niður í það sjöunda.


mbl.is Árni Johnsen í 2. sæti í prófkjöri í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorgerður Katrín sigrar - Ragnheiður R. sjötta

Þorgerður Katrín GunnarsdóttirÚrslit liggja nú fyrir í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, er nýr leiðtogi flokksins í kjördæminu og tekur við af Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sem nú bíður úrslita í prófkjöri í nýju kjördæmi sínu, Suðrinu. Þorgerður Katrín hefur verið menntamálaráðherra frá árinu 2003 og var kjörin varaformaður flokksins á landsfundi haustið 2005. Hún hefur setið á þingi frá árinu 1999.

Bjarni Benediktsson, alþingismaður, varð í öðru sætinu. Bjarni hlaut góða kosningu í prófkjörinu, rétt eins og Þorgerður Katrín, en enginn gaf kost á sér gegn þeim í prófkjörinu og þau því mjög óumdeild. Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Kópavogi, er á leið á þing en hann hlaut góða kosningu í þriðja sætið. Var það vissulega viðbúið, enda hefur hann sterka stöðu verandi fulltrúi Kópavogs til forystu. Úr Kópavogi kemur svo einnig Jón Gunnarsson, formaður fulltrúaráðs þar, og hann náði fjórða sætinu. Fimmta er Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra.

Ragnheiður RíkharðsdóttirRagnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, var fljúgandi á milli fjórða til sjötta sætisins í allt kvöld. Undir lok talningar stefndi allt í að hún hefði fest sig í fjórða sætinu eftir að hafa verið um tíma í því sjötta. Úrslitin eru með þeim hætti að hún lendir í sjötta sætinu, sem verður að teljast baráttusæti listans. Það hlýtur að vera mikið áfall fyrir Ragnheiði, en hún sóttist eftir þriðja sætinu í baráttu við Ármann Kr.

Sigurrós Þorgrímsdóttir, alþingismaður, er ekki meðal sex efstu en varð sjöunda eftir því sem fréttir herma. Hún er því ekki í öruggu sæti og líklegt að þingmannsferli hennar sé þar með lokið. Hún háði öfluga prófkjörsbaráttu en varð undir í slag við Jón Gunnarsson, sem auðvitað græðir mjög á miklum tengslum víða og svo auðvitað því að vera formaður fulltrúaráðsins í Kópavogi.

En úrslitin liggja fyrir. Það verður fróðlegt að heyra í Ragnheiði Ríkharðsdóttur með úrslitin. Heilt yfir er þetta sterkur listi, þarna er jöfn kynjaskipting og mikilvægt að sjálfstæðismenn í Kraganum vinni vel og af krafti - tryggi inn sjötta manninn í vor.


mbl.is Úrslit liggja fyrir hjá sjálfstæðismönnum í Suðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Johnsen í 2. sæti - spenna í Suðrinu

Sjálfstæðisflokkurinn Talning stendur nú yfir í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Í fyrstu tölum er Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra í 1. sæti, en Árni Johnsen er í öðru sætinu. Í því þriðja er Kjartan Ólafsson, alþingismaður, fjórða er Drífa Hjartardóttir, alþingismaður og fimmta er Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri. Sjötta er Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.

Það verður vel fylgst með stöðunni í Suðurkjördæmi. Góð kjörsókn virðist vera og menn geta verið sáttir við framkvæmd prófkjörsins og góða stöðu almennt hjá flokknum á svæðinu. Það eru sviptingar í fyrstu tölum. Tveir þingmenn virðast fallnir miðað við fyrstu tölur; Guðjón Hjörleifsson og Gunnar Örn Örlygsson, en enn er mikið ótalið í prófkjörinu. Mikil spenna yfir stöðu mála.

mbl.is Talning hafin í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sviptingar í Kraganum - líður að lokum talningar

Sjálfstæðisflokkurinn Talning í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi stendur nú yfir í Kópavogi. Þegar að rúmlega þúsund atkvæði eru ótalin er Ragnheiður Ríkharðsdóttir fallin í sjötta sætið og Jón Gunnarsson situr í fjórða sætinu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bjarni Benediktsson hafa hlotið afgerandi stuðning til forystu á listanum og Ármann Kr. Ólafsson hefur hlotið góða kosningu greinilega í þriðja sætið.

Eftir því sem leið á kvöldið veiktist staða Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, bæjarstjóra í Mosfellsbæ. Hún hóf kvöldið í fjórða sætinu, varð svo jöfn við Jón Gunnarsson í 4. - 5. sæti en féll svo niður í sjötta sætið. Ragnheiður Elín Árnadóttir hóf kvöldið í fimmta sætinu en Jón Gunnarsson í sjötta. Þau höfðu sætaskipti í öðrum tölum og Jón styrktist jafnt og þétt eftir því sem leið á kvöldið. Eins og staðan er nú er því Ragnheiður Elín fimmta, ofan við Ragnheiði Ríkharðsdóttur.

Það má jafnvel búast við frekari sviptingum. Athygli vekur að Sigurrós Þorgrímsdóttir, alþingismaður, sem tók sæti við afsögn Gunnars Birgissonar, bæjarstjóra í Kópavogi, í maílok, hefur aldrei verið í efstu sex sætum í allt kvöld og virðist því fallin úr öruggu þingsæti. En fylgst verður með lokastundum talningar og hvernig fer að lokum í talningunni í Kópavogi.

Viðbót - kl. 22:05

Skammt stórra högga á milli. Ragnheiður Ríkharðsdóttir er komin aftur í fjórða sætið og hin færast þá neðar; Ragnheiður Elín í fimmta sætið og Jón í það sjötta.

Viðbót - kl. 22:45

Þegar að rúmlega 300 atkvæði eru ótalin er Ragnheiður R. enn fjórða. Munurinn milli Ragnheiðar Elínar og Jóns í fimmta sætið eru 17 atkvæði, Ragnheiði Elínu í vil.

mbl.is Óbreytt staða hjá sjálfstæðismönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sviptingar hjá Samfó í RVK í spennutalningu

Samfylkingin Sviptingar eru greinilega að verða í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Ingibjörg Sólrún og Össur leiða í fyrstu tölum. Guðrún Ögmundsdóttir, alþingismaður, er ekki inni í topp tíu skv. tölum nú á sjöunda tímanum. Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, var í öruggu sæti í fyrstu tölum en féll svo niður í níunda sætið. Naumt er á milli sumra frambjóðenda og allt getur greinilega gerst.

Í öðrum tölum er staðan svona:

1. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
2. Össur Skarphéðinsson
3. Jóhanna Sigurðardóttir
4. Ágúst Ólafur Ágústsson
5. Helgi Hjörvar
6. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
7. Mörður Árnason
8. Steinunn Valdís Óskarsdóttir

Í níunda sæti er eins og fyrr segir Kristrún Heimisdóttir og tíunda er Valgerður Bjarnadóttir, ekkja Vilmundar Gylfasonar og systir Björns Bjarnasonar. Það varð það mikil sveifla í öðrum tölum frá þeim fyrstu að allt getur greinilega gerst og þetta er galopið algjörlega.

Viðbót - kl. 19:15

Þegar talin hafa verið 3200 atkvæði af 4800 alls, er staðan óbreytt frá öðrum tölum.

Viðbót - kl. 21:05

Þegar aðeins rúm 300 atkvæði eru ótalin í prófkjörinu er staða efstu tíu óbreytt, en litlu munar.

mbl.is Ingibjörg og Össur með flest atkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi talning í Kraganum

Sjálfstæðisflokkurinn Talning stendur nú yfir í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Nú hafa verið talin 1500 atkvæði. Þorgerður Katrín og Bjarni Ben leiða og Ármann Kr. Ólafsson er í þriðja sætinu og Ragnheiður Ríkharðsdóttir í því fjórða.

1. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
2. Bjarni Benediktsson
3. Ármann Kr. Ólafsson
4. Ragnheiður Ríkharðsdóttir
5. Ragnheiður Elín Árnadóttir
6. Jón Gunnarsson

Það stefnir í hörkuspennu í kraganum skv. þessu.


Viðbót - kl. 18:45

Jón Gunnarsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir hafa haft sætaskipti nú í öðrum tölum. Jón er því fimmti nú. Annars er staðan óbreytt.

Viðbót - kl. 19:20

Þegar að 3200 atkvæði hafa verið talin eru Jón Gunnarsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir orðin jöfn í 4. - 5. sætið með jafnmörg atkvæði. Annað er óbreytt.

Viðbót - kl. 21:05

Þegar talin hafa verið rúm 4400 atkvæði er Ragnheiður Ríkharðsdóttir fallin niður í sjötta sætið. Jón Gunnarsson er fjórði en Ragnheiður Elín Árnadóttir er fimmta.

Viðbót - kl. 21:25

Tæp 5000 atkvæði af rúmlega 6000 alls hafa verið talin í Kópavogi. Staða efstu sex er óbreytt.

Áhugavert prófkjör Samfylkingarinnar í borginni

Frambjóðendur SF í Reykjavík Yfir 2500 manns hafa nú kosið í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem fram fer í dag. Þetta er síðasta prófkjör Samfylkingarinnar og væntanlega hið mest spennandi. Þar eru 15 í kjöri, þar af hafa tíu þeirra tekið sæti á þingi, meðal þeirra eru þau 8 sem sitja nú á þingi fyrir Samfylkinguna í Reykjavík. Allir þingmenn flokksins þar gefa því kost á sér til endurkjörs.

Flest þeirra sem við bætast í prófkjörið nú er því fólk sem er þekkt fyrir störf sín að stjórnmálum. Auk þessu eru nokkrir nýliðar í slagnum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, er ein í kjöri um fyrsta sætið. Um annað sætið, hinn leiðtogastólinn, takast þau Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson. Samstaða virðist að mestu um að þau þrjú verði í efstu sætunum. Það verður spennandi að sjá hvort þeirra verði í öðru sætinu. Þau leiddu lista flokksins í borginni í kosningunum 2003.

Þá var Össur í fyrsta sætinu, enda formaður flokksins, og Jóhanna í öðru, en hún sigraði Bryndísi Hlöðversdóttur í slag um annað sætið. Jóhanna hefur verið á þingi í nærri þrjá áratugi, frá árinu 1978, því með mikla reynslu að baki og er nú starfsaldursforseti þingsins. Jóhanna sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar árið 1999 og verið drjúg í prófkjörum. Össur hefur verið á þingi í 15 ár og var formaður Samfylkingarinnar 2000-2005 og er nú þingflokksformaður. Það blasir við að það þeirra sem verður undir tekur þá annað sætið á lista leiddum af Ingibjörgu Sólrúnu. Mikið hefur verið talað um slæma útkomu kvenna í prófkjörum flokksins og það gæti hjálpað Jóhönnu Sigurðardóttur í dag.

Um fjórða sætið verður barist af krafti. Þar eru sjö í baráttunni, þau Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar, Mörður Árnason, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir. Þarna getur allt gerst. Hver örlög þeirra verða sem undir verða verður fróðlegt að sjá. Aftur fram á pólitíska sjónarsviðið eru svo komnir þingmennirnir fyrrverandi Ellert B. Schram og Þórhildur Þorleifsdóttir. Ellert var þingmaður Sjálfstæðisflokksins 1971-1979 og 1983-1987 en Þórhildur fyrir Kvennalistann 1987-1991. Ellert fór síðast í prófkjör árið 1982 en Þórhildur hefur það aldrei gert. Fylgst verður mjög vel með hvernig þeim gengur.

Meðal annarra frambjóðenda eru Glúmur Baldvinsson (systursonur Ellerts, sonur Bryndísar Schram og Jóns Baldvins Hannibalssonar), Kristrún Heimisdóttir og Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir. Þau eru ungliðarnir í hópnum og hafa öll verið áberandi, hvert á sínu sviði. Kristrún er núverandi varaþingmaður fyrir Samfylkinguna í Reykjavík, Glúmur hefur t.d. verið fréttamaður og Bryndís Ísfold (yngst frambjóðenda) hefur verið virk í ungliðastarfi jafnaðarmanna og er t.d. í mannréttindaráði borgarinnar. Tillaga hennar um græna konu í stað karls í umferðarljós vakti svo sannarlega athygli á dögunum.

Þetta verður altént spennandi prófkjör og fróðlegt að sjá hvernig raðast upp. Meginhluti þessa fólks er allt mjög sterkt pólitískt og hefur gegnt pólitískum trúnaðarstörfum svo að það verður fróðlegt að sjá útkomuna í kvöld.

mbl.is Yfir 2.500 hafa kosið í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spenna í prófkjöri sjálfstæðismanna í Kraganum

Sjálfstæðisflokkurinn Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fer fram í dag. 11 eru í kjöri; 6 konur og 5 karlmenn. Það stefnir í áhugavert prófkjör í kraganum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bjarni Benediktsson gefa ein kost á sér í fyrsta og annað sætið og eru því nær óumdeild til forystu. Bæði hafa þau mikinn stuðning um kjördæmið, enda þau hin einu sem sækjast eftir endurkjöri af þeim alþingismönnum sem flokkurinn hlaut kjörinn í kraganum 2003.

Auk þeirra er Sigurrós Þorgrímsdóttir á þingi, en hún tók sæti við afsögn Gunnars Birgissonar, bæjarstjóra í Kópavogi. Um þriðja sætið takast Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Ármann Kr. Ólafsson. Er mjög erfitt að spá um úrslit í þeim slag, enda tveir mjög öflugir sveitarstjórnarmenn innan flokksins og fólk með öflugt bakland. Hörkubarátta er svo um fjórða sætið. Þar eru í kjöri Ragnheiður Elín Árnadóttir, Sigurrós, Jón Gunnarsson og Bryndís Haraldsdóttir. Spenna verður því um öll sætin á milli 3-6 og mjög erfitt að spá um stöðuna í þessum sætum. Beðið er því fyrstu talna kl. 18:00 með mikilli spennu.

mbl.is Kjörsókn fer vel af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlög John Bolton hjá SÞ ráðin

John Bolton Valdahlutföllin í Washington eru breytt eftir þingkosningarnar á þriðjudag og demókratar taka brátt við völdum í deildum Bandaríkjaþings. Mikið er nú spáð í framtíð John Bolton, sendiherra USA hjá Sameinuðu þjóðunum. Bendir nú flest til þess að hann missi embættið vegna valdaskiptanna. Hefur verið við því búist það eina og hálfa ár sem Bolton hefur verið í embættinu að til þessa kæmi. Allt frá því að Bush tilkynnti um útnefningu Boltons í embættið þann 7. mars 2005 hefur verið deilt harkalega um hann og ágæti hans.

Deilt var um fortíð Boltons og orð hans og gjörðir á ýmsum sviðum. Dregin var upp dökk mynd af honum og á það m.a. minnt að hann hafi til fjölda ára bæði verið andvígur Sameinuðu þjóðunum og starfi þeirra. Það sem í upphafi byrjaði sem smávægileg gagnrýni jókst jafnt og þétt og að því kom að hann var ekki öruggur um stuðning í embættið. Til þess kom í sumarleyfi þingsins í ágúst 2005 að Bush beitti rétti sínum að skipa Bolton án samþykkis þingsins og með flýtimeðferð og gildir sú skipun fram til 3. janúar, er nýtt þing kemur saman.

Nú er sú skipan mála að renna út og benti Bush forseti á það með mildilegum hætti í gær til fráfarandi þingmeirihluta repúblikana í öldungadeildinni að það væri lag að samþykkja Bolton fyrir lok starfstíma þingsins. Verður utanríkismálanefnd þingsins að samþykkja valið áður en það getur farið fyrir þingdeildina. Virðist sú von vera byggð á mjög veiku sandrifi enda leið ekki á löngu þar til að Lincoln Chafee, einn af þingmönnum repúblikana í öldungadeildinni, sem féll í kosningunum á þriðjudag í Rhode Island sagðist ekki myndu láta það vera sitt síðasta embættisverk í þinginu að samþykkja skipan John Bolton, eftir að utanríkisstefna forsetans hefði fengið svo afgerandi skell.

Örlög Boltons virðast því ráðin. Repúblikanar eru ekki samstíga um Bolton úr þessu og borin von er, svo vægt sé til orða tekið, að demókratar samþykki hann. Málið er því fast í utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar og fer ekki þaðan áður en valdaskiptin verða, enda er málið fallið á jöfnu í deildinni með afstöðu Chafee. Það er því ljóst að Bush forseti verður að fara að leita sér að nýju sendiherraefni í Sameinuðu þjóðirnar sem getur tekið til starfa þar þegar að umboð hins lánlausa John Bolton rennur út þann 3. janúar með umboði fráfarandi deilda Bandaríkjaþings.

Hannes Hólmsteinn sýknaður

Laxness (þriðja bindi HHG) Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, var í dag sýknaður af öllum kröfum Auðar Sveinsdóttur Laxness, ekkju Nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxness, en hún og dætur hennar hafa margoft talið að Halldór hefði brotið gegn höfundarrétti við ritun fyrsta bindis af þrem, sem kom út árið 2003, í röð ævisagna Hannesar um Laxness. Þetta er merkilegur dómur, sem vekur svo sannarlega athygli, en bækur Hannesar um Laxness hafa vakið mikla athygli, sérstaklega annað bindið sem var þeirra allra best.

Fannst mjög merkilegt að lesa dóminn í heild sinni er ég leit á mbl.is, en ég var að koma úr hressilegri fjögurra kílómetra göngu í Kjarnaskógi og gaf mér góðan tíma til að fara yfir þetta. Mér fannst bækur Hannesar um Laxness virkilega vel ritaðar og vandaðar. Mér fannst annað bindið algjört hnossgæti og las það með gríðarlegum áhuga jólin 2004. Á ég öll bindin svo að ég stefni að því að draga þær fram aftur fljótlega og lesa.

mbl.is Hannes Hólmsteinn sýknaður af bóta- og refsikröfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misheppnaður húmor hjá Árna Johnsen

Árni Johnsen Það er öflug prófkjörshelgi framundan - þrjú sterk prófkjör. Þar munu örlög frambjóðenda ráðast. Fjöldi þingmanna gæti fallið um helgina og ný þingmannsefni komið til sögunnar. Mikið er skiljanlega reynt í slíkum slag. Verð þó að viðurkenna að mér brá nokkuð þegar að ég las Morgunblaðið í morgun og sá þar auglýsingu frá Árna Johnsen þar sem að nýsjálenski óskarsverðlaunaleikarinn Russell Crowe var auglýstur meðal stuðningsmanna.

Nú þyki ég nú hafa ágætis húmor en ég verð að viðurkenna að ég undrast svona framsetningu í kosningabaráttu. Hvað yrði sagt t.d. ef að ábyrgur stjórnmálamaður hér birti mynd af heimsþekktum stjórnmálamönnum og leikurum öðrum en þessum tiltekna leikara í auglýsingum sínum án heimildar þeirra? Það er ekkert vandamál að skreyta sig með fólki til stuðnings og það er vissulega eðlilegt fylgi þar hugur máli og almennilegur stuðningur sem vigtar þungt í baráttu í stjórnmálum. En þetta er eitthvað sem varla nokkur heilvita maður skilur í.

Þetta telst því misheppnaður húmor í mínum augum allavega, enda liggur hann gjörsamlega steinflatur. Það er ekki flóknara en það.

mbl.is Russel Crowe á meðal stuðningsmanna Árna Johnsen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andlát Gylfa Gröndal

Gylfi GröndalGylfi Gröndal, rithöfundur, var jarðsunginn í gær, en hann lést þann 29. október sl. Með Gylfa er fallinn í valinn góður fræðimaður, maður sem ritaði fjölda áhugaverðra bóka sem eftir munu standa til vitnis um vönduð vinnubrögð hans og yfirburðarþekkingu. Gylfi ritaði fjöldann allan af ævisögum. Í huga mér standa þar fremst gríðarlega góðar og fágaðar ævisögur þriggja fyrstu forseta lýðveldisins. Þar var skrifað með hárfínum og nákvæmum hætti um ævi þjóðhöfðingjanna.

Önnur ævisaga Gylfa sem ég met mikils og hef oft lesið er ævisaga hans um Robert F. Kennedy, fyrrum dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, stjórnmálamann sem ég hef alltaf metið mikils. Gylfi skrifaði um hann skömmu eftir morðið á honum fágaða og notalega ævisögu sem stendur eftir með lesandanum lengi eftir lesturinn. Einnig ritaði hann vandaða bók um Lincoln sem ég met mikils. Annað stórvirki má nefna eitt af hans síðustu verkum, ævisöguna um Stein Steinarr. Það var alveg einstaklega gott verk og vandað, skrifað af næmleika og þekkingu um Stein, sem var eitt af merkustu skáldum þjóðarinnar.

Einnig má nefna ævisöguna um alþýðuhetjuna Jóhönnu Egilsdóttur (ömmu Jóhönnu Sigurðardóttur), Sigurjónu Jakobsdóttur (ekkju Þorsteins M. Jónssonar), Tómasar Þorvaldssonar, Eiríks Kristóferssonar skipherra, Björns Pálssonar á Löngumýri, Valdimars Jóhannssonar, dr. Kristins Guðmundssonar, Þorvalds í Síld og Fisk, Huldu Jakobsdóttur í Kópavogi, Kristjáns Sveinssonar augnlæknis, Helgu M. Níelsdóttur og svo síðast en ekki síst Katrínu Hrefnu (dóttur Einars Ben).

Allt eru þetta stórfenglegar bækur, en Gylfi var einn af umfangsmestu höfundum ævisagna og afkastamikill höfundur. Hans ævistarf er mikið og hefur verið farsælt. Ég á megnið af þessum bókum, en ég erfði þær þegar að Lína amma dó, en hún var mikil bókakona og átti þessar bækur. Hún treysti mér fyrir þeim, sem ég mat alltaf mikils. Sennilega vegna þess að ég hef ábyggilega mest gaman af þeim.

En leiðarlok hafa nú orðið hjá Gylfa. Það var sorglegt að honum gáfust ekki fleiri ár til fræðistarfa. En ævistarf hans ber vitni vönduðu verklagi og næmu auga öflugs rithöfundar sem markaði skref í íslenska bókamenningu okkar tíma. Blessuð sé minning hans.


Spennandi prófkjör í Suðurkjördæmi

SjálfstæðisflokkurinnÞað stefnir í æsispennandi prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi á morgun. Þar verður nýr leiðtogi flokksins í kjördæminu kjörinn og þingmannsefni valin. Það stefnir í mikla spennu, enda eru í kjöri sjö einstaklingar sem annaðhvort eru núverandi eða fyrrum alþingismenn Sjálfstæðisflokksins. Þetta verður því vettvangur mikilla átaka milli reyndra stjórnmálamanna með bæði langa pólitíska sögu og merkilega. Fylgst verður með úrslitunum af áhuga.

Það vakti mikla athygli þegar að Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og fráfarandi leiðtogi flokksins í Suðvesturkjördæmi, ákvað að gefa kost á sér í Suðurkjördæmi. Það er ljóst að leiðtogaslagurinn verður slagur Árnanna Johnsen og Mathiesen. Það hefur vakið verulega athygli að Árni Johnsen gefi upp boltann með leiðtogaframboð eftir það sem á undan hefur gerst. Árni Matt er reyndur stjórnmálamaður og leggur mikið undir með því að færa sig um kjördæmi. Þetta verður því mjög harður slagur þarna milli manna. Það stefnir þó flest í að Árni M. muni hljóta leiðtogastólinn.

Það markar prófkjörið mjög að enginn afgerandi leiðtogi er á svæðinu. Árni Ragnar Árnason sem leiddi framboðslista flokksins árið 2003 lést ári síðar eftir erfið veikindi. Drífa Hjartardóttir tók við þeim skyldum eftir fráfall Árna Ragnars og í raun nær algjörlega sinnt því á tímabilinu. Greinilegt er að Árni M. og Drífa virðast í nokkru bandalagi, en Drífa tilkynnti sama dag og Árni gaf upp boltann með leiðtogaframboð og tilfærslu úr kraganum þar yfir að hún vildi annað sætið og styddi Árna. Hún berst við Guðjón Hjörleifsson, Kjartan Ólafsson og Kristján Pálsson um annað sætið. Þeir tveir síðarnefndu vildu auk Drífu leiða listann árið 2003 en urðu undir fyrir Árna Ragnari í uppstillingu.

Um næstu sæti fyrir neðan berjast Gunnar Örlygsson, alþingismaður, Kári Sölmundarson, sölustjóri, Helga Þorbergsdóttir, varaþingmaður, Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri Rangárþingi eystra. Gunnar kemur inn nýr á svæðið, en hann er þó vissulega frá Njarðvík upphaflega og af frægri körfuboltaætt þar, en bróðir hans Teitur Örlygsson er landsfrægur körfuboltakappi í Njarðvíkunum. Gunnar leiddi Frjálslynda flokkinn í kraganum í kosningunum 2003 en sinnaðist við menn þar og skipti um flokk með miklum hvelli fyrir einu og hálfu ári. Nú mun koma vel í ljós hver staða hans er innan síns nýja flokks, er hann sækir umboð til nú.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða kona nær sterkri stöðu. Þarna berjast mjög sterkar konur um að komast ofarlega á lista. Sérstaklega fagna ég framboði Unnar Brár, vinkonu minnar, en ég ætla rétt að vona að hún nái markmiði sínu með fimmta sætinu, enda þar um að ræða mikla kjarnakonu. En þetta er allavega nokkur kvennaslagur á svipuð sæti og spurning hvaða áhrif það hefur á stöðu kvenna varðandi að hljóta þessi sæti í slag við karlana, en það vekur athygli að þær sækja allar sem ein neðar en karlarnir öflugustu, utan Drífu auðvitað, sem hefur vissulega mun sterkari stöðu sem þingmaður allt frá árinu 1999 og kjördæmaleiðtogi stóran hluta þess tíma.

En þetta verður mest spennandi vegna slagsins um fyrsta sætið. Staða Árna M. Mathiesen hlýtur að teljast fyrirfram sterkari, en það verður hart barist og allt lagt í sölurnar. Það eitt að Árni Johnsen taki fram möguleikann á fyrsta sætinu skapar líflega kosningu og alvöru átök, en lengi vel stefndi í að Árni færi einn fram í fyrsta sætið. En þetta er mikill þingmannaslagur. Þarna eru sjö núverandi og fyrrverandi þingmenn að gefa kost á sér, þar af tveir sem færa sig úr Suðvesturkjördæmi. Ekki fá allir það sem þeir vilja og spennan verður um hverjir hellast úr lestinni og verða undir.


mbl.is 13 í framboði hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í jólin

Jól Það styttist óðum í jólin, notalegasta tíma ársins. Það er kominn nokkur jólafílingur í mig, eins og ávallt þegar að nóvember hefst. Hef alltaf verið mikill áhugamaður um jólin og ég byrja að plana þau snemma ávallt á hverju ári. Til dæmis er það ævinlega þannig hjá mér að ég skrifa öll jólakort í nóvember, þá kaupi ég þær jólagjafir sem ég gef, ef nokkrar eru undanskildar og ég skipulegg allt.

Desember er mánuður rólegheita hjá mér. Það hefur nær alltaf verið þannig. Ég vil nota aðventuna til að slappa af og hafa það rólegt, njóta góðra laga og stemmningarinnar sem fylgir þessari miklu hátíð. Ég nenni ekki að eyða mánuðinum í því geðveikislega stressi sem fylgir búðunum í desember, því miður. Ég nenni ekki að taka þátt í því og nota því nóvember til að klára það sem mikilvægast er. Það er langbest, trúið mér bara. Annars er ég varla einn um þetta. Ég mun skrifa á öll jólakort sem ég sendi, sem er allnokkur slatti, í næstu viku og allar gjafir nema tvær hafa þegar verið keyptar.

Ég á afmæli í desember, tveim dögum fyrir jól, svo ég kannast við stressið sem fylgir því að eiga afmæli svo til í aðdraganda jólanna. Það vandist skemmtilega vel, en ég hef alltaf vanið mig á það að geta slappað af á þessum afmælisdegi og liggja ekki í búðarrandi. Á ekki við mig. Því er svo gott að geta klárað allt í nóvember og notað desember til hugleiðingar um gildi jólanna, en ekki standandi ergelsis í verslunum Baugsfeðga.

Þessi tími er mun meira virði en það, að mínu mati. Mjög einfalt mál í mínum huga. Vonandi eigum við öll notalegan og ergelsislausan fyrripart desember framundan. Ég ætla allavega ekki að ergja mig í búðum á aðventunni og sérstaklega ekki eyða þorláksmessu hlaupandi í örvæntingu milli verslana eða morgni aðfangadags. Það á að nota nóvember í að klára svona hluti, að mestu.

Óvissa um framtíð Íslendingabókar á netinu

Íslendingabók

Óvissa er nú uppi um framtíð Íslendingabók, ættfræðigagnagrunns Íslenskrar erfðagreiningar og Friðriks Skúlasonar ehf, en þar eru upplýsingar um ættir allra Íslendinga sem heimildir eru til um. Vefurinn var opnaður í mars 2003 af Tómasi Inga Olrich, þáv. menntamálaráðherra, og hefur verið gríðarlega vinsæll.

Skv. fréttum í Mogganum er alls óvíst hvað verður um vefinn. Deilur munu vera uppi um framtíð vefsins og hvernig hann sé rekinn og haldið á málum. Þetta er afar leitt finnst mér. Ég hef notað Íslendingabók talsvert, enda er það virkilega vandaður og notalegur vefur sem skiptir okkur máli. Ég held að ég hafi öðlast áhuga á ættfræði í gegnum vefinn, en hann er jú eini ættfræðigrunnurinn í heiminum sem nær til heillar þjóðar. Við getum því rekið tengsl okkar á milli með auðveldum hætti.

ÍE setti grunninn saman í samstarfi við Friðrik Skúlason, með það að markmiði að nýta ættfræðiupplýsingarnar við erfðafræðirannsóknir fyrirtækisins og hefur ÍE staðið straum af meginkostnaði. Íslendingabók hefur nafn sitt frá merku fornriti, Íslendingabók Ara Fróða, en þar er saga Íslands rakin allt frá landnámi og fram á 12. öld. Fallegt heiti svo sannarlega. Ég vona að vefurinn haldi áfram, enda skiptir hann miklu máli.


mbl.is Óvissa um framtíð Íslendingabókar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytt valdahlutföll í Washington

George W. Bush Ný valdahlutföll blasa við í bandarískum stjórnmálum í kjölfar þingkosninganna á þriðjudag. Demókratar hafa unnið sigur í báðum deildum Bandaríkjaþings og taka þar við völdum þann 3. janúar nk. er nýkjörið þing kemur saman í fyrsta skipti. Úrslitin tákna breytta stöðu fyrir George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, sem nú þarf að leita samkomulags og málamiðlana við þingmeirihluta demókrata og haga störfum sínum með öðrum og mildari hætti við breyttar aðstæður.

George W. Bush hefur aldrei verið maður málamiðlana eða samkomulags í bandarískum stjórnmálum. Það er svosem ekki furða, enda hefur hann getað farið sínu fram í ljósi sterkrar stöðu fylgismanna sinna. Það hefur verið afgerandi einstefna. Repúblikanar voru enda í tólf ár með völdin í fulltrúadeildinni og í rúm fjögur ár samfellt í öldungadeildinni. Hann hefur því lítið þurft að taka tillit til demókrata og skoðana þeirra. Það má því sjá merki nýrra tíma framundan í samskiptum forsetans og þingsins. Það er eðlilegt við þessar aðstæður og nauðsynlegt.

George W. Bush verður auðvitað að sætta sig við vilja þjóðarinnar. Þessi kosningaúrslit eru að mínu mati algjör áfellisdómur yfir honum og stjórn hans og hann verður að taka fullt tillit til þess, þó að hann fari ekki aftur í kosningar sjálfur, enda kemur stjórnarskráin í veg fyrir að forseti geti setið lengur en tvö kjörtímabil. Hann situr því síðara kjörtímabil nú og verður að leita samstarfs við demókrata, það er mjög einfalt mál. Það gerði allavega Clinton árið 1994 þegar að demókratar misstu báðar þingdeildir. Hann fór í samstarf við repúblikana og beitti lagni í þeim samskiptum. Bush ætlar greinilega að gera það sama.

George W. Bush er greinilega að vakna upp í nákvæmlega sömu stöðu og Bill Clinton fyrir tólf árum. Clinton nýtti sína töpuðu stöðu vel árið 1994 og sneri henni sér í vil með áberandi hætti. Hann hélt stöðu sinni og vann endurkjör sem forseti árið 1996 en náði vissulega ekki að snúa þinginu sér í vil í sömu kosningum. Hann beitti miklum klókindum og kænsku, en var þó sanngjarn í samningum við repúblikana. Til dæmis kom mörgum að óvörum er William Cohen var tilnefndur sem varnarmálaráðherra af Clinton eftir forsetakosningarnar 1996, enda var Cohen þingmaður repúblikana í öldungadeildinni. Ekki má búast við að slíkt gerist hjá Bush, en hann virðist skilja hvað gera þurfi.

Bush forseti gat ekki annað en breytt stefnu sinni eftir þetta tap og það var óumflýjanlegt að Donald Rumsfeld myndi fara frá. Val forsetans á Bob Gates sem varnarmálaráðherra mun vonandi sætta ólík sjónarmið, enda hefur Gates unnið innan CIA undir stjórn sex forseta úr ólíkum flokkum og verður nú ráðherra í ríkisstjórn þess sjöunda. Hann hefur mikla reynslu að baki og annan bakgrunn en Rumsfeld, svo að vonandi geta menn farið úr skotgröfum sem fylgdu persónu Rumsfelds og fært stöðu mála fram á veg. Raunar hefði farið betur á því að breytt hefði verið um stefnu fyrr og að Rumsfeld hefði vikið úr ríkisstjórn í kjölfar forsetakosninganna 2004 þar sem að Bush vann endurkjör.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því þegar að Bob Gates, tilnefndur varnarmálaráðherra, fer fyrir þingið og hvernig það gengur fyrir sig. Það leikur enginn vafi á því að tilnefning Gates mildar mjög stöðu mála og tryggir nýja forystu í Pentagon, sem menn geta jafnvel orðið sáttir um, óháð flokkapólitík í Bandaríkjunum. Það er greinilegt að bæði George W. Bush og Nancy Pelosi, verðandi forseti fulltrúadeildarinnar, sem verður nú valdamesti forystumaður Demókrataflokksins, hafa í hyggju samstarf að einhverju leyti og byggja brýr á milli svæða sem hafa ekki verið til staðar og hefja samstarf með heilbrigðum og eðlilegum hætti. Því ber að fagna.

Nú fyrir stundu viðurkenndi George Allen, öldungadeildarþingmaður í Virginíu, formlega ósigur sinn fyrir Jim Webb í kosningunum í fylkinu. Með því hafa valdaskiptin í öldungadeildinni formlega verið staðfest og nýjir tímar að hefjast. Fyrr í dag hittust Bush og Pelosi í forsetaskrifstofunni ásamt trúnaðarmönnum flokka sinna og hófu viðræður um stöðu mála. Vel virtist fara á með þeim.

Það verður fróðlegt að fylgjast með bandarískum stjórnmálum næstu tvö árin, þann tíma sem demókratar og repúblikanar munu deila völdum hið minnsta. Bráðlega hefst svo hasarinn vegna forsetakosninganna 2008. Það er svo sannarlega spenna í loftinu, sem við stjórnmálaáhugamenn hljótum að fagna.

mbl.is Segir Bush hafa orðið að bíða með að tilkynna afsögn Rumsfeld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt bæjarmálavefrit á Akureyri

AkureyriVið, áhugafólk um stjórnmálaumræðu hér á Akureyri, höfum nú stofnað þverpólitískt bæjarmálavefrit undir heitinu Pollurinn og verður það á slóðinni pollurinn.net. Ritstjórar vefritsins verða Helgi Vilberg, skólastjóri Myndlistaskólans, og Jón Ingi Cæsarsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður skipulagsnefndar Akureyrarbæjar.

Er stefnt að virkum og lifandi skrifum um bæjarmál og pólitík frá okkar sjónarhóli. Það var mér heiður að vera boðið að vera með í þessu verkefni og ætla ég mér að skrifa líflegar og góðar greinar um bæjarmál á þessum vef.


Ed Bradley látinn

Ed Bradley Ed Bradley, einn virtasti fréttamaður í bandarísku sjónvarpi, lést í dag úr hvítblæði, 65 ára að aldri. Bradley vann í 26 ár, eða frá árinu 1980, sem einn af þáttastjórnendum fréttaskýringaþáttarins 60 minutes á CBS. Er það að mínu mati besti fréttaskýringaþáttur sem völ er á í sjónvarpi. Bradley er margverðlaunaður sem fréttamaður, hlaut t.d. 19 Emmy-verðlaun, fyrir störf sín þar. Glæsilegur ferill að baki.

Þetta voru nokkuð óvæntar fréttir, enda hafði lítið verið fjallað um að Bradley væri veikur. Það er sjónarsviptir af Bradley fyrir CBS-sjónvarpsstöðina og verður fróðlegt að sjá hver muni taka sess hans í þessum virta fréttaskýringarþætti. Það var Bradley sem kom til Íslands fyrir nokkrum árum og gerði fréttaskýringu fyrir 60 mínútur um Íslenska erfðagreiningu og stöðu rannsókna á vegum fyrirtækisins og ræddi þá m.a. við Kára Stefánsson.

Umfjöllun CBS um andlát Ed Bradley

mbl.is Fréttamaðurinn Ed Bradley látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oops... Britney did it again

Federline/Spears Skrýtin þessi stjörnutilvera oft á tíðum. MeðalJóninn er oft ekki alveg með á glamúrgleðina hjá stjörnunum. Nú er glamúrgellan Britney skilin í annað skiptið og komin í forræðisdeilu við Federline. Showið búið þar heldur betur og engin bros eftir framan í myndavélarnar. 

Á meðan er Paul McCartney í harðri baráttu við Heather sína, sem reyndist hið mesta skass er á hólminn kom, og vill hún nú fá vænar fúlgur Bítlafjár. Jafnast á við átök hjónanna í The War of the Roses þessi deilanna Macca við Mucca (eins og bresku slúðurblöðin kalla Heather).

Svo er allt búið hjá óskarsverðlaunaleikkonunni Reese og Ryan Íslandsvini. Átti það ekki að vera svo rock solid dæmi? Hlægilegt. Fyndin tilvera. Það er oft mesta feikið í brosum stjarnanna, ekki satt?

mbl.is Federline krefst forræðis yfir sonum sínum og Spears
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband