17.11.2008 | 09:21
Lekinn í stjórnkerfinu - ekki talað við þjóðina
Mér finnst það ábyrgðarhlutur að pólitísk forysta landsins talar ekki hreint út við þjóðina og segir henni staðreyndir mála. Mér finnst það verst við allt hið afleita sem gerst hefur að talað er enn við almenning eins og hann sé svo fávís að mega ekki heyra meira og fá á borðið staðreyndir mála. Þetta er algjörlega ólíðandi í þeirri stöðu sem blasir við þjóðinni og leiðir aðeins til þess að meira vantraust verður á pólitíska forystu landsins, forystu beggja stjórnarflokkanna sem standa að þessari yfirlýsingu.
Lekinn í stjórnkerfinu er orðinn áberandi og eflaust spyrja flestir sig að því hvaðan hann komi. Mér finnst nú mjög augljóst að lekinn komi frá Samfylkingunni, þar sem greinilega er stjórnarandstaða innan flokksins sem hefur verið augljós frá fyrsta degi og náð hefur hámarki í þessari alvarlegu stöðu. Mér finnst eiginlega ótrúlegt að hlusta á suma þingmenn Samfylkingarinnar tala eins og þeir beri enga ábyrgð í þessari alvarlegu stöðu. Sá flokkur eykur ekki tiltrú sína með þessu verklagi.
En kannski er það staðan að ríkisstjórnin sé eins og gatasigti og sé ekki treystandi sem samhentu afli fyrir stjórn landsins. Hvað sem því líður er ljóst að flest stefnir í þingkosningar með vorinu. Flesti undirbúa sig fyrir þær og kannski eru þær nauðsynleg skref til að gera mál upp almennilega. Mér finnst samt verst að þeir sem ráða för tala ekki hreint út við almenning með ábyrgri forystu. Lekinn og yfirbreiðslan yfir staðreyndir eru traust merki þess.
![]() |
DV birtir yfirlýsingu stjórnvalda til IMF |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.11.2008 | 21:46
Ósigur Íslands gegn alþjóðasamfélaginu
Ég man ekki eftir því hvenær við þurftum að láta í minni pokann í eins mikilvægu máli, urðum hreinlega að sætta okkur við það ofbeldi sem alþjóðasamfélagið beitti okkur, safnaði liði gegn hagsmunum okkar. Þetta eru þung og erfið örlög, en við komumst vonandi í gegnum það. Ég er þess fullviss að varnarleysi okkar lék lykilhlutverk í þessari niðurstöðu. Við höfðum ekki áhrifamátt eða kraft á alþjóðavísu til að berjast gegn þessu.
Er fjarri því viss um að við hefðum verið snarbeygð svona ef við hefðum herafla eða einhvert annað áhrifaafl á þeim mælikvarða. Við vorum einfaldlega snúin niður og neydd til uppgjafar. Þetta er erfitt fyrir íslensku þjóðarsálina hvað það varðar. En nú verður að horfa fram á veginn en ekki aftur. Við höfum ekki afl til að berjast gegn alþjóðasamfélaginu og fara gegn því öllu sem heild.
Hitt er svo annað mál að ég er vægast sagt óhress með því að þetta sé niðurstaðan - að framtíðarkynslóðir landsmanna verði að bera þennan skuldahala. Skelfileg niðurstaða fyrir þjóðina - þetta er áfellisdómur yfir þeim sem ráða för í landsmálunum og sváfu á verðinum í marga mánuði, voru ekki í sambandi á dýrmætum tíma mánuðina fyrir bankahrunið.
![]() |
Skilaboðin voru skýr |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
16.11.2008 | 20:39
Egill sigursæll á Edduverðlaunahátíðinni
Mér finnst þetta mikilvægur árangur fyrir Egil eftir að mjög var að honum sótt eftir viðtalið við Jón Ásgeir Jóhannesson. Þar stóð hann sig mjög vel og var bæði ákveðinn og traustur í því viðtali. Sumir aðilar sökuðu Egil um að hafa farið yfir strikið og gengið of langt, en mér finnst þessi verðlaun staðfesta vel trausta stöðu hans og góða frammistöðu undanfarið.
Umfjöllun Egils á netinu og í sjónvarpi hefur vakið athygli og allir fylgjast með hans sjónarhorni á málin. Egill hefur kennt okkur að það er hægt að gera góða þætti um bókmenntir. Hans þáttur er sá besti af þeim nýju og eru algjörlega ómissandi, fyrir bókafíkla sem og aðra. Silfrið er svo fyrir löngu orðið ómissandi, þáttur sem markaði þáttaskil í íslensku sjónvarpi.
![]() |
Brúðguminn hlaut sjö Edduverðlaun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2008 | 18:27
Diplómatískur rembihnýtur Icesave-málsins leystur
En mikilvægast fyrir íslensku þjóðina er að þoka málum áfram og koma hlutunum á einhverja hreyfingu. Icesave-málið hefur verið alltof lengi í diplómatískum rembihnút og komið í veg fyrir að við getum farið að byggja upp eftir bankahrunið - komið samfélaginu aftur af stað. Þetta var orðið að spurningu um örfáa daga fyrir þjóðina, til að allt myndi hér ekki stöðvast vegna hinnar vondu stöðu í gjaldeyrismálum.
Þetta er lærdómsrík niðurstaða. Við vitum nú betur að fáum er í raun að treysta þegar kemur að því að velja vini og við verðum að fóta okkur upp á nýtt. Niðurstaðan er ekki sú besta fyrir okkur sem stolta þjóð en sú eina sem gat hentað úr því sem komið var. Ómögulegt var að hafa þessi mál áfram í rembihnút.
![]() |
Icesave-deilan leyst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.11.2008 | 17:31
Táknræn bankamótmæli á Akureyri
Ég veit mjög vel að konan sem tók stólinn ætlaði ekki að eiga hann eða ræna honum. Þetta var fyrst og fremst táknrænn gjörningur, mjög vel heppnaður og hefur vakið verðskuldaða athygli. Sama gerist nú með sjóræningjafánann en mikil skilaboð felast í honum á þessum stað.
![]() |
Sjóræningjafáni við Landsbankann á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.11.2008 | 01:41
Góðir samstöðutónleikar - traust skemmtun
Vil þakka Rás 2 fyrir að færa okkur tónleikana, en ég hlustaði á þá nú eftir miðnættið á ruv.is og fór yfir það helsta, og þeim tónlistarmönnum sem komu fram. Virkilega vel gert og gott framtak hjá öllum hlutaðeigandi.
![]() |
Hlýleg stemmning í Höllinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.11.2008 | 19:48
Af hverju henda unglingar mat í þinghúsið?
Að henda mat á þinghúsið er ekki gáfulegt innlegg í krepputalið, á mjög erfiðum tímum fyrir þjóðina.
![]() |
Þinghúsið þrifið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.11.2008 | 18:01
Fjölmenn mótmæli - lýðræðisvakning örlagatíma
Ég ákvað að fara í lýðræðisgönguna hér á Akureyri í dag og fylgdist með ræðuhöldum á Ráðhústorginu. Þar kom fjöldi fólks saman, fólk með ólíkar skoðanir og fylktu liði í ópólitískri samkomu. Ég hitti þar fullt af fólki og átti fín samtöl. Fjarri því fólk sem myndi vera sammála um alla hluti, en eru sammála í því að þjóðin þarf að vera vakandi og taka af skarið þegar þess er þörf. Mér fannst þetta hressileg ganga í nóvemberkuldanum, kuldatíð þjóðarinnar í svo mörgum skilningi þess orðs.
![]() |
Friður og blóm á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.11.2008 | 00:38
Kannaði Mogginn ekki betur björgunarsöguna?
Þetta er svolítið vandræðalegt mál fyrir Moggann, enda var þetta að mörgu leyti frétt dagsins - klárlega sú sem vakti mesta athygli, fyrir utan blessaða pólitíkina. Fólki hérna heima blöskraði framkoman við manninn en virðist ekki hafa heyrt alla söguna. Mogginn þarf að tvíkanna heimildirnar betur áður en skrifað er greinilega.
![]() |
Lögregla ber sögu Íslendings til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.11.2008 | 23:18
Barack Obama undirbýr lykilhlutverk fyrir Hillary
Enginn vafi leikur á því að Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, býr sig nú undir að skipa Hillary Rodham Clinton sem utanríkisráðherra og er að búa stuðningsmenn sína undir það að helsti keppinautur hans verði valdamesti ráðherrann í stjórn hans. Lekinn um mögulega skipan Hillary er augljóslega skipulagður frá höfuðstöðvunum í Chicago og augljósasta skrefið í þeirri strategíu að hafa Clinton-hópinn mjög valdamikinn í bandaríska stjórnkerfinu þó Hillary hafi tapað baráttunni um Hvíta húsið, baráttunni fyrir því að verða fyrsti kvenforseti Bandaríkjanna.
Greinilegt er að Obama óttaðist mjög að gera Hillary að varaforsetaefni sínu og ergja þar með traustasta stuðningsmannahóp sinn sem tryggði honum útnefninguna á grundvelli breytingamaskínunnar, loforðanna um að tryggja alvöru breytingar. Í þeirri strategíu var Hillary kortlögð sem frambjóðandi liðinna tíma og hún væri ekki svo reynd í utanríkismálum, hefði aldrei verið í kjörnu embætti fyrr en hún varð öldungadeildarþingmaður árið 2001 - þó hún hefði verið lengi í pólitík, eða allt frá 1968 og fylgdi Clinton forseta í DC og Arkansas.
Nú er greinilegt að Obama ætlar að stilla upp sterku liði, ætlar að velja fulltrúa Clinton-tímans í veigamikil embætti og stólar á þennan kjarna sem réði Hvíta húsinu í tíunda áratugnum. Lykilskref í þessu er að veita Hillary Rodham Clinton mikil völd og toppdjobbið í utanríkismálapólitík Bandaríkjanna og með því staðfesta meginrök Hillary í forkosningaslagnum að hún væri reyndasti frambjóðandi demókrata í alþjóðastjórnmálum. Greinilegt er að loforð af einhverju tagi voru gefin þegar líða tók á slaginn enda fóru Clinton-hjónin á vagninn af miklum þunga.
Fyrir nokkrum dögum taldi ég öruggt að Obama myndi velja John Kerry, frambjóðanda demókrata 2004, sem utanríkisráðherra. Kerry lýsti yfir stuðningi við Obama á svipuðum tímapunkti og félagi hans í öldungadeildinni, Ted Kennedy, og lagði mikið undir og gekk þar með í raun frá framboði John Edwards. Hann stólaði á að sér yrði falið þetta embætti og hefur unnið markvisst bakvið tjöldin til að fá það og hefur lekið í fjölmiðla sögusögnum um að hann sé fremstur í röðinni. Nú er greinilegt að Obama hefur hafnað honum og ætlar að veita Hillary embættið.
Hugsanlega gæti Kerry orðið heimavarnarráðherra eða eitthvað slíkt. Kerry vill greinilega fara úr öldungadeildinni í önnur verkefni og enda ferilinn sem ráðherra, fyrst forsetadraumurinn gufaði upp. Staða hans hefur þó veikst og mun minni áhugi er fyrir honum í toppstöðu en flestum óraði fyrir. Lykilstaða Hillary og Clinton-hjónanna beggja í valdaskiptunum kemur æ betur í ljós. Obama veit að Hillary lagði mun meira á sig en hún hefði þurft og er tilbúinn til að færa henni mikil völd til að verðlauna þá flokkshollustu og um leið færa henni nýtt upphaf.
Í þessum samningaviðræðum sem eru í gangi um hlutverk Hillary, sem felst í fundi hennar og Obama í Chicago, felst í raun yfirlýsing um að Hillary ætlar ekki að sækjast eftir endurkjöri í öldungadeildina árið 2012 og horfir í aðrar áttir; annað hvort fari hún í forystusveit í ríkisstjórninni og verður einn nánasti pólitíski ráðgjafi Obama og valdamesti ráðherra Bandaríkjastjórnar eða fer í Hæstarétt. Hún vill breyta til og taka önnur verkefni - enda var öldungadeildarsætið í New York í raun alltaf skipulagt sem stökkpallur í önnur verkefni.
Mér finnst blasa við að Hillary fái ráðherrastólinn. Ef það myndi ekki gerast yrði virkilega mikil sundrung meðal demókrata, þeir sem urðu sárir yfir því að Hillary varð ekki varaforsetaefnið eftir að hafa komist svo nálægt Hvíta húsinu verða mjög reiðir fái hún ekki utanríkisráðuneytið eftir svo augljósan leka úr herbúðum Obama í Chicago. Þessi leki ber þess vitni að verið sé að undirbúa fólk undir vistaskipti Hillary og um leið gefa merki þess að Hillary verði mun valdameiri í forsetatíð Obama en Joe Biden.
Stóra spurningin nú er hvort stuðningsmenn Barack Obama, sem börðust fyrir breytingum, verði sáttir við að Clinton-armurinn verði svo valdamikill sem raun ber vitni af skipunum í lykilstöður í undirbúningi valdaskiptanna og yfirvofandi lykilhlutverki Hillary í ríkisstjórninni.
Dick Morris, einn af lykilráðgjöfum Clintons forseta á tíunda áratugnum, er sótillur yfir stöðunni í bloggskrifum sínum og er ekki beint brosandi. Morris sagði, svo frægt er orðið, að hann myndi yfirgefa Bandaríkin yrði Hillary kjörin forseti. Hann er greinilega ekki parhrifinn.
![]() |
Talin líkleg í stjórn Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2008 | 21:09
Er James Bond á leiðinni til Íslands?
Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég sá þessa klippu af "nýjustu" James Bond-myndinni. Nauðsynlegt að þjóðin hafi húmor fyrir sér í kreppunni og sjái spaugilegu hliðarnar á því sem er að gerast. Hitt er svo annað mál að það yrði kannski ekki svo galið að næsta verkefni njósnara hennar hátignar verði að fara til Íslands til að ganga frá ókláruðum málum. :)
![]() |
James Bond - kreppuspaug á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.11.2008 | 15:45
Landsfundi flýtt - opnað á Evrópuumræðuna

Ég fagna þeirri ákvörðun miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins að flýta landsfundi og skipa sérstaka Evrópunefnd sem heldur utan um umræðuna um þennan mikilvæga málaflokk, sem svo mjög er í umræðunni um þessar mundir. Á þessum örlagatímum íslensku þjóðarinnar er lykilatriði að stærsti flokkur þjóðarinnar haldi landsfund sinn mun fyrr en ella og stokki upp sín mál, fari yfir stefnumótun sína og lykilmálaflokka og geri upp það sem gerst hefur frá síðasta landsfundi fyrir tæpum tveimur árum.
Mér finnst það mjög traustvekjandi og öflugt að skipa Kristján Þór Júlíusson, alþingismann og fyrrverandi bæjarstjóra hér á Akureyri, sem formann Evrópunefndarinnar, og Árna Sigfússon, bæjarstjóra í Reykjanesbæ og fyrrverandi borgarstjóra, sem varaformann. Þetta eru menn sem njóta trausts til verka og allir flokksmenn vita að þeir munu sinna þessu verki af alúð og ábyrgð, enda ekki til neins annars ætlast.
Þetta verður eflaust lykilmálaflokkur landsfundarins og eðlilegt að opna á þá umræðu. Flokksmenn eiga að tala hreint út og fara yfir sínar skoðanir og meta stöðuna. Mikilvægt er hreinsa loftið hvað varðar þann áróður andstæðinga Sjálfstæðisflokksins að ekki sé þorað að taka umræðu um lykilmál og leiða þau til lykta. Á landsfundum er opin og traust umræða og þar fá allir landsfundarfulltrúar að tjá sínar skoðanir í þessu sem öðru.
Mér finnst þetta góðar ákvarðanir sem kynntar voru í dag. Ég skrifaði pistil í síðasta mánuði þar sem ég tjáði þá skoðun mína að flýta ætti landsfundi og ég fagna því auðvitað að sú er stóra niðurstaðan. Landsfundur mun skýra línur í málefnaáherslum flokksins og ekki síður hvað varðar forystuna, sem þarf að láta reyna á styrk sinn og sækjast eftir endurkjöri. Þar skiptir lykilmáli að fara yfir stöðuna án hiks.
![]() |
Skipuð verði Evrópunefnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.11.2008 | 08:22
Sagan endalausa um biðina eftir IMF-lánið
Sagan af mögulegri aðstoð IMF er að verða eins og sagan endalausa. Enn bíða Íslendingar eftir því hvort alþjóðasamfélagið leggi þeim lið eða snúi við þeim baki. Finnst blasa við að íslenska þjóðin verður að brjóta odd af oflæti sínu og sætta sig við að taka ábyrgð á Icesave-reikningunum. Greinilegt er að enginn leggur okkur lið í þeirri baráttu og við verðum að sætta okkur við eitthvað sem sumar þjóðir myndu aldrei ljá máls á. Varnarleysi okkar verður okkar helsti veikleiki í þessari stöðu. Við stöndum mjög ein í þessum slag og verðum að horfast í augu við afleita stöðu.
Eitt er þó verst; enn erum við að heyra af stöðunni í hálfkveðnum vísum og verðum sjálf að fylla upp í þá mynd. Mikið vantar á að þjóðinni sé sagt hreint út hvernig þetta er og verður. Enn erum við í myrkri og getum ekki treyst á neitt í því myrkri.
![]() |
Utanaðkomandi mál tefja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.11.2008 | 08:11
Mun Obama velja Hillary yfir utanríkismálin?

Ég er ekki hissa á því að Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, íhugi að skipa Hillary Rodham Clinton sem utanríkisráðherra. Hún er í sérflokki og yrði mjög mikilvægur bandamaður hans í þessum lykilmálaflokki. Með þessu myndi Obama bæði viðurkenna sterkan sess Hillary og færa henni hlutverk sem myndi halda henni í sviðsljósinu og ekki síður tryggja að rödd hennar myndi heyrast með mjög áberandi hætti. Einn helsti styrkleiki Hillary í forkosningaslagnum var þekking hennar á utanríkismálum og með þessari skipan, ef af yrði, myndi Obama stilla upp sínu sterkasta liði.
Mikið hefur verið talað um það í bandarísku pressunni hvort Obama hafi lofað Hillary einhverju eftir að hún lauk kosningabaráttu sinni í júníbyrjun. Sumir tala um að hún verði þingleiðtogi demókrata í öldungadeildinni eða skipuð í Hæstarétt þegar sæti losnar, en fyrirsjáanlegt er að John Paul Stevens, sem er 89 ára, hætti bráðlega í réttinum. Hillary yrði mjög pólitískur valkostur og umdeildur í réttinn en hún myndi fá traust hlutverk í utanríkisráðuneytinu og yrði á vaktinni með Obama og Biden.
Margir stuðningsmanna Obama óttuðust að yrði Hillary varaforsetaefni Obama myndi hún skyggja á hann og taka sviðsljósið og gera að sínu. Greinilegt er að öldur hefur lægt. Hún lagði mikið á sig til að tryggja kjör Obama og fór vítt um Bandaríkin til að tala máli hans og hvetja þá sem studdu hana til að kjósa Obama. Hún lék mjög mikilvægt hlutverk og auðveldaði Obama leikinn við að tryggja sterkan flokk í kosningunum, tryggði samstöðuna á flokksþinginu og á lokasprettinum í lykilríkjunum.
Valið á henni sem utanríkisráðherra myndi vissulega vekja athygli en það yrði fyrst og fremst litið á það sem viðurkenningu fyrir gott starf og einfaldlega vegna þess að Obama treystir dómgreind hennar og ráðleggingum.
![]() |
Hillary hugsanlega utanríkisráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.11.2008 | 00:28
Örlagavindar á Skaganum - pólitísk uppstokkun
Þarna er mörkuð stefna sem hlýtur að endurspegla einhvern vilja úr fjölskyldu eiginkonu forsætisráðherrans. Mér finnst annað óhugsandi en þetta sé liður í einhverri atburðarás bakvið tjöldin. Allavega, mun þetta vekja spurningar um hvort nánustu stuðningsmenn forsætisráðherrans séu að fara á Evrópulínuna og skipta um áherslur í aðdraganda einhverrar ákvörðunar. Ég bíð spenntur eftir því hvort forysta Sjálfstæðisflokksins sé tilbúin til að taka u-beygju án landsfundar.
Þetta er öflug ályktun, engin tæpitunga töluð á Skaganum frekar en venjulega og þarna kemur fram afgerandi skoðun á því hvað eigi að gera. Ég tel allt í lagi að fólk í flokksstarfinu hafi skoðanir og tjái þær hreint út. Alla tíð meðan ég var virkur í forystu flokksfélaga hér á Akureyri og í ungliðastarfinu á landsvísu tjáðum við okkur hreint út, ekki alltaf í takt við flokksforystuna og ráðherra flokksins. Þegar ég var formaður Varðar vorum við með líflegar ályktanir.
Ég hef alla tíð verið á þeirri skoðun að áherslur í flokksstarfinu séu fyrst og fremst mótaðar á landsfundi. Þar er vettvangurinn fyrir heiðarlega og trausta umræðu um málefni. Þar er unnið í öllum málaflokkum sem skipta máli. Eigi að ræða Evrópumálin og kanna stöðuna með tilliti til þess að móta afstöðu til Evrópusambandsins þarf að ræða það á landsfundi.
