26.1.2009 | 14:47
Jóhanna verður forsætisráðherra í nýrri stjórn
Við blasir að forsætisráðherravalkostur Samfylkingarinnar, aldursforsetinn Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, muni leiða nýja ríkisstjórn, væntanlega minnihlutastjórn Samfylkingar og vinstri grænna, varða af Framsóknarflokknum, ef Geir H. Haarde nýtir ekki þingrofsrétt sinn á Bessastöðum í dag. Get ekki séð að þjóðstjórnarkosturinn gangi við þær aðstæður sem uppi er. Vinstriflokkarnir hafa augljóslega myndað með sér blokk um helgina með Framsókn, jafnvel fyrr. Leikritið sem hefur staðið um helgina hefur greinilega verið þaulskipulagt og vissulega merkilegt á að horfa.
Mér finnst merkilegt að Jóhanna sé valkostur Samfylkingarinnar. Eflaust er þetta til að létta þrýstingi af Ingibjörgu Sólrúnu og til að tryggja henni framhaldslíf í pólitík nái hún heilsu. Með þessu stígur hún til hliðar meðan mótmælendur róast og ætlar að koma á sviðið aftur og verður væntanlega þá sú eina eftir af ráðamönnum í fremstu víglínu bankahrunsins sem enn er eftir á sviðinu. Þetta er merkilegur leikur en eflaust þaulskipulagður. Jóhanna sem starfsaldursforseti Alþingis er valkostur sem kemur fram sem fulltrúi þingræðis í krísu, svipað og Gunnar Thoroddsen árið 1980.
Fúkyrðin og ávirðingar um ómögulegt samstarf ganga á milli. Greinilegt er þó á öllu að Sjálfstæðisflokkurinn gekk að öllum kröfum Samfylkingarinnar nema því að afsala sér forsætinu, sem um var samið milli flokkanna. Slík afstaða er heiðarleg, enda afleitt að ætla að skipa málum öðruvísi í samstarfinu í hundrað daga, eða fram að kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn fer því af velli með heiðarlegum hætti og stendur við fyrirframákveðið samkomulag.
Óvissan í þjóðfélaginu er fjarri því að baki þó stjórnarfyrirkomulag breytist. Ég tel líklegast að Ólafur Ragnar feli Jóhönnu stjórnarmyndunarumboð fljótlega eftir að Geir fer til Bessastaða ef þingrofsréttur hans er ekki nýttur enda er handritið að þessu leikriti löngu skrifað og tilbúinn til túlkunar af aðalleikurunum. Utanþingsstjórn er ólíklegur valkostur. Hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn fær hann við þær aðstæður næði og góðan tíma til að stokka sig upp og kannski ágætt eftir það sem gengið hefur á að hann fái sitt svigrúm.
Ég er innst inni ánægður með að þessu stjórnarsamstarfi er lokið. Það hafði verið ónýtt mjög lengi og heilindin löngu farin. Heiðarleg samskipti Geirs og Ingibjargar hélt ótrúlega lengi en að öðru leyti var það löngu farið veg allrar veraldar. Ég gaf því fullt tækifæri þegar þessi stefna var tekin eftir kosningarnar 2007 en treysti aldrei á það og hef fyrir löngu hætt alvöru stuðningi við hana, enda óheilindasamstarf.
Mér finnst mikilvægt að við þessar aðstæður verði kjörin alveg ný forysta Sjálfstæðisflokksins á landsfundi í mars. Ég mun ekki styðja neinn í núverandi forystu áfram og vona að samstaða náist um alveg nýtt fólk þar í forystu, sem ótengt er með öllu ákvörðunum og forystu í aðdraganda og eftirmála bankahrunsins. Tækifærið er til breytinga - það þarf að nýta.
![]() |
Jóhanna næsti forsætisráðherra? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.1.2009 | 13:16
Ríkisstjórnin fallin - vinstristjórn í pípunum?
Þá hefur Geir H. Haarde, forsætisráðherra, slitið stjórnarsamstarfi með Samfylkingunni eftir stormasama tíð. Samfylkingin hefur, eins og kjaftasögurnar sögðu í morgun, gert kröfu um forsætið í samstarfinu. Slík krafa er algjörlega óaðgengileg 100 dögum fyrir alþingiskosningar. Nú tekur væntanlega við vinstristjórn, enda er greinilega búið að leggja drög að henni.
Þjóðstjórn væri besta lausnin en væntanlega mun valdapot vinstriflokkanna verða því yfirsterkara. En nú fá þeir sennilega boltann og geta leikið sér með hann eins og þeir vilja. Nú reynir á leikni þeirra. Kjaftasagan er að pólitískur krónprins ISG, Dagur B. verði forsætisráðherra, Steingrímur J. fjármálaráðherra og Ögmundur heilbrigðisráðherra.
Fróðlegt að heyra hvað verður um IMF í því dæmi. En eflaust bognar VG í því.
![]() |
Stjórnarsamstarfi lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 11:39
Kjaftasaga um vinstristjórn spuni Samfylkingar?
Kannski ráðast örlögin eftir allt saman á fundum stjórnarflokkanna og þeir nái saman um aðgerðir. Mér finnst samt merkilegt að fylgjast með valdaleikriti Samfylkingarinnar þar sem leitað er í smiðju Halldórs Ásgrímssonar í samningum við Sjálfstæðisflokkinn eftir kosningarnar 2003 til að réttlæta að Samfylkingin fái forsætið núna á síðustu hundrað dögum ríkisstjórnarinnar fyrir kosningar - þeir leiði síðustu metrana og skipt sé um forsætisráðherra bara til að þjóna hagsmunum Samfylkingarinnar.
Mér finnst það líka mjög merkileg krafa að kona sem nýlega er komin úr miklum uppskurði eigi að taka við embætti forsætisráðherra og haldi því opnu að leiða flokk sinn í vor. Nema þá að þetta sé pólitískur svanasöngur Ingibjargar Sólrúnar og hún vilji kveðja pólitíkina sem forsætisráðherra í þrjá mánuði en fara ekki fram í vor.
En kjaftasögurnar eru margar og erfitt að gera sér grein hverjum skal trúa og hverjum ekki. Best að taka hæfilegt mark á þeim öllum og velta þeim fyrir sér. Nú er beðið þess sem gerist á þingflokksfundunum. Vonandi ráðast örlögin þar en hafa ekki ráðist fyrir löngu síðan, á sellufundum um helgina.
![]() |
Rafmögnuð stemmning |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2009 | 10:38
Vinstristjórn í burðarliðnum - ISG forsætisráðherra
Þetta er merkileg kjaftasaga og fróðlegt að heyra hana áður en þingflokksfundum stjórnarflokkanna lýkur. Ef þetta er rétt er alveg ljóst að samningaviðræður helgarinnar voru hreinn skrípaleikur og partur af valdaleikriti Samfylkingarinnar.
![]() |
Þingflokksfundir hefjast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2009 | 10:18
Spuni Samfylkingar - átök um forsæti ríkisstjórnar
Frekar aumt er það orðið þegar Samfylkingin reynir að fá stólinn með tilvísan í að Halldór Ásgrímsson hafi verið forsætisráðherra í stjórn með Sjálfstæðisflokknum fyrir nokkrum árum. Um slíkt var samið í upphafi kjörtímabils en ekki á hundrað dögum fyrir kosningar. Slíkur samanburður er hlægilegur og ekki Samfylkingunni til sóma.
Atburðarás gærdagsins var ein leikflétta til að breyta skipan mála í Stjórnarráðinu, Samfylkingu í hag. Slíkt gengur ekki upp og Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að taka þátt í því. Frekar á Sjálfstæðisflokkurinn að slíta ríkisstjórn en sætta sig við það. Slíkt ber því vitni að Samfylkingin vilji ekki halda áfram af heilindum.
Ingibjörg Sólrún er nýlega komin úr heilaskurðaðgerð og er greinilega mjög máttfarin og veikburða, eins og vel sást í fréttum í gær. Algjör fjarstæða er að hún taki við forsætinu þegar Geir H. Haarde fer til læknismeðferðar erlendis. Langheiðarlegast er þá að manna forsætisráðherrastólinn öðrum einstakling en þeim báðum.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk stólinn í þessari ríkisstjórn og mun ekki láta hann af hendi meðan stjórnin situr, nema þá að í raun sé mynduð ný ríkisstjórn. Ég er sammála Birni Bjarnasyni um að verk næstu hundrað dagana eiga að snúast um aðgerðir í efnahagsmálum en ekkert annað, enda er þetta í raun bara starfsstjórn.
![]() |
Vilja taka að sér verkstjórnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 08:08
Skemmdarverkaáráttan og baráttuaðferðirnar
Réttur fólks til að hafa skoðanir og tjá þær af krafti er mikilvægur - hann ber að verja. Mér finnst samt frekar dapurlegt þegar skoðanatjáning endar með skemmdarverkum eða ofbeldi. Slíkt hlýtur að koma niður á þeim skoðunum sem viðkomandi tjáir og skaðar málstaðinn, hver svo sem hann er. Mér finnst ekkert óeðlilegt að einhverjir vilji fara að Seðlabankanum og tjá skoðanir sínar og gera með þeim hætti sem er viðeigandi. Verra er þegar skemmdarverk eru það sem eftir standa, þegar talað er og barið á potta út í myrkrið, fyrir utan hús sem enginn er í.
Síðustu vikuna höfum við séð söguleg mótmæli hérlendis við opinberar byggingar og misjafnlega langt gengið. Árásin á Alþingishúsið og Stjórnarráðið og aðförin að lögreglunni aðfararnótt fimmtudags var þeim til skammar sem að þeim stóðu og voru lágpunkturinn á mótmælaferlinu og áttu í raun ekkert skylt með málefnalegum mótmælum, heldur snerist upp í óeirðir og skrílslæti. Þau hafa vakið athygli fyrir innihaldsleysi sitt í skoðunum en að vera gróft ofbeldi og að sumu leyti hreinlega tilraun til manndráps á lögreglumönnum.
Skemmdarverkin eru réttlætanleg hjá sumum fyrir einhvern málstað en það hlýtur samt að vera vondur eftirmáli á baráttu hver sem hún nefnist. Árás á opinberar byggingar að næturlagi, þegar enginn er þar, er kannski táknræn og tilraun til að vekja athygli þegar ekki er annað að gerast og verður að dæmast á þann máta sem til er stofnað. Sum mótmæli eru betur skipulögð en önnur og betra að gera það heiðarlega og vel frekar en stefna fyrirfram að því að espa lögregluna upp.
Ég ætla að vona að allir læri eitthvað á síðustu viku, mótmælendur ekki síður en lögregla og embættismenn. Fyrst og fremst er mikilvægt að fólk tjái sig án þess að beita skapi sínu á lögreglumenn við skyldustörf og dauðum hlutum.
![]() |
Skemmdarverk við Seðlabankann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2009 | 18:28
Mun Geir nota þingrofsvaldið í stöðunni?
Í viðtali nú á sjöunda tímanum sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, að hann myndi ekki afsala sér þingrofsvaldinu. Þetta er merkilegt útspil - enda felst í því að Geir muni slíta stjórnarsamstarfinu og rjúfa þing og boða til kosninga innan 45 daga áður en Samfylkingin tekur eitthvað slíkt skref. Hann tók það sérstaklega fram að valdið væri sitt og myndi ekki láta það af hendi. Mér finnst það gefa til kynna að það sé uppi á borðinu í samtölum innan Sjálfstæðisflokksins.
Miðað við stöðuna er þessi ríkisstjórn allt að því fallin og ekkert traust eftir. Mér finnst greinilegt að brugðið getur til beggja vona. Sjálfstæðisflokkurinn getur bundið enda á samstarfið ef allt fer á versta veg og á þá í þeirri stöðu að rjúfa strax þing.
![]() |
Útilokum ekki breytingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2009 | 16:33
Hreinsun í Fjármálaeftirliti - efinn um Seðlabanka
Ég tel að það sé farsæl ákvörðun að láta yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins fara. Jónas Fr. fær samt enn rúman mánuð til verka. Farsælla hefði verið að láta hann hætta um mánaðarmót. Yfirmönnum í FME varð á mikil mistök í bankahruninu og eftirmálum þess - hafa ekki notið trausts að undanförnu. FME sem megineftirlitsaðili stóð sig ekki nógu vel. Hvort um sé að kenna ekki nógu fjármagni eða of miklum starfsmannabreytingum má deila.
Þessi meginstoð stóðst altént ekki þegar á reyndi. Svo fer sem fer. Þessar ákvarðanir hefði mátt taka fyrir nokkru, en þeim ber samt sem áður að fagna. Ég er reyndar hissa á hversu pólitísk ábyrgð dagsins fer illa í sumu. Þegar pólitísk ábyrgð er virkjuð halda sumir áfram að nöldra og láta eins og hún sé afleit. Stundum er umræðan óskiljanleg.
Efasemdin er nú um Seðlabankann. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins verða að meta næstu skref vel og taka sínar ákvarðanir. Ég tel að ákvörðun um áframhaldandi stjórnarsamstarf verði um hvort kenna eigi forystu bankans um það sem aflaga fór eða verja hana. Ekki er nokkur spurning um að fyrr en síðar mun þar fara fram uppstokkun.
![]() |
Jónas hættir 1. mars |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2009 | 14:55
Stjórnin á bláþræði - skilyrðin fyrir samstarfi
Síðustu vikuna hef ég skynjað mikla þreytu með þetta samstarf, ekki síður innan Sjálfstæðisflokksins. Í þeim samtölum sem ég hef átt hef ég fundið fyrir því hversu erfitt sé fyrir flokkana að ná saman um breytingar og nýja framtíðarsýn. Mikilvægt er að öðlast slíkt framhald eigi þetta að geta gengið. En svo verður að ráðast hvort einhver áhugi sé eftir fyrir samstarfi, það verður þó að vera naglfast til hundrað daga hið minnsta og ná samstöðu um einhverjar breytingar.
Ég er sammála Geir um að það verður að passa vel upp á næstu hundrað daga. Því er þjóðstjórn sennilega besti kosturinn í stöðunni, ná samstöðu allra flokka og binda enda á pólitískan glundroða með markvissum áherslum og samstöðu allra flokka. Davíð Oddsson lagði þetta til þegar í haust, við dræmar undirtektir. Menn áttu að hlusta betur á þetta þá.
![]() |
Geir: Má ekki missa dampinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2009 | 12:59
Björgvin bjargar ferlinum - átök við Dag um forystu?
Mér finnst merkilegt hvað Ingibjörg Sólrún kemur af fjöllum varðandi afsögn Björgvins G. Finnst það ósannfærandi. Finnst líklegt að þetta sé eitt plott Samfylkingarinnar við að endurbyggja sig. Björgvin hefur kannski tekið atburðarásina í sínar hendur til að ná frumkvæði og væntanlega hefur honum tekist það að stóru leyti. Efinn er þó um hvort hann eigi afturkvæmt í flokksforystu og nái að eiga nýtt upphaf.
Landsfundur Samfylkingarinnar í mars verður eflaust mjög öflugt þing. Sótt verður að varaformanninum og enn óljóst hvort Ingibjörg Sólrún situr áfram. Björgvin er eini þingmaðurinn sem er líklegur til forystuverka og væntanlega vill Björgvin reyna að halda í þá von að taka slaginn við Dag B. Eggertsson, valinn krónprins Ingibjargar, um flokksforystuna eða ella varaformennskuna.
![]() |
Ingibjörg Sólrún: Afsögn Björgvins kom á óvart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.1.2009 | 11:05
Björgvin segir af sér - yfirstjórn FME fer frá

Það er mjög jákvætt skref að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hafi sagt af sér embætti og yfirstjórn og stjórnendur Fjármálaeftirlitsins hafi vikið. Ég hef talað fyrir því í nokkra mánuði að fjármála- og viðskiptaráðherra verði að fara frá og það verði að endurmynda ríkisstjórnina til verka. Mér sýnist það vera í augsýn að algjör uppstokkun verði hjá lykilstofnunum og slíkt er upphafið á ferlinu.
Mikilvægt er að stjórnmálamenn axli ábyrgð á erfiðri stöðu þjóðarinnar. Slíkt er forsenda fyrir nýju upphafi og því að þjóðin öðlist aftur trú á uppbyggingunni. Þeir stjórnmálamenn geta í kjölfarið leitast eftir að endurnýja umboð sitt eða hætta alveg. Þegar er ljóst að Björgvin ætlar að sækjast eftir endurnýju umboði á öðrum forsendum. Slíkt er hans valkostur og fróðlegt að sjá hvernig það gengur.
![]() |
Björgvin segir af sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2009 | 01:10
Er þetta ekki aðeins of langt gengið?
![]() |
Mótmælum hætt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2009 | 00:33
Samfylkingin í upplausn - gjá milli landshluta

Ég er ekki hissa á því að gjá sé á milli Samfylkingarfólks í afstöðu til ríkisstjórnarinnar og verkefna næstu hundrað dagana, fram að alþingiskosningum. Meiri ábyrgð virðist í tali landsbyggðarfólks í Samfylkingunni en þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst margir sem hafa talað og verið mest áberandi innan Samfylkingarinnar síðustu dagana ekki vilja taka ábyrgð á stjórn landsins og hlaupa frá verki á erfiðum tíma, þegar þarf að taka erfiðar ákvarðanir og sýna trausta forystu á umbrotatímum.
Augljóst er að upplausn er innan Samfylkingarinnar á mörgum sviðum. Ingibjörg Sólrún er límið sem heldur flokknum saman. Fjarvera hennar hefur veikt flokkinn. Greinilegt er að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður, er mjög veikur í sessi og hefur ekki umboð og traust formannsins til að vera staðgengill hennar. Hún valdi hann ekki til ríkisstjórnarsetu fyrir tveim árum í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og í aðdraganda síðustu kosninga þurfti Ágúst að fara í slag við samherja um sætið sem hann vildi.
Ég hef verið að reyna að velta fyrir mér hver Samfylkingin sé í raun. Mjög ólíkir hópar eru innan flokksins og hafa þær fylkingar komið æ betur í ljós að undanförnu. Mér finnst sérstaklega merkilegt hvað flokkurinn er brothættur án Ingibjargar Sólrúnar. Fjarvera hennar hefur afhjúpað veikleika flokksins algjörlega og um leið sýnt hversu mikilvæg hún er flokknum sem forystumaður. Landsfundur flokksins, sem verður væntanlega í mars, verður örugglega merkilegt að því leyti hvað verði um varaformanninn.
Raddir sem ég hef heyrt eru á þá leið að skipt verði um varaformann. Óvissan um pólitíska framtíð Ingibjargar Sólrúnar er enn nokkur en hún heldur opnu að fara í þingkosningarnar í vor ólíkt Geir H. Haarde sem ætlar ekki að taka þátt í stjórnmálum eftir kosningarnar og hefur þegar gefið út yfirlýsingu um að hann verði í mesta lagi á pólitíska sviðinu fram á vorið. Slík yfirlýsing vekur athygli miðað við veikindi Ingibjargar Sólrúnar en sýnir líka hversu mikilvæg hún er í flokksstarfinu. Hún telji sig ekki geta farið.
Samfylkingin þarf að sýna á næstu dögum hvort flokkurinn ræður við ástandið í þjóðmálum og getur fundið innri frið í komandi átökum, ekki aðeins við aðra flokka heldur innbyrðis. Alls óvíst er að flokkurinn haldi saman um megináherslur og forystuna, sem virðist ekki vera samstíga heldur tala í ólíkar áttir.
![]() |
Meiri biðlund á landsbyggðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.1.2009 | 17:56
Friðsamleg mótmæli
Umboðið er alltaf þjóðarinnar. 9. maí verður væntanlega sá laugardagur sem verður lykildagurinn í því ferli að allir hafi sína skoðun og tjái hana. Í aðdraganda þess þarf þó að fara úr skotgröfunum og tala til fólks í lausnum og vera einbeittir í málefnalegum slag. Við kjósendur eigum ekki annað skilið. Upphrópanir koma okkur ekki spönn í þessu ástandi.
![]() |
Áfram mótmæli á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.1.2009 | 17:17
Virðingarvert hjá Herði að biðja Geir loks afsökunar
Ég fagna því að Hörður Torfason hafi beðið Geir H. Haarde, forsætisráðherra, loksins afsökunar á mjög óviðeigandi ummælum um veikindi hans. Þetta var mjög óheppilega orðað hjá Herði og ég tel að öllum hafi blöskrað hvernig hann tjáði sig, hvort sem þeir séu stuðningsmenn Geirs eður ei í pólitísku starfi. Slíkt er algjört aukaatriði, enda eigum við ekki að tala svona um þá greinst hafa með illkynja mein og þurfa að horfast í augu við baráttu, enda er krabbameinsgreining alltaf barátta fyrir þá sem greinast og fjölskyldu viðkomandi.
![]() |
Baðst afsökunar á ummælum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.1.2009 | 13:33
Ósvífni hjá Herði Torfa - ómerkileg vörn
Ég er alveg undrandi á því að Hörður Torfason hafi ekki beðið afsökunar á mjög óviðeigandi ummælum sínum um Geir Haarde í gær. Þau voru mjög ósvífin og eiginlega finnst mér vörnin hans mjög veikburða. Hann greinilega er á miklum flótta frá málinu og getur ekki sýnt af sér neinar mannlegar tilfinningar og bakkað með ummælin eða viðurkennt hversu röng þau voru.
Hörður núllaði sig út með þeim sem talsmaður mótmæla og einhverrar fjöldahreyfingar. Einmitt þess vegna taldi ég að hann myndi beygja af leið og viðurkenna alvarleg mistök sín. Mjög dapurlegt að hann hafi ekki skynsemi að leiðarljósi og klári málið með sóma. Eftir þetta er hann því miður algjörlega ómarktækur í hlutverki sínu.
![]() |
Greinilega snúið út úr ummælum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2009 | 20:36
Ætlar Hörður Torfa ekki að biðja Geir afsökunar?
Ég bar vonir og væntingar til þess að Hörður myndi biðjast afsökunar og draga ummæli sín til baka fyrir kvöldið. Enn hefur það ekki gerst. Ætlar hann virkilega að verða metinn slíkt fífl að standa við þessi nauðaómerkilegu ummæli sín?
![]() |
Sextándi mótmælafundurinn á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2009 | 16:57
Ingibjörg Sólrún staðfestir kjördaginn 9. maí
![]() |
Ingibjörg Sólrún komin heim |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2009 | 15:10
Ósmekkleg ummæli Harðar Torfasonar um Geir
Hörður Torfason á að vit á því að skammast sín vegna ósmekklegra ummæla sinna um Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og veikindi hans. Mér finnst það hrein lágkúra að talað sé um alvarleg veikindi hans, illkynja mein í vélinda, sem eitthvað trix eða fjölmiðlaútspil. Hann á að hafa vit á því að biðja Geir afsökunar.
![]() |
Hænuskref í rétta átt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2009 | 14:08
Samstaða um maíkosningar - formannsslagur
Ég get ekki betur séð en samstaða muni nást um kosningar þann 9. maí. Allir ættu að geta sætt sig við það og byrjað á kosningabaráttunni sem fyrst. Ekki er lengur hægt að tala um að menn axli ekki ábyrgð - þegar kosningum er flýtt um tvö ár er ljóst að orðið hefur verið við kröfum þeirra sem voru óánægðir með stöðuna. Mér finnst það út í hött að mynduð verði önnur stjórn fram að þeim tíma. Kosningum hefur verið flýtt um tvö ár og tryggt að landsmenn muni taka afstöðu til flokkanna mjög fljótlega.
Tíðindin úr Valhöll eru mjög dapurleg og ég finn að hugur allra landsmanna er hjá Geir og fjölskyldu hans. Burtséð frá átökum hefur Geir verið einn vinsælasti og traustasti stjórnmálamaður landsins og nýtur virðingar vegna þekkingar sinnar og reynslu. Mikilvægt er að hann fái sitt svigrúm og landsmenn fari að beina sjónum sínum að kosningunum.
Alveg óþarfi er að mótmæla úr þessu, allavega hljómar kosningakrafan og uppgjörin sem fjarstæða nú. Reiðin og gremjan getur nú beinst í málefnalegar rökræður um næstu skref og kosningabaráttuna. Landsmenn fá nú valdið í sínar hendur og geta farið að einhenda sér í pólitíska baráttu um næstu skref, tala í lausnum.
Hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn er mikilvægt að allir sem hafa áhuga á formannsembættinu fari fram og við fáum heiðarlega baráttu um flokksforystuna á landsfundi. Mér finnst, eins og ég sagði fyrir stundu, rétt að nýr formaður Sjálfstæðisflokksins standi utan átakanna sem verið hafa og ég mun styðja þann sem getur boðað breytingar.
![]() |
Árni: Mikið áfall |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |