Úrræðalaus ríkisstjórn horfir á samfélagið hrynja

Stjórnvöld bera mikla ábyrgð með aðgerðar- og úrræðaleysi sínu sem kemur fram í vaxtaákvörðunum Seðlabankans. Þar er sofið á verðinum og horft á samfélagið hrynja. Hún hefur mikið á samviskunni og hefur ekkert fram að færa, hvorki forystu né ábyrgar lausnir á vandanum. Ekki er dugur til að taka ákvarðanir og taka forystuna að neinu leyti.

Eitt sinn var sagt að þessi ríkisstjórn hefði verið mynduð því það hefði vantað verkstjórn í lykilmálum. Er það ekki eins og hver annar brandari núna?

mbl.is Pétur er harmi lostinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sirkusdýr IMF við völd í Seðlabankanum

Vaxtaákvörðun Seðlabankans er varla vonbrigði þegar litið er til þess að yfirstjórnin þar er fyrir löngu orðin eins og sirkusdýr Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Sjálfstæði Seðlabankans er löngu fokið út í veður og vind. Fyrir nokkrum vikum gaf landsstjóri IMF út ordrur um hvað Seðlabankinn gæti gert og ætti að gera.

Þessi ákvörðun í besta falli ómar það og sýnir okkur vel hvar völdin eru i þessu ferli. Seðlabankinn hefur engin alvöru völd lengur og það versta er að stjórnmálamenn hafa gengisfellt hann með hverri ákvörðun sem þeir taka til að þjóna duttlungum IMF.

Ill örlög það.

mbl.is Vextir lækkaðir í 12%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterling-hringekjan í máli og myndum

Varla kemur það að óvörum að Sterling-hringekjan sé til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild og þeim sem fara með rannsókn á efnahagshruninu. Sagan á bakvið Sterling og vinnubrögðin þar, hringekjan mikla, var vel kortlögð í YouTube myndböndum fyrir rúmu hálfu ári. Rifjum þau upp, ekki veitir af.





mbl.is Umboðssvik og ólögleg lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalokin í augsýn fyrir Gordon Brown

gbrown
Eftir mikla erfiðleika allan forsætisráðherraferilinn og býsnavetur innan Verkamannaflokksins blasa pólitísku endalokin nú við Gordon Brown. Hann berst nú fyrir pólitísku lífi sínu við mikið ofurefli. Brown missti endanlega tökin á atburðarásinni í dag með afsögnum tveggja lykilráðherra, áður en að hrókeringum kom að loknum Evrópukosningum á morgun, og bréfi þingmanna þar sem þeir vígbúast gegn honum. Glundroðinn er algjör innan Verkamannaflokksins og þar eru allir að reyna að bjarga sjálfum sér, fyrst og fremst með því að slá Brown af.

Augljóst er að bæði Jacqui Smith (sem varð fyrst kvenna innanríkisráðherra þegar Brown varð forsætisráðherra í júní 2007) og Hazel Blears, tveir ráðherrar í fremstu víglínu, gera nær út af við Brown með tímasetningu afsagnanna. Þær eru engin tilviljun, settar fram til að valda forsætisráðherranum sem mestum skaða. Blears gengur reyndar svo langt að hún þakkar Brown ekki einu sinni samstarfið í afsagnarbréfi sínu.

Nú þegar þingmenn um allt land og jafnvel ráðherrar með sterkan prófíl horfa fram á að tapa sætum sínum í blóðbaði næstu kosninga undir forystu Browns munu þeir taka fram hnífana og brýna þá, slá af Brown til að eygja von á að halda sínum áhrifum og völdum lengur en út kjörtímabilið. Flest bendir til að Brown lifi ekki af pólitískt til að fara í hrókeringar á stjórninni. Væntanlega mun ein afsögn í viðbót nægja til að henda honum fram af hengifluginu.

Ergó: Brown horfist í augu við sömu pólitísku örlög og Margaret Thatcher. Hún var gerð upp innan eigin raða á örfáum dögum í nóvember 1990. Brown hefur barist á móti straumnum nær allt frá upphafi. Hann fékk sína hundrað daga eftir valdaskiptin sumarið 2007. Hann gældi við að boða til nóvemberkosninga árið 2007 þegar allt lék í lyndi í könnunum og fór í gegnum flokksþing án þess að svara kosningatalinu. Hann heyktist svo á því er yfir lauk.

Gordon Brown er andlit liðnu tímanna, fulltrúi hinna glötuðu tækifæra og spillingarinnar í þingkerfinu. Verkamannaflokkurinn á sér ekki viðreisnar von til uppbyggingar með hann í brúnni. Hann er jafn veikur leiðtogi og John Major. Viss öfl innan Íhaldsflokksins reyndu að sparka Major um miðjan tíunda áratuginn þegar allt var að sökkva. Hann stóð það af sér og leiddi flokkinn í algjöra slátrun í kosningunum 1997. Örlög Brown eru augljóslega þau sömu.

Verkamannaflokkurinn á möguleika á að snúa vörn í sókn með því að sparka Brown. Það gæti komið í veg fyrir tvo kosningaósigra. Næstu kosningar eru löngu tapaðar. Nýr forsætisráðherra og flokksleiðtogi gæti byggt upp til framtíðar á rústum Brown-stjórnarinnar. Nær öruggt má teljast að Alan Johnson, verkalýðskempan, sé eini maðurinn sem geti leitt það starf, enda nær óumdeildur og mjög traustur.

Ekki er óvarlegt að spá því að hann verði orðinn húsbóndi í Downingstræti mjög fljótlega og muni jafnvel verða sjálfkjörinn sem eftirmaður Browns.

mbl.is Brown hvattur til afsagnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyllt upp í eyðurnar í pólitíska hluta bankahrunsins

Ekki þarf að efast um að bók Guðna Th. Jóhannessonar um bankahrunið verði metsölubók. Þar er í fyrsta skipti fyllt upp í eyðurnar á atburðarásinni bakvið tjöldin þegar pólitísk upplausn varð í ofanálag við sjálft hrun íslenska efnahagskerfisins. Sú saga hefur ekki enn verið skrifuð með markvissum hætti með upplýsingum sem varpa ljósi á mesta hitann og þungann í því ferli sem ekki aðeins fylgdi pólitískum hluta hrunsins heldur og endalokum og upplausn ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Dramatíkina vantar ekki í þau reikningsskil og eflaust kominn tími til að varpa ljósi á það sem gerðist bakvið tjöldin. Undarlegast af öllu er að það liggi fyrir áður en heildarmyndin kemur fram í rannsókninni á hruninu og áður en skýrslur og gögn verða opinber. Sem minnir mann á það að gegnsæið er fyrir löngu orðið týnd í sukkinu. Þessi ríkisstjórn hefur algjörlega brugðist því hlutverki að upplýsa þjóðina og tala við hana á mannamáli. Hún er eiginlega verri en síðasta ríkisstjórn í þeim efnum.

Forsætisráðherrann þá var allavega með blaðamannafundi og talaði á ensku við alþjóðapressuna. Þögnin og leyndin er hálfu meiri núna - skortur á aðgerðum og pólitískri forystu er allavega ekki skárri hjá þeim sem eru á vaktinni núna. Skipbrot íslenskra stjórnmála í miðju hrunsins er reyndar staðreynd.

Verst af öllu er að enginn virðist rísa yfir meðalmennskuna og aumingjaskapinn, í haust og eins núna þegar uppgjörið við fortíðina þarf að fara fram. Það uppgjör er ekki síst pólitískt. Er á hólminn kemur virðist lærdómurinn enginn og pólitískur glundroði er algjör.

Er ekki aðalverkefnið á næstunni að reyna að skapa stöðugleika - þjóðin verður að krefjast þess að talað sé við hana hreint út og ekki spilað með hana enn eina ferðina.

mbl.is Mesta umrót síðan í stríðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð Oddsson var alla tíð á móti aðkomu IMF

Mér finnst það undarlegt að það sé meðhöndlað sem einhver ný tíðindi að Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, hafi verið á móti aðkomu IMF hérlendis eða unnið gegn henni. Þvert á móti var hann ötulastur í hópi þeirra sem vildu ekki fá þá að borðinu og margar sögur gengið um að andstaða hans hafi tafið málið lengi vel og því ekki undarlegt að gengið hafi á ýmsu í þeim efnum.

Í raun má segja að aðkoma IMF hafi tekið yfir ákvarðanir Seðlabankans eins og æ betur hefur sést á síðustu vikum og mánuðum. Annars finnst mér merkilegt að æ fleiri sjái að varnaðarorð Davíðs fyrir og eftir hrunið og fleiri ummæli hans voru þess eðlis að hann hafi haft rétt fyrir sér allan tímann.

mbl.is Davíð lét AGS heyra það
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna gerir einræðisvaldinu í Kína til góðs

Á fimmtudag eru tveir áratugir liðnir frá því einræðisstjórnin í Peking valtaði með skriðdrekum yfir námsmenn á torgi hins himneska friðar, kæfði mótmæli þeirra og baráttu fyrir mannréttindum. Forsætisráðherra Íslands þorir ekki á þeim tímamótum að hitta Dalai Lama og með fylgja utanríkisráðherrann, forsetinn og fjármálaráðherrann. Einræðisvaldið í Peking hlýtur að vera mjög ánægt með Jóhönnu Sigurðardóttur, Össur Skarphéðinsson, Ólaf Ragnar Grímsson, forseta, og Steingrím J. Sigfússon. Eru einhverjir aðrir ánægðir með dugleysi þeirra?

Öll þora þau ekki að hitta Dalai Lama og reyna með því að þóknast einræðisvaldinu í Kína, gera kommunum í Peking til góða. Ekki hægt annað en hafa hreina skömm á þessum aumingjaskap þeirra sem fara með völd hér á Íslandi. Össur flúði úr landi í einhverja Evrópureisu til Möltu þar sem hann er að reyna að læra eitthvað af inngöngu þeirra í Evrópusambandið. Lítur þar út eins og Eiríkur Fjalar. Þvílíkur ræfilskapur í þessum manni.

Ólafur Ragnar sýndi svo smáborgarlegt eðli sitt með því að fara á Smáþjóðaleikana og snakka við forseta Kýpur. Og Jóhanna og Steingrímur segja auðvitað ekki múkk. Hvað hefði formaður VG sagt ef sá flokkur væri í stjórnarandstöðu núna? Mikið var víst reynt að koma á fundi Jóhönnu og Dalai Lama en í forsætisráðuneytinu er ekki þorað að taka skrefið. Hún þorir ekki að feta í fótspor Lars Løkke Rasmussen.

Katrín Júlíusdóttir og Ögmundur Jónasson reyna að bjarga því sem bjargað verður hjá þessari sambandslausu ríkisstjórn og hitta Dalai Lama. En það dugar skammt. Fjarvera þeirra ráðherra sem mestu skipta og útrásarforsetans er hróplega áberandi og þeim til mikillar minnkunar. Þar er enn og aftur verið að hugsa um hag Kínverja, ekki megi styggja einræðisvaldið í Peking.

mbl.is Mótmæla fundum íslenskra ráðamanna með Dalai Lama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu svörtu kassarnir finnast?

Mjög góð tíðindi eru að tekist hafi að finna brak úr flugvélinni sem fórst á flugi yfir Atlantshafið um helgina. Mikilvægt er að fá að vita meira um örlög vélarinnar og þeirra sem voru um borð. Mikilvægast af öllu er að finna svörtu kassana, flugritana, sem rekja sögu þess sem gerðist. Þeir þurfa að finnast innan 30 daga til að hægt verði að komast að því hvað gerðist.

mbl.is Brak finnst á Atlantshafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Váleg tíðindi

Mjög váleg tíðindi eru að Íslendingur sé meðal þeirra sem saknað er í flugvélinni sem talið er að hafi farist í flugi milli Brasilíu og Frakklands. Hugur minn er hjá aðstandendum allra þeirra sem voru um borð.

Þetta er væntanlega mannskæðasta flugslysið síðan í nóvember 2001 þegar Airbus-flugvél fórst í New York. Þá létust 265.

mbl.is Farþegarnir voru frá 31 landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þolir Susan Boyle frægðina?

Greinilegt er að Susan Boyle hefur algjörlega bugast andlega í öllu því álagi sem fylgt hefur hinni miklu athygli sem fylgdi heimsfrægðinni. Þetta var líka yfirgengileg pressa sem lögð var á þessa fimmtugu skosku konu; konu sem aldrei hafði verið fræg eða sérstök en varð á einni nóttu heimsþekkt og þekkt allt frá Timbúktú til Tálknafjarðar.

Þarf sterk bein til að þola svona velgengni og höndla frægðina ofan á það líf sem Susan Boyle lifði í kyrrþey árum saman. Fyrstu merkin um að Susan væri að bugast komu fram í síðustu viku þegar hún öskraði ókvæðisorðum að ljósmyndurum og fólki sem elti hana út um allt. Hún þurfti svo aðstoð fagmanna til að komast í gegnum úrslitaþáttinn.

Fyrst og fremst vona ég að Susan Boyle fái hjálp til að höndla þessa frægð. Hvað úr frægðinni verður hlýtur að vera aukaatriði.

mbl.is Susan Boyle á sjúkrahús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrottinn á Nesinu fer fljótt í sama farið aftur

Ekki tók það marga daga fyrir einn hrottann á Seltjarnarnesi, sem réðst á eldri mann á heimili hans og rændi hann, að fara strax aftur í sama farið. Væntanlega er þetta ólánsfólk sem er í eiturlyfjaneyslu og er komið í algjöran vítahring. Algjör sorgarsaga.

Þetta mál leiðir óneitanlega hugann að þeirri grimmd sem er í undirheimunum. Þar er allt gert til að fjármagna næsta skammt og til að halda neyslunni áfram. Þetta kom vel fram í málinu í Garðabæ þar sem barnabarn eldri konu beið úti í bíl meðan amman var rænd.


mbl.is Braust strax inn aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þorir Jóhanna ekki að hitta Dalai Lama?

Mér finnst það algjörlega til skammar fyrir íslensk stjórnvöld að enginn fulltrúi þeirra ætli að hitta Dalai Lama, trúarleiðtoga Tíbeta, í Íslandsför hans. Hvers vegna þorir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ekki að hitta Dalai Lama? Er hún hrædd við kínversku kommana í Kína og einræðisstjórn þeirra eða er hún bara gunga? Hennar vegna vona ég frekar að hún sé gunga, enda er ekki viðeigandi að stjórnvöld sem vilja láta taka sig alvarlega séu eins og sirkusdýr fyrir einræðisstjórn.

Mikill sómi væri fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að fylgja í fótspor Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sem hitti Dalai Lama í Danmerkurför hans. Løkke var djarfur og einbeittur í þessum efnum, rétt eins og forveri hans, Anders Fogh Rasmussen, sem hitti Dalai Lama árið 2003. Mikilvægt er að stjórnvöld tali fyrir mannréttindum bæði í orði og ekki síður verki, séu ekki huglausar gungur.

Ekki er að spyrja að því að forsetinn er flúinn úr landi á fjarlæga íþróttaleika þegar Dalai Lama kemur til Íslands í fyrsta skipti. Er ekki hissa á því enda hefur þessi forseti okkar Íslendinga fyrst og fremst verið að reyna að sleikja kínversku kommastjórnina í Peking og dekstrað þá, bæði tekið á móti Jiang Zemin og Li Peng á Bessastöðum.

En hvað með Steingrím J. Sigfússon? Ætlar hann að láta það spyrjast til sín að hann tali bara fyrir mannréttindum í orði en gufi svo upp eins og gunga þegar á reynir í verki. Hann sem leiðtogi flokks sem hefur skreytt sig með mannréttindaáherslum á tyllistundum ætti að vilja sýna það í verki nú en ekki líta út sem vildarvinur einræðisvalds.

Þögn íslenskra stjórnvalda þegar Dalai Lama kemur til landsins er æpandi hávær. Þetta fólk gengisfellur sig annars með hverjum deginum sem líður frá kosningum og þarf ekki þetta eitt til.

mbl.is Dalai Lama í heimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband