21.6.2007 | 15:53
Lúðvík átti hugmyndina að landfyllingunni
Michel Jaques, forstjóri Alcan, hefur nú staðfest formlega að Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, hafi átt hugmyndina að því að stækka álverið í Straumsvík með landfyllingu, innan við þrem mánuðum eftir að stækkun var felld í frægri íbúakosningu. Það er svosem eðlilegt að bæjarstjórinn og meirihluti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði vilji halda sem mest í Alcan og reyna að tryggja veru þeirra í Hafnarfirði, en samt sem áður koma aðgerðir bæjarstjórans örlítið á óvart.
Það hefur verið hávær orðrómur um það að Lúðvík hafi stutt álverið með áberandi hætti og það hefur staðfest vel í umræðunni síðustu dagana. Það er þó greinilegt að ekki er tekið vel í þessar landfyllingarhugmyndir bæjarstjórans. Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra og flokksbróðir Lúðvíks, sló þær eiginlega strax út af borðinu og greinilegt er að Alcan horfir í aðrar áttir varðandi framtíðaruppbyggingu.
Þar er greinilega Þorlákshöfn efst á blaði. Það hefur sést vel í dag og verið staðfest nú af Michel Jacques.
![]() |
Engin ákvörðun hefur verið tekin um aðra staðsetningu álvers |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.6.2007 | 14:35
Óvænt útspil Browns - Ashdown hafnar ráðherrastól

Paddy Ashdown var mjög farsæll leiðtogi Frjálslynda flokksins og byggði hann upp sem öflugt veldi, sérstaklega með góðum árangri í þingkosningunum 1997, þegar að Verkamannaflokkurinn komst til valda undir forystu Tony Blair og Íhaldsflokkurinn missti völdin í mesta kosningaafhroði í sögu sinni. Ashdown hætti sem leiðtogi flokksins árið 1999. Síðan hefur flokknum gengið upp og niður. Charles Kennedy leiddi flokkinn til ágæts árangurs 2001 og 2005 en hrökklaðist frá leiðtogasætinu vegna drykkjusemi. Sir Menzies Campbell hefur mistekist að efla flokkinn í leiðtogatíð sinni.
Ekki reyndi á að Ashdown yrði ráðherra, enda hefur hann þegar hafnað boðinu. Það mun ekki hafa hitt í mark hjá Sir Menzies og hans fólki að Ashdown yrði samstarfsmaður Gordon Brown í ríkisstjórn með Verkamannaflokknum. Það hefðu verið pólitísk þáttaskil hefði slíkt orðið að veruleika og skapað nýja og mjög spennandi tíma. Gordon Brown hefur verið vanur að sjá fyrir tvær ef ekki þrjár skákir í einu og þetta klóka útspil ber merki þess. Brown er með þessu að horfa í svipaða átt og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, sem mörgum að óvörum valdi sósíalistann Bernard Kouchner sem utanríkisráðherra sinn og sló margar flugur í einu höggi.
Gordon Brown fær brátt tækifærið mikla, sem hann hefur beðið eftir í þrettán ár, allt frá því að pólitískur lærifaðir hans, John Smith, varð bráðkvaddur áður en honum auðnaðist að leiða Verkamannaflokkinn til valda á hnignunarskeiði Íhaldsflokksins. Brown bakkaði fyrir Blair það vor og leyfði honum að taka við flokknum. Frægt samkomulag var gert. Blair sveik það síðar. Brown safnaði síðar liði og gerði Blair ókleyft að hætta standandi. Fræg voru átökin í fyrra þegar að Brown og hans menn allt að því neyddu Blair til að leggja fram tímaplan endalokanna sem nú sér fyrir lokin á með endalokum stjórnmálaferils mannsins sem leiddi kratana til valdadýrðarinnar miklu.
Brown hefur verið erfðaprins valdanna innan Verkamannaflokksins alla leiðtogatíð Tony Blair, allt frá því að John Smith dó. Hann hefur þótt intellectual-týpa í breskum stjórnmálum, mun meiri maður pólitísks innihalds og hugsjóna en Tony Blair. Hann hefur verið farsæll forystumaður og haft mikið persónufylgi, langt út fyrir flokk sinn. Þó Brown hafi verið umdeildur hefur hann notið trausts. Hann hefur þó verið skuggi farsæls leiðtoga og ekki haft sviðið algjörlega sjálfur.
Nú er þeim tíma að ljúka og nú fær hann að blómstra. Það verður fróðlegt að sjá hann í nýju hlutverki bráðlega, sem allir hafa þó margoft mátað við hann með Blair í forgrunni.
Mun Gordon Brown taka við sökkvandi skipi?
20. febrúar 2007
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2007 | 13:47
Er Alcan að fara að færa sig til Þorlákshafnar?

Það verður vissulega mikil blóðtaka fyrir Hafnarfjörð fari svo að sveitarfélagið missi Alcan frá sér. Það verða þáttaskil fyrir svæðið líði álverið við Straumsvík undir lok. Segja má að ljóst hafi verið frá niðurstöðu íbúakosningar í mars að Alcan myndi horfa í aðrar áttir og líkur á framtíðaruppbyggingu álvers væri úr sögunni. Það virðist vera sem að hugmyndin um landfyllingu hafi verið sett fram sem lokaskref í stöðunni og ljóst af viðbrögðum af henni mun ekki verða. Alcan horfir með áberandi hætti í aðrar áttir.
Það vakti athygli að sjá hversu eindreginn stuðningur var í Vogum við að tala við Alcan. Þar voru sárafáir sem lögðust beint gegn því að kanna málin. Það er ekki óeðlilegt að Alcan hafi horft til Keilisness, enda er stutt á milli Straumsvíkur og Keilisness og ekki eru nema fimmtán ár frá því að hugmyndir um álver þar voru uppi á borðinu. Hinsvegar kemur Þorlákshöfn sér vel varðandi framtíðaruppbyggingu og væntanlega mun sú staða mála skipta lykilmáli. Ferðin til Þorlákshafnar í dag vekur altént athygli.
Niðurstaðan mun vekja miklar umræður, sama hver hún verður í dag. Það verða auðvitað stórtíðindi muni álversuppbygging hefjast við Þorlákshöfn eða Keilisnes og álverið í Straumsvík líða undir lok. Á báðum þessum stöðum eru tækifæri fyrir fyrirtæki á borð við Alcan. Þar virðist vera horft til þess að stækka fyrirtækið og sú staða virðist ekki eiga samleið við það sem gerðist í Hafnarfirði. Þannig að örlögin virðast ráðin í þeim efnum.
21.6.2007 | 12:10
Sögulegur ósigur KR - staða Teits veikist enn

Það leikur enginn vafi á því að Teitur Þórðarson er valtastur í sessi flestra þjálfara landsins það sem af er liðið sumrinu. Það eru auðvitað stórtíðindi að KR sé með eitt stig í úrvalsdeild eftir sjö umferðir og liðið án sigurs enn þegar að sér fyrir endann á júnímánuði á næstunni. Þetta er staða sem hlýtur að teljast niðurlægjandi fyrir mannskap af þessu tagi, þar sem valinn maður skipar nærri hvert pláss og allt ætti að ganga vel.
Það er von að spurt sé hvað gerist nú í Vesturbænum. Staða Teits veiktist gríðarlega með þessum sögulega ósigri. Það að nýliðar á borð við HK rassskelli hið gamla knattspyrnuveldi er pínlegt fyrir þá sem leiða starfið í Vesturbænum og hafa verið máttarstólpar þess í gegnum tíðina. Teitur Þórðarson hefur mjög góðan feril að baki í þjálfun. Andleysið og stemmningsleysið sem einkennir KR eru mikil tíðindi og greinilegt að þar er allt að klikka sem má klikka. Það vantar mikið upp á að lykilpóstar spilamennskunnar virki og það er raunalegt að fylgjast með þessu forna stórveldi vera í þessari stöðu.
Það er erfitt að spá um hvað gerist með Teit. Það er þó ljóst að tækifæri hans eru að verða uppurin, nema þá að enginn metnaður sé í Vesturbænum til að gera hlutina almennilega. Varnarbaráttan fyrir tilveru í deildinni er að verða raunin og það er greinilegt að eitthvað stórlega hefur klikkað undir leiðsögn Teits. Það var ekki stefnt að botnbaráttu með ráðningu Teits og eflaust mikil vonbrigði nú yfir stöðunni, þar sem allt er reynt til að halda haus en ekkert gengur. Það er erfitt, jafnvel fyrir fornt stórveldi, að lifa við slíkt tíðarfar.
![]() |
Teitur: Mín staða óbreytt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.6.2007 | 08:16
Súrsætt raunveruleikadrama í borg englanna
Dramað um Paris Hilton virðist ekki beint vera að enda. Það er með ólíkindum hvað er hægt að fjalla um eina litla 50 kílóa menneskju. Þegar að hún er komin í fangelsið er því velt fyrir sér hvað hún borðar og hvernig hún höndlar svartholsvistina. Ekki virðist henni þó hafa verið í kot vísað eða suddalegheit, enda virðist klefinn hennar og aðstaðan öll vera fjarri því það sem búið er við t.d. hérna heima á Hrauninu.
Það er verið að tala um að París sleppi jafnvel á mánudaginn, vegna góðrar hegðunar. Það verður einhver sirkusinn fari nú svo. Ég lít á hverjum degi á bandarískar vefsíður og það er mér mikið hugsunarefni á hverjum degi hversu langt er oft gengið til að dekka umfjöllun um þessa föllnu glamúrgellu. Það er ekki beint að sjá að þetta súrsæta fjölmiðladrama sé að fara að linna.
Það er eins gott að við eigum ekki svona suddaleg tilfelli hérna heima segi ég nú bara.
![]() |
París kann að verða neydd til að fá næringu í æð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.6.2007 | 01:00
Áfram Alfreð!

Það mun vonandi fara svo að Alli verði áfram landsliðsþjálfari. Þetta lið þarf áfram á leiðsögn hans að halda, allavega í gegnum EM í Noregi og vonandi á Ólympíuleikana í Peking í Kína í ágúst 2008, þ.e.a.s. ef við verðum svo heppin að ná þangað. Það eru mörg verkefni framundan og þar skiptir máli að Alli sé við stjórnvölinn. Það er í sjálfu sér mjög einfalt mál.
Áfram Alfreð! - áskorun til Alla
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.6.2007 | 22:21
Lánleysi KR heldur áfram með tapi í Kópavogi
Það virðist vera að barátta KR í sumar verði vörn fyrir því að halda sætinu í deildinni. Það er alveg ljóst að KR-liðið má ekki við fleiri skakkaföllum og er orðið brothættara en dæmi eru um árum ef ekki áratugum saman. Það hlýtur að vera svakaleg stemmning hjá KR við þessa skelfingarbyrjun á sumrinu og ljóst að eitthvað verulega er að fara úrskeiðis í þeirra herbúðum. Staða þjálfarans hefur verið að veikjast með hverjum ósigrinum og við hvert stigið sem glatast í sumar. Tap fyrir HK er ekki ósennilega metið sem brottrekstrarsök hjá þeim sem vilja árangur í Vesturbænum.
KR hefur lengst af verið gullaldarlið í íslenskri knattspyrnu. Deyfðin og stemmningsleysið þar er orðið hróplega áberandi og eflaust spyrja flestir sig að því hvernig KR ætli að vinna tímabilið eftir þessa martröð í upphafi mótsins. Þar eru góð ráð orðin mjög dýr og algjör skelfingarbragur yfir þessu forna knattspyrnuveldi sem er að upplifa sína dökkustu daga óralengi.
![]() |
HK og Keflavík og FH fögnuðu sigrum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.6.2007 | 21:15
Jónína Bjartmarz vill að útvarpsstjóri axli ábyrgð

Það stefnir ekki í það, enda svarar Ríkisútvarpið fyrir sig af krafti í málinu og Kastljós svaraði strax í gær niðurstöðu siðanefndar fimlega og lið fyrir lið. Það hefur verið vitað frá upphafi að útvarpsstjóri vakti yfir umfjöllun Kastljóss, enda er hlutverk hans yfir þættinum afgerandi. Það er því klókt hjá Jónínu að mæta stöðunni með því að krefjast að hann fari frá með þetta á bakinu heldur en aðrir. Þetta er enda klókur leikur.
Jónína Bjartmarz varð fyrir þungum skelli í þessum kosningum. Það er fjarstæða að telja að þetta mál eitt hafi gengið frá stjórnmálaferli hennar. Fylgi hennar í Reykjavík og flokksins reyndar líka var dapurt áður en þetta mál kom upp og staðan breyttist harla lítið til góðs eða ills. Vond staða um allt land, ekki bara í kjördæmi hennar, segir sína sögu vel. En það er skiljanlegt að hún vilji reyna að koma ábyrgðinni annað.
20.6.2007 | 18:28
Össur gefur lítið fyrir hugmyndir um landfyllingu

Það er að styttast að örlagastund í málum Alcan á Íslandi og hver framtíð álversins í Straumsvík verði. Það virðist vera aðeins tvennt í boði: stækkun í Straumsvík eða tilfærsla álversins til Þorlákshafnar eða Voga á Vatnsleysuströnd. Það yrði óneitanlega kaldhæðnislegt ef að gamlir draumar um álver á Keilisnesi sem voru háleitir í iðnaðarráðherratíð Jóns Sigurðssonar, fyrrum iðnaðarráðherra Alþýðuflokksins og seðlabankastjóra, yrðu að veruleika í iðnaðarráðherratíð Össurar Skarphéðinssonar. Kannski var það markmið rætt við Arnarhvol í dag. Hver veit.
Það verður fróðlegt að sjá hver verður niðurstaða málsins. Margir í Hafnarfirði sitja og bíða spenntir. Sérstaklega bæjarstjórinn sem virðist geta núna loksins tjáð skoðanir sínar um álmálin þegar að tvær örlagaríkar kosningar fyrir Samfylkinguna eru að baki; álverskosningin og þingkosningar. Það er ljóst hver hugur bæjarstjórans er orðinn í málinu en enn fróðlegra væri að heyra mat Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, eftir fundinn með fulltrúum Alcan. Hvernig ætli Fagra Ísland fari saman við framtíðarsýn Alcan?
![]() |
Fulltrúar Alcan áttu fund með iðnaðarráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.6.2007 | 17:11
Listasumar hefst - menningarblær í Lystigarðinum

Listasumar stendur ávallt frá Jónsmessu til ágústloka er menningarhátíð bæjarins, Akureyrarvaka, fer fram. Eftir ræðuna var boðið upp á tónlistaratriði með hinum góða og óborganlega dúett Hundi í óskilum, en þeir fluttu Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson með bravúr. Alltaf voldugt og gott ljóð, en þarna í mjög nýstárlegri útsetningu vægast sagt. Það er alltaf gaman að fylgjast með þeim Eiríki og Hjörleifi flytja lög í nýstárlegum útgáfum og þeim er frekar fátt heilagt.
Í Lystigarðinum hefur nú verið sett upp ljóðasýningin: Jónas í Lystigarðinum. Þar eru ljóð Jónasar kynnt. Það er viðeigandi að helga Jónasi sess á Listasumri hér á Akureyri, en í nóvember verða 200 ár liðin frá fæðingu Jónasar, dagur íslenskrar tungu er á fæðingardegi hans 16. nóvember og dagurinn því helgaður honum. Vönduð sýning var svo um Jónas á Amtsbókasafninu fyrr á árinu. Ljóðin á sýningunni eru valin af Halldóri Blöndal, formanni afmælisnefndar Jónasar Hallgrímssonar.
Það var notalegt að fara í Lystigarðinn áðan og spjalla við gott fólk og njóta veitinganna, en boðið var upp á hlaðborð ávaxta og grænmetis og ávaxtadrykki. Vel við hæfi á góðum sumardegi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2007 | 14:39
Íslandshreyfingin heldur áfram starfsemi sinni
Íslandshreyfingin beið mikinn og áberandi ósigur í alþingiskosningunum 12. maí sl. og forystumenn flokksins urðu fyrir auðmýkjandi niðurlægingu eftir tal mánuðum saman um mikilvægt hlutverk nýs flokks. Þar tókst ekki að byggja fylkingu ólíkra afla, umfram allt mistókst þó að gera flokkinn að stuðningsafli til hægri. Úrslitin sýndu og sönnuðu að Íslandshreyfingin náði ekki fylgi frá hægri, það tókst ekki að byggja þann flokk sem trúverðugan valkost á þeim grunni.
Íslandshreyfingin ætlar þó að halda áfram þrátt fyrir auðmýkjandi niðurlægingu í kosningunum. Flokkurinn var myndaður á erfiðum tímum, það gekk illa að fá frambjóðendur og mitt í því kraðaki að safna á listana varð að safna meðmælendum og vinna grunnvinnu flokks. Flokkurinn drukknaði í þeirri grunnvinnu og var orðinn úreltur í raun þegar á hólminn kom er framboðsfresti lauk og loks tókst að manna listana, sem greinilega varð svo erfitt að það tókst ekki fyrr en innan við mánuður var til kjördags. Það gekk greinilega illa við grunnvinnuna og sá þungi sligaði nýja aflið.
Það er skiljanlegt að Íslandshreyfingin vilji sækja fram áfram til næstu verka og láta reyna á hvort það hafi grunn til áframhaldandi verka, í næstu kosningum. Heldur verður að teljast ólíklegt að Ómar Ragnarsson leiði flokkinn áfram til þeirra verka, t.d. í gegnum kosningar að nýju. Greinileg átök voru á milli Ómars og Margrétar um formennskuna fyrir kosningarnar í vor. Þar gaf Margrét eftir. Eflaust mun Margrét reyna að gera flokkinn að sínum með áberandi hætti fyrr en síðar og sækjast eftir að leiða flokkinn í gegnum næstu verkefni. Nú reynir á hversu samstæður þessi sundurleiti hópur verður.
![]() |
Innra starf Íslandshreyfingarinnar verður eflt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.6.2007 | 12:42
Lúðvík Geirsson vill stækka álver með landfyllingu

Fram hefur reyndar komið í fréttum að Alcan geti hæglega stækkað álverið í Straumsvík upp í 350.000 tonn, miðað við gildandi deiliskipulag, þrátt fyrir að stækkun hafi verið felld. Það er alveg ljóst að álverið heyrir sögunni til í óbreyttu formi. Alcan hefur litið á valkostina sem að stækka það á svæðinu eða færa það annað. Það hefur sést vel að alvara er í því af tali við yfirvöld í Þorlákshöfn og Vogum á Vatnsleysuströnd. Það eru viðræður sem miðast af því að finna nýja valkosti, utan Hafnarfjarðar.
Það er skiljanlegt að Lúðvíki og bæjarstjórnarmeirihluta Samfylkingarinnar sé það mjög annt að stækka álverið þrátt fyrir úrslitin í kosningunni. Það er samt sem áður mjög kostulegt að heyra þessa skoðun koma frá Lúðvíki sjálfum eftir allt sem á undan er gengið. Lífseig hefur verið sagan um að forysta Samfylkingarinnar og bæjarstjórinn hafi viljað stækka álverið en orðið undir í kosningunni. Það var reyndar með ólíkindum að bæjarstjóranum tókst að tala um álverið og stækkunarmálið í aðdraganda og eftirmála kosninganna um stækkun án þess nokkru sinni að tjá eigin skoðanir.
Þær eru þó að afhjúpast þessa dagana með landfyllingartali bæjarstjórans sem vill greinilega halda fyrirtækinu í Firðinum og vílar ekki fyrir sér að horfa framhjá íbúðarkosningu í þeim efnum. Það verður fróðlegt hversu mikið álverið í Straumsvík muni stækka eftir allt saman, það er alveg klárt nú að stækkun þar er ekki út af borðinu þó að sú versíón hennar á kjördag, 31. mars sl, sé það.
![]() |
Álver á landfyllingu? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.6.2007 | 12:06
Þorgerður Katrín stýrði fundi á kvenréttindadegi

Þorgerður Katrín varð fyrsta konan í íslenskri stjórnmálasögu fyrir tæpu ári til að stýra fundum ríkisstjórnar landsins og hefur gegnt embættinu, þó auðvitað aðeins í forföllum hafi verið. Frá árinu 1970 hafa þrettán konur setið í ríkisstjórn Íslands, en Auður Auðuns varð það ár fyrst kvenna til að taka sæti í ríkisstjórn sem dómsmálaráðherra í kjölfar fráfalls Bjarna Benediktssonar.
20.6.2007 | 01:03
Valur tapar á Skaganum - staða FH vænkast
Ég leit á leikinn á Sýn í kvöld. Það var áhugavert að sjá leikinn. Ekki fannst mér nú boltaspil Skagamanna vera beint fagurt. Þeir fengu vissulega tvö bestu færin í leiknum og náðu með því sigri. Þessi sigur er auðvitað mikilvægur fyrir Guðjón Þórðarson í stöðunni sem blasir við honum sem þjálfara Skagamanna. Tapið hlýtur að vera blóðug skelfing fyrir Valsmenn eins og deildin lítur út þessa stundina.
Það verður því spenna annaðkvöld í úrvalsdeildinni. FH getur tryggt sér gott forskot á titilinn og KR getur bjargað sér frá fullkominni hneisu með sigri. Staða KR verður mest í sviðsljósinu þó á morgun, enda mun sjöunda tapið í röð verða þeim mikil skelfing fari svo. Sigur myndi jafnvel færa þeim öryggið á ný, sem ekki hefur sést til þetta sumarið nema í mjög smáum skömmtum sannarlega.
![]() |
ÍA vann Val eftir að hafa lent undir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2007 | 21:56
Nýtt bloggsamfélag opnar bráðlega
Það er mikil samkeppni um góða bloggara og því ljóst að kjaftasögurnar magnast um þetta nýja bloggsamfélag. Einstaklingsblogg er í tísku í dag, vefritin og stóru vefsíðurnar eru að deyja. Spjallvefirnir eru dauðir eða verulega á fallanda fæti. Gott dæmi um þetta er málefnin.com, sem er í andaslitrunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.6.2007 | 21:04
Er James Bond enn að fara í nýjar áttir?

James Bond öðlaðist nýtt líf fyrir ári þegar að Daniel Craig færði hann endanlega inn í 21. öldina og nýja tíma. Ekki aðeins var Craig ljóshærður heldur var hann allt annar karakter og Pierce Brosnan, sem hafði fært njósnaranum mörg ný tækifæri eftir að hann þornaði mjög áberandi upp við fall múrsins og endalok kalda stríðsins. Brosnan markaði honum nýjan grunn gegn nýjum óvinum. Craig hélt áfram sama verkefni og brilleraði í fyrstu myndinni, sem varð sannkallað augnakonfekt í takt við fyrstu Bond-myndirnar með Connery á sjöunda áratugnum.
Það var þörf á ferskum vindblæ. Nú þegar að Marc Forster er að fara að leikstýra Bond-mynd eru eflaust fleiri breytingar framundan. Mörgum Bond-áhugamönnum fannst erfitt að höndla tilkomu Craig í hlutverk njósnarans og sérstaklega þá staðreynd að hann væri ljóshærður, sá fyrsti í röðinni. Það hefði eflaust þótt helgispjöll að láta sér detta það í hug á Connery-tímanum. Craig gekk í gegnum rosalegan mótbyr og tókst á hendur erfiðasta verkefnið á ferlinum. Hann brilleraði og myndin varð sú vinsælasta í óratíma. Þar var vikið af braut gervibrellna og verksmiðjubragsins sem var að drekkja módelinu og farið í grunninn.
Það er alltaf mikil tilhlökkun sem fylgir því þegar að nýr leikari markar sín fyrstu skref í hlutverki njósnarans James Bond. Þeir leikarar sem hafa túlkað hann hafa ávallt fært hlutverkinu nýja dýpt og nýjan grundvöll. Það gerðist með tilkomu Craig, sem færði okkur mjög kærkomið fortíðarskot inn í heim James Bond. Það var sú hlið sem var að mestu horfin sem birtist okkur aftur í Casino Royale, sem var stórfengleg mynd að nær öllu leyti. Sem mikill Bond-áhugamaður er ég því alsæll með að hann sé kominn með langtímasamning og leiði karakterinn inn í næstu myndir.
Marc Forster tekst nú á hendur verkefnið að skapa næstu mynd og tryggja James Bond líf inn á næsta áratug. Það eru 45 ár frá fyrstu myndinni og vonandi mun þeim sem halda á módelinu nú auðnast að tryggja að það lifi lengur en hálfa öld. Það eru allar forsendur fyrir því ef rétt er á haldið. Forster er óvænt val í leikstjórastólinn og spennandi að sjá hvaða nýjabrum fylgir honum í þennan aldna kvikmyndabálk.
![]() |
Marc Forster mun leikstýra næstu Bond-mynd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.6.2007 | 18:01
Kastljósið svarar fyrir sig af miklum krafti
Þórhallur Gunnarsson, Helgi Seljan og Sigmar Guðmundsson hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem svarað er lið fyrir lið úrskurði Siðanefndar í dag. Þar er farið mjög vel yfir þetta umdeilda mál um ríkisborgarétt tengdadóttur Jónínu Bjartmarz, fyrrum umhverfisráðherra. Get ég ekki betur séð en að þar sé lið fyrir lið svarað fyrir sig með þeim hætti að úrskurðurinn er tættur algjörlega niður.
Eftir því sem ég lít betur á þennan úrskurð og niðurstöðu málsins frá siðanefnd sést sífellt betur hversu kastað var til verka þar. Fullyrðingar nefndarinnar virðast vera beinlínis rangar í veigamiklum atriðum og niðurstaða hennar er stórfurðuleg. Forsvarsmenn Kastljóss í þessu máli svara allavega hárbeitt fyrir sig og taka málið vel fyrir.
Eftir stendur að í þessu máli var ekkert hrakið með áberandi hætti. Öllum staðhæfingum var vissulega neitað, en það tengist ekki með nokkru móti þessari umfjöllun og því sem borið var á borð. Þessi tilfinningasemi siðanefndar vekur athygli, enda er úrskurður hennar meira en lítið boginn.
![]() |
Kastljós mótmælir harðlega niðurstöðum og vinnubrögðum Siðanefndar BÍ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.6.2007 | 17:12
Siðanefnd úrskurðar gegn umfjöllun Kastljóss

Ég hef aldrei farið leynt með þá skoðun mína að fjalla hafi átt um þetta mál með áberandi hætti. Þá skoðun tjáði ég margoft þegar á málinu stóð rétt fyrir alþingiskosningar og endurtek hana hérmeð. Þetta var svo sannarlega frétt sem vakti athygli, rétt eins og umræðan í kjölfarið sýndi vel. Kastljós fékk upplýsingar sem sýndi athyglisvert vinnuferli málsins og ákveðið var að birta það. Það má vel vera að deilt sé um hvernig verkið var unnið, en fréttin var stór engu að síður.
Ég fer ekkert leynt með það að ég er náskyldur þeim sem hélt á umfjölluninni. Engu að síður finnst mér eðlilegt að tjá mig um málið, enda tel ég að þessi umfjöllun hafi verið rétt og sett fram í ljósi þess þykir mér eðlilegt að umfjöllunin var sett í loftið. Það er greinilegt að á bakvið umfjöllunina var ekki aðeins Helgi Seljan heldur ritstjóri þáttarins og dagskrárstjóri Sjónvarpsins, Þórhallur Gunnarsson. Eflaust hefur Páll Magnússon, útvarpsstjóri, ekki síður fylgst vel með málum. Það er því órafjarri að þetta sé eitthvað persónulegt mál Helga.
Það má deila vissulega um ýmislegt í þessu máli öllu. Hinsvegar finnst mér eðlilegt að þættir af því tagi sem Kastljós er þori að koma fram með afgerandi mál og skapa umræðu um þau. Það má vel vera að það komi við stjórnmálamenn og sé ekki þeim að skapi. Hinsvegar hef ég aldrei litið á fjölmiðla sem halelúja-miðstöð umfjöllunar í stjórnmálum. Ég get ekki betur séð en að allt þetta mál hafi vakið stórar spurningar og málið allt var það stórt að það varð að koma í umræðuna.
Það er eðlilegt að fyrrum ráðherra og alþingismaður vilji verja heiður sinn, telji hún að ráðist hafi verið að honum. Hinsvegar skil ég ekki að Kastljós hafi átt að biðjast afsökunar á umfjölluninni, sem er byggð á máli sem hefur vakið mikla athygli. Vissulega er þetta vont mál að bera fyrir ráðherrann inn á lokasprett kosningabaráttu og þetta mál var af mörgum séð í því ljósi merkilegt nokk.
Er á hólminn kemur verða fjölmiðlar að þora. Mér finnst þessi umfjöllun mjög léttvæg miðað við margt sem sést hefur á prenti í gegnum tíðina og finnst því þessi tíðindi boða nýja stefnu jafnvel þegar að kemur að því taka alvarleg mál fyrir til umfjöllunar.
![]() |
Siðareglur brotnar í umfjöllun um tengdadóttur Jónínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.6.2007 | 13:56
19. júní
Bleikt er litur dagsins - enda er kvenréttindadagurinn, 19. júní, í dag og þá skarta allir einhverju bleiku til að styðja jafnrétti í verki. Í dag eru liðin 92 ár frá því að Kristján 10. konungur Danmerkur og Íslands, undirritaði lög sem veittu konum á Íslandi, eldri en 40 ára, rétt til að kjósa og bjóða sig fram til Alþingis. Þetta er því merkilegur dagur í sögu landsins og ekki síður merkilegur dagur í sögu jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna.
Þá öðluðust íslenskar konur mikilvægt skref til jafnréttis. Kosningarétturinn er mikilvægasta verkfæri okkar til að tjá skoðanir okkar og ekki síður táknrænn til að hafa áhrif á gang mála. Með honum getum við haft áhrif á gang mála, sent ráðamönnum skýr skilaboð og tjáð okkar innri hug til mikilvægra mála. Það að íslenskar konur hafi ekki fengið kosningaréttinn fyrr en 19. júní 1915 er vissulega umhugsunarefni.
Það er vissulega blettur á sögu landsins að konur hafi fram að því verið þögull aðili að málum og ekki getað haft áhrif með kjörrétti í mikilvægum málum. Segja má með sanni að kvennafrídagurinn, 24. október 1975, hafi haft gríðarleg áhrif á baráttu kvenna til að hljóta fullt jafnrétti. Þá, á degi Sameinuðu þjóðanna á alþjóðlegu kvennaári, tóku íslenskar konur sér frí til að sýna fram á mikilvægi starfa kvenna í þjóðfélaginu. Athafnalíf í landinu lamaðist að miklu leyti. Kraftur kvenna varð vel ljós og mikilvægi baráttu þeirra líka.
Fundurinn markaði upphaf jafnréttisbaráttu kvenna að fullu og leiddi til stofnunar Kvennalista 1982. Segja má einnig að fundurinn þá hafi leitt til þess að konur efldust til forystustarfa. Vigdís Finnbogadóttir gaf svo kost á sér til embættis forseta Íslands í ársbyrjun 1980 og náði kjöri. Eins og allir vita varð Vigdís fyrst kvenna í heiminum til að vera kjörin þjóðhöfðingi lands síns í lýðræðislegum kosningum. Hennar framlag til jafnréttisbaráttu hefur verið ómetanlegt.
Meðal allra helstu baráttumála kvenna í dag er launamunur kynjanna. Það er ólíðandi á okkar tímum að kynin fái ekki sömu laun fyrir sambærileg störf. Varla þarf að taka það fram nógu oft að mikilvægt er að taka á þessum launamuni. Ég vil í tilefni dagsins óska konum til hamingju á kvenréttindadeginum. Það er við hæfi að minnast hans.
Framlag kvenna til samfélagsins er ómetanlegt og mikilvægt eins og fyrr segir að kynin standi jafnfætis. Annað er ekki líðandi á okkar dögum en að fullkomið jafnrétti sé með kynjunum.
![]() |
Níu þingmenn Norðvesturkjördæmis fengu bleika steina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.6.2007 | 12:18
Egill Helgason og fjölmiðlaveldi semja frið
Það er auðvitað enginn vafi á því að brotthvarf Egils er mikið áfall fyrir 365. Egill var með vinsælasta dægurmálaspjallþátt landsins og var framarlega í kosningaumfjöllunum Stöðvar 2 fyrir síðustu þing- og sveitarstjórnarkosningar. Í ljósi þess var reyndar með ólíkindum að ekki væri betur búið að þættinum, en honum var valinn staður í litlu horni í stúdíói, enginn pródúsent var settur yfir þáttinn og hann var lítið sem ekkert auglýstur, sennilega bara ekkert, allavega man ég ekki eftir auglýsingum á honum mjög lengi.
Egill heldur nú til verka hjá Ríkisútvarpinu. Þar verður Silfur Egils næstu árin. Auk þess verður hann með bókmenntaþátt þar. Það verður fróðlegt hvaða tímasetningu Silfri Egils verði valin hjá Ríkissjónvarpinu, hvort haldið verði fast við sama tímann, í sunnudagshádegi eða hann kannski færður á annan tíma. Væntanlega verður hann áfram á sunnudegi. Það væri gott ef Egill gæti upplýst okkur um þau mál. Þó að þetta sé ekki kosningavetur mun eflaust ekki vanta pólitískar pælingar þar sem veik stjórnarandstaða reynir að berjast fyrir tilveru sinni í slag við sterkan þingmeirihluta. Það verður því varla pólitísk gúrka í vetur.
Persónulega fagna ég sérstaklega því að Egill verði með bókmenntaþátt. Þannig umfjöllun hefur lengi vantað og fagna ég tilkomu hennar. Egill hefur ræktað bókmenntir mjög vel í Silfrinu, reyndar sem hliðarspjall við pólitíkina, en samt verið eiginlega sá eini sem hefur ræktað þannig spjall í sjónvarpi. Það verður fróðlegt að sjá þannig þátt því í haust. Reyndar verður í heildina áhugavert að sjá dagskrá Sjónvarpsins í vetur undir forystu Þórhalls Gunnarssonar. Við munum eflaust eiga von á mikilli uppstokkun á stöðu mála þar með nýjum húsbónda.
En já, Egill er laus allra mála frá 365. Með þessu tel ég að fjölmiðlaveldið hafi bjargað sér frá hneisu, enda var þetta PR-stríð sem þeim mistókst hrapallega að sigra og því ekki við öðru að búast en að þeir reyndu að settla það með þeim hætti sem við blasir. Þeir hafa farið sneypuför gegn Agli í þessu máli öllu.
![]() |
Egill og 365 ná samkomulagi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)