Gutta sparkað

Ég varð svolítið undrandi yfir því hvernig sparkað var í Guðbjart Hannesson, fráfarandi forseta Alþingis, í stólaleik vinstrimanna. Hann situr eftir með sárt ennið og án hlutverks, fær ekki að fara í ríkisstjórn og missir forsetastól þingsins til HelgarÁstu, sem sér nú fram á lengri helgarfrí en hinsvegar kvöldvökur yfir þingræðum. Ætli kynjakvótinn einn felli hann? Hvað með það. Þá er skiptingin hjá Samfó skrítin. Fjórir ráðherrar af höfuðborgarsvæðinu og svo Möllerinn.

En af hverju kemur þetta mér á óvart. Jú, í sannleika sagt taldi ég að Gutta yrði eitthvað verðlaunað fyrir það hversu liðlegur hann var við Jóhönnu Sigurðardóttur í þingstörfunum í vor. Hann var í vasanum á forsætisráðherranum (þingræðið hvað) og fór marga hringi til að sníða dagskrána fyrir ríkisstjórnina.


mbl.is Sótti forsetaembættið ekki fast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstristjórnin gleymir heimilunum í landinu

Stjórnarsáttmáli vinstristjórnarinnar er hrákasmíð hin mesta. Þar er ekki tekið á þeim málum sem mestu skipta og engin er framtíðarsýnin. Varla þarf maður svosem að vera hissa, enda vinstriflokkum sjaldan gefið að skapa einhverja framtíð. Þeir hafa oftast litið til fortíðar í verklagi og tali. Mér fannst það samt nokkurt afrek hjá Jóhönnu og Steingrími og J. að komast í gegnum daginn án þess að þurfa að tilkynna um aðgerðir í ríkisfjármálum og koma með einhverja framtíðarsýn fyrir fólkið í landinu.

Ekki verður betur séð en vinstristjórnin hafi algjörlega gleymt heimilunum - hvar er skjaldborgin um heimilin? Eflaust er það rétt að það var ekkert nema spunablaður, enda er ekki að sjá neitt sem eigi að verja fólk í skuldavanda og er að sligast vegna skulda. Fjölmiðlamenn spurðu varla um stöðu þessara mála né heldur fyrsta sparnaðarráðið; að fjölga ráðherrum um tvo. Var þetta það sem vinstristjórnin meinti með ráðdeild og sparnaði?

Vissulega er talað um uppstokkun á kjörtímabilinu, en þeir hefðu getað gefið gott fordæmi og haldið ráðherratölunni í tíu. Sparnaður er ekki til í þeirra orðabók, enda er ekkert naglfast gefið um hvar eigi að stokka upp og taka til á næstunni. Hugmyndirnar eru ekki lagðar fram í þessum stjórnarsáttmála. Fólk er engu nær um hvað eigi að gera.

Þetta er mjög tómur stjórnarsáttmáli. Mest frasablaður og pólitískur spuni til að henta Jóhönnu og Steingrími. Alvarlegt mál er að forysta vinstriflokkanna skuli leyfa sér að gleyma heimilinum í landinu og koma með blankó útspil um ríkisfjármálin. Ekkert er veganestið.

Helst er að sjá að stjórnarandstaðan eigi að leika lykilhlutverk í því sem verður gert. Ný og undarleg staða. Innanmein þessarar stjórnar eru augljós og eflaust verða þeir fyrir vonbrigðum sem spá henni löngum lífdögum.

mbl.is Ný ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrum fjölgar - VG svíkur ESB-kosningaloforð

Þvert á allt blaðrið um að fækka ráðherrum hafa vinstriflokkarnir fjölgað ráðherrum í ríkisstjórninni. Þeir verða tólf í stað þess að vera tíu áður. Auðvitað vilja þeir reyna að koma sem flestum fyrir. Ekki er talað um að fækka ráðuneytum um nema eitt, með stofnun atvinnuvegaráðuneytis, svo fast sé en verkefnatilfærslur vissulega á milli ráðuneyta.

Vinstriflokkarnir fara í sama stólaleikinn eins og þeir hafa gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn fyrir. Auðvitað er forsetastóll þingsins notað sem eftirlaunabitlingur fyrir afdankaðan stjórnmálamann í Samfylkingunni. Ásta Ragnheiður, sem var ekki á vaktinni um 1. maí-helgina, er sett þar inn í pólitíska endastöð.

Vinstri grænir kyngja stoltinu og svíkja kosningaloforðin um Evrópusambandið. Þeir selja hugsjónir sínar fyrir völdin. Mun einhver tala um að þetta séu hugsjónamenn hér eftir? Varla.

mbl.is Óbreytt stjórnskipan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt hjá Man Utd - titillinn innan seilingar

Manchester United vann heldur betur traustan og glæsilegan sigur á Manchester City á Old Trafford í dag og er komið með aðra höndina á bikarinn. Liðið þarf nú aðeins að sigra Wigan til að vera í raun kominn með titilinn, rétt eins og í fyrra þegar sigur á Wigan tryggði þetta.

Þetta er núna í þeirra höndum. Þeir hafa alla möguleika á átjánda titlinum, og Liverpool þarf nú að stóla á að liðsmenn Man Utd geri sjálfir mistök til að eiga von á titlinum.

Manchester United á spennandi mánuð framundan. Ekki aðeins er deildartitillinn nærri í höfn heldur góðar líkur á að þeir verji bikarinn í Meistaradeldinni síðla mánaðar í Róm.

Ekki amalegt ef þetta fer allt á besta veg. Samt meira en lítið súrsætt fyrir Liverpool að missa af titlinum á besta tímabili sínu í fjöldamörg ár.

mbl.is Manchester United í toppsætið á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagmannleg vinnubrögð hjá Jóhönnu



Jóhanna Guðrún er að standa sig vel í Moskvu við að kynna íslenska lagið í Eurovision. Lagið fær góða umfjöllun og hálfur sigur unninn með eins góðri pr-kynningu og mögulegt má vera. Snilldarleikur var hjá íslenska hópnum að láta hana syngja lagið á fleiri tungumálum en ensku í kynningarferlinu. Sérstaklega að búa til rússneska útgáfu, auk þess frönsku, þýsku og spænsku. Þetta telur allt.

Eins og venjulega er aðalbaráttumálið að komast upp úr undankeppninni. Allt annað er sigur fyrir íslenska hópinn, þó gera megi sér svosem hæfilegar vonir um að komast jafnvel í topp tíu á úrslitakvöldi. Baráttan í undankeppninni er orðin hörð og við höfum oftast verið mjög ósátt við okkar hlutskipti. Aðeins einu sinni hefur tekist að komast áfram úr henni; í fyrra þegar Eurobandið var með This is My Life.

Helsta deilumálið er víst hvort Jóhanna Guðrún sé í boðlegum kjól. Mér finnst atriðið látlaust og vandað. Þetta er sem betur fer söngatriði. Showið er frekar lítið, enda er lagið og söngkonan það traust að ekki er þörf á sirkusatriði. Þetta er jú söngvakeppni.

Þetta verður skemmtileg vika. Þrjú Eurovision-partý og nóg af gleði. Það er spáð heitu og góðu veðri í næstu viku og eflaust mikið um góð grillpartý.

mbl.is Urðu ekki vör við neitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stólaleikur vinstrimanna

Ég skynja mikla gleði hjá vinstrimönnum yfir stólaleiknum sem er í gangi hjá Samfylkingunni og VG. Loksins fá þeir að makka með stóla og völd, hafa mjög gaman af því. Skiljanleg gleði kannski hjá þeim sem hafa verið á bömmer árum saman. Þetta er eins og maðurinn sem óverdósar á einhverju sem hann hefur þráð lengi en ekki fengið.

Mikil gleði og sæla á meðan alþýða landsins hefur beðið mánuðum saman eftir því að þetta lið sýni einhverja ábyrgð og sýni merki þess að geta stýrt landinu af ábyrgð og festu. Á það hefur algjörlega vantað. Framtíðarsýnin er engin og lausnirnar vægast sagt fátæklegar. Ráðaleysið hefur aðallega verið við völd.

Stólaleikur vinstrimanna að þessu sinni virðist aðeins vera fyrri hluti makksins og valdabaráttunnar á bakvið tjöldin. Greinilegt er að annað eins show er ráðgert undir lok ársins og þá eigi að skipta Gylfa Magnússyni út. Þeir sem ekki fá núna eiga séns þá. Þá verður kannski glatt hjá einhverjum.

Mér skilst að nota eigi forsetastól þingsins sem hluta í eftirlaunahluta nokkurra þingmanna; hið sama og vinstri grænir gagnrýndu lengi. Sögusagnir eru um að Kristján Möller og Jón Bjarnason gætu komið sterkir til leiks þar. Svo segja smáfuglarnir allavega.

mbl.is Ný ríkisstjórn á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftleiðaævintýrið og hugsjónasaga Alfreðs

Ég fór í bíó áðan og sá heimildarmyndina um ævintýralega sögu Loftleiða og hugsjónamanninn Alfreð Elíasson, sem var drifkrafturinn í einu mesta viðskiptaveldi Íslandssögunnar. Myndin er gríðarlega vel gerð og leiftrandi af frásagnargleði og þeim krafti sem einkenndi fyrirtækið. Alfreð Elíasson var hugsjónamaður í sínum verkum, byggði upp fyrirtækið af hugviti, áræðni og næmri einbeitingu.

Sagan af Loftleiðum er eitt besta dæmið hérlendis um traust vinnubrögð, hugsjónir og einbeitingu þeirra sem leiða uppbyggingu. Með því að virkja krafta allra starfsmanna með einlægri jákvæði tókst Alfreð að gera Loftleiðir að risa á alþjóðavettvangi, fyrirtæki sem naut virðingar um allan heim og byggði upp velvild meðal viðskiptavina. Sá jákvæði andi sem einkenndi starfið innan Loftleiða er einn stærsti þáttur velgengninnar í tæplega þrjátíu ára sögu fyrirtækisins. Þar skipti leiðsögn leiðtogans öllu máli.

Endalok Loftleiðasögunnar eru mjög sorgleg, eins og allir vita sem kynnt hafa sér sameiningu Loftleiða og Flugfélags Íslands árið 1973. Alfreð Elíasson missti heilsuna árið 1971 og náði aldrei eftir það fyrra afli og einbeitingu. Þegar Alfreðs naut ekki við var ekki haldið á málum af sömu einbeitingu og áður var og fyrirtækið missti sitt leiðarljós og leiðtogann sem var á vaktinni. Fyrirtækið var étið upp í veikindum Alfreðs étið upp af kerfiskörlum hjá ríkinu.

Sorglegast af öllu var hvernig unnið var í matinu á eignum Loftleiða og Flugfélags Íslands sem leiddi til þess að fyrirtækin voru metin svo til jafnstór í stað þess að Loftleiðir væri metið 70-75% af andvirði nýja fyrirtækisins, Flugleiða. Með rangindum voru eignir Loftleiða í raun teknar af stofnendunum, þeim frumkvöðlum sem af hugsjón og elju höfðu byggt upp stórveldi á heimsvísu. Þetta er ljót og óhugguleg saga sem þurfti að segja. Það tekst vel upp í þessari mynd.

Í hreinsunum sem einkenndu stjórnunartíð Sigurðar Helgasonar eldri á áttunda áratugnum var öllum hugsjónamönnum Loftleiðatímabilsins bolað út og beitt ógeðfelldum hreinsunum af algjörri skítmennsku. Alfreð Elíassyni, frumkvöðlinum og hugsjónamanninum var bolað út af skrifstofu sinni í húsnæði Loftleiða, sem fyrirtækið átti skuldlaust með hóteli, stöndugu millilandaflugfélagi og auk þess Air Bahama og hótel í Lúxemborg, svo fátt eitt sé nefnt.

Frægt var að Alfreð sagði þegar hann var rekinn á dyr úr eigin skrifstofuhúsnæði af þeim sem véluðu með Flugleiði "Hvað hefur gerst. Hvar er félagið mitt?". Gögn Alfreðs voru einfaldlega sett í pappakassa og hann síðan settur í horn úti á gangi í fyrirtækinu sínu. Þvílíkt níðingsverk! Þessi eignaupptaka og svívirðilega framkoma var fjarstýrð af samgönguráðherranum Hannibal Valdimarssyni sem vegna þrýstings stjórnmálamanna sá ofsjónum af sterkri stöðu Loftleiða og hirtu eignir þeirra af frumkvöðlunum sem höfðu unnið af harðfylgi fyrir sínu.

Ég hvet alla til að fara í bíó og skoða heimildarmyndina um Alfreð Elíasson og Loftleiðir. Þetta er saga hugsjónamanns sem lét ekkert stöðva sig og byggði stórveldi á alþjóðavísu. Endirinn er sorglegur. Mjög gott er þó að þau dapurlegu endalok eru sögð hreint út og ákveðið. Sigurður Helgason fær það óþvegið, verðskuldað og heiðarlega, í uppgjöri Loftleiðamanna. Ýjað er að því að hann hafi verið keyptur til sinna óheilinda við Alfreð. 

Þetta er traust mynd, sem er í sérflokki. Sigurgeir Orri Sigurgeirsson á heiður skilinn fyrir vandaða og heilsteypta mynd, sem er vel klippt og gerð. Myndefnið er mjög gott, viðmælendur segja heiðarlega frá velgengni og sorglegum endalokunum og umgjörðin mjög traust. Þetta er traustur og einlægur minnisvarði um hugsjónamanninn Alfreð Elíasson og segir söguna alla, bæði björtu punktana og endalokin, sem hljóta að teljast eitt mesta rán  Íslandssögunnar.


Stjórnmálasamband við Breta mjög veikburða

Ég er algjörlega sammála Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að það er ekkert að gera með stjórnmálasamband við Bretland ef ekki er hægt að bæta samskiptin og reyna að stöðva skítlegar árásir breska forsætisráðherrans á Ísland og þjóðina alla.

Get ekki betur séð en skoðun Sigmundar sé í takt við bloggfærslu mína hér í gær, þar sem ég sagði að slíta ætti stjórnmálasambandinu ef ekki væri hægt að tala milliliðalaust við Gordon Brown og lesa honum pistilinn. Eðlilegt, enda er þetta rétta afstaðan í málinu.

Án þessa er ekkert með samskipti við Bretland að gera með bresku kratarnir ráða þar ríkjum. Ekkert er að gera með samband við ríkisstjórn sem er staðráðin í að gera út af við orðspor Íslands og sparkar endalaust í íslensku þjóðina.


mbl.is Íhugi slit á stjórnmálasambandi við Breta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaut tuska framan í alla landsmenn

Krónuspá Seðlabankans er ekki aðeins blaut tuska framan í sveitarfélögin, sem standa flest mjög illa, heldur alla landsmenn. Þeir sem tóku áhættu með myntkörfulánum eiga ekki bjarta daga framundan rætist spáin algjörlega. Staða íslenskra sveitarfélaga og fyrirtækja í eigu þeirra er ekki beysin. Gott dæmi er Akureyrarbær og Norðurorka, fyrrum mjólkurkýr bæjarins. Þar er staðan grafalvarleg og ekki von á góðu.

Sveitarfélögin kveinka sér eðlilega og sumir stjórnmálamenn í verri stöðu en aðrir á kosningavetri ef ekki rætist bráðlega eitthvað úr. En allir landsmenn bera þessar byrðar og finna fyrir erfiðri stöðu. Augljóst er að sumarið verður mjög erfitt og ekki von á góðu.

mbl.is „Eins og blaut tuska“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógeðslegt níðingsverk á Húsavík

Drápið á heimiliskettinum á Húsavík er ógeðslegt níðingsverk. Hvernig getur það gerst að merktur og gæfur heimilisköttur sé skotinn með haglabyssu af meindýraeyði í bænum? Þetta er algjörlega óskiljanlegt - hver var tilgangurinn með því að drepa dýrið með svo ógeðslegum hætti? Á þessu verða að koma skýringar, enda gengið alltof langt.

Þetta mál er til skammar fyrir yfirvöld í Norðurþingi sem hafa staðið fyrir því að ráða þennan mann til verksins og bera ábyrgð á því.

mbl.is Skaut heimiliskött á Húsavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarandstæðingurinn Ögmundur birtist aftur

Mér finnst glitta í stjórnarandstæðinginn Ögmund Jónasson aftur í ummælunum um IMF í dag. Svona töluðu vinstri grænir allir áður en þeir settust í ríkisstjórn og urðu allt í einu bestu vinir þess kapítalíska bákns sem þeir kölluðu lengi vel og gagnrýndu harkalega framan af vetri. Þessi túlkun Ögmundar væri sannfærandi hefðu þeir haft þessa skoðun í allan vetur og látið sannfæringuna í baráttunni gegn IMF ráða í stað þess að gera allt fyrir völdin.

Þó Ögmundur hrópi hátt í dag gegn IMF verður þeirri mikilvægu staðreynd ekki breytt að vinstri grænir beygðu af leið við myndun valdabandalagsins með Samfylkingunni í janúar og urðu gestgjafar "heimslögreglu kapítalismans" og kokgleyptu öll stóryrðin. Ætluðu ekki vinstri grænir með Steingrím og Ögmund að sparka IMF í burtu og leita til Norðmanna eftir aðstoð? Með þeim árangri að við fengum Norðmann í Seðlabankann sem hefur af fáu að státa.

Staðreyndin er auðvitað sú að ráðherrar vinstri grænna og þingmenn þeirra seldu sannfæringu sína fyrir völdin. Þeir sitja og standa eins og heimslögreglan segir þeim að gera. Þeir eru eins og sirkusdýr þeirra.


mbl.is Heimslögregla kapítalismans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að slíta stjórnmálasambandi við Bretland?



Sumum fannst ég djarfur þegar ég sagði í bloggfærslu 9. október 2008, eftir viðtalið við durtinn Brown á Sky þar sem hann jós skít og skömmum yfir Ísland, að Ísland ætti að slíta stjórnmálasambandi við Bretland. Æ betur sést að það hefðum við átt að gera. Íslensk stjórnvöld áttu að svara fullum hálsi og taka málið föstum tökum frá fyrsta degi í stað þess að lympast niður.

Við höfum með þögn og aðgerðarleysi okkar í alþjóðasamfélaginu, t.d. með því að mótmæla ekki harðlega á leiðtogafundi NATÓ, vanið Bretana á að sparka í okkur án þess að svara í sömu mynt. Ég held að síðar meir verði þetta hik og aðgerðarleysi metið sem mikil og taktísk mistök.

Þegar ein þjóð í NATÓ-samstarfinu beitir annarri hryðjuverkalögum og reynir að sparka henni til helvítis með því að eyðileggja orðspor hennar með vísvitandi hætti á slíkt heima innan NATÓ til umræðu.

Myndbandið af Brown þar sem hann hótar íslensku þjóðinni með því að toga í spotta hjá IMF er grafalvarlegt mál. En það er líka fylgifiskur þess að samfylkingarráðherrarnir hafa ekki þorað að taka slaginn.

Brown veit að hann getur togað í spotta hjá IMF og innan ESB með því að manípúlera aðildarviðræðum við Ísland, þegar af þeim verður, ef hann verður annars enn við völd. Hótunin er augljós.

Nú eigum við að fara að taka til okkar ráða og sparka frá okkur - það sem við áttum að gera í haust. Þessi aumingjabragur stjórnvalda síðan í haust hefur verið okkur nógu fjári dýrkeyptur.

mbl.is Hafa fengið nóg af Bretum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skítleg vinnubrögð hjá Gordon Brown

Enn einu hefur durturinn Gordon Brown afhjúpað sitt innra eðli. Hann gerir allt til að upphefja sjálfan sig á vandræðum íslensku þjóðarinnar og hikar ekki við að sparka í okkur þó flokksfélagar hans í Verkamannaflokknum séu í Samfylkingunni, en vel þekkt er að Össur, Björgvin G. og Ingibjörg Sólrún eru þar flokksbundin. Björgvin tók þátt í kosningabaráttum fyrir New Labour 1997 og 2001 og Össur skrifaði vinalega um Gordon Brown alveg þangað til í haust.

Hinsvegar hefur ekki borið á því að Össur hafi sem utanríkisráðherra látið Brown hafa það á alþjóðavettvangi, t.d. þegar gullna tækifærið gafst á leiðtogafundi NATÓ. Of mikið hefur borið á því að forysta Samfylkingarinnar hafi blótað Brown aðeins hérna heima en ekki þorað því á alþjóðavettvangi; hvort svo sem það er til að svíða ekki ESB-taugina eða valda óróa í jafnaðarmannasamfélagi heimsins.

Nú þarf að láta stór orð fjúka, mótmæla á alþjóðavettvangi durtslegum vinnubrögðum Browns og láta Bretana hafa það. Við höfum ekki efni á því að halda kjafti þegar við erum slegin utan undir æ ofan í æ.


mbl.is Boðar sendiherra á sinn fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert mun Eiður Smári fara?

Varla eru það stórtíðindi að Eiður Smári sé að fara frá Barcelona. Sögusagnir hafa verið um að hann fari þaðan í tvö ár, frá sumrinu 2007, er hann fór á sölulista. Samningur hans er auðvitað að renna út núna. Eiður Smári samdi við Barcelona til þriggja ára þann 14. júní 2006 og yfirgaf Chelsea, eftir sigursæla tíð þar.

Hlutirnir eru jafnan ekki mikið að breytast í þessum bransa. Ætli Eiður fari aftur til Bretlands? Forðum var orðrómur um að hann færi til Tottenham og Manchester United, auk West Ham þegar Björgólfur og Eggert voru við stjórnvölinn þar í upphafi.

Erfitt er að spá í hver gengur kaupum og sölum í þessum bransa. En það verður þó fróðlegt að sjá hvar Eiður Smári lendir þegar vist hans hjá Barcelona lýkur.

mbl.is Eiður vill fara frá Barcelona
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðferðið í Kópavogi

Mér finnst þær upphæðir sem dóttir bæjarstjórans í Kópavogi hefur fengið fyrir viðskipti við bæinn suddalega háar og í raun eðlilegt að velta því fyrir sér hvort siðleysið sé algjört. Þetta eru of háar upphæðir til að geta talist eðlilegar og vekja spurningar um pólitískt siðferði. Slíkir samningar við fjölskyldumeðlimi eru nær óverjanlegir, einkum þegar upphæðir eru háar, og veita aðeins höggstað á þeim sem vinna þannig.

Ég hef áður talað fyrir siðferði í stjórnmálum. Án þess eru menn mjög viðkvæmir og varla traustsins verðir. Á þessum tímum skiptir aukið siðferði enn meira máli en venjulega, þó vissulega sé siðferði aldrei aukaatriði og eigi ekki að vera. Eðlilegt er að hugleiða hvernig þeir vinna í öðrum málum sem standa svona að verki.

mbl.is „Kom verulega á óvart“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómaraskandall á Stamford Bridge

Ég er ekki vanur að vorkenna stuðningsmönnum og knattspyrnumönnum hjá Chelsea, en það var ekki hægt annað eftir leikinn í gærkvöldi á Brúnni. Þvílíkur dómaraskandall og suddaleg vinnubrögð hjá norska dómaranum. Að manni læðist sá grunur hvort þetta hafi verið skipulagt, til að tryggja að ekki yrði hreinn úrslitaleikur breskra knattspyrnuliða eins og á síðasta ári þegar Chelsea tapaði fyrir United. Það er í eina skiptið í sögu meistaradeildarinnar sem tvö bresk lið voru í úrslitaleiknum.

Þessi dómari var allavega ekki að gera sig og gremjan mjög skiljanleg í London, þó ekki bæti það neitt að hóta dómaranum lífláti. Það var allavega mjög undarlegt hvernig dæmt var og hlýtur að opna á samsæriskenningar. Eiður má svo eiga það að vera sá séntilmaður að gleðjast ekki yfir óförum fyrrum félaga í Chelsea. Ég held reyndar að meira að segja svörnum andstæðingum Chelsea hafi sviðið framkoman í gærkvöldi.

mbl.is Eiður Smári: Vildi ekki fagna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norska sendingin talar um ríkisfjármálin

Mér finnst það lágkúrulegt að valdstjórn vinstrimanna ætli að bjóða fólkinu í landinu upp á það að norska mislukkaða sendingin í Seðlabankanum sé farin að tilkynna um aðgerðir í ríkisfjármálum fyrir hana. Hann gefur línuna á meðan Jóhanna og Steingrímur hafa lokað sig af inni í bakherbergjunum í Norræna húsinu með kaffi og kruðerí. Þvílík vinnubrögð. Hversu lengi eigum við að sætta okkur við að norska sendingin sé á sínum stalli?

Skilaboðin frá norsaranum eru einföld. Hann hefur séð vinnuplanið sem á að hrinda í framkvæmd. Vinstra liðið sem ætlaði að auka gagnsæi, setja allt á borðið og tryggja milliliðalaus samskipti við almenning situr á öllum upplýsingum og talar ekki við þjóðina. En hún talar við norsku sendinguna sína í Seðlabankanum! Þvílík niðurlæging.


mbl.is Umtalsverð vaxtalækkun í júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarleg vonbrigði úr Seðlabankanum

Mikil og gríðarleg vonbrigði eru að stýrivextirnir hafi ekki lækkað nema um 2,5% í dag. Þetta eru vond tíðindi fyrir atvinnulífið og einstaklinga í landinu. Þetta skref dugar mjög skammt til að létta á þungum byrðum fyrirtækjanna og einstaklinga, sem eru að sligast í erfiðri stöðu. Í eðlilegri stöðu væri búið að lækka stýrivextina í 10% núna og helst komið undir þau mörk. Þessi skref sem stigin hafa verið eru of hægvirk.

Þegar Davíð Oddssyni var bolað úr Seðlabankanum með pólitískri ákvörðun og Eiríki Guðnasyni og Ingimundi Friðrikssyni var sópað út til að koma höggi á pólitískan andstæðing í leiðinni var mikið talað um að þyrfti nýjan seðlabankastjóra til að tala traust og trúverðugleika. Ég get ekki séð hvað hefur breyst til betri vegar. Norska sendingin í Seðlabankann er ekki að gera sig.

Hver á svo að taka við? Már Guðmundsson, sem er arkitekt peningamálastefnu Seðlabankans, þeirrar sem Davíð Oddsson vann að mestu eftir?

mbl.is Stýrivextir lækka í 13%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurleg örlög

Ekki er hægt annað en vorkenna Ragnari Hermannssyni, sem er fastur í helvíti á jörðu, vegna áhættunnar á að smygla eiturlyfjum, fastur í viðjum vímunnar. Aðstæður í þessu fangelsi eru þess eðlis að lífsbaráttan verður erfið. Verjast þarf nauðgunartilraunum og árásum meðfanga. Lýsingar Íslendings sem dvaldi þar fyrir nokkrum árum gefur til kynna að Ragnar muni varla lifa af vistina og hann verði í raun algjört flak tóri hann svo lengi.

Mikilvægt er að reyna að koma á framsalssamningi svo Ragnar geti í það minnsta komið heim og tekið út sína refsingu eða horft fram á eins eðlilegt líf og mögulegt má vera, miðað við alvarleika brotsins. En þetta er mikil sorgarsaga og vonandi að einhver mannsæmandi lausn finnist.


mbl.is „Ég á eftir að deyja hérna"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innistæðulaus loforð - gagnsæi Ögmundar

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, er ekki beinlínis trúverðugur þegar hann lofar nýjum landsspítala rétt áður en ráðist verður í gríðarlegan niðurskurð, sem hlýtur að bitna á velferðarkerfinu, sama hvað stjórnarflokkarnir sögðu annars í kosningabaráttunni. Ég er hræddur um að þessi orð Ögmundar gleymist fljótt þegar farið verður í niðurskurðinn. Þetta heitir að lofa fólki einhverju sem lítil sem engin innistæða er í raun fyrir. Í raun svolítið lúalegt, en hvað með það.

Ögmundur situr í ríkisstjórn sem situr á mikilvægum upplýsingum um stöðu þjóðarinnar og vill ekki kynna það fyrir þjóðinni. Þau vinnubrögð eru ekki síður lúaleg. Furðulegt alveg fyrir vinstri græna að vera nú í því hlutverki sem þeir gagnrýndu mest Geir Haarde og Árna Mathiesen fyrir í vetur, að tala ekki nóg við þjóðina. Honum hlýtur að líða einkennilega í því ljósi, vera í hitanum sem fylgir því að sitja á upplýsingum sem í raun eiga að vera opinberar staðreyndir fyrir alla þjóðina.

6. janúar sl. ritaði Ögmundur þennan pistil á heimasíðu sína:

"Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir okkur í fréttum Sjónvarps í kvöld að almenningi séu ekki ætlaðar upplýsingar úr skýrslum endurskoðunarfyrirtækja um bankabraskið. Fjármálaeftirlitið væri nú búið að fá slíkar skýrslur í hendur og ætlaði að skoða þær "faglega".

Jónas Fr. Jónsson ætlar með öðrum orðum ekkert að gefa upp um það hvort hvort endurskoðunarfyrirtækin sem rannsökuðu Kaupþing og Landsbankann í aðdraganda hrunsins telji að lög hafi verið brotin eður ei.

Til álita komi hins vegar að birta almenningi úrdrátt úr skýrslunum síðar. Það er að segja - kannski. Bíðum við. Almenningur á að borga en fær ekki að vita neitt um svindlið og svínaríið. Var ekki verið að tala um gagnsæi?

Auðvitað á að birta þetta allt saman strax og það á netinu. Eru yfirvöld að egna þjóðina til uppreisnar?"


Hvar er sá sem skrifaði þetta núna. Er hann ekki enn sömu skoðunar að birta eigi allt á netinu? Djöfuls hræsni!


mbl.is Vill af stað með nýjan spítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband