Er vinstristjórnin með eitthvað plan B?

Eftir nýjustu yfirlýsingar Dominique Strauss-Kahn er ljóst að Steingrímur J. og Gylfi hafa farið sneypuför hina mestu til Washington. Samstarfið við AGS er í upplausn og óljóst hvað vinstristjórnin ætlar að gera, enda hefur stjórnin ekki haft neitt plan B í sinni einstefnu undanfarna mánuði. Hún hefur ekki haft þingmeirihluta til að gera neitt af viti og er logandi í innri ólgu og skítkasti, þar sem forsætisráðherrann lýsir samstarfsmönnum sínum sem kattahjörð í smölun.

Hefði ekki verið betra fyrir íslensku þjóðina að heyra stöðuna beint frá Steingrími og Gylfa í stað þess að láta handrukkarafrakkann segja það. Hversu lengi ætlar Steingrímur að vera eins og barinn hundur og láta eins og ekkert sé? Þó hann sé eins og kúgaður eiginmaður í afleitu hjónabandi á hann að tala hreint út við þjóðina og segja hvernig staðan er.

Pólitískt kapítal þessarar stjórnar fór í það eitt að sækja um aðild að ESB og koma handónýtum Icesave-díl í gegnum þingið. Nú virðist samstarfið farið í hundana... og þó... nei afsakið í kettina :)


mbl.is Ísland kann að skorta stuðning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óánægja í kattahjörðinni í VG



Á meðan flestir hlæja að óförum vinstristjórninnar og kattasmölun Jóhönnu Sigurðardóttur eru vinstri grænir niðurlægðir, sárir og bitrir - skal engan undra. Brandararnir grassera á netinu og fátt um annað talað en lánleysi þessarar vinstristjórnar.

Svona gengur víst kattasmölun fyrir sig.

mbl.is Þingflokkur VG á fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harðjaxl í eldgosaferð

Ekki er hægt annað en bera mikla virðingu fyrir viljastyrk Jóns Gunnars Benjamínssonar - hann hefur alla tíð sýnt vel að hann er harðjaxl, einkum eftir að hann lamaðist í bílslysinu fyrir nokkrum árum. Ferðin á eldgosaslóðirnar kemur engum að óvörum sem þekkir kraftinn í Jóni, hann lætur ekkert stöðva sig.

Ég þekki vel bróður Jóns, Berg Þorra Benjamínsson. Hann lamaðist líka fyrir neðan mitti fyrir rúmum áratug. Þeir bræður hafa haldið áfram af fullum krafti þrátt fyrir lömunina, ekki látið hana vera endastöð lífsins, verið duglegir í baráttunni.

Þeir hafa mikinn styrk af hvor öðrum, en hafa karakterinn ræður mestu. Þeir eru sannkallaðar hvunndagshetjur.

mbl.is Fór lamaður að eldgosinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna sendir eitraða pillu til vinstri grænna

Jóhanna Sigurðardóttir niðurlægir vinstri græna með eitraðri pillu sinni í dag - segir eins og að smala saman köttum að ná þingmeirihluta. Skilaboðin eru einföld til VG og Steingríms: ef vinstri grænir sameinist ekki um lykilmál sé samstarfinu lokið. Þetta eru hótanir af sama tagi og Jóhanna er svo fræg fyrir, stór hluti stjórnmálaferils hennar hefur einkennst af hótunum bæði við samflokksmenn og pólitíska andstæðinga. Ekkert nýtt.

Auðvitað er erfitt fyrir Jóhönnu að vera verkstjóri í lánlausri ríkisstjórn - henni hefur aldrei tekist að verða traustur leiðtogi á pólitískum vettvangi né sýnt nokkur merki þess að kunna með verkstjórn að fara. Enda sést það best á þessari stjórn í nafni hennar. Hún hefur verið feig mánuðum saman, allt frá því að Ögmundur Jónasson var hrakinn út úr henni með hótunum og yfirgangi.

Þetta getur ekki endað nema á einn veg. Við skulum fara að búa okkur undir þingkosningar fljótlega. Þessi lánlausa vinstristjórn er gjörsamlega komin á endastöð.


mbl.is Ósamstaða VG veikir stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ægifögur náttúra

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi
Íslensk náttúra er rómuð á veraldarvísu. Hún er ægifögur og lifandi, eins og við höfum öll séð síðustu dagana eftir að eldgosið á Fimmvörðuhálsi hófst. Myndirnar og frásagnirnar af gosinu hafa vakið athygli allrar þjóðarinnar og víða um heim er fylgst með því sem gerist.

Allir vilja komast á staðinn - áhættan hlýtur að vera í huga þeirra sem taka slaginn og halda af stað. Kannski kemst það upp í vana að láta líf sitt í hendur náttúrunnar. Náttúran getur verið yndisleg en hún getur líka tekið sinn toll.

Mér finnst þessi mynd einna fallegust þeirra sem sést hafa, enda nýtur gosið sín best í náttmyrkrinu.

mbl.is Beinist að Hvannárgili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flottur listi hjá sjálfstæðismönnum í Garðabæ

Eftir neikvæða umræðu um stöðu kvenna hjá Sjálfstæðisflokknum í Garðabæ leysir hinn gamalreyndi leiðtogi, Erling Ásgeirsson, málin með því að víkja úr fyrsta sætinu fyrir konu, sem hlaut mikið fylgi í annað sæti og stíga til hliðar mun neðar á listann. Áslaug Hulda er vel að þessu komin, traust og flott kona sem á eftir að standa sig vel í sveitarstjórnarmálum.

Þessi tillaga Erlings styrkir flokkinn hinsvegar til muna og er honum umfram allt persónulega til mikils sóma, en um leið vekur athygli að hann stígi sjálfur til hliðar eftir að hafa sigrað leiðtogaslag við Pál Hilmarsson. Þarna fer maður sem hugsar um hag heildarinnar umfram sína eigin, virðingarvert vissulega.

Ekki þarf að efast um hvernig þessum lista muni ganga í vor. Garðabæ er og hefur verið blár bær og verður það auðvitað áfram.


mbl.is Áslaug Hulda leiðir listann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jónína Ben og Gunnar í Krossinum gifta sig

Þrátt fyrir að mikið hafi verið hvíslað um samband Jónínu Ben og Gunnars í Krossinum er óhætt að segja að þeim hafi tekist að koma öllum á óvart, vinum, slúðurblöðum og allt þar á milli, með að gifta sig snögglega og án þess að gera tilstand úr því. Þau hafa bæði verið umdeild og samband þeirra verið á milli tannanna á fólki svo eflaust er þetta skiljanleg ákvörðun að drífa í þessu.

Ég vil óska þeim innilega til hamingju með giftinguna og óska þeim alls góðs.


mbl.is Jónína og Gunnar í hjónaband
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjónabandssælan súrnar



Ansi er það kaldhæðnislegt að óskarsverðlaunaleikkonur í aðalhlutverki síðustu tveggja ára, konur sem lofsungu eiginmenn sína í þakkarræðunum, eigi í hjúskaparvandræðum í sömu vikunni. Sandra Bullock jafnar sig á framhjáhaldi mannsins síns sem brosti svo innilega til hennar þegar hún fékk óskarinn fyrir Blind Side í síðustu viku og Kate Winslet er skilin við eiginmann sinn, óskarsverðlaunaleikstjórann Sam Mendes (sem gerði American Beauty).

Frægðin er hverful og hamingjan ekki síður. Svolítið spes að horfa á þessa tíu daga gömlu ræðu Söndru Bullock nú þegar hjónabandi hennar virðist vera að ljúka.

Bandaríska pressan gerir þó grín að þessu með því að kalla Jesse James "the worst supporting husband of a lead actress".

mbl.is Hélt framhjá Söndru Bullock
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klofningur í Sjálfstæðisflokknum á Akureyri

Mikil dramatík einkenndi fulltrúaráðsfund Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í gærkvöldi þar sem Sigurður Guðmundsson, verslunarmaður, sagði sig úr flokknum og boðaði sérframboð. Mér þykir afar leitt að kjörnefnd bar ekki gæfu til að fara eftir úrslitum prófkjörs með sex efstu sæti og halda friðinn innan flokksins með því. Þetta er taktlaust og mjög vond vinnubrögð, því miður.

Ég taldi að úrslitin myndu standa og kjörnefnd myndi reyna að sameina flokksmenn á bakvið þennan sex manna hóp. Sigurður var 25 atkvæðum frá því að hljóta fjórða sætið og 40 atkvæðum að mig minnir frá bindandi kosningu. Hann tók vissulega mikla áhættu með mótframboði við sitjandi leiðtoga og virðist refsað fyrir það.

Þetta eru óþarfa leiðindi og boðar sárindi í flokkskjarnanum, enda er leitt að úrslitum prófkjörsins sé ekki fylgt og reynt að gera gott úr málum. Sérframboð er skaðlegt fyrir flokkinn, þetta ættu reyndir menn í starfinu að vita, menn sem upplifðu átökin eftir prófkjörið 1994 þar sem Jón Sólnes yngri og fylgismenn hans fóru sárir frá velli.

Þau sárindi komu illa niður á flokknum í kosningunum 1994. Sérframboð Sigurðar Guðmundssonar er vond tíðindi fyrir flokkinn, enda má hann varla við miklum áföllum. Sjálfur hef ég ekki verið virkur í félagsstarfinu í nokkurn tíma og horft á verkin þar úr fjarlægð, mætt á fundi, enda haft áhuga á pólitík.

Svona vinnubrögð laða fólk ekki að starfinu, því miður. Þessi vinnubrögð boða ekki gott.

mbl.is Segir sig úr flokknum og boðar sérframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Árni Páll verða eftirmaður Jóhönnu?

Baráttan er hafin af fullum krafti um hver verði eftirmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, sem augljóslega er á útleið úr stjórnmálum - enda ekki valdið embætti forsætisráðherra. Árni Páll Árnason ætlar greinilega að festa sig í sessi í þeirri baráttu með nýjasta útspili sínu, sem bætist í hópinn með mörgum ódýrum trixum í ráðherratíð hans, sem hafa litlu skilað og slegið lítið sem ekkert á óánægju almennings.

Samfylkingin hefur verið leiðtogalaus mánuðum saman. Jóhanna hefur ekki karakterinn og styrkinn sem þarf í embætti forsætisráðherra, verið ósýnileg og ekki náð að vera sá leiðtogi sem þjóðin þarf á þessum örlagatímum, þegar tala þarf kjark og kraft í íslensku þjóðina. Árni Páll, sem sló við Lúðvík Geirssyni í Kraganum, hefur verið á uppleið innan flokksins en frekar dalað að undanförnu.

Nú er hann greinilega að byrja slaginn og ætlar að reyna að festa sig í sessi í flokkskjarnanum, sem eins og þjóðin þarf mjög á leiðtoga að halda, eftir því sem líður að endalokum stjórnmálaferils Jóhönnu og þegar límið í þessari lánlausu vinstristjórn gefur æ meira eftir.

mbl.is Saka Árna Pál um ódýrt útspil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Egill Helgason sækir um stöðu dagskrárstjóra

Mér finnst merkilega lítið fjallað um þá staðreynd að sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason, umsjónarmaður Silfur Egils og Kiljunnar, er einn 37 umsækjenda um stöðu dagskrárstjóra Ríkissjónvarpsins. Nafnið Egill Óskar Helgason er líka ekki beint að öskra eftir athygli, nema þegar vel er að gáð, enda notar Egill miðnafnið sitt ekki.

Umsókn Egils ætti að vekja mun meiri athygli, enda einn af mest áberandi fjölmiðlamönnum landsins, bæði í sjónvarpinu og á netinu, en skrif hans vekja jafnan mikla athygli og hafa skrif hans og þættir verið umdeildir en notið mikilla vinsælda.

Nú verður fróðlegt að sjá hvort yfirstjórnin á RÚV velji Egil til að stýra dagskrárdeildinni. Umsækjendahópurinn er reyndar úr öllum áttum og þar sækja miklir reynsluboltar úr fjölmiðlum um.

En nafn Egils vekur þar óneitanlega mesta athygli, þó lítið sé um það fjallað, merkilegt nokk. Enda kannast ekki allir við Egil Óskar Helgason. :)

mbl.is 37 sóttu um starf dagskrárstjóra RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ódýr kjaftagangur hjá Steingrími J.

Ansi er það nú ódýr kjaftagangur hjá Steingrími J. að ráðast að fulltrúum atvinnulífsins þegar þeir benda á hina augljósu staðreynd að vinstristjórnin er handónýt. Hún hefur litlu komið í verk, er lánlaus og ráðalaus - eyðir mestum tíma sínum í innbyrðis hjaðningavíg og stólaleiki í stað þess að koma hjólunum af stað.

Allir sjá að VG er rjúkandi rúst, þar er baráttan um stólana hafin og verður greinilega ekkert áhlaupsverkefni að koma Ögmundi, manninum sem er með puttann á on/off-takkanum á öndunarvélinni, fyrir aftur í stjórninni. Allt annað í landinu er á einu risastóru stoppi meðan VG fuðrar upp.

Þetta er raunalegt. Þetta lið ætti að skammast sín og koma sér að verki, það hefur þegar spanderað heilu ári í ESB og Icesave-klúður sitt!

mbl.is Þreyttur á þessu kjaftæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugumferðarstjórar aflýsa fyrir lagasetningu

Lítil sem engin samúð er með flugumferðarstjórum í baráttu þeirra, enda seint sagt að stemmning sé fyrir kröfum þeirra í þeirri stöðu sem blasir við nú í samfélaginu öllu. Þeir gera rétt að blása þetta af áður en Alþingi setur lög á verkfallsaðgerðirnar.

Kristján Þór Júlíusson gerði rétt með ummælum sínum í gærkvöldi um lagasetningu og var þar með á undan ráðherrum í ríkisstjórninni máttlausu sem er við völd. Loksins tók hún við sér og var með lagasetningu tilbúna.

Til þess kemur ekki, en það er gott að vita að menn eru tilbúnir til að stöðva þessa vitleysu af.

mbl.is Flugumferðarstjórar aflýsa verkfalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halldór fer á Fréttablaðið - kemur Sigmund aftur?

Kjaftasaga kvöldsins er að skopmyndateiknarinn Halldór Baldursson sé hættur á Mogganum og fylgi Ólafi Þ. Stephensen á Fréttablaðið. Hann teiknaði skopmyndir á hinu sáluga blaði 24 stundum í ritstjórn Ólafs og fylgdi honum þaðan á Moggann. Mikil tíðindi, enda hefur Halldór fest sig í sessi sem skopmyndateiknari með næmt auga fyrir þjóðlífinu og rissar upp listagóðar myndir sem skanna það sem gerist í samfélaginu.

Þegar Halldór fór á Moggann var skopmyndateiknaranum Sigmund frá Eyjum bolað burt úr sínu skopmyndaplássi, sem hann hafði haft frá árinu 1964, með ömurlegum vinnubrögðum ritstjórnar Morgunblaðsins. Þetta voru ömurlegar aðferðir eftir áratugastarf Sigmunds fyrir Morgunblaðið.

Vonandi kemur Sigmund aftur! Ættu að vera hæg heimatökin, enda býr eigandi Moggans í Eyjum, ekki satt?

Skuldakóngum hossað

Ég undrast ekki að fólkið í landinu hafi fengið nóg af því hvernig skuldakóngum er hossað af bönkum og lánardrottnum. Reiði almennings er mjög skiljanleg. Hvernig er hægt að búast við því að langlundargeð fólksins sé algjört gagnvart þessum fréttum af því hvernig stórskuldugir menn eru smúlaðir af ábyrgð á skuldum og endalausu sukki?

Dag eftir dag eykst undiraldan gegn þessu verklagi og skal engan undra. Þeir sem kusu til valda vinstristjórn til að taka á sukkinu hljóta að vera vonsviknir og sárir. Hvaða breytingar hafa orðið síðasta árið? Erum við ekki enn á sama reit og eftir hrun. Vonbrigðin aukast þó, enda augljóst að völdum mönnum eru rétt fyrirtækin aftur.

Við búum enn í miðju sukkinu, höfum ekki komist úr hinu ógeðslega feni lágkúrunnar. Þetta er eins og Groundhog Day, sama og sama aftur og aftur.


mbl.is Veldi byggt á skuldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðastríð vinstristjórnarinnar

Engum dylst að vinstristjórnin er verulega löskuð og í raun búin að vera, hvað sem Jóhanna og Steingrímur segja í veruleikafirringu sinni. Stóri vandinn er sá að þingmeirihlutinn er ekki til staðar, enda hefur þessi vinstristjórn varla komið málum áfram í þinginu og þurft að stóla á annan stuðning í lykilmálum en í sínum röðum. Þetta ástand felur feigðina í sér. Enginn annar meirihluti er til staðar og því einsýnt að boða verði til þingkosninga haldi þetta áfram mikið lengur með þessum brag.

Stóra ástæðan fyrir vandræðagangi vinstristjórnarinnar er auðvitað sá að hún hefur aldrei haft traustan þingmeirihluta fyrir Icesave-málinu, þurft að beita hótunum og yfirgangi á vissa þingmenn sína til að fá mál í gegn og gengið með því mjög á pólitískt kapítal sitt. Nú er ljóst að skrifað var undir hina afleitu Icesave-samninga án þess að þingmeirihluti væri til staðar. Steingrímur J. Sigfússon hlustaði ekki á þingmenn sína sem voru andvígir og tók mikla pólitíska áhættu.

Tilgangslaust er fyrir þennan þvergirðing að koma nú fram og kenna öðrum um hvernig fór. Hann hlustaði ekki á þingmeirihlutann á þeim tíma, sem hefur merkilegt nokk lítið breyst. Enn er meirihluti gegn þeim samningum sem skrifað var undir, þó svo þeir hafi fengist samþykktir með tilslökunum og langri vinnu við fyrirvara sem var síðar samið af sér og aðrir viðaukasamningar fengnir í gegn með hótunum, þar til forsetinn tók málið úr höndum hans og færði þjóðinni valdið að kasta lögunum.

Úrslit síðustu þingkosninga voru skýr: vinstriflokkarnir fengu hreinan meirihluta, traust kjósenda til að vinna að sínum málum án aðkomu annarra flokka. Sjálfstæðisflokknum var sparkað frá völdum og hann fékk ekki neitt umboð í síðustu þingkosningum. Vonlaust er að kenna honum um hvernig komið er málum nú með óstarfhæfan þingmeirihluta vinstrimanna. Leiðtogum stjórnarflokkanna tókst að vinna mál áfram án þess að hlusta á óbreytta þingmenn sína og svo fór sem fór.

Ef þessi vinstristjórn með hreinan meirihluta gefst upp er ekkert ráð annað en boða til þingkosninga í sumar eða haust. Annað er ekki boðlegt. Við öllum blasir að enginn annar traustur meirihluti er fari svo að sá meirihluti sem kosinn var beint til valda, sem landsmenn treystu fyrir stjórn landsins, fellur vegna innri hnútukasta. Þá verður að stokka spilin upp á nýtt.


mbl.is Heita ekki stuðningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ódýra myndin fellir tekjuhæstu mynd sögunnar

Sigur stríðsmyndarinnar The Hurt Locker og leikstjórans Kathryn Bigelow á stórmynd James Cameron, vísindaskáldsögunni Avatar, er táknrænn og sögulegur í senn: þar fellir ódýra myndin, sem komin er út á DVD og vakti mun minni athygli kvikmyndaáhugamanna, tekjuhæstu mynd sögunnar, sem var talin örugg um sigur á hátíðinni fyrir nokkrum vikum, einkum eftir að hún vann Golden Globe-verðlaunin.

Kathryn Bigelow kemst í sögubækurnar með því að vera fyrsta konan til að vinna leikstjóraóskarinn í 82 ára sögu akademíunnar. Löngu tímabært að akademían heiðraði kvenkyns leikstjóra. Aðeins þrjár konur höfðu fengið tilnefningu í leikstjóraflokknum á undan Bigelow; Lina Wertmüller, árið 1976, Jane Campion, árið 1993, og Sofia Coppola, árið 2003.

Ljóst varð þegar Hurt Locker tók óskarinn fyrir handritið að hún myndi sópa til sín stærstu verðlaunum og vakti raunar mesta athygli þegar Hurt Locker vann hljóðverðlaunin í baráttunni við Avatar. Raunar hafði barátta Cameron og Bigelow um óskarinn verið í sviðsljósinu, einkum vegna þess að þau voru gift 1989-1991.

Jeff Bridges vann loksins óskarinn, seint og um síðir, tæpum fjórum áratugum eftir að hann sló í gegn í Last Picture Show og varð þekktur fyrir eitthvað annað en vera sonur Lloyd Bridges. Túlkun hans á drykkfellda sveitasöngvaranum í Crazy Heart hefur verið rómuð mjög. Bridges hefur átt glæsilegan leikferil og átt margar flottar leiktúlkanir - löngu búinn að vinna fyrir gullnu styttunni. Ræðan hans var traust og flott - sæt minning um mömmu og pabba.

Sandra Bullock náði að vinna hið merkilega afrek að vinna bæði Óskar og Razzie sömu helgina. Sandra hefur verið umdeild leikkona alla tíð, bæði fyrir að geta ekki leikið og vera lítt fjölbreytt í leiktúlkun. Hún átti góða takta í Speed og Crash, en ég hef ekki verið meðal hennar mestu aðdáenda í gegnum tíðina.

Hefði frekar viljað að Meryl Streep, besta leikkonan í Hollywood, fengi óskarinn. Það eru orðin 27 ár síðan Meryl hlaut óskarinn fyrir Sophie´s Choice, en hún vann fyrri óskarinn þrem árum áður fyrir Kramer vs. Kramer. Enginn leikari í sögu akademíunnar hefur hlotið fleiri tilnefningar, sextán talsins. Meryl hefði átt að fá styttuna.

Mo'Nique og Christoph Waltz voru með gullnu styttuna trygga. Öruggustu veðmál kvöldsins að þau myndu sigra, bæði tvö mjög verðskuldað fyrir flotta túlkun. Þegar ég sá Waltz í Inglourious Basterds var ég viss um að hann tæki óskarinn, glæsileg frammistaða.

Útsendingin var frekar þurr og þreytt. Það þarf að stokka uppsetninguna á hátíðinni eitthvað verulega upp. Baldwin og Martin voru ekkert spes sem kynnar, góðir brandarar voru mjög fáir. Langhundurinn í upptalningu þegar kom að aðalleikflokkunum var einum of og seinkaði dagskránni og bætti litlu við. Svo vantaði fleiri lífleg tónlistaratriði. Slappt að tilnefnd lög væru ekki spiluð.

Svo fannst mér snubbótt og leitt að heiðursverðlaunin voru ekki afhent á sviðinu á hátíðinni. Lauren Bacall átti þau skilið og gott betur en það: ein af síðustu leikkonum gullna tímans í Hollywood sem enn lifir, er ekkja Humphrey Bogart, og hefur verið traust leikkona alla tíð.

Akademían átti að veita henni leikverðlaunin fyrir Mirror Has Two Faces á sínum tíma. Fannst það frekar leitt að Bacall væri ekki sýndur meiri sómi þegar hún hlaut heiðursverðlaunin. Þetta var of snubbótt.



Hugljúfasta augnablikið á hátíðinni var þegar minnst var látinna listamanna. James Taylor söng Lennon/McCartney-lagið In My Life... sætt og vel gert. En hvar var Farrah Fawcett? Alveg til skammar að hún var ekki í klippunni!



Toppar samt ekki minningarklippuna á síðasta ári þegar Queen Latifah söng I´ll Be Seeing You... það var sko stæll yfir því. Fagmennska yfir þeirri klippu.

mbl.is Bigelow stjarna kvöldsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar sigurvegari - stjórnarparið niðurlægt

Enginn vafi leikur á því að Ólafur Ragnar Grímsson er sigurvegari þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Hann talar nú sá sem valdið hefur, enda tók hann rétta afstöðu með því að hlusta á þjóðina og uppsker eftir því. Stjórnarparið var niðurlægt af þjóðinni, kjörsóknin er mjög góð og það getur enginn efast um að þjóðin hefur talað mjög afgerandi í þessari kosningu.

Jóhanna og Steingrímur eru algjörlega úr tengslum við þjóðina þegar halda áfram að gera lítið úr þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Þau ættu að sjá sóma sinn í að skammast sín fyrir dugleysi sitt og viðurkenna pólitísk afglöp með Icesave-samningunum afleitu sem þau bera fulla ábyrgð á. Þjóðin hefur fellt afgerandi dóm yfir þeirri hrákasmíð og verkstjórn þeirra.

Forsetinn hefur styrkt mjög stöðu sína og minnir á hlutverk sitt. Hann tryggði þjóðaratkvæðagreiðsluna og talar nú við heimsbyggðina sem sá er valdið hefur á Íslandi. Enda eru það stóru tíðindin síðustu vikurnar að forsetinn hefur tekið völdin af máttlausri ríkisstjórn sem hefur ekki stuðning meirihluta kjósenda lengur.

mbl.is Nei sögðu 93,2%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð gagnrýni forsetans á Norðurlöndin

Ólafur Ragnar Grímsson gerir rétt með því að gagnrýna Norðurlöndin. Algjör óþarfi er að dekstra Norðurlöndin eftir að þau tóku þátt í aðförinni að Íslandi, studdu ekki Ísland þegar á reyndi. Tímabært er að íslenskir stjórnmálamenn tali hreint út um gildi norræns samstarfs og hvort það sé einhvers virði eftir að Norðurlöndin horfðu þegjandi og hljóðalaust á aðförina að Ísland eftir efnahagshrunið.

Algjör óþarfi er að Ísland láti þegjandi og hljóðalaust yfir sig ganga endalaust og eigi svo að mæta brosandi og þegjandi á fundi með norrænum starfsbræðrum sem hafa ekkert fyrir okkur gert og verið með haltu kjafti mola uppí sér mánuðum saman.

mbl.is Segir Norðurlöndin hafa beitt Ísland þrýstingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin hafnar Icesave og stjórnarparinu

Fyrstu tölur

Skilaboð þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni eru skýr:

Yfir helmingur kjósenda mætir á kjörstað og hafnar Icesave - rúm 93% segja nei, hafna forystu Steingríms og Jóhönnu í Icesave-málinu síðustu mánuði. Allt tal um að viðaukanum sé bara hafnað hljómar eins og veruleikafirring þegar litið er á tölurnar.

Allt sem þessi stjórn hefur samið um Icesave er úr sögunni. Þau hafa fengið vænan rassskell frá þjóðinni og eiga að hugleiða sinn gang.

Auðvitað eiga þau að hafa manndóm í að segja af sér eftir þennan rassskell.

mbl.is Nær allir segja nei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband