30.6.2007 | 22:50
Hryðjuverk í Skotlandi - hæsta viðbúnaðarstig

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með bresku fréttastöðvunum í kvöld og fara yfir atburði dagsins og auðvitað dagsins í gær ennfremur, enda er greinilegt að þessi bílsprengjutilfelli sem eru í Glasgow og London tengjast með áberandi hætti. Bresk yfirvöld hafa staðfest líkindi með tilfellunum. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni að þetta ástand hefur færst út fyrir London og staðfestir að sótt er að Bretlandi af hryðjuverkamönnum þessa dagana, fyrstu daga forsætisráðherraferils Gordons Brown.
Gordon Brown flutti mjög gott ávarp í kvöld til bresku þjóðarinnar. Þar tilkynnti hann um hækkun viðbúnaðarstigs í hæstu mörk og að árásin í Glasgow væri hryðjuverk. Hann var alvarlegur en talaði mjög skýrt og ákveðið. Það er auðvitað uggur í Bretum nú. Það ætti reyndar að gilda um alla Evrópu. Þessi ógn er orðin of afgerandi og markviss til að ekki sé tekið mark á henni. Þetta er grafalvarlegt mál að öllu leyti. Þetta er líka nýr veruleiki fyrir okkur enda erum við stödd hér í þriggja tíma flugfjarlægð og algjör fjarstæða orðið að tala um að við séum öll óhult á þessum tímum alheimshryðjuverka.
Það reynir mjög þessa dagana á bresk yfirvöld. Gordon Brown var í áratug fjármálaráðherra og ekki í sviðsljósi slíkrar ógnar áður. Sama má segja um Jacqui Smith sem hefur aðeins verið innanríkisráðherra Bretlands í tvo sólarhringa. Það má reyndar segja að nú reyni á almenning allan í Bretlandi við þessi tíðindi. Það eru auðvitað afar vondar fregnir ef svo er að hryðjuverkaógnin sé að færast út fyrir London og svona tilvik í friðsælu Skotlandi er auðvitað stórfregnir og viðbúnaðarstig þar varla verið hærra frá því að Pan Am flugvélinni var grandað í Lockerbie fyrir tveim áratugum.
Það verður vel fylgst með fregnum næstu daga en í Bretlandi er fólk greinilega hætt að tala um að hryðjuverkaváin sé ekki til staðar. Það sanna atvik síðustu tveggja sólarhringa afar vel. Staðan er of óljós til að efast sé um að sönn ógn er til staðar.
Hryðjuverkaógnin vofir sem mara yfir London
![]() |
Fjórir í haldi vegna árása í Bretlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.6.2007 | 19:47
Fréttaþulur trompast vegna fréttar um París Hilton

Það er alveg magnað að sjá klippuna þar sem að hún reynir að kveikja í fréttinni en fer síðar með hana í tætarann. Hvað varðar fröken Hilton hefur hún verið dugleg að halda áfram athyglinni á sér eftir að hún slapp úr fangelsi fyrir "góða hegðun" og hefur t.d. farið í viðtal hjá Larry King á CNN. Mómentið þegar að hún slapp úr fangelsi var kostulegt, en þar voru allir fjölmiðlar og eltu hana eins og þjóðhöfðingja. Flestum gleymist vart mómentið þegar að hún var sótt í beinni, meira að segja á vísir.is.
Mika Brzezinski var huguð að gera þetta og þetta vakti allavega mikla athygli. Eftir því sem fréttirnar segja er París núna á Hawaii með dökka hárkollu og stráhatt svo að enginn þekki hana. Ætli að hún sé líka búin að fá leið á athyglinni?
![]() |
Fréttaþulur neitaði að byrja á frétt um París Hilton |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.6.2007 | 17:42
Hryðjuverkaógnin vofir sem mara yfir London
Eftir viku eru tvö ár liðin frá hryðjuverkunum í London sem skóku þessa rómuðu heimsborg og minntu íbúa í Evrópu á það að hryðjuverkaógnin er ekki síst til staðar þar á okkar tímum. Í þessari viku hafa íbúar London verið minntir á að sú ógn er enn til staðar í borginni. Lengi vel hefur verið látið í það skína að sú ógn tengist aðeins þjóðhöfðingjum sem hryðjuverkasamtökum líki illa við. Það má vel vera að það sé reynt að höggva að þeim með slíku en ógnin sem slík beinist gegn venjulegu fólki.
Hryðjuverkaárásin í London í júlí 2005 var líkt og hryðjuverkaárásin í Madrid í mars 2004 bæði ófyrirleitin og grimmdarleg. Henni var einvörðungu beint gegn saklausum borgurum. Ætlunin var í senn bæði að myrða og særa óbreytta borgara. Árásunum var ekki beint að þjóðarleiðtogum eða hefðarfólki. Þeir sem féllu í valinn, særðust og urðu fyrir henni að einhverju leyti er saklaust fólk, venjulegt fólk í London og Madríd, af ólíkum uppruna sem ekkert hefur sér til sakar unnið og var aðeins á röngum stað á röngum tíma. Það er hin napra staðreynd slíkra óhæfuverka.
Þetta vitum við annars öll. Það veit enda enginn hver verður fyrir slíku og á hvaða tíma það verður. Ekki heldur að hverjum það er beint. Eflaust átti að tímastilla þessar árásir vegna valdaskiptanna í Bretlandi. Tony Blair hefur látið af öllum pólitískum völdum og er horfinn úr sviðsljósi þess sem gerist á alþjóðavettvangi í raun. Þessar árásir eru skilaboð til Gordons Brown, forsætisráðherra Bretlands, um það að þessi ógn er ekki á enda runnin, ógnin er ekki að baki. Þetta eru reyndar líka skilaboð til hans um að skuggar liðinna tíma fylgja honum eftir við valdaskiptin. Hryðjuverkasamtökin gleyma engu og þó að nýr forsætisráðherra taki við völdum er hann enn andlit sömu ríkisstjórnar og studdi Íraksstríðið með áberandi hætti.
Þessi staða er vissulega mikil eldskírn fyrir Jacqui Smith, nýjan innanríkisráðherra Bretlands, sem er fyrsta konan á þeim valdastóli. Hún var varla búin að koma sér fyrir á ráðherraskrifstofunni í London þegar að ógnin vaknaði aftur, tveim árum eftir hryðjuverkaárásirnar. Hún stóð sig vel í gær við að tjá sig um þessi mál og fara yfir. Hún er nú orðin stjórnmálamaður í sannkallaðri eldlínu. Hún hefur gott fólk sér við hlið. Brown forsætisráðherra hefur valið fjöldann allan af reyndu fólki til að fara yfir þessa ógn og hafði reyndar kaldhæðnislega séð valið þann hóp áður en þessi ógn vaknaði í gær. Það er greinilegt að nýr forsætisráðherra Bretlands ætlar sér ekki að sofa á verðinum.
Það stefndi allt í það að Gordon Brown ætlaði sér að verða leiðtogi innanríkismálanna, vera forsætisráðherra sem hugsaði um málefnin inn á við. Það sást vel af áherslum hans í heilbrigðis- og menntamálum, en hann splittaði upp gamla menntamálaráðuneytinu. Það gæti breyst dramatískt vakni ógnin enn meir en nú er. Þá verður hann að hugsa meira út fyrir Bretland, enda kemur ógnin í raun þaðan þó að henni sé beint til breskra þegna. Hann virðist hafa valið mjög góðan hóp fólks til verka og er viðbúinn öllu.
Það er þegar ljóst á fyrstu dögum forsætisráðherraferils Browns að skuggar liðinna tíma á alþjóðavettvangi eru ekki að baki og sú ógn sem varð í London fyrir tveim árum getur vaknað á ný. Atburðir síðustu daga sýna svo ekki verði um villst að allt getur gerst.
![]() |
"London verður sprengd" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.9.2007 kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.6.2007 | 13:11
Helgi Rafn segist ekki hafa drepið hundinn Lúkas
Helgi Rafn svaraði fyrir sig í Kastljósi í gærkvöldi og fór yfir sína hlið málsins. Ég sá þá klippu fyrst áðan og bendi þeim á sem ekki hafa enn séð að líta á það. Þetta mál hefur kallað á gríðarlega fjölmiðlaathygli. Það er mörgum mjög illa brugðið vegna þess og sitt sýnist hverjum. Eins og ég hef margoft sagt hér er engin lausn að hóta öðrum vegna þessa máls, Helga Rafni eða öðrum. Það er réttast að þetta mál verði rannsakað og öll gögn sem mögulega eru til verði könnuð betur en nú hefur verið gert.
Það leysir engan vanda að hrópa einn mann niður vegna málsins og eða að hóta honum öllu illu. Þetta mál verður að hafa sinn gang.
![]() |
Hreinsa mannorð mitt með öllum ráðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.6.2007 | 00:27
Mun Al Gore gefa kost á sér í forsetakjörinu?
Skv. nýjustu skoðanakönnunum vestanhafs á Al Gore raunhæfa möguleika á að vinna tilnefningu demókrata í forsetakjöri eftir sextán mánuði myndi hann sækjast eftir henni. Sá frambjóðandi sem verst færi á framboði hans yrði Hillary Rodham Clinton, eiginkona meðframbjóðanda Gore í tvennum forsetakosningum á tíunda áratugnum. Framboð Gore myndi skv. því koma í veg fyrir sigur Hillary og gera forkosningarnar að slag milli Gore og Obama. Þessi könnun hefur hleypt lífi í vangaveltur stjórnmálaspekinga.
Um þessar mundir eru rúm sex ár síðan að Al Gore hvarf úr miðpunkti stjórnmálaumræðu eftir að hafa naumlega mistekist að verða forseti Bandaríkjanna í jöfnustu forsetakosningum í sögu landsins. Eftir þann langa tíma er enn talað um pólitíska endurkomu hans og hvort hann muni gefa kost á sér í forkosningum demókrata, sem hefjast eftir rúmlega hálft ár, við val á forsetaefni flokksins. Al Gore hlaut fleiri atkvæði í forsetakosningunum 2000 á landsvísu en George W. Bush en mistókst að sigra í fleiri fylkjum Bandaríkjanna og tapaði því í kjörmannasamkundunni.
Eins og flestir vita er forsetakjörið í Bandaríkjunum kosning á kjörmönnum fylkjanna. Þeir sem sigra í sem flestum fylkjum hljóta Hvíta húsið. 270 kjörmenn þarf til að hljóta hnossið. Í 36 daga börðust Gore og Bush hatrammlega eftir kjördag árið 2000 fyrir því að hljóta 25 kjörmenn Flórída-fylkis, sem skiptu sköpum. Hefði Gore hinsvegar sigrað í heimafylki sínu, Tennessee, hefði Flórída engu máli skipt og úrslitin ráðist þar. Gore var framan af örlagaríkri kosninganótt spáð sigri þar. Allar stóru fréttastöðvarnar hlupu á sig og urðu að bakka frá spádómnum. Bush hlaut fylkið er á hólminn kom en með nær engum teljanlegum mun. Flórída varð fylki örlaganna í forsetakosningunum 2000.
Gore ákvað að véfengja þau úrslit er ljóst varð að innan við 1000 atkvæði skildu að. Fór hann fyrir dómstóla með mál sitt og reyndi að hnekkja staðfestum úrslitum í fylkinu og krafðist algjörrar endurtalningar allra atkvæðaseðla. Eftir lagaströggl og deilur í tæpa 40 daga viðurkenndi Gore loks ósigur sinn þann 13. desember 2000 eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna hafði fellt þann úrskurð sinn að Bush hefði unnið Flórída og ekki yrði um frekari endurtalningar að ræða. Dómurinn var þó ekki einróma í því mati og skiptist eftir frægum sögulegum fylkingum í forsetatíð William H. Rehnquist í réttinum, árin 1986-2005. Gore fór sár af velli átakanna. Naumari gat tapið ekki orðið.
Richard M. Nixon og Al Gore eiga það sameiginlegt að hafa tapað naumlega forsetakosningum meðan að þeir gegndu embætti varaforseta. Báðir tóku þeir tapið gríðarlega nærri sér. Merkilega margt er líkt með sálrænu áfalli þeirra eftir tapið. Nixon tapaði fyrir John F. Kennedy með svo naumum hætti að lengi vel var óvíst um úrslitin. Deilt var um úrslitin í Illinois meðal annars. Ólíkt Gore véfengdi Nixon ekki stöðu mála þar og bakkaði frá stöðu mála. Ósigur Gore var mun tæpari en Nixons fjörutíu árum áður. Það hefur margt verið rætt og ritað um tap Nixons. Hann var brennimerktur af því alla tíð. Gore gekk í gegnum svipaðan sálrænan öldudal.
Nixon tókst að eiga sér endurkomu. Hann gaf kost á sér í forsetakosningunum 1968. Framan af benti flest til þess að keppinautur hans í kosningunum yrði Robert F. Kennedy, bróðir Kennedys forseta, sem sigraði Nixon átta árum áður. Það hefði orðið söguleg rimma og athyglisverð. Af henni varð ekki. Kennedy var myrtur í Los Angeles eftir forkosningasigur í júní 1968 með sama sjónræna skelfilega hættinum í kastljósi fjölmiðlanna og bróðir hans fimm árum áður. Keppinautur Nixons varð Hubert Humphrey, varaforseti Johnson-stjórnarinnar. Nixon vann kosningarnar naumlega. Forsetaferill hans varð stormasamur en honum tókst að ná endurkjöri árið 1972.
Richard Nixon neyddist til að segja af sér vegna Watergate-hneykslisins árið 1974, fyrstur forseta í sögu landsins. Það voru söguleg endalok en forsetaferill hans lamaðist vegna þessa umdeildasta pólitíska hneykslismáls sögunnar. Það verður seint sagt að Nixon og Gore eigi pólitískt margt sameiginlegt. Um margt voru þeir sem dagur og nótt. Bitur reynsla þeirra við tap í forsetakosningum er þó kaldhæðnislega lík þegar á er litið. Báðir mörkuðust þeir alla tíð af tapinu. Nixon tókst að eiga sér endurkomu og eiga söguleg ár á forsetastóli, með mörgum afrekum á vettvangi utanríkismála. Þau féllu þó öll í skugga pólitískra endaloka hans, en valdaferlinum lauk með skömm.
Al Gore er sagður vera að hugsa stöðu sína. Margir telja hann eitt sterkasta forsetaefni flokksins þrátt fyrir mistækan stjórnmálaferil sem markast af góðum og slæmum dögum í stjórnmálum. Lykiltromp Gore er fyrst og fremst pólitísk reynsla. Hann var varaforseti Bandaríkjanna á tímum Clinton-stjórnarinnar 1993-2001 og hefur reynslu á vettvangi alþjóðastjórnmála og málum í Washington. Barátta hans í umhverfismálum hefur líka markað honum aðra tilveru sem gæti orðið honum drjúg er á hólminn kemur, en honum tókst að hljóta óskarsverðlaunin í febrúar fyrir mynd sína, An Inconvenient Truth.
Það verður fróðlegt að sjá hvort að Al Gore snýr aftur á pólitíska sviðið í aðdraganda kosninganna þar sem eftirmaður keppinautar hans í sögulegustu forsetakosningum Bandaríkjanna frá upphafi verður valinn. Þessi nýja skoðanakönnun sýnir vel að hann á sér möguleika. Færi hann fram gæti hann með réttu haldið því fram að ekki sé eining um kandidata demókrata. Sama virðist vera með repúblikana, þar eru mjög skiptar skoðanir um frambjóðendur og staða flokksins virðist vera mjög slæm í ljósi sífellt meiri óvinsælda Bush forseta.
Það stefnir svo sannarlega í spennandi forsetakosningar í Bandaríkjunum. Slagurinn er löngu hafinn þó að enn séu rúmir sextán mánuðir til kjördags, sem verður þriðjudaginn 4. nóvember 2008. Það er löng leið til þess dags og með öllu óvíst hverjir berjist þá um hnossið og hverjir lifi pólitískt af forkosningarnar sem hefjast í janúar.
Gore could still steal the show
umfjöllun Guardian um könnunina
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.6.2007 | 23:08
Ótrúlega stórt skip - blíða á Akureyri
Það var yndislegt veður hérna á Akureyri í dag. Sól og blíða, allt eins og best verður á kosið. Það sem setti þó mestan svip á daginn var skemmtiferðarskipið sem kom til bæjarins í dag, Grand Princess. Ég hef aldrei á ævi minni séð annað eins skip og það var mjög spes að fá sér labbitúr niðureftir Strandgötunni í hádeginu og líta á þetta skip.
Þetta er ótrúlega umfangsmikið og voldugt skip. Það hlýtur að kosta vænar fúlgur að fá sér eina sjóferð um heimsins höf á því. Þetta er stærsta skipið sem hingað til Akureyrar hefur allavega komið og mun koma til landsins í sumar hef ég heyrt. Veit þó ekki hvort þetta sé stærsta skip sem til Reykjavíkur, en ekki yrði ég hissa á því. Held að allir sem hafi séð þennan risavaxna dall í dag hafi orðið gjörsamlega orðlausir.
En í heildina var þetta virkilega góður dagur, sólin setti fallegan svip á daginn. Síðdegis fór ég svo til Hönnu systur. Hún er 39 ára í dag og hún hélt upp á afmælið með fjölskyldukaffiveislu heima. Þar svignuðu borð undan góðum krásum, eins og við er að búast hjá Hönnu minni á svona góðum degi. Það var virkilega gaman að hitta þar ættingja og ræða málin. Innilega til hamingju með daginn elsku Hanna mín!
![]() |
Grand Princess á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.6.2007 | 21:42
Mikil viðbrögð vegna dauða hundsins Lúkasar
Ég hef fengið talsverð viðbrögð vegna skrifa minna um dauða hundsins Lúkasar og umræðan í samfélaginu hefur verið gríðarlega mikil í gær og í dag. Ég man reyndar sjaldan eftir annarri eins hörku og sterkum viðbrögðum lengi. Ég persónulega fékk ótalmarga tölvupósta og komment hér á vefinn eftir skrifin hjá mér. Mér fannst mikilvægt að skrifa um þetta mál, enda ofbauð mér gjörsamlega hvernig komið var fram við hundinn og þetta er auðvitað að öllu leyti hið sorglegasta mál.
Það má vel vera að hundurinn hafi ekki verið persóna eins og ég og þú, en hinsvegar vekur það athygli þegar að lífinu er murkað úr dýri með svo vægðarlausum hætti. Það hefur kallað á sterk viðbrögð. Eins og ég sagði í dag finnst mér það ekki leysa neinn vanda að ætla þeim sem sakaður er um þetta illvirki ills eða reyna að hræða hann eða ætla að berja hann í klessu. Það eykur bara vandann.
Þetta mál verður auðvitað að hafa sinn gang og ég get ekki betur séð en að umræðan hafi vaknað og það er mest um vert. Þegar að ég heyrði fyrst af þessu máli átti ég ekki von á að það hefði svo gríðarleg viðbrögð. Það hlýtur að vera skelfilegt að vera viðkomandi maður þó að ég hafi mun meiri samúð með aðstandendum þess manns í þessu fjölmiðlafári og miðpunkti umfjöllunar úr öllum áttum.
Það er auðvitað vond staða að vera afhjúpaður gjörsamlega í svona máli og eflaust hefur viðkomandi maður upplifað algjöra martröð. Það er mest um vert að lögregla sé með málið í höndum og taki vonandi á því með sínum hætti. Hinsvegar á dómstóll götunnar ekki að hjóla viðkomandi mann niður. Í heildina er þetta allt hið sorglegasta mál og það bætir ekki úr skák fyrir neinum að berja strákinn í spað.
Það skapar aðeins eitt ofbeldi ofan á annað. Það var mikilvægt að þetta mál kæmist í umræðuna og það tókst. Vonandi mun það hafa þó áhrif að hægt verði að jarða hundinn og ljúka málinu með viðunandi hætti.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.6.2007 | 19:18
Mun Jón Þór Sturluson aðstoða Björgvin G?
Kjaftasögurnar segja að Jón Þór Sturluson, hagfræðingur og dósent í Háskólanum í Reykjavík, muni verða aðstoðarmaður Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra. Jón Þór hefur lengi verið í starfi Samfylkingarinnar og var virkur í ungliðastarfinu þar. Jón Þór hefur setið í bankaráði Seðlabanka Íslands frá því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði sig úr bankaráðinu 20. október 2005, daginn sem Davíð Oddsson varð seðlabankastjóri.
Það hafði verið í umræðunni að Björgvin ætlaði sér ekki að sækja efnilega stjórnmálamenn eða trúnaðarmenn úr Suðurkjördæmi til starfa í ráðuneytið sér við hlið heldur manneskju með þekkingu úr þessum geira. Björgvin G. er heimspekingur og veitir eflaust ekki af fólki með fagþekkingu á hagfræði- og viðskiptamálum sér við hlið. Hann hefur viljað setja sig vel inn í málin og hefur þegar rætt við valinkunna viðskiptamenn skilst manni.
Margir þingmenn munu víst hafa brosað út í eitt þegar að Björgvin las Viðskiptablaðið og erlent virt viðskiptarit á fyrsta þingdeginum sem viðskiptaráðherra þann 31. maí sl. í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Þá lyfti hann báðum blöðum hátt upp til þess að allir tækju nú örugglega eftir því að viðskiptaráðherrann á ráðherrabekknum væri nú vel að sér í bissness-kreðsunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2007 | 16:21
Gordon Brown fær skugga Blair-tímans í arf

Nýr maður á valdastóli með skugga liðinna tíma á hælum sér í orðsins fyllstu merkingu. Atburðir dagsins í Bretlandi sýna Gordon Brown kristalskýrt að staðan er óbreytt frá 7. júlí 2005 er hryðjuverkin voru framin í London. Það hefur ekkert breyst. Sú ólga sem fylgdi Tony Blair eftir vegna ákvarðana um Íraksstríðið eru enn til staðar og munu jafnvel persónugerast í honum nema að uppstokkun verði í utanríkismálum.
Það er ljóst af ákvörðunum undanfarinna daga að Gordon Brown ætlar sér að vera forsætisráðherra innanríkismálanna og sýna kraft sinn þar. Skuggar utanríkismálanna eru þó vel til staðar og eflaust mun hann ætla að fela David Miliband lykilstöðu þar. En það verður augljóslega mjög erfitt fyrir forsætisráðherrann að gleyma utanríkismálunum og hugsa bara um innanríkismál.
Skuggarnir hans Tonys eru enda enn hróplega áberandi þó að hann sjálfur sé farinn frá og reyni að breyta ófriði í frið á öðrum vettvangi. Kaldhæðni, ekki satt?
![]() |
Lögregla lokar helstu leiðum um miðborg Lundúna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2007 | 14:25
Ný spútnik-stjarna rís í breskum stjórnmálum

David Miliband er næstyngsti maðurinn sem tekur við völdum í utanríkisráðuneytinu. Aðeins dr. David Owen var yngri. Þegar að David varð utanríkisráðherra í febrúar 1977 í ríkisstjórn Jim Callaghan var hann aðeins 38 ára gamall. Miliband verður 42 ára í næsta mánuði, en lítur reyndar út fyrir að vera miklu yngri. Skipan hans á þennan einn valdamesta póst í breskum stjórnmálum mun efla til muna umræðuna um að hann sé nú orðinn, líkt og Gordon Brown áður, krónprins Verkamannaflokksins og sá sem bíði eftir völdunum síðar meir. Ennfremur mun eflaust verða skrafað mjög áberandi um það að þeir hafi samið um valdaskipti, líkt og Blair og Brown áður.
David Miliband hefur útlit krónprinsins og hann hefur persónutöfra í takt við það sem einkenndi Tony Blair fyrir um þrettán til fimmtán árum. Margir hvöttu hann til að gefa kost á sér til leiðtogahlutverks í flokknum. Þrálátar kjaftasögur eru um að Tony Blair og helstu lykilmenn hans hafi hvatt hann sérstaklega til að fara fram. Þá fyrst er hann útilokaði opinberlega framboð komu Blair og hans lykilmenn fram og lýstu yfir algjörum stuðningi við Gordon Brown. Reynt var að bera á móti kjaftasögunum um að dubba hafi Miliband upp til leiðtogahlutverks, en það hefur ekki beint hljómað sannfærandi í ljósi þeirra öruggu heimilda sem fylgdu fréttum t.d. Guardian af málinu.
Það er eflaust hagur bæði þeirra Browns og Milibands að þeir vinni saman. Brown hefur reynsluna og kraft hins þrautreynda statesman, en Miliand hefur sjarmann og áruna sem einkennir vænlegan krónprins. Saman geta þeir unnið vel, rétt eins og Blair og Brown gerðu saman á sínum tíma í frægu samkomulagi sem í raun tryggði Verkamannaflokkinn sem sterkan valkost og byggði undir veldið mikla sem síðar varð með kosningasigrinum 1997. Hefðu þeir tekið rimmu saman hefði staðan eflaust getað orðið allt önnur og kergjan sem hefði komið með leiðtogaslag þeirra á milli hefði orðið flokknum skaðleg til lengri tíma litið. Samkomulagið tryggði stöðu beggja.
Gordon Brown er auðvitað að eldast. Hann nálgast nú sextugt og er ekki lengur hinn ungi framagjarni maður sem var á tíunda áratugnum er kratarnir komust til valda og honum vantar sárlega ungan og efnilegan arftaka sér við hlið, bæði til að tryggja sína stöðu og eins flokksins á komandi árum. Brown hefur þó náð markmiðum sínum. Hann barðist í þrettán ár fyrir því að hljóta völdin í Downingstræti 10. Hann var líka með leiðtoga og forsætisráðherra fyrir framan sig sem var tveim árum yngri en hann - auk þess varð Tony Blair ekki sammála Brown um hvenær að tími hans væri liðinn.
Í ráðherravali Gordons Browns felast mikil tíðindi að mínu mati. Hann veitir nýju fólki ótrúlega góð tækifæri. Utanríkisráðherratign Milibands markar hann sem alvöru leiðtogakandidat í fyllingu tímans og færir honum gríðarleg völd á alþjóðavettvangi og ennfremur á heimavelli. Það líta allir á hann núna sem krónprinsinn. Samið var um skiptingu valda og því fær hann umbun þess að hafa beðið og öðlast enn meiri reynslu á meðan að sá hinn reyndasti fær loksins að njóta ævimarkmiðsins. Valið á Jacqui Smith sem innanríkisráðherra var ennfremur mjög táknrænt og kom mjög að óvörum.
Þegar að litið er yfir ráðherraval Browns sést best að hann felur yngri mönnum umtalsverð tækifæri. Með öðrum orðum; hann er að byggja upp næstu kynslóð flokksmanna til valda. Þetta gerði Tony Blair ekki. Gott dæmi var þegar að hann sparkaði Jack Straw úr utanríkismálunum. Þá valdi hann hina lífsreyndu Margaret Beckett á póstinn, þrátt fyrir að flestir töldu hennar tíma svo til liðinn. Þá valdi hann ekki Miliband, þrátt fyrir sögusagnir, sem hefði með því getað byggt hann upp sem leiðtogakandidat gegn Gordon Brown. Beckett fékk grimmileg örlög í uppstokkun Browns.
En nú hefur David Miliband fengið tækifærið. Það er samt engin greið og bein leið fyrir hann til valda síðar meir. Utanríkisráðuneytið verður honum mikil eldskírn. Þar mun reyna á hann. Ég held að Gordon Brown ætli honum mikil völd og ég held að hinn ungi utanríkisráðherra verði mun meira áberandi en forverar hans á valdaferli flokksins undanfarin tíu ár, því ég tel að Brown ætli sér að vera leiðtogi innanríkismálanna. En í eldskírn felast tækifæri. Þetta veit hinn ungi og öflugi vel.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2007 | 12:19
Ótrúleg viðbrögð - ungum manni hótað dauða
Það verður fróðlegt að sjá hvað tekur við, en það er alveg ljóst að rannsaka þarf þetta mál og þessi maður þarf að fara yfir sín mál. Það sést vel af þessu máli að fólki býður við málavöxtum og þetta mál hefur kallað á gríðarlega sterk viðbrögð. Það er þó engin lausn að ráðast á manninn fyrirfram og málið þarf að hafa sinn gang. Það er enginn vandi leystur að ráðast að viðkomandi manni með þessum hætti fyrir lok rannsóknar, en það þarf að fara yfir þetta mál með eðlilegum hætti að mínu mati.
Um er að ræða viðkvæmt mál, en það hlýtur að vera komið í ferli eins og staðan er núna. Það er mikilvægt að fara yfir þætti þessa máls og taka á því, enda er þetta það ógeðfellt mál og það er alveg ljóst að lýsingar málsins hafa leitt til ótrúlegrar atburðarásar, enda er fólki nóg boðið yfir þeim hrottaskap sem virðist hafa fylgt drápinu á hundinum.
![]() |
Morðhótunum rignir yfir ungan mann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.6.2007 | 21:58
Grimmileg örlög hundsins Lúkasar
Það hefur verið ömurlegt í dag að hlusta á fréttir af grimmilegum örlögum hundsins Lúkasar, sem á að hafa verið drepinn hér á Akureyri um þjóðhátíðarhelgina. Málið hefur verið í kastljósi fjölmiðlanna í dag, sem er eðlilegt, enda eru allar lýsingar af þessu máli og hvernig lífinu var murkað úr þessu dýri ógeðfelldar. Það er með ólíkindum að heyra af grimmd fólks.
Ég sá viðtal við stelpuna sem átti hundinn á N4 í kvöld og ég finn mjög til með henni, enda er þetta allt eins ömurlegt og getur verið. Það er auðvitað með ólíkindum að hún hafi ekki getað fengið allavega að jarða hundinn sinn og í alla staði er þetta sorglegt mál. Ég verð að segja alveg eins og er að þeir sem svona ógeðsverk vinna eru ekki beysnir karakterar.
Það virðist hafa verið mikið fjallað um þessi mál á vefsíðum í dag. Það er ekki líklegt að þessu máli ljúki í bráð, enda hefur málið verið kært og vitni er að árásinni á hundinn sem virðist geta gert grein fyrir því hverjir standi þar að baki. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist næst í þessu máli, sem er allt hið ógeðfelldasta.
![]() |
Hundrað manns á kertavöku til minningar um hundinn Lúkas |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.6.2007 | 16:48
Jóhanna velur Hrannar - skemmtileg kergja
Það er svolítið fyndið að fylgjast með þessu. En ég spyr nú bara, er einhver hissa á þessu vali? Hrannar vann ötullega í Þjóðvaka með Jóhönnu og sama gerði mamma hans, Kristín Á. Ólafsdóttir, fyrrum borgarfulltrúi og varaformaður Alþýðubandalagsins, og stjúpi, Óskar Guðmundsson. Þetta val ætti ekki að koma þeim að óvörum sem þekkja eitthvað til Jóhönnu og hennar innstu kjarna. En samt virðist það koma á óvart. Það er svolítið athyglisvert eiginlega.
Hrannar var reyndar auðvitað ágætlega þekktur stjórnmálamaður í denn. Hann var annar aðilinn í pólitíska dúó-inu Arnarsson & Hjörvar sem voru í glampa sviðsljóssins í borgarstjórnarkosningunum 1998. Þrátt fyrir ólgu í upphafi tókst honum loksins að ná sæti í borgarstjórn og sat þar þangað til að hann var látinn gossa í prófkjöri árið 2002. Síðan hefur hann verið til hliðar í flokknum og verið misjafnlega áberandi. Hann hefur t.d. moggabloggast eins og flestir muna vel eftir.
Kjaftasögurnar segja að Jóhanna verði aðeins félagsmálaráðherra í tvö ár. Henni er ætlað að taka við af Sturlu Böðvarssyni haustið 2009 og þá mun sennilega Steinunn Valdís eða Kata Júl fara í Hafnarhúsið sem nýr ráðherra. Það er ansi ólíklegt að þær muni minnast gömlu góðu daganna með Hrannari jafn fallega og Jóka þegar að kemur að vali aðstoðarmanns.
28.6.2007 | 15:51
Baugsmálið fer í enn einn hringinn í viðbót

Þetta mál virðist ætla að velkjast um í kerfinu nær endalaust. Það virðist alltaf vera leið með áfrýjunum eða annarri efnislegri meðferð ef einhverjir liðir hafa ekki verið teknir fyrir. Ég er fyrir lifandis löngu hættur að skilja þetta mál og hvað þá að gera á milli aðalpunkta þess og aukaatriðanna. Þetta hefur allt öðlast ígildi lönguvitleysu hinnar mestu, altént í augum okkar sem fylgjumst með fréttunum.
Það er erfitt um að segja hvort að einhversstaðar í þessari lönguvitleysu sé að finna einhver viðunandi sögulok. Það virðist ekki vera von á raunhæfum endalokum hér heima, enda virðist svo geta farið að málið fari út til efnismeðferðar fyrir dómstólum erlendis. Ég myndi allavega ekki útiloka þann snúning svo að endaleysan haldi áfram og fari að leita að endanum á sér úti í heimi.
![]() |
Jón Ásgeir sýknaður en Tryggvi og Jón Gerald sakfelldir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2007 | 15:00
Tony Blair hylltur að pólitískum leiðarlokum

Ég dáðist mjög að hlutverki hans í kjölfar dauða Díönu. Hann lét gamlar hefðir og venjur lönd og leið og lagði til verka við að minnast hennar, þó að greinileg kergja væri bakvið tjöldin. Ég fer aldrei ofan af því að glæstasta stund Tonys var þegar að hann ávarpaði bresku þjóðina í Sedgefield að morgni 31. ágúst 1997. Sú ræða súmmaði algjörlega upp stöðuna. Hún var örlagavaldur. Hún kom af stað bylgjunni miklu sem síðar var nærri búin að taka með sér Elísabetu II og granda lykilstöðu hennar, í ljósi þess að hún lét ekki segjast og hélt til London til að halda utan um þjóð í sorg. Hún áttaði sig seint og um síðir. Ég er þess fullviss að ef Blair hefði ekki leiðbeint hinni lífsreyndu drottningu þessa haustdaga hefðu gullnu dagar hennar liðið undir lok.
Margir hafa spurt sig hvort að Tony Blair hafi verið að reyna að leika Margaret Thatcher allan sinn stjórnmálaferil. Að vissu marki má segja það. Hann auðvitað gjörbreytti Verkamannaflokknum. Hann á þó ekki heiðurinn af því einn. Þar átti John Smith lykilþátt ennfremur en honum entust ekki lífsins dagar til að koma því í framkvæmd. Blair gerði stefnuna að sinni og fullkomnaði hana. New Labour var skothelt plagg í kosningunum 1997 og það var grunnur nýrra tíma. Þó gengið hafi svona og svona er öllum ljóst hvaða áhrif breytingarnar vorið 1997 höfðu. Blair var auðvitað aldrei verkalýðskrati eða kommi. Hann var hægrikrati sem hélt flokknum á miðju og gat höfðað til hægrimanna. Þar lá stærsta farsæld flokksins.
Tony Blair ríkti lengi. Sama hversu molnaði undan honum var komið í veg fyrir hrapið á þeim stað sem hættulegastur var og hann náði alltaf að bjarga sér. Undir lokin varð staðan vissulega mjög erfið en það er auðvitað aðdáunarvert hversu vel honum tókst að halda lykilstöðu. Meira að segja tókst honum, þvert á flestar spár, að bjarga sér frá nöprum endalokum eftir sjálfsmorð dr. Davids Kelly, sem var auðvitað hreinn harmleikur pólitískt og persónulega, Cash-for-honours fíaskóið og síðast en ekki síst tapið auðmýkjandi í þinginu í nóvember 2005. Í síðastnefnda tilfellinu stóð hann sennilega tæpast, enda var naumur þingmeirihluti honum skaðlegur enda höfðu andstæðingarnir í flokknum hann í spennitreyju.
Tony Blair fer þreyttur frá völdunum. Það blasir við öllum. Það var samt ótrúlega öflug stund í breska þinginu í gær þegar að hann var hylltur af nær öllum þingmönnum, meira að segja af þeim sem harðast hafa barist við hann. Þetta eru auðvitað tímamót, enda var Blair forsætisráðherra í áratug og hafði barist við fimm leiðtoga Íhaldsflokksins á tíu árum sínum sem forsætisráðherra. Í því kristallast sterk staða Blairs sem og auðvitað skelfileg staða Íhaldsflokksins sem nú fyrst er að ná vopnum sínum. Mér fannst Blair eiga skilið hyllingu við leiðarlok. Þar var ekki spurt að pólitískum línum. Sérstaklega var kveðja Ian Paisley til Blairs mikil tímamót og vakti athygli. Ennfremur talaði David Cameron virðulega um Blair.
Hvað svo sem segja má um Tony Blair má þó fullyrða að hann var aldrei mikill maður þingsins. Hann þoldi ekki gamlar hefðir breska þingsins og reyndi að forðast sem mest umræður þar og starfið þar, meira að segja á meðan að hann var í skuggaráðuneyti Verkamannaflokksins fram til 1997. Þetta var ekki besti vettvangur hans. Það kemur því varla að óvörum að hann kveðji þingið um leið. Ég held að hann hefði fúnkerað illa við hlið vinstrisinnuðustu þingmannanna á öftustu bekkjunum sem gerðu honum lífið hvað mest leitt undir lokin. Það hefur reyndar ekki gerst frá dögum Sir Anthony Eden að forsætisráðherra fari um leið af þingi. Það er lítil sem engin hefð fyrir því að slík vistaskipti verði um leið.
Í ósigri eða endalokum getur mesti sigurinn falist. Þetta kom vel fram þegar að Margaret Thatcher var í raun sett af sem leiðtogi Íhaldsflokksins. Það voru nöpur endalok. Daginn sem hún sagði af sér leiftraði hún af fjöri og orðfimi sem aldrei fyrr í þingumræðum. Flestir sem upplifðu að sjá þann dag muna eftir henni berjast af fimi við Neil Kinnock, í bláu dragtinni sinni og sennilega með flottustu hárgreiðsluna. Þrátt fyrir niðurlægjandi endalok gat hún gert stund endalokanna að sínum og náði að bægja frá mestu gagnrýni. Þetta tókst líka Tony Blair á stund endaloka. Hann stjórnaði þeim og var klappaður upp eins og leikari eftir sinn glæsilegasta leiksigur.
Gordon Brown er enginn Tony Blair. Þeir eru gjörólíkir eins og dagur og nótt. Það á eftir að sjást enn betur þegar að nýji húsbóndinn í Downingstræti sýnir á spil sín, betur en nú þegar hefur gerst. Tony Blair var pólitískt sjarmatröll sem heillaði jafnvel andstæðinga sína með ótrúlegum hætti fyrir áratug, að vissu marki með því að kasta streng yfir til þeirra og eigna sér hluta fylgis þeirra til að komast sjálfur til valda. Brown er maður af öðru tagi.
Þrátt fyrir óvinsældir síðasta kastið fer kannski svo að menn sakni bráðum sjarmatröllsins Tony Blair. Hver veit. Allavega var hylling hans að leiðarlokum sönn, bæði í tilliti eftirsjár og gleði.
Tengdir pistlar SFS
Áratugur frá kosningasigri Verkamannaflokksins
Þáttaskil framundan í Verkamannaflokknum
Martröð í Downingstræti
Fjarar undan Tony Blair
Líður að lokum hjá Tony Blair
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.6.2007 | 13:46
Gordon Brown hristir rækilega upp í breskri pólitík
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hefur kynnt ráðherralista nýrrar ríkisstjórnar sinnar. Þar eru mjög miklar breytingar á ráðherrahóp frá því sem var undir lokin í forsætisráðherratíð Tony Blair. Það fór eins og ég spáði að valdamiklum ráðherrum Blair-tímans sem enn voru eftir var vísað á dyr, sumir þeirra halda ekki einu sinni sæti sínu. Brown sagði við komuna í Downingstræti 10 að stokkað yrði upp. Það verður bæði í málefnum sem og fólki.
Brown forsætisráðherra rauf eldgamlar hefðir strax við valið á ráðherrunum í stjórn sinni. Hann sat á þingskrifstofu sinni í Westminster frá því síðdegis í gær eftir valdaskiptin og fram á nótt við að ljúka við ráðherrahrókeringarnar en ekki á forsætisráðherraskrifstofunni í Downingstræti. Það hefur jafnan mátt sjá ráðherrana sem fjúka og eða eflast í uppstokkun koma og fara af fundi forsætisráðherrans í Downingstræti, en það varð auðvitað ekki nú. Margaret Thatcher, John Major og Tony Blair hikuðu aldrei við að láta svipuna falla á ráðherrum með þessum hætti í kastljósi fjölmiðla.
Stærstu tíðindi þessa ráðherrakapals eru auðvitað þau að David Miliband, umhverfisráðherra, verður utanríkisráðherra Bretlands og um leið einn valdamesti stjórnmálamaður landsins. Staða Miliband sem framtíðarleiðtoga Verkamannaflokksins og krónprins við hlið forsætisráðherrans er staðfest með þessu og leikur með því enginn vafi á því að þeir hafa gert einhvers konar samkomulag sín á milli um að Miliband nyti þess mjög færi hann ekki fram gegn Brown í leiðtogakjöri við brotthvarf Tony Blair. Það er spurning hvort að Granita-samkomulag Blairs og Browns hafi öðlast nýtt líf með öðru letri hjá Brown og Miliband. Ég get ekki betur séð en að þarna sé kominn sá sem á að erfa völdin.
Margaret Beckett, fráfarandi utanríkisráðherra, er kastað á dyr með ótrúlega nöprum hætti að því er virðist. Beckett var ekki aðeins fyrsta konan sem varð utanríkisráðherra, heldur einnig fyrst kvenna sem leiðtogi og varaleiðtogi Verkamannaflokksins. Hún var varaleiðtogi við hlið Johns Smith og var leiðtogi í nokkrar vikur árið 1994 þegar að hann féll frá og þangað til að Tony Blair tók við. Hún var traustur stuðningsmaður Blairs og var sett á þennan póst fyrir ári eftir afhroðið í byggðakosningum til að verjast mönnum Browns. Hún nýtur nú ekki stuðnings til að halda áfram. Þetta eru stórtíðindi, enda hefur Beckett verið framlínukona í flokknum frá leiðtogadögum Jim Callaghan.
Önnur risavaxin tíðindi er skipun Jacqui Smith sem innanríkisráðherra. Hún verður fyrsta konan á þeim pósti og verður ennfremur einn valdamesti stjórnmálamaður landsins. Innanríkisráðuneytið hefur alla tíð verið mikið karlaveldi og því auðvitað tíðindi að kona taki sæti ráðherra þar. Þetta er auðvitað eitt mest áberandi ráðuneytið í breskum stjórnmálum og þar eru mörg helstu lykilmálin undir. Þannig að við eigum svo sannarlega eftir að sjá mikið af Jacqui Smith, sem greinilega er orðin forystukona innan flokksins við þessar hrókeringar, þó ný sé. Það kemur engum að óvörum að Alistair Darling taki við af Brown sem fjármálaráðherra, enda hafa þeir verið alla tíð mjög nánir.
Svo vekur auðvitað athygli að Alan Johnson fari í heilbrigðismálin. Hann var menntamálaráðherra en fær nú mun stærri sess og er það greinilega sárabót eftir tapið í varaleiðtogakjörinu. Johnson hefði án efa orðið varaforsætisráðherra ala John Prescott hefði hann unnið. Það er greinilegt að enginn annar hefði haft stöðu í það, enda ekki skipað í embættið. Ekki mun honum skorta verkefnin í heilbrigðismálunum. Þetta verður lykilmál leiðtogaferils Browns. Það hefur öllum orðið ljóst af tali hans undanfarna daga. Athygli vekur að Jack Straw snýr aftur, ári eftir að honum var sparkað úr utanríkismálunum, hann verður nú dómsmálaráðherra. Hann var kosningastjóri Browns í vor.
Mér finnst merkilegt að Des Browne haldi varnarmálunum og að Peter Hain fái stöðuhækkun eftir afhroð í varaleiðtogakosningu, hann fær lífeyris- og atvinnumálin. Brown tekur þá merkilegu ákvörðun svo að splitta menntamálaráðuneytinu upp, sem hefur verið mjög stór póstur alla tíð, í skólamál eftir fjölskyldu- og grunnskólamálum og í háskóla- og fræðslumál. Ed Balls, sem er einn nánasti lykilmaður við hlið forsætisráðherrans, verður ráðherra fyrri flokksins og John Denham hins. Svo fær James Purnell menningarmálin - Tessu Jowell er sparkað. Hilary Benn fær umhverfismálin frá Miliband og Ruth Kelly er lækkuð í tign, missir samfélagsmálin til Hazel Blears og fær samgöngumál.
Í heildina eru þetta miklar sviptingar og áhugavert að kynna sér þær. Yfir öllu þessu er yfirskrift þess sem allir vissu reyndar að myndi gerast og það er að Brown ætlar sér ekki að taka við því sem Tony Blair gerði. Það er öllu snúið við, áherslur hafa breyst. Þeir hafa gjörólíkar skoðanir á því hverjir eigi að vera í lykilhóp þeirra verka og við blasir að nýjir tímar eru framundan í breskum stjórnmálum eftir þessa risauppstokkun í bresku ríkisstjórninni. Það efast allavega enginn um það núna hver ræður.
Tími Gordons Brown er runninn upp og hann hefur sýnt það og sannað að tími hópanna í kringum hann eru komnir og þar verði horft fram á veginn en ekki aftur. Sagt er skilið við leiðsögn Tony Blair og horft til nýrra tíma. Það eru grunnskilaboð þessara miklu sviptinga. Og við blasir auðvitað að áherslurnar verða aðrar. Það sést best af grimmilegum örlögum þeirra sem nánastir voru Blair. Sé þeim ekki sparkað eru þeir komnir út í horn með einum eða öðrum hætti.
Ráðherrakapall Gordons Brown
![]() |
Brown kynnir ráðherralista sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2007 | 00:26
Minningarorð sem vekja fólk til umhugsunar
Eins og ég hef áður sagt hér dáist ég að þeim krafti sem felast í skrifum Einars á sannri raunastundu. Það er mikið átak að opna hug sinn og innri baráttu á tímum sorgar og harmleiks vegna andláts dóttur sinnar. Það er líka opnuð öll sagan á bakvið manneskjuna sem dó, öll skelfingin sem þau hafa þurft að gera upp eftir þetta dauðsfall er lagt á borðið fyrir almenning í skrifunum. Þetta er greinilega hans leið til að kalla á umræðu og kalla ennfremur á það að eitthvað sé gert við þeim vanda sem klárlega er til staðar.
Ég held að allir sem lesið hafa þessa grein hafi hugsað mjög um þessi mál síðustu dagana, auk auðvitað þeirra sem syrgja Susie Rut mest. Sorgin verður opinberuð og öll sorgarsagan er lögð á borðið fyrir lesendur, bæði til umhugsunar og þess að tryggja að þessi mál hverfi ekki í gleymskunnar dá þó að þau séu fyrir framan nefið á okkur jafn nöpur og þau eru óneitanlega. Það er óeðlilegt að sofa þessi mál, jafn skelfileg og þau eru almennt, af sér.
Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að heyra ummæli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra, um að þetta mál brýni sig og yfirvöld til verka. Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur frá stjórnvöldum. Skrifin hafa vakið athygli og nú er kominn tími til að eitthvað róttækt gerist í þessum efnum. Gagnrýnin á Vog vekur mesta athygli. Málefni þess heyra undir heilbrigðisráðherra og fróðlegt að sjá hvort og þá hvað hann muni gera í þeim efnum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.6.2007 | 17:46
Yndislegt kraftaverk á Akureyri
Eitthvað þessu líkt hefur varla gerst áður í sundlauginni hér og það er auðvitað ömurlegt að slys af þessu tagi komi fyrir. Það er hinsvegar mikil blessun að svo vel fari og til staðar sé fólk sem getur tekið rétt og vel á málum á neyðarstundu. Það er mjög ánægjulegt að vita að vel fór. Þetta er auðvitað áminning til foreldra sem fara með börnin sín í sund að fylgjast vel með þeim, enda þarf ekki mikið að fara úrskeiðis svo illa fari.
![]() |
Þetta er kraftaverk" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 30.6.2007 kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.6.2007 | 17:15
Kvartettinn samþykkir Blair sem sáttasemjara

Það hefur verið í umræðunni í nokkra daga að Blair myndi fá hlutverk í Mið-Austurlöndum, hlutverk sem tryggir honum áfram stöðu á alþjóðavettvangi. Það hefur reyndar blasað lengi við að eitthvert slíkt hlutverk biði hans. Það verður fróðlegt að fylgjast með verkum Blairs í Mið-Austurlöndum. Hann var umdeildur stjórnmálamaður á litríkum valdaferli og verður varla öðruvísi í þessu hlutverki.
Það reynir allavega á hann á nýjum forsendum í þessu hlutverki. Þetta embætti fær hann að mestu út á sterk tengsl við ríkisstjórn Bandaríkjanna og sýnir staðan vel að hann nýtur víða trausts. Tony Blair hefur alla tíð verið í hlutverki stjórnmálamanns á alþjóðavettvangi en nú þarf hann að setja sig í nýjar stellingar.
Það verður vel fylgst með honum á nýjum vettvangi, enda eru átökin í Mið-Austurlöndum verkefni sem fylgja sérlegum sáttasemjara svæðisins eftir sem skuggi á næstunni og þar eru verkefnin næg.
![]() |
Blair formlega tilnefndur sem erindreki í Miðausturlöndum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.6.2007 | 15:52
Gordon Brown tekur við völdum í Bretlandi

Gordon Brown verður ellefti forsætisráðherrann í 55 ára valdatíð Elísabetar II Englandsdrottningar og er sá 52. í breskri stjórnmálasögu. Hann er ennfremur ellefti forsætisráðherrann í nafni Verkamannaflokksins. Margaret Thatcher hefur setið lengst á forsætisráðherrastóli á valdaskeiði Elísabetar II, drottningar, ellefu og hálft ár, en Blair sat á valdastóli í tæplega 10 ár og 2 mánuði. Gordon Brown hefur beðið eftir þessari stund í þau þrettán ár sem liðin eru frá andláti pólitísks læriföður hans, Skotans John Smith, sem var leiðtogi Verkamannaflokksins í tvö ár, frá 1992 til dauðadags árið 1994. Þá ákvað Brown skv. hinu fræga Granita-samkomulagi að leyfa Blair að taka við embættinu.
Valdaskipti forsætisráðherra í Bretlandi eru samkvæmt aldagömlum hefðum, einföld en um leið mjög táknræn. Fráfarandi forsætisráðherra fer með embættisbifreið frá Downingstræti 10 á fund drottningar. Ef um er að ræða valdaskipti í kjölfar kosninga boðar drottning til fundarins til að ræða við þann sem hefur misst völdin og kallar þar eftir lausnarbeiðni, sem við blasir. Í tilfelli því sem er í dag er um að ræða innbyrðis valdaskipti í stjórnmálaflokki. Í ljósi þess óskar fráfarandi forsætisráðherra eftir fundinum, enda hefur meirihluti Verkamannaflokksins ekki fallið í hræringum forsætisráðherraskiptanna. Tony Blair fer því til drottningar á fund sem hann hefur óskað eftir.
Forsætisráðherrann er í síðasta skipti ávarpaður með embættistitlinum forsætisráðherra af hirðritara drottningar er fundur með drottningu hefst en ávarpa þarf hann sérstaklega. Á fundinum biðst forsætisráðherra lausnar. Þá spyr drottning að bragði hvern hann mæli með í embætti forsætisráðherra og þá kemur upp nafn eftirmannsins, úr sama stjórnmálaflokki, mælt af vörum forsætisráðherrans. Um leið og það hefur gerst missir fráfarandi forsætisráðherrann öll völd og embættistitilinn auðvitað með því. Venjulegast er létt spjall milli viðkomandi í smástund á eftir.
Um leið og fundinum lýkur ávarpar hirðritarinn forsætisráðherrann fráfarandi með eftirnafni við lok fundar sem markar auðvitað það að viðkomandi er orðinn venjulegur þegn með engin pólitísk völd í Downingstræti. Embættisferli viðkomandi forsætisráðherra er þar með lokið. Í kjölfarið yfirgefur fráfarandi forsætisráðherra höllina í venjulegri bifreið. Á þessu varð þó undantekning í dag þegar að bifreið embættisins keyrði Cherie og Tony Blair á lestarstöð, áleiðis til Sedgefield. Að fundi loknum í Buckingham-höll boðar hirðritarinn nýtt forsætisráðherraefni á fund með drottningu.
Fundurinn er eins og sá fyrri nema að í upphafi fundarins er viðkomandi auðvitað ávarpaður með eftirnafni sínu. Þar býður drottningin viðkomandi að mynda stjórn í sínu nafni. Drottningin, sem má ekki kjósa samkvæmt gömlum hefðum, telst óbundin pólitískt og fer með völd sem ganga ekki á pólitíska fortíð. Það er því verið að mynda stjórn í hennar nafni og hún fer því í raun með full völd um það hver verði forsætisráðherra þó að auðvitað ráði þingmeirihluti því í raun. Í lok fundar eftir að nýr forsætisráðherra hefur þegið völd sín ávarpar hirðritarinn hann í fyrsta skipti sem forsætisráðherra.
Valdaskipti af þessu tagi hafa ekki átt sér stað í Bretlandi frá árinu 1990. Þá sagði Margaret Thatcher af sér embætti forsætisráðherra eftir að hafa orðið undir í harðvítugum valdaátökum í Íhaldsflokknum. Það voru kuldaleg endalok og hún yfirgaf völdin ekki sátt við það sem gerðist. Hún náði þó sínu fram við val á eftirmanni. John Major lagði Michael Heseltine, sem hafði áður skorað Thatcher á hólm í leiðtogaeinvígi, náð að skaða hana í fyrri umferð svo þörf var á annarri og um leið pólitískt skaðlegri Thatcher sem var ekki sætt í þeirri stöðu.
Þá voru valdaskiptin eins. Thatcher mælti nafn Majors, hann kom og tók við völdum. Sama gerist nú þegar að Tony Blair mælir með eftirmanni sínum á leiðtogastóli, Gordon Brown. Eftir hina táknrænu og hefðbundnu athöfn valdaskiptanna heldur forsætisráðherrann nýji í Downingstræti 10. Þá fyrst eru valdaskiptin fullkomnuð. Það var lágstemmd athöfn þar áðan er Brown renndi í hlað. Það var mun rólegri athöfn en sigurhátíðin mikla fyrir áratug er Blair var hylltur í Downingstræti sem sigurhetjan mikla sem hafði náð að hnekkja átján ára hægristjórn.
Nú eru nýjir tímar. Það hafa orðið vaktaskipti í Downingstræti. Tony Blair er farinn af hinu pólitíska sviði og eftir þrettán ára bið eftir völdunum er tími Gordons Browns runninn upp. Hann er kominn úr skugganum og hefur nú tekið sæti á miðpunkti pólitískra átaka. Nú reynir á hann og pólitíska forystu hans. Fáir hafa fetað lengri og augljósari leið að krýningu í stjórnmálum en Gordon Brown. En nú er hið augljósa að baki og nú sést hvernig forsætisráðherra Skotinn klóki verður.
![]() |
Brown: Ég finn fyrir þörfinni fyrir breytingar" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)