Ég sem sjálfstæðismaður sætti mig ekki við að afstöðu flokksheildarinnar til Evrópusambandins sé breytt eða hún stokkuð upp án þess að fram fari umræða á landsfundi og kosning um stefnuna. Þetta er lykilatriði í mínum huga. Ólíkt sumum öðrum flokkum sætti ég mig ekki við að svo mikilvæg ákvörðun sé tekin á lokuðum kontór úti í bæ, án flokksumræðu.
Ég hef sagt það hér áður að ég vil flýta landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þetta eru örlagatímar í sögu þjóðarinnar og það þarf að koma saman og fara yfir lykilmálin. Þar verður afstaðan til málanna sem mestu skipta mótuð og forystan fær sitt kjör. Mér finnst eðlilegt að fara yfir allt í því samhengi og mjög eðlilegt er að forystan láti reyna á styrk sinn.
Hvað varðar afstöðu flokksfélaga minna á Akranesi til forystu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins er ég hiklaust þeirrar skoðunar að eigi einn að fara eigi allt settið að fara og öllu mokað út í allsherjar uppstokkun og yfirferð. Þetta er miklu stærra mál en svo að einn maður eigi þar að bera ábyrgð.
Reyndar lýsi ég eftir valdamesta manni landsins, Jóni Sigurðssyni, formanni Fjármálaeftirlitsins og varaformanns bankaráðs Seðlabankans. Af hverju lætur þessi maður ekki ná í sig og af hverju er ekki þjóðarkrafa að hann svari fyrir sofandagang Fjármálaeftirlitsins. Sá hefur sloppið billega.
Staða samfélagsins er þannig að ekkert er lengur sjálfsagt - allt á að vera rætt hreint út og án hiks. Við getum ekki lokað augunum og stungið höfðinu ofan í sandinn. Þess vegna eiga allir flokkar að halda landsfundi sem fyrst og stokka upp sín mál.
![]() |
Stjórnendur Seðlabankans víki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.11.2008 | 22:17
Björgólfur í móðu - týndi sjálfum sér í græðginni
Vissulega er Björgólfur einlægur og vandaður maður að mörgu leyti. En ég hef miklar efasemdir um hann sem bissnessmann eftir alla þessa hringekju sem við höfum verið í og fylgst með síðustu árin. Þar hefur verið gamblað langt um efni fram og þeir sem tóku þar mestan þátt fóru langt fram úr sjálfum sér. Björgólfur er einn þeirra sem bera þar mikla ábyrgð. Ummæli hans um bankabruðlið og græðgina þar innanhúss eru ekki trúverðug. Hann hefði getað stöðvað þetta rugl.
Ekki gerði hann neitt í því og ber þar mjög mikla ábyrgð - mun meiri en hann var tilbúinn til að kvitta fyrir. En það er þetta með Björgólf og ábyrgðina að ég áttaði mig aldrei á hvar honum fannst hann tapa sálinni í sjálfum sér. Einhversstaðar í partýinu fóru skilningarvitin að gefa sig. Ekki virðist Björgólfur vilja muna eða rifja upp í móðunni hvar það gerðist. En það skiptir svosem ekki máli. Hann ber mikla ábyrgð, mun meiri en svo að hann geti bent á aðra.
Í sannleika sagt trúi ég ekki Björgólfi - ímynd hans, sem hann reyndi að endurreisa með tveimur bókum um Hafskipsmálið, er í algjörri rúst og verður ekki púslað saman svo trúverðugt sé. Svo er það bara öllum öðrum en honum að kenna hvernig fór. Bara ef Seðlabankinn hefði látið hann fá meiri pening, þá hefði allt gengið - svo segir Björgólfur. Eigum við að trúa þessu rugli?
Eigum við þá að afgreiða mat Dominique Strauss-Kahn, Robert Aliber og Vince Cable á stöðunni? Hafa þeir ekki rétt fyrir sér? Ég tel það. Bankakerfið sökkti íslensku þjóðinni, urðu alltof stórir og svo varð ekki við neitt ráðið. Við hefðum betur tekið mark á Aliber. Stjórnmálamenn bera líka mikla ábyrgð því þeir gerðu ekki neitt. Svefninn var dýrkeyptur.
Eitt er þó víst: Björgólfur, hinn iðrandi syndari, lenti í móðu, algjörum villigötum, og týndi sjálfum sér í græðginni. Hann hefði getað gert margt til að snúa málum á annan veg fyrir þónokkru en gerði ekki neitt, sukkaði í botn og iðrast nú.
Ég verð að segja það hreint út að ég ber enga virðingu fyrir þannig liði sem kemur núna með grátstafinn í kverkunum og reyna að væla sér inn samúð hjá þjóðinni sem þeir settu á hausinn.
![]() |
Skuldir lenda ekki á þjóðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.11.2008 | 18:40
Afturhvarf til fortíðar - fimmtudagsstillimynd
Jæja, þá er stillimyndin komin á Skjá einn. Þetta er táknrænn gjörningur. Með því að setja stillimynd á skjáinn á fimmtudagskvöldi, sem var sjónvarpslaust á Íslandi í 21 ár hjá Ríkissjónvarpinu er verið að senda skýr skilaboð um að frjáls fjölmiðlun sé í hættu og jafnframt minna á að við getum jafnvel endað á sama reit og var áður en fjölmiðlun var gefin frjáls. Þetta er klók og traust markaðssetning og vekur áhorfendur til umhugsunar.
En ég er viss um að slatti af fólki er ósátt við að missa af House og 30 Rock í kvöld, en svona er þetta. Sé að yfir 40.000 hafa skrifað til stuðnings Skjánum. Held að það segi mikið - hvað eru margir búnir að skrifa á kjósa.is? Er það ekki innan við 5000?
![]() |
Stillimynd á SkjáEinum í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.11.2008 | 17:09
Vondir kostir - er stjórnarkreppa í landinu?
Verst af öllu finnst mér þó sú kuldalega staðreynd að mér finnst hálfgerð stjórnarkreppa skollin á í landinu. Stjórnarflokkarnir virðast hökta saman af gömlum vana en ekki vegna áhuga á að vinna saman. Mér finnst við vera föst í mjög vondri atburðarás. Enginn stjórnmálamaður er að tala í alvöru lausnum og hugmyndum um framtíðina. Þetta er napur veruleiki og þetta höfum við lifað við í rúman mánuð - í biðinni eftir því að einhver vilji nú vera svo góður að rétta okkur hjálparhönd. Við verðum að redda okkur sjálf. Við stöndum ein eftir.
Mér finnst þetta stjórnarsamstarf minna mig á lélegt hjónaband þar sem aðilar þess búa enn saman undir sama þaki, borða sinn mat við eldhúsborðið en sofa í tveimur herbergjum og geta helst ekki horft framan í hvort annað. Traustið er gufað upp og bakstungurnar ótalmargar. Ásmundur Stefánsson lítur út eins og hjónabandsráðgjafi með hverjum deginum sem líður og verður lítið ágengt. Mér finnst pólitísk forysta þessarar ríkisstjórnar í molum - ekki tekst að þoka málum áfram.
Nú vantar alvöru forystu. Hart er ef það fer svo að eina forystan sem geti tekið við málunum verði fólgin í utanþingsstjórn einstaklinga sem koma hvergi nærri því sem gerist í þingsal. Ef þessi stjórn með sína fjölmennu sveit gefst upp í baráttunni við vandann hefur pólitísk forysta þessa lands í raun gefist upp fyrir verkefninu.
![]() |
Enginn góður kostur í stöðunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2008 | 15:54
Skjár einn setur stillimyndina á skjáinn
Vel sést á undirskriftasöfnunni að Skjár einn hefur markað sé traustan sess í huga fólks, sem vilja ekki án hennar vera. Barátta hennar nú skiptir miklu máli, enda er þetta í raun barátta fyrir traustri frjálsri fjölmiðlum. Skora á alla að fara á heimasíðu Skjás eins og skrifa nafn sitt þar til stuðnings stöðinni og baráttu hennar.
![]() |
Breytt dagskrá á Skjá einum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.11.2008 | 11:15
Skemmdarverk við Valhöll
Kannski er staðan þannig að fólki finnst það eðlilegt að skemma fyrir öðrum með þessum hætti. Ljótt er ef satt er. Hitt er svo aftur annað mál að í þessu árferði er örvænting fólks mikil og reiðin er ekki síður mikil. Reiðin getur oft verið erfið viðureignar ef ekki tekst að koma henni í annan farveg en þennan.
![]() |
Máluðu Valhöll rauða í nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |