Þorgerður Katrín sigrar - Ragnheiður R. sjötta

Þorgerður Katrín GunnarsdóttirÚrslit liggja nú fyrir í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, er nýr leiðtogi flokksins í kjördæminu og tekur við af Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sem nú bíður úrslita í prófkjöri í nýju kjördæmi sínu, Suðrinu. Þorgerður Katrín hefur verið menntamálaráðherra frá árinu 2003 og var kjörin varaformaður flokksins á landsfundi haustið 2005. Hún hefur setið á þingi frá árinu 1999.

Bjarni Benediktsson, alþingismaður, varð í öðru sætinu. Bjarni hlaut góða kosningu í prófkjörinu, rétt eins og Þorgerður Katrín, en enginn gaf kost á sér gegn þeim í prófkjörinu og þau því mjög óumdeild. Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Kópavogi, er á leið á þing en hann hlaut góða kosningu í þriðja sætið. Var það vissulega viðbúið, enda hefur hann sterka stöðu verandi fulltrúi Kópavogs til forystu. Úr Kópavogi kemur svo einnig Jón Gunnarsson, formaður fulltrúaráðs þar, og hann náði fjórða sætinu. Fimmta er Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra.

Ragnheiður RíkharðsdóttirRagnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, var fljúgandi á milli fjórða til sjötta sætisins í allt kvöld. Undir lok talningar stefndi allt í að hún hefði fest sig í fjórða sætinu eftir að hafa verið um tíma í því sjötta. Úrslitin eru með þeim hætti að hún lendir í sjötta sætinu, sem verður að teljast baráttusæti listans. Það hlýtur að vera mikið áfall fyrir Ragnheiði, en hún sóttist eftir þriðja sætinu í baráttu við Ármann Kr.

Sigurrós Þorgrímsdóttir, alþingismaður, er ekki meðal sex efstu en varð sjöunda eftir því sem fréttir herma. Hún er því ekki í öruggu sæti og líklegt að þingmannsferli hennar sé þar með lokið. Hún háði öfluga prófkjörsbaráttu en varð undir í slag við Jón Gunnarsson, sem auðvitað græðir mjög á miklum tengslum víða og svo auðvitað því að vera formaður fulltrúaráðsins í Kópavogi.

En úrslitin liggja fyrir. Það verður fróðlegt að heyra í Ragnheiði Ríkharðsdóttur með úrslitin. Heilt yfir er þetta sterkur listi, þarna er jöfn kynjaskipting og mikilvægt að sjálfstæðismenn í Kraganum vinni vel og af krafti - tryggi inn sjötta manninn í vor.


mbl.is Úrslit liggja fyrir hjá sjálfstæðismönnum í Suðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikil spenna. Niðurstaðan var sterkur listi.  Kjörsóknin var um 55 % og staðfestir hún sterka stöðu flokksins í kraganum.

Hallgrimur Viðar Arnarson (IP-tala skráð) 13.11.2006 kl. 00:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband