Þjóðin dæmd í skuldafangelsi - svik við kjósendur



Niðurstaðan í Icesave-málinu er skelfileg. Þetta er fullnaðarsigur Breta, enda fagna þeir mjög. Við höfum verið kúguð og dæmd í algjört skuldafangelsi. Þetta er hið mikla afrek vinstriaflanna við völd og samninganefndarinnar sem leidd var af stjórnmálamanninum forna Svavari Gestssyni. Hver trúir því núna sem Steingrímur J. sagði forðum að niðurstaðan í Icesave yrði ásættanleg fyrir okkur? Eru þessir okurvextir ásættanlegir kannski?

Stóra niðurstaðan er að VG hefur sveiflast til og frá á mettíma. Þeir hafa svikið kjósendur sína og brugðist þeim sem treystu þeim. Þetta eru algjör svik við kjósendur. Margir hljóta að vera vonsviknir núna þegar vinstriöflin hafa skuldbundið núlifandi kynslóðir og framtíðarkynslóðir og dæmt þær í skuldafangelsi.

Ætli það sé ekki enn meiri ástæða núna heldur en fyrir nokkrum mánuðum að biðja Guð að blessa Ísland? Ill eru örlög Íslands að hafa kosið þetta fólk til að kúga þjóðina til að borga skuldir óreiðumanna.

Horfið á klippuna þarna uppi. Laug ekki Steingrímur J. að þinginu fyrir nokkrum dögum?

mbl.is Mjög mikilvægur áfangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lélegur samningur á Sikileyjarvöxtum

Ég trúi því varla enn að vinstristjórnin hafi samið svo herfilega af sér í Icesave-málinu og sætt sig við dílinn sem fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins kom heim með. Ekki er nóg með að íslenska þjóðin sé kúguð til samninga, sérstaklega lélegra samninga af ríkisstjórn sem vill hafa Brusselvaldið gott, heldur er samið um okurvexti ofan á þetta - hálfgerða Sikileyjarvexti. Þetta er dýr aðgöngumiði fyrir Samfylkinguna í Evrópusambandið.

Þetta er vondur díll - annað hvort hljóta þeir að vera veruleikafirrtir sem semja svona og um þessa vexti eða hreinlega hótað til samninga, skrifað undir með byssuhlaupið á gagnauga. Þetta minnir á dílinn sem Don Vito Corleone kom með í Guðföðurnum, samningur sem ekki er hægt að hafna - sem þýðir einhliða sigur og algjöra kúgun þess sem skrifar undir. Með hótunum er kannski hægt að ná fram öllu einhliða, eins og reyndin er nú.

Þessi ríkisstjórn hefur samið af sér. Það er ófyrirgefanlegt hvernig hún hefur klárað þetta mál. Hafi þetta fólk skömm fyrir.


mbl.is Frystingu eigna aflétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hnífstunguárás í Hafnarstræti

Hnífstunguárásin í Hafnarstræti á björtum degi eru vond tíðindi fyrir okkur Akureyringa. Við erum ekki vön svona fréttum og því er það auðvitað visst áfall, sérstaklega að þetta gerist í hjarta bæjarins. Nýr veruleiki í bæjarlífinu verður óneitanlega með svona alvarlegri árás.

Fyrir mestu er að þetta mál sé upplýst. En það opnar auðvitað spurningar um hvort alvarleg undirheimavandamál, lífshættulegar árásir og grimmt ofbeldi verði meira áberandi hluti af bæjarlífinu hér.

mbl.is Tveir handteknir á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drungalegur dauðdagi í Bangkok

Eftir því sem meira er vitað um dauðdaga David Carradine í Bangkok verður þetta drungalegra og óhuggulegra. Þetta virðist ekki vera einfalt sjálfsvíg og líklegt að þetta hafi verið dramatískt í meira lagi. Eiginlega eins og atriði í kvikmynd.



En David Carradine var flottur leikari. Ég sagði í gær að Kill Bill væri það sem hefði verið í mestu uppáhaldi hjá mér af verkum hans. Ekki svo vitlaust að rifja upp aðra flotta senu með David og Umu Thurman úr Kill Bill.


mbl.is Grunur leikur á að kynlífsathöfn hafi dregið Carradine til dauða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstristjórnin þjónar duttlungum Evrópuvaldsins

Ekki kemur það að óvörum að vinstristjórn leidd af Samfylkingunni hafi samið Íslendinga í skuldafangelsi til að þjóna duttlungum Evrópuvaldsins í Brussel. Þetta eru afarkostir og mjög umdeildur samningur á forsendum Íslendinga. Greinilega er verið að reyna að hafa alla góða og passa upp á að dyrnar til Brussel séu nú örugglega opnar.

Þetta er ekta eftirgangsemi við það vald sem Samfylkingin dáir hvað mest. Þarna er verið að hugsa um hag einhverra aðra en Íslendinga fyrst og fremst.

mbl.is Hækkar um 37 milljarða árlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flint sparkar í Brown - líður að endalokunum

gbrown
Á sömu stundu og Gordon Brown taldi sig hafa tekist ætlunarverkið; klára uppstokkunina á ríkisstjórninni, og var að ávarpa fjölmiðlamenn á blaðamannafundi í Downingstræti til að sýna fram á að hann væri enn við völd missti hann Caroline Flint fyrir borð. Afsögn hennar eru mikil tíðindi, enda varði hún Brown síðast í gærkvöldi, skömmu áður en James Purnell gekk úr stjórninni. Hún er náin vinkona Hazel Blears og Jacqui Smith sem báðar sögðu skilið við stjórnina í þessari viku.

Afsagnarbréf Caroline Flint er mjög harðorðað og vægðarlaust; mikil árás að forsætisráðherranum. Þar er hann sakaður um að vera karlremba, koma illa fram við konur í ríkisstjórninni og vera ókurteis og ódannaður. Þetta er gríðarlega harkaleg árás að Brown. Bréfið er mikil árás á Gordon Brown og gengið er miklu lengra en James Purnell gerði í gærkvöldi. Þetta er uppgjör konu við forsætisráðherra og flokksleiðtoga sem greinilega leit á konurnar sem aukvisa.

Merkilegast af öllu er þó að Glenys Kinnock er gerð að ráðherra Evrópumála á sama augnabliki og Caroline Flint gengur á dyr. Glenys er eiginkona Neil Kinnock, fyrrverandi leiðtoga Verkamannaflokksins, og var næstum orðin húsfreyja í Downingstræti árið 1992 þegar Kinnock mistókst naumlega að verða forsætisráðherra Bretlands. Eftir að Kinnock hætti í pólitík og sem kommissar hjá ESB í Brussel varð Glenys sjálf þátttakandi í Evrópupólitíkinni.

Brotthvarf Caroline Flint eru stórtíðindi. Ekki aðeins er hún mikið framtíðarefni og stendur einna fremst kvennanna í fremstu víglínu Verkamannaflokksins heldur er hún mjög beitt og öflug. Afsagnarbréfið er harkalegasta opinberlega gagnrýni á Brown og starfshætti hans úr fremstu víglínu Verkamannaflokksins. Ég held að dagar Browns á valdastóli séu brátt taldir. Væntanlega mun það ráðast á sunnudagskvöldið hvernig fer.

En það er nær útilokað að forsætisráðherra og flokksleiðtogi geti þolað svo margar afsagnir og opinberar árásir úr fremstu víglínu eigin flokks. Þetta er orðið mjög blóðugt og suddalegt, of mikið til að hægt sé að líta fram hjá því.

mbl.is Gordon Brown ætlar ekki að víkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brown reynir að halda völdum með uppstokkun

Af veikum mætti hefur Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, tekist að klára uppstokkun í ríkisstjórn sinni. Þetta er síðasta tilraun Browns til að sýna að hann sé enn við völd og hafi pólitískt kapítal til að taka ákvarðanir og hrókera mönnum til á pólitíska taflborðinu að eigin hætti, en ekki annarra. Þessi ráðherrauppstokkun er samt mjög veikburða, enda hafa fáir komið beinlínis fram til að styrkja forsætisráðherrann í sessi. Sumir bíða færis, annað hvort með hníf í hendi eða byssu. Loft er lævi blandið í Downingstræti.

Stóru tíðindin eru þau að Alan Johnson fær innanríkisráðuneytið, eitt valdamesta embætti breskra stjórnmála við brotthvarf Jacqui Smith. Johnson er með öll tromp á hendi núna. Hann gæti klárað Brown endanlega og tryggt sér forsætið og leiðtogastöðuna ef hann vildi. Ákvörðun hans um að þiggja embættið gefur til kynna að hann ætli að bíða einhverja daga og taka af skarið með þessi mál á eigin forsendum en ekki annarra. Johnson er nú valdamesti maðurinn í atburðarásinni og ætlar sér að tefla fumlaust en ábyrgt.

Alistair Darling heldur fjármálaráðuneytinu. Brown er það veikur í sessi að hann þorir ekki að færa Darling til, af ótta við að Darling stingi hann í bakið. Við þær forsendur yrði Darling að Geoffrey Howe fyrir Gordon Brown. Howe var trausti bandamaður Margaret Thatcher þar til í nóvember 1990 og varði hana í öllum innri og ytri rimmum. Þegar hann sneri við henni baki var öllu lokið og hann tók hana af lífi pólitískt, gerði hana viðkvæma. Darling hefur næg vopn til að klára Brown, sem þorir ekki að færa hann til.

Brotthvarf John Hutton, varnarmálaráðherra, veikir forsætisráðherrann svo enn í sessi, enda augljóst að hann er ekki að hætta einvörðungu vegna hagsmuna fjölskyldunnar. Hutton hættir þó í stjórnmálum til að tryggja að hann líti ekki út sem banamaður forsætisráðherrans. Erfitt samt. Brown slær á þær raddir sem töldu að hann gæti ekki farið í uppstokkun. Hún er samt eins veikburða og við var að búast.

Gordon Brown er í pólitísku tómarúmi og vandséð hvernig hann geti þraukað í heilt ár við þessar aðstæður. Þrauki hann samt helgina af og vond kosningaúrslit í byggða- og Evrópukosningum gæti hann haldist við völd eitthvað fram á sumarið. Nú í þessu sá ég að Verkamannaflokkurinn hefur tapað völdum í Staffordshire. Þar hafa þeir verið við völd samfellt allt frá árinu 1981.

Þetta er táknrænt. Verkamannaflokkurinn hefur nú tapað öllum völdum á sveitarstjórnarstiginu og munu væntanlega missa Lancashire og Derbyshire, síðustu vígin sín. Tap þar væru hin nöpru endalok fyrir Verkamannaflokkinn hvenær svo sem þeir missa völdin í Downingstræti.

Húsbóndinn þar hefur kannski völd í húsinu en hann hefur misst allt vald til að drottna. Þessi uppstokkun breytir engu um að hann fjarar út á valdastóli sínum. Eina spurningin nú er hvort hann nær að snúa vörn í sókn og leiði þá kratana í algjöra slátrun í næstu kosningum.


mbl.is Hutton hættir sem varnarmálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Purnell sparkar Brown fram af hengifluginu

Gordon Brown
Gordon Brown riðar til falls af valdastóli eftir dramatíska afsögn krataungstirnisins James Purnell í kvöld. Afsögnin markar þáttaskil í breskum stjórnmálum í tvennum skilningi; forsætisráðherrann er hvattur til að segja af sér af ungum lykilmanni frá Blair-tímanum og talað er hreint út um að hann sé vandamálið opinberlega í fyrsta skipti. Fram að þessu hefur þetta verið pískrað í bakherbergjum og í tveggja manna tali innan Verkamannaflokksins og svo auðvitað í pressunni. Nú er þetta opinbert.

Flest bendir til að fall Browns verði vægðarlaust og blóðugt. Ungstirnin sem unnu svo náið með Tony Blair eru að stíga fram og taka af skarið eftir allt hikið og bakstungarnar bak við tjöldin. Þessu er einfaldlega lokið. Gordon Brown er stórlega skaddaður eftir atburðarás síðustu tveggja sólarhringa. Þrjár afsagnir í fremstu víglínu er einfaldlega of mikið fyrir forsætisráðherra sem hefur í ofanálag misst tök á stöðunni. Hann hefur misst stuðning flokkskjarnans og almennings.

Erfitt að segja hvað gerist á morgun. Fleiri afsagnir gætu verið framundan. Þessi afsögn er samt mjög stór tíðindi. Hinn 39 ára gamli Purnell hefur verið í innsta kjarna flokksstarfsins í tvo áratugi og var fóstraður af Blair og í hópnum sem tryggði sigurinn árið 1997. Hann kom svo á þing undir leiðsögn Blairs árið 2001 og varð ráðherraefni á augabragði. Hann er samviska Blair-hópsins og er eflaust að gera þetta undir leiðsögn Blairs sem nú vill fullnaðarhefndir gegn Brown.

Þetta er samt miklu miklu stærra. Verkamannaflokkurinn er stjórnlaus og á enga möguleika á að byggja sig upp, hvað þá vinna kosningar undir skaddaðri forystu Skotans í Downingstræti. Hann mun ekki fara standandi úr Downingstræti. Næstu dagar verða blóðugir. Nú tekur við formleg krafa um afsögn, studd af 75-100 þingmönnum og væntanlega formlegt vantraust dugi það ekki til.

Ég held að brotthvarf Thatchers, sem var tekin af lífi pólitískt 1990, verði sem barnaleikur miðað við sláturtíðina sem er hafin innan Verkamannaflokksins. Kaldhæðnislegast af öllu er að svona aftökur hafa ekki farið þar fram áður í sviðsljósinu, mun frekar bakvið tjöldin. Þessi afsögn opnar tjöldin og sýnir okkur grimmdina og blóðbaðið sem er í augsýn.

Brown vill ekki fara með heill og hag flokksins í huga. Hann er að hugsa um sjálfan sig og arfleifð sína. Eðlilega kannski. Hann var þrettán ár í skugga Tony Blair og fékk loksins tækifærið mikla fyrir tveimur árum. Hann hefur misst allt úr höndunum smátt og smátt og nú virðist pólitísk aftaka blasa við klækjarefnum skoska.

Mun hann taka lokabaráttuna eða segja af sér sjálfviljugur á næstu dögum. Býst við hinu fyrrnefnda. Þetta verður blóðugt. Sá sem rís úr þeim hörmungum þarf að taka í fanginn flokk sem er búinn að naga sig inn að kjarna, er skaddaður og sár; klofinn í herðar niður.

Næstu kosningar eru þegar tapaðar en væntanlega er spurt hvort Verkamannaflokkurinn getur risið aftur úr rústunum og átt sér viðreisnar von síðasta árið fyrir kosningar og byggt sig upp í aðdraganda stjórnarandstöðuvistar, hreinnar eyðimerkurgöngu.

Verkalýðskempan Alan Johnson virðist sá eini sem gæti leitt það erfiða starf sem forsætisráðherra fyrir kosningatapið, þó það verði vanþakklátt verkefni og hann muni tapa að vori. En mun hann taka frumkvæðið nú? Eða nær annar því?

Eftir dramatíska afsögn Purnells er ljóst að sá sem stígur fram úr hópi reyndu þingmannanna og tekur Brown endanlega af lífi pólitískt verður næsti húsbóndi í Downingstræti. Verður það Johnson eða rís einhver annar úr rústunum?

mbl.is Enn einn ráðherrann segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

David Carradine sviptir sig lífi í Bangkok

David Carradine, sem svipti sig lífi í Bangkok, var litríkur karakter og mjög traustur leikari. Gaf allt í leikframmistöðuna, var sannur töffari líka.



Mér fannst hann alltaf bestur í Kill Bill tvennunni - þetta var endurkoman hans í fremstu víglínu í leikbransanum.

Kallinn var flottur í þessari rullu. Þetta atriði með Umu Thurman er t.d. tær snilld.

mbl.is David Carradine látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju er ekki talað hreint út um lögbrotið?

Mér finnst það furðulegt að það sé ekki sagt hreint út hvert lögbrotið sem útibússtjórinn í Landsbankanum er grunaður um. Er betra að það séu kjaftasögur um það? Eðlilega spyr fólk spurninga og vill fá svör hreint út. Þetta er alvarlegt mál og betra að það sé ljóst hvað var gert í stað þess að það sé gefin út fréttatilkynning með hálfkveðnum vísum.


mbl.is Grunur um lögbrot útibússtjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrræðalaus ríkisstjórn horfir á samfélagið hrynja

Stjórnvöld bera mikla ábyrgð með aðgerðar- og úrræðaleysi sínu sem kemur fram í vaxtaákvörðunum Seðlabankans. Þar er sofið á verðinum og horft á samfélagið hrynja. Hún hefur mikið á samviskunni og hefur ekkert fram að færa, hvorki forystu né ábyrgar lausnir á vandanum. Ekki er dugur til að taka ákvarðanir og taka forystuna að neinu leyti.

Eitt sinn var sagt að þessi ríkisstjórn hefði verið mynduð því það hefði vantað verkstjórn í lykilmálum. Er það ekki eins og hver annar brandari núna?

mbl.is Pétur er harmi lostinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sirkusdýr IMF við völd í Seðlabankanum

Vaxtaákvörðun Seðlabankans er varla vonbrigði þegar litið er til þess að yfirstjórnin þar er fyrir löngu orðin eins og sirkusdýr Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Sjálfstæði Seðlabankans er löngu fokið út í veður og vind. Fyrir nokkrum vikum gaf landsstjóri IMF út ordrur um hvað Seðlabankinn gæti gert og ætti að gera.

Þessi ákvörðun í besta falli ómar það og sýnir okkur vel hvar völdin eru i þessu ferli. Seðlabankinn hefur engin alvöru völd lengur og það versta er að stjórnmálamenn hafa gengisfellt hann með hverri ákvörðun sem þeir taka til að þjóna duttlungum IMF.

Ill örlög það.

mbl.is Vextir lækkaðir í 12%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterling-hringekjan í máli og myndum

Varla kemur það að óvörum að Sterling-hringekjan sé til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild og þeim sem fara með rannsókn á efnahagshruninu. Sagan á bakvið Sterling og vinnubrögðin þar, hringekjan mikla, var vel kortlögð í YouTube myndböndum fyrir rúmu hálfu ári. Rifjum þau upp, ekki veitir af.





mbl.is Umboðssvik og ólögleg lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalokin í augsýn fyrir Gordon Brown

gbrown
Eftir mikla erfiðleika allan forsætisráðherraferilinn og býsnavetur innan Verkamannaflokksins blasa pólitísku endalokin nú við Gordon Brown. Hann berst nú fyrir pólitísku lífi sínu við mikið ofurefli. Brown missti endanlega tökin á atburðarásinni í dag með afsögnum tveggja lykilráðherra, áður en að hrókeringum kom að loknum Evrópukosningum á morgun, og bréfi þingmanna þar sem þeir vígbúast gegn honum. Glundroðinn er algjör innan Verkamannaflokksins og þar eru allir að reyna að bjarga sjálfum sér, fyrst og fremst með því að slá Brown af.

Augljóst er að bæði Jacqui Smith (sem varð fyrst kvenna innanríkisráðherra þegar Brown varð forsætisráðherra í júní 2007) og Hazel Blears, tveir ráðherrar í fremstu víglínu, gera nær út af við Brown með tímasetningu afsagnanna. Þær eru engin tilviljun, settar fram til að valda forsætisráðherranum sem mestum skaða. Blears gengur reyndar svo langt að hún þakkar Brown ekki einu sinni samstarfið í afsagnarbréfi sínu.

Nú þegar þingmenn um allt land og jafnvel ráðherrar með sterkan prófíl horfa fram á að tapa sætum sínum í blóðbaði næstu kosninga undir forystu Browns munu þeir taka fram hnífana og brýna þá, slá af Brown til að eygja von á að halda sínum áhrifum og völdum lengur en út kjörtímabilið. Flest bendir til að Brown lifi ekki af pólitískt til að fara í hrókeringar á stjórninni. Væntanlega mun ein afsögn í viðbót nægja til að henda honum fram af hengifluginu.

Ergó: Brown horfist í augu við sömu pólitísku örlög og Margaret Thatcher. Hún var gerð upp innan eigin raða á örfáum dögum í nóvember 1990. Brown hefur barist á móti straumnum nær allt frá upphafi. Hann fékk sína hundrað daga eftir valdaskiptin sumarið 2007. Hann gældi við að boða til nóvemberkosninga árið 2007 þegar allt lék í lyndi í könnunum og fór í gegnum flokksþing án þess að svara kosningatalinu. Hann heyktist svo á því er yfir lauk.

Gordon Brown er andlit liðnu tímanna, fulltrúi hinna glötuðu tækifæra og spillingarinnar í þingkerfinu. Verkamannaflokkurinn á sér ekki viðreisnar von til uppbyggingar með hann í brúnni. Hann er jafn veikur leiðtogi og John Major. Viss öfl innan Íhaldsflokksins reyndu að sparka Major um miðjan tíunda áratuginn þegar allt var að sökkva. Hann stóð það af sér og leiddi flokkinn í algjöra slátrun í kosningunum 1997. Örlög Brown eru augljóslega þau sömu.

Verkamannaflokkurinn á möguleika á að snúa vörn í sókn með því að sparka Brown. Það gæti komið í veg fyrir tvo kosningaósigra. Næstu kosningar eru löngu tapaðar. Nýr forsætisráðherra og flokksleiðtogi gæti byggt upp til framtíðar á rústum Brown-stjórnarinnar. Nær öruggt má teljast að Alan Johnson, verkalýðskempan, sé eini maðurinn sem geti leitt það starf, enda nær óumdeildur og mjög traustur.

Ekki er óvarlegt að spá því að hann verði orðinn húsbóndi í Downingstræti mjög fljótlega og muni jafnvel verða sjálfkjörinn sem eftirmaður Browns.

mbl.is Brown hvattur til afsagnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyllt upp í eyðurnar í pólitíska hluta bankahrunsins

Ekki þarf að efast um að bók Guðna Th. Jóhannessonar um bankahrunið verði metsölubók. Þar er í fyrsta skipti fyllt upp í eyðurnar á atburðarásinni bakvið tjöldin þegar pólitísk upplausn varð í ofanálag við sjálft hrun íslenska efnahagskerfisins. Sú saga hefur ekki enn verið skrifuð með markvissum hætti með upplýsingum sem varpa ljósi á mesta hitann og þungann í því ferli sem ekki aðeins fylgdi pólitískum hluta hrunsins heldur og endalokum og upplausn ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Dramatíkina vantar ekki í þau reikningsskil og eflaust kominn tími til að varpa ljósi á það sem gerðist bakvið tjöldin. Undarlegast af öllu er að það liggi fyrir áður en heildarmyndin kemur fram í rannsókninni á hruninu og áður en skýrslur og gögn verða opinber. Sem minnir mann á það að gegnsæið er fyrir löngu orðið týnd í sukkinu. Þessi ríkisstjórn hefur algjörlega brugðist því hlutverki að upplýsa þjóðina og tala við hana á mannamáli. Hún er eiginlega verri en síðasta ríkisstjórn í þeim efnum.

Forsætisráðherrann þá var allavega með blaðamannafundi og talaði á ensku við alþjóðapressuna. Þögnin og leyndin er hálfu meiri núna - skortur á aðgerðum og pólitískri forystu er allavega ekki skárri hjá þeim sem eru á vaktinni núna. Skipbrot íslenskra stjórnmála í miðju hrunsins er reyndar staðreynd.

Verst af öllu er að enginn virðist rísa yfir meðalmennskuna og aumingjaskapinn, í haust og eins núna þegar uppgjörið við fortíðina þarf að fara fram. Það uppgjör er ekki síst pólitískt. Er á hólminn kemur virðist lærdómurinn enginn og pólitískur glundroði er algjör.

Er ekki aðalverkefnið á næstunni að reyna að skapa stöðugleika - þjóðin verður að krefjast þess að talað sé við hana hreint út og ekki spilað með hana enn eina ferðina.

mbl.is Mesta umrót síðan í stríðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð Oddsson var alla tíð á móti aðkomu IMF

Mér finnst það undarlegt að það sé meðhöndlað sem einhver ný tíðindi að Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, hafi verið á móti aðkomu IMF hérlendis eða unnið gegn henni. Þvert á móti var hann ötulastur í hópi þeirra sem vildu ekki fá þá að borðinu og margar sögur gengið um að andstaða hans hafi tafið málið lengi vel og því ekki undarlegt að gengið hafi á ýmsu í þeim efnum.

Í raun má segja að aðkoma IMF hafi tekið yfir ákvarðanir Seðlabankans eins og æ betur hefur sést á síðustu vikum og mánuðum. Annars finnst mér merkilegt að æ fleiri sjái að varnaðarorð Davíðs fyrir og eftir hrunið og fleiri ummæli hans voru þess eðlis að hann hafi haft rétt fyrir sér allan tímann.

mbl.is Davíð lét AGS heyra það
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna gerir einræðisvaldinu í Kína til góðs

Á fimmtudag eru tveir áratugir liðnir frá því einræðisstjórnin í Peking valtaði með skriðdrekum yfir námsmenn á torgi hins himneska friðar, kæfði mótmæli þeirra og baráttu fyrir mannréttindum. Forsætisráðherra Íslands þorir ekki á þeim tímamótum að hitta Dalai Lama og með fylgja utanríkisráðherrann, forsetinn og fjármálaráðherrann. Einræðisvaldið í Peking hlýtur að vera mjög ánægt með Jóhönnu Sigurðardóttur, Össur Skarphéðinsson, Ólaf Ragnar Grímsson, forseta, og Steingrím J. Sigfússon. Eru einhverjir aðrir ánægðir með dugleysi þeirra?

Öll þora þau ekki að hitta Dalai Lama og reyna með því að þóknast einræðisvaldinu í Kína, gera kommunum í Peking til góða. Ekki hægt annað en hafa hreina skömm á þessum aumingjaskap þeirra sem fara með völd hér á Íslandi. Össur flúði úr landi í einhverja Evrópureisu til Möltu þar sem hann er að reyna að læra eitthvað af inngöngu þeirra í Evrópusambandið. Lítur þar út eins og Eiríkur Fjalar. Þvílíkur ræfilskapur í þessum manni.

Ólafur Ragnar sýndi svo smáborgarlegt eðli sitt með því að fara á Smáþjóðaleikana og snakka við forseta Kýpur. Og Jóhanna og Steingrímur segja auðvitað ekki múkk. Hvað hefði formaður VG sagt ef sá flokkur væri í stjórnarandstöðu núna? Mikið var víst reynt að koma á fundi Jóhönnu og Dalai Lama en í forsætisráðuneytinu er ekki þorað að taka skrefið. Hún þorir ekki að feta í fótspor Lars Løkke Rasmussen.

Katrín Júlíusdóttir og Ögmundur Jónasson reyna að bjarga því sem bjargað verður hjá þessari sambandslausu ríkisstjórn og hitta Dalai Lama. En það dugar skammt. Fjarvera þeirra ráðherra sem mestu skipta og útrásarforsetans er hróplega áberandi og þeim til mikillar minnkunar. Þar er enn og aftur verið að hugsa um hag Kínverja, ekki megi styggja einræðisvaldið í Peking.

mbl.is Mótmæla fundum íslenskra ráðamanna með Dalai Lama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu svörtu kassarnir finnast?

Mjög góð tíðindi eru að tekist hafi að finna brak úr flugvélinni sem fórst á flugi yfir Atlantshafið um helgina. Mikilvægt er að fá að vita meira um örlög vélarinnar og þeirra sem voru um borð. Mikilvægast af öllu er að finna svörtu kassana, flugritana, sem rekja sögu þess sem gerðist. Þeir þurfa að finnast innan 30 daga til að hægt verði að komast að því hvað gerðist.

mbl.is Brak finnst á Atlantshafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Váleg tíðindi

Mjög váleg tíðindi eru að Íslendingur sé meðal þeirra sem saknað er í flugvélinni sem talið er að hafi farist í flugi milli Brasilíu og Frakklands. Hugur minn er hjá aðstandendum allra þeirra sem voru um borð.

Þetta er væntanlega mannskæðasta flugslysið síðan í nóvember 2001 þegar Airbus-flugvél fórst í New York. Þá létust 265.

mbl.is Farþegarnir voru frá 31 landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þolir Susan Boyle frægðina?

Greinilegt er að Susan Boyle hefur algjörlega bugast andlega í öllu því álagi sem fylgt hefur hinni miklu athygli sem fylgdi heimsfrægðinni. Þetta var líka yfirgengileg pressa sem lögð var á þessa fimmtugu skosku konu; konu sem aldrei hafði verið fræg eða sérstök en varð á einni nóttu heimsþekkt og þekkt allt frá Timbúktú til Tálknafjarðar.

Þarf sterk bein til að þola svona velgengni og höndla frægðina ofan á það líf sem Susan Boyle lifði í kyrrþey árum saman. Fyrstu merkin um að Susan væri að bugast komu fram í síðustu viku þegar hún öskraði ókvæðisorðum að ljósmyndurum og fólki sem elti hana út um allt. Hún þurfti svo aðstoð fagmanna til að komast í gegnum úrslitaþáttinn.

Fyrst og fremst vona ég að Susan Boyle fái hjálp til að höndla þessa frægð. Hvað úr frægðinni verður hlýtur að vera aukaatriði.

mbl.is Susan Boyle á sjúkrahús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband