PR-sýndarmennska Jóhönnu

Yfirlýsing Jóhönnu um afsökunarbeiðni til þjóðarinnar kemur seint og um síðir, er góð og blessuð fyrir margra hluta sakir, en lyktar af PR-sýndarmennsku hjá ríkisstjórn sem komin er af fótum fram. Enn sitja þrír ráðherrar í ríkisstjórn sem voru á vaktinni fyrir ári þegar allt hrundi, þar af bæði forsætisráðherrann Jóhanna og utanríkisráðherrann Össur, tveir af valdamestu ráðherrum landsins. Fram af þessu hafa þau ekki viljað taka ábyrgð af setu í ríkisstjórn á þessum tíma. Þau geta ekki flúið hana.

Samfylkingin hefur nú setið í þremur ríkisstjórnum frá árinu 2007 og sat í stjórn í tæpt eitt og hálft ár áður en kom að hruninu og hafði viðskiptaráðuneytið og yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins á sinni könnu. Hún flýr því ekki ábyrgðina svo glatt. Kannski er ágætt að þetta fólk biðjist afsökunar, nógu lengi hefur það aðeins viljað kenna öðrum um það sem aflaga fór.

mbl.is Biður þjóðina afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna lætur loks í sér heyra á alþjóðavettvangi

Loksins er lífsmark með Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á alþjóðavettvangi. Af hverju var hún ekki fyrir löngu búin að láta í sér heyra í erlendum fjölmiðlum og gagnrýna framkomu tuddans Gordons Browns við Ísland. Reyndar er rannsóknarefni af hverju íslenskir ráðherrar hafa ekki þorað að tala svona hreint út um bresk stjórnvöld áður. Kannski bara hreinlega aumingjaskapur?

Það tók heilt ár að tjá sig á mannamáli um þessa ömurlegu framkomu Breta - sama á hverju hefur dunið hefur þögnin verið eina vörn lélegra stjórnvalda á Íslandi. Ári eftir setningu hryðjuverkalaganna heyrist eitthvað. Ætli Jóhanna sé búin að átta sig á því að fólkið í landinu nennir ekki að styðja þá lengur sem halda kjafti þegar ráðist er að Íslandi.

Eflaust átta Jóhanna og ráðgjafar hennar sig á því að betra er að segja eitthvað en ekki neitt, sérstaklega þegar stórmál eru undir. Seint og um síðir hefur sú staðreynd komist til Jóhönnu í gegnum herráðið hennar.

mbl.is Jóhanna gagnrýnir Brown
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatíkin í VG

Ögmundur heldur áfram að dissa Steingrím J. í Fréttablaðinu í dag. Ekki nema von að maður velti fyrir sér hvernig verði hægt að sætta þessa tvo risa vinstri grænna eftir það sem á undan er gengið. Dramatíkin í þessum eitt sinn samhenta flokki Steingríms J. er farin að minna illilega á Framsóknarflokkinn undir lok formannsferils Halldórs Ásgrímssonar - þar var hver höndin upp á móti annarri, allt lak út af þingflokksfundum og hatur meðal þingmanna hvor í annars garð var gríðarleg.

Kannski má fullyrða með sanni eitt augnablik að VG hafi ekki verið eins lengi og Framsókn í ríkisstjórn og vel megi vera að allir finni taktinn sinn aftur. Líkurnar á því hafa þó minnkað gríðarlega. Svona stórar yfirlýsingar eru skaðlegar og það er erfitt fyrir alla að halda andlitinu í svona stórum yfirlýsingum dag eftir dag. Heift og reiði Ögmundar er óbeisluð og ekki við því að búast að honum renni reiðin á næstu dögum, né heldur sé sáttatónn í huga.

Flokkurinn virðist óstarfhæfur án Steingríms J. á formannsstóli. Þeir sem næst honum standa bíða eftir heimkomu hans, ekki aðeins til að lægja öldur heldur til að taka forystuna aftur í sínar hendur. Þar er stjórnleysið algjört og ekki við því að búast að nokkur maður búist við að vinstristjórnin geti haldið velli í svona dramatík.

En staðreyndin er reyndar orðin sú að vinstristjórnin er fallin í þekkta gjá glundroðans. Hver getur mótmælt því í dag að vinstrimenn séu fastir í viðjum glundroðans, sem svo löngum hefur einkennt vinstristjórnir? Þessi stjórn er jú orðin óstarfhæf vegna glundroða og trúnaðarbrests.


mbl.is Var ekki heppilegur talsmaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur grefur undan Steingrími J.

Ólgan og óeiningin hjá vinstri grænum er meiri en svo að úr verði leyst með einhverjum samningafundum Steingríms J. Sigfússonar í Istanbúl. Klofningurinn er orðinn staðreynd og vandséð hvernig settlað verði í þeim átökum. Friðurinn var úti aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Steingrímur J. hélt til Istanbúl - hvernig ætli honum hafi liðið þegar Ögmundur tjáði sig við BBC, örfáum klukkutímum eftir að hann hélt úr landi.

Síðar hefur verið kynt undir með yfirlýsingum þeirra sem standa nærri Ögmundi í þessum væringum í flokknum. VG lítur út sem klofinn flokkur. Ríkisstjórnin stendur ekki traustum fótum. Engu líkara en við völd sé minnihlutastjórn varin af Ögmundi og stuðningsmönnum hans. Þar verði kippt í spotta í hverju stórmáli - Steingrímur J. hefur örlög stjórnarinnar í höndum Ögmundar.

Eftir að hann fór úr stjórninni hefur hann spilað sig djarft og gefur í frekar en hitt. Í kvöld segir Ögmundur í samtali við vísi að Sigmundur Davíð hafi átt ræðu kvöldsins í þinginu. Er hægt að tala skýrar? Hvað verður eftir af stjórninni þegar Steingrímur kemur heim? Þarf hann ekki að semja við Ögmund um næstu skref sín?

Hvernig getur stjórnin setið áfram án þess að Ögmundarhópurinn hafi öll tromp á hendi? Er Steingrímur J. til í þann dans?


mbl.is Hétu öll stuðningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mónótónískur forsætisráðherra á örlagatímum

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, bauð þjóðinni upp á gamlar tuggur í stefnuræðu sinni í kvöld. Hún var mónótónísk og fjarlæg, hefur ekkert fram að færa sem skiptir máli. Tími hennar er liðinn. Ríkisstjórnin er sundruð á þessum erfiðu tímum og verkstjórn forsætisráðherrans er í molum. Fólkið í landinu á ekki að þurfa að sætta sig við svo lélega ríkisstjórn á þessum örlagatímum í sögu íslensku þjóðarinnar.

Stjórnarbræðingur Samfylkingar og vinstri grænna er sundraður og ræður ekki við verkefnið. Hann hefur haft átta mánuði til að sýna hversu lélegur hann er. Þar talar hver höndin upp á móti annarri, forsætisráðherrann ræður ekki við verkefnið og fjármálaráðherrann horfir upp á flokkinn sinn molna hægt og hljótt á meðan hann makkar í Istanbúl. Þetta er sorglegur farsi.

Á meðan flytur forsætisráðherrann hálftíma stefnuræðu án framtíðarsýnar. Hún er með lélegt pólitískt bakland, þingmeirihlutinn er ekki til staðar. Það eru erfiðir tímar, stöðugleikinn er enginn og ekki von á betri tímum á vakt þessarar stjórnar. Hún ræður ekki við verkefnið. Glundroði vinstrimanna er sá hinn sami og ávallt.


mbl.is Vill óráðsíu og græðgi burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært regnhlífarinnslag hjá Degi

Ég verð að viðurkenna að ég hafði mjög mikið gaman af því að horfa á þetta flotta innslag Dags Gunnarssonar um bandarísku geimregnhlífina... ekki aðeins að hugleiða hvort þetta væri flott uppfinning heldur og þá enn frekar að sjá svipinn á þeim sem fengu að prófa gripinn og voru greinilega frekar vandræðalegir.

Skemmtileg viðbót við fréttaumfjöllunina. Lífgar aðeins upp á hversdagslegu fréttirnar um allt það leiðinlega, sem nóg er af, heima sem erlendis.


mbl.is Ný regnhlíf vekur kátínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur brýnir hnífa - stjórnarkreppa í augsýn?

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, heldur áfram að nudda Steingrími og Jóhönnu upp úr afsögn sinni - grein hans túlkast varla nema sem vantraust á þeirra störf. Augljóst er að Ögmundur brýnir hnífa sína. Svona talar aðeins sá sem er í hefndarhug og ætlar að rétta sinn hlut af.

Augljóst er að stjórnin hefur engan starfhæfan þingmeirihluta ef Ögmundur og Liljurnar ætla að spila sóló í öllum málum. Í raun má segja að þau ætli að spila djarft og haga hlutum eftir eigin hag. Auðvitað var það rétt spá að Ögmundur yrði miklu erfiðari stjórnarparinu utan ríkisstjórnar - hann hefur fríspil.

Ég held að stjórnin sé að fjara út meðan Steingrímur er í Istanbúl. Væntanlega eru örlög hennar að ráðast með leikfléttu Ögmundar og Guðfríðar Lilju. Þau hafa rofið friðinn innan vinstri grænna og ætla greinilega ekki að gefa þumlung eftir í átökunum sem standa yfir.

Kannski mun Steingrímur koma heim í nýjan veruleika, svona rétt eins og Margaret Thatcher, en leiðtogaferill hennar fjaraði út eins og frægt er í Parísarferð í nóvember 1990. Þegar hún kom heim var öllu lokið.

mbl.is Ögmundur: Var stillt upp við vegg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fálkaorðan meðhöndluð sem járnarusl

Hef aldrei verið mjög hrifinn af fálkaorðunni. Fundist þetta pjatt og hégómi sem ekki er þörf á. Litið jafnan á þetta sem embættismannaviðurkenningu. Annars hefur þó orðunefndin oft komið á óvart og bætt inn hvunndagshetjunum sem eiga virkilega hrós skilið fyrir verk sín. Núverandi forseti fór yfir öll mörk þegar hann fór að hengja krossana á útsásarvíkingana margfrægu.

Nú er svo farið að selja fálkaorðuna. Hver ætli hafi selt orðuna sína? Væri ekki viðeigandi að fletta hulunni af því og segja okkur hinum hver meðhöndlar heiðursorðuna sem eitthvað járnarusl og selur á uppboð. Væri ágætt að heyra meira af þeirri sögu.

En hvað með það: fálkaorðan hefur verið umdeild. Lágmark er þó að þeir sem fái hana meðhöndli hana sem þann heiður sem flestir telja hana vera og komi fram við hana af virðingu og skili henni til baka vilji þeir ekki nota hana lengur.

mbl.is Fálkaorða seld fyrir nær hálfa milljón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðfríður Lilja tekur sér varðstöðu með Ögmundi

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er djörf og óhrædd við að standa vörð um sannfæringu sína, hún má eiga það. Frammistaða hennar í Silfri Egils í dag er henni til mikils sóma, en vekur um leið spurningar um hvaða lím sé eftir í vinstristjórninni. Hún er á síðasta snúningi - augljóst að Guðfríður Lilja tekur sér varðstöðu með Ögmundi sem stjórnarandstæðingar í Icesave-málinu og ætlar að passa upp á að sannfæring og samviska sé ekki seld ódýrt til Samfylkingarinnar, þar sem hugsjónalaus stjórnmál eiga sinn samastað.

Í besta falli er Guðfríður Lilja með orðum sínum að lýsa yfir vantrausti á verkstjórn forsætisráðherrans eða hreinlega að lýsa yfir frati á þau stjórnmál sem Samfylkingin stendur fyrir, þar sem gengið er fram af óbilgirni og barnaskap gegn vinstri grænum, sem löngum stóðu fyrir einhverjar hugsjónir en hafa verið að selja þau eins og fjölskyldusilfrið til að halda heimilinu saman. Þeir sem enn standa fyrir einhverjar hugsjónir eru ósáttir og eiga erfitt með að hemja gremjuna.

Þetta stjórnarsamstarf felur feigðina í sér.... þar loga margir eldar sem brátt geta sameinast í risabál. Kannski er ekki tilviljun að Guðfríður Lilja láti í sér heyra meðan Steingrímur er víðsfjarri, en augljóst er að mikil kergja er með það hvernig hann lætur valta yfir sig í hverju málinu á eftir öðru. Þarna eru mikil átök undir niðri. Fróðlegt verður að sjá hvernig þingflokksformaðurinn Guðfríður mun tala þegar þingið fer á fullt og þegar Icesave kemur aftur inn í þingumræðuna.


mbl.is Samþykktu Icesave blindandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðingarverð aðstoð Pólverja við Íslendinga

Ég virði það mikils við pólsk stjórnvöld að vilja leggja Íslandi lið án þess að þeir setji okkur í bóndabeygju vegna Icesave. Þetta sýnir traustan vinarhug og góðan samhug með íslensku þjóðinni. Eftir allt neikvæða talið gegn pólsku þjóðinni eru þetta merkileg skilaboð til okkar hér.

Ég er eiginlega viss um að Pólverjar hafa hlotið mun traustari sess í huga okkar eftir þessa aðstoð. Færeyingar og Pólverjar mega báðir eiga það að þeir hafa hjálpað okkur án þess að leitað hafi verið eftir framlagi þeirra og án þess að hóta okkur með Icesave. Slíkt ber að virða mikils.

mbl.is Búið að staðfesta pólska lánið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlagaferðin til Istanbúl - raunalegur vinstrifarsi

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, á hrós skilið fyrir að tala tæpitungulaust við BBC um Icesave, IMF og íslensk efnahagsmál. Þar talar hann máli Íslands betur en allir ráðherrar hefur gert í þessari lánlausu vinstristjórn, enda varla heyrst múkk í þessu liði á alþjóðavettvangi á meðan þörf hefur verið fyrir trausta forystu. Hann á eftir að verða skeinuhættur fyrir stjórnarparið þreytulega, Jóhönnu og Steingrím, í þessari rimmu - gæti orðið örlagavaldur þeirra.

Utan ríkisstjórnar mun Ögmundur hafa fríspil til að láta sannfæringuna ráða. Jóhanna sætti sig víst ekki við að ráðherrar undir hennar verkstjórn hefðu eigin sannfæringu í þessu lykilmáli - hún á eftir að bíta úr nálinni með það. Enda tel ég að Ögmundur tali máli sem Jón og Gunna úti í bæ bæði skilji og styðji alla leið. Jóhanna hefur múrað sig af og er á fallanda fæti - vinsældir hennar eru að gufa upp og hún er aðeins orðin lánlaus ráðvillt kona í óvissuferð. Ekki traustvekjandi.

Innan vinstri grænna virðist vera mikil óvissa og kaos. Steingrímur J. er á ferðalagi í Tyrklandi, bæði að reyna að leysa þennan rembingshnút og leita að lausn sem friðar alla í flokknum sínum. Hann fékk ekki opið umboð allra þingmanna sinna í veganesti fyrir þessa ferð, heldur fyrirvara allra þeirra sem hafa tjáð andstöðu. Nú er komið að örlagastundu í því hvort einhver lausn sé. Ögmundur bíður á hliðarlínunni og minnir á sig. Eflaust er hann farinn að brýna sína kuta.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sem hefur verið á flótta frá ástandinu og varla birst í íslenskum fjölmiðlum nema sem einhver váleg skuggamynd á bakvið Jóhönnu, talar hreint út og það við BBC af öllum fjölmiðlum. Kannski ágætt að íslenskur ráðherra tali loks við þá stöð. Hann má skilja þannig að úrslitatilraun Steingríms í Tyrklandsförinni ráði örlögum vinstristjórnarinnar, sem lafir á einhverjum óljósum þræði.

Hann biðlar þar til Hollands og Bretlands að vera nú mild við kinnfiskasogna og þreytulega fjármálaráðherrann sinn. Merkileg tíðindi frá Össuri, sem eins og flestir vita er maðurinn sem ræður öllu fyrir konuna á formannsstóli í Samfylkingunni, heldur á öllum þræðum fyrir hana á meðan hún er inni á kontór. Þetta er raunalegur farsi sem við erum að fylgjast með hjá vinstrimönnum.

Ætli hann fari bráðum að taka enda?


mbl.is Segir Breta og Hollendinga fjárkúga Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríó 2016 - gott val hjá Ólympíunefndinni

Sögulegt og traust er hjá Alþjóða Ólympíunefndinni að velja Ríó De Janiero sem heimaborg Ólympíuleikanna árið 2016 - orðið löngu tímabært að halda leikana í Suður-Ameríku, einu heimsálfunni sem fram að þessu hefur aldrei fengið að halda Ólympíuleikana.

Barack Obama varð fyrir auðmýkjandi áfalli í Kaupmannahöfn þegar Chicago var hafnað í fyrstu umferð - ég er hræddur um að margir muni velta fyrir sér hversu traustir pólitískir ráðgjafar hans eru.

Ólympíuklúður forsetans er líklegt til að auka efasemdir um styrkleika hans á alþjóðavettvangi.


mbl.is Ríó fær að halda ólympíuleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Chicago fellur út þrátt fyrir stuðning Obama

Mér finnst það stórmerkileg tíðindi að Chicago hafi droppað út í fyrstu umferð í kosningu um Ólympíuleikana 2016 þrátt fyrir að Michelle og Barack Obama hafi gert sér sérstaka ferð til Kaupmannahafnar til að tala máli borgarinnar. Þetta er vandræðaleg niðurstaða fyrir Obama forseta.

Michelle hefur verið þar í nokkra daga gagngert til að auka stuðning við Chicago og Obama gerði sér ferð þangað til að bakka upp heimaborg sína, auka möguleika hennar. Þetta átti að vera mikil stjörnustund.... hann ætlaði að tryggja Chicago öruggan sigur.

Háðuglegur ósigur var það... ætli menn hafi fengið nóg af yfirdramatíseruðum vinnubrögðum Obama við að tala fyrir Chicago? Hann hafi frekar skemmt fyrir frekar en bætt stöðu borgarinnar? Eðlilegt að velta því fyrir sér.

Drudge Report gerir reyndar gott grín að Obama eftir niðurstöðuna með fyrirsögninni "The Ego has Landed" :)


mbl.is Chicago fallin út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðfríður Lilja hafnar ráðherrastól vegna Icesave

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir getur verið stolt af því að hafa hafnað ráðherrastól vegna Icesave. Hún kemur sterkari frá þessari ákvörðun, rétt eins og Ögmundur Jónasson. Hún treystir sér ekki frekar en hann til að taka sæti í ríkisstjórn þar sem valtað er yfir hugsjónir, pólitíska sannfæringu þingmanna. Það er ekki á hverjum degi sem stjórnmálamaður tekur þessa afstöðu, en þetta eru heldur ekki venjulegir tímar í íslenskum stjórnmálum.

Þessi ríkisstjórn er mjög völt í sessi og lafir á einhverjum óljósum þræði, kannski traustu samstarfi Jóhönnu og Steingríms. Þegar lykilmenn innan stjórnarflokkanna treysta sér ekki til að taka sæti í henni vegna vinnulagsins og verkstjórnar forsætisráðherrans má öllum ljóst vera að ríkisstjórnin er ekki á vetur setjandi eða í besta falli mjög ótraust... hún er brothætt og aum.

mbl.is Guðfríður Lilja hafnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veikt umboð Steingríms J. til verka

Vinstristjórnin lifir eftir atburði síðustu 24 klukkustunda... en hún er veik í sessi. Steingrímur J. fær umboð frá þingflokknum til að vinna í Icesave... en veikt er það og hver þingmaður sem hefur verið í andstöðunni við málið frá því í júní virðist hafa fulla fyrirvara við samþykkt sína til Steingríms. Þetta er mjög brothætt staða og alls óvíst hversu traust umboðið er til að gera eitthvað í Icesave.

Eðlilegt er að spyrja hvað gerist þegar málið fer á næsta ákvörðunarpól.. mun þá hver þingmaður sem kom með fyrirvara við sína afstöðu taka hana og beita henni inni í þinginu? Þessi ríkisstjórn hefur ekki augljósan þingmeirihluta í þessu lykilmáli og vandséð hvernig allir haldi andlitinu þegar á reynir.

Að lokum er fundurinn svo kórónaður með því að velja einn umdeildasta stjórnmálamann vinstri grænna í ríkisstjórnina, til að taka við af Ögmundi. Ekki er ég viss um að hún hafi marga hveitibrauðsdaga í nýju verkefni.


mbl.is Álfheiður verður ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlagafundur hjá vinstri grænum

Eflaust finnst einhverjum það kaldhæðnislegt að vinstri grænir velji eftirmann Ögmundar og ákveði framtíð Icesave-málsins í skjóli nætur - mér finnst það aðallega táknrænt um alla atburðarásina. Vinstri grænir skreyttu sig alltaf með því í stjórnarandstöðu að vera flokkur hugsjónanna, standa og falla með sínum hjartans málum. Hlutskipti þeirra hefur þó verið í ríkisstjórn með Samfylkingunni að láta valta yfir sig og gleyma hugsjónunum.

Ögmundur lét hugsjónir og sannfæringu ráða för þegar á reyndi. Eflaust hefur hann þó látið beygja sig áður eða vikið af leið, allt fyrir flokkshagsmuni og hag þeirra sem ráða för í flokknum. Á meðan hafa sumir sætt sig við meira en hann gerði nokkru sinni. Brotthvarf Ögmundar markar þau þáttaskil fyrir vinstri græna að augljós vík hefur orðið milli vina - innanmeinin í flokki hugsjónanna hafa komið fram á yfirborðið.

Eflaust má telja þetta örlagafund fyrir vinstri græna. Þar verða mörkuð skref til framtíðar, hvort flokkurinn láti endalaust beygja sig af Samfylkingunni og skrifa undir allar hótanir Jóhönnu Sigurðardóttur. Ögmundur lýsti yfir frati á verkstjórn Jóhönnu með því að fara frá borði. Eflaust eru margir hugsi í grasrót og forystu vinstri grænna með þá ákvörðun, enda tel ég að margir séu hugsi yfir för forystunnar.

Steingrímur J. hefur afhjúpað sig sem valdastjórnmálamann á undanförnum vikum. Þetta kom vel fram í kvöld þegar hann þreytulegur og vandræðalegur reyndi að tala um hversu sterkur flokkurinn væri nú þrátt fyrir að einn lykilmanna flokksins hefði ekki séð sér fært að vinna í ríkisstjórn sem flokkurinn styður og hefði lýst hreinu vantreysti á forsætisráðherrann. Völdin virðast það eina sem er eftir fyrir SJS.

Verður VG sami valdaflokkurinn og þeir nefndu Framsóknarflokkinn forðum daga eða mun flokkurinn koma út af fundinum sem flokkur hugsjónanna þar sem allir fá að láta sannfæringuna ráða för. Þetta er stóra spurningin - þarna ræðst úr hverju VG er gerð... svona þegar á reynir.

mbl.is Þingflokkur VG á fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdapólitíkin heldur líminu í vinstristjórninni

Augljóst er að mjög hefur gengið á pólitískt kapítal vinstristjórnarinnar í dag eftir afsögn Ögmundar Jónassonar. Jóhanna og Steingrímur voru mjög þreytuleg í kvöld - mikið hefur gengið á. Samstarfið heldur enn en augljóst að límið er farið að gefa sig mjög - undirstöðurnar gliðna. Aðeins virðist valdapólitíkin lifa eftir sem lím á milli Samfylkingarinnar og VG og sumpart óttinn við að eftirmæli stjórnarinnar verði glundroði vinstrimanna á örlagastundu.

Vandræðagangurinn er samt algjör. Aldrei hefur verið full samstaða innan vinstristjórnarinnar með Icesave - samið var í júní án þingmeirihluta og sumarið fór í að klára það mál. Þar þurfti að friða alla vinstri græna og lægja öldur í ólgunni. Ögmundur lék þar lykilhlutverk. Hann hefur nú tekið hatt sinn og staf - sættir sig ekki við næstu skref og lætur ekki beygja sig. Virðingarvert það. Held að afstaða hans sé til marks um innri mein stjórnarinnar.

Þau innri mein eru meiri en látið hefur verið uppi. Þau innanmein hverfa ekki með brotthvarfi Ögmundar en magnast eflaust frekar en hitt. Ögmundur hefur nú frítt spil, enda utan ráðherrastóls og getur sagt meira. Hann hefur eflaust fjarri því sagt sitt síðasta. Ergó: stjórnin lifir en hún stendur tæpt. Þar eru mikil innanmein sem munu ekki hverfa, heldur magna.

Svo verður að ráðast hversu lengi límið heldur. Eflaust er það ofrausn að spá stjórninni löngu lífi. Vinstrimenn eru auðvitað dauðhræddir við að glundroðakenningin verði að veruleika - vinstrimönnum sé ekki treystandi fyrir neinu. En hitt er orðið augljóst mál að vinstrimenn eiga erfitt með að höndla verkefnið. Verkstjórnin er auðvitað engin og klúðrið augljóst.

mbl.is Fær Steingrímur umboð í kvöld?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk upplausn - vinstristjórn á brauðfótum

Upplausnarblær er yfir íslenskum stjórnmálum á þessum degi. Vinstristjórnin er á algjörum brauðfótum og stendur mjög illa. Ögmundur er maður að meiri að fara - sætta sig ekki við hvað sem er. Hann er hugsjónamaður sem getur borið höfuðið hátt að standa og falla með sannfæringu sinni. Jóhanna hefur greinilega látið sverfa til stáls.

Ummæli hennar í gær um að hún hefði fengið nóg báru þess merki að hún væri að tukta til vinstri græna, til að sætta sig við Icesave-breytingar án alvöru þinglegrar meðferðar. Ögmundur gerir rétt að sætta sig ekki við það. Svo verður að ráðast hvort aðrir hafa bein í nefinu.

mbl.is Var ekki að fórna sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur Jónasson segir af sér vegna Icesave

Ögmundur Jónasson á að mínu mati heiður skilið fyrir að hafa sagt af sér sem heilbrigðisráðherra vegna Icesave. Þarna fer ráðherra sem fer eftir sannfæringu sinni og lætur hugsjónirnar ráða för. Þetta er merki um drengskap og pólitískan kraft sem við höfum ekki séð lengi. Þó ég hafi oft verið ósammála Ögmundi pólitískt virði ég mikils að hann skuli hafa tekið þá ákvörðun að láta sannfæringuna ráða í þessu risavaxna máli. Hann er maður að meiri.

Þessi ríkisstjórn er mjög illa stödd í þessu Icesave-máli. Hún hefur gliðnað, virðist ráða illa við vandann. Augljóst er að þrýst er á að klára Icesave til að bjarga pólitísku andliti Jóhönnu Sigurðardóttur og Samfylkingarinnar. Ögmundur hefur þorað að taka af skarið í þessu máli, leitt andstöðu innan hennar og verið ófeiminn við að láta hjartað ráða för.

Er þessi ríkisstjórn á vetur setjandi, þegar lykilmenn innan samstarfsins geta ekki unnið hennar og velja frekar að fara en sætta sig við hvað sem er. Kannski verður Ögmundur bjargvættur VG í þessu samstarfi þar sem þeir hafa samið af sér hugsjónirnar oftar en tölu verður á komið.

mbl.is Ögmundur segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna tekur loksins af skarið

Mikið var að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sýndi einhverja pólitíska forystu og talaði hreint út um samstarfið við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Framkoma IMF við Ísland er óþolandi, stjórnvöld verða að vera ákveðin og taka málin traustum tökum í stað þess að bíða endalaust eftir einhverju sem kemur ekki af sjálfu sér. Þetta hefur verið stóra vandamálið mánuðum saman. Það hefur verið beðið og beðið eftir einhverju sem við þurfum sjálf að vinna í. Það hefur vantað forystu.

Skilaboð Jóhönnu um helgina voru fyrst og fremst að biðin gengi ekki lengur og alls óvíst væri orðið um Icesave-samninginn. Augljóst er að málið er komið í nýja stöðu ef lögfestir fyrirvarar Alþingis eru út af borðinu. Þá verður að vinna málið upp á nýtt. Við annað verður varla unað. Ef vinstristjórnin getur ekki landað þessu máli sem hún tók að sér með viðunandi hætti verður henni ekki sætt lengur.

Kannski er stóra niðurstaðan sú að vinstristjórnin höndlar ekki verkefnið. Nú ræðst hvort Jóhanna og Steingrímur geta komið málum á rekspöl... nú þegar ár er liðið frá hruninu virðist sem komið sé að örlagastund þegar kemur að forystu þeirra sem fengu afgerandi umboð til verka í vor.

mbl.is Þarf niðurstöðu fyrir helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband