Áfellisdómur yfir Darling og bresku stjórninni

Niðurstaða bresku þingnefndarinnar er gríðarlegur áfellisdómur yfir Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, og um leið uppreisn æru fyrir Árna Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, en harkalega var sótt að honum, algjörlega að ósekju, eftir uppljóstranir Darlings. Augljóst er að bresk stjórnvöld gengu fram af tilefnislausum hætti gegn íslenskum stjórnvöldum og voru aðeins að upphefja sjálfa sig í pólitískri krísu með vinnubrögðunum. Taka átti æruna og orðsporið af íslensku þjóðinni í pólitískri hagsmunabaráttu Browns og Darlings.

Þegar Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, kom í viðtal á Sky í október sagði ég í bloggskrifum að fyrir honum vekti ekkert annað en slá pólitískar keilur á kostnað íslensku þjóðarinnar. Hann stæði illa pólitískt og ætlaði að sökkva okkur til að koma betur pólitískt í augum kjósenda sinna og bresku þjóðarinnar allrar. Sumir bloggskrifarar hér heima mótmæltu þessari skoðun og fannst ég dæma Brown of harkalega. Bresk þingnefnd hefur nú tekið undir þetta verklag og þessa túlkun.

Við öllum ætti enda að blasa, næsta auðveldlega, að ráðist var af hörku og lágkúru gegn Íslendingum. Þrír ráðherrar íslensku ríkisstjórnarinnar höfðu státað sig af því á tyllistundum að vera í breska Verkamannaflokknum og mært Gordon Brown margoft í bloggskrifum, sérstaklega í kosningabaráttunni 2005 þegar hann dró Tony Blair á leiðarenda. Þau tengsl skiptu engu máli þegar á reyndi og hefur enn engu skilað. Enda er þetta eins og hvert annað gaspur bara.

Staðreyndin er sú að bresk stjórnvöld, með flokksbræður samfylkingarráðherranna í fararbroddi, gengu fram með skítlegum hætti. Bresk þingnefnd hefur nú staðfest það algjörlega afdráttarlaust að Brown valdi sér óvin til að upphefja sjálfan sig. Þar skipti engu máli þó "flokksbræður hans" væru við völd í því landi. Þau samskipti hafa engu skilað, ekki einu sinni á síðustu vikum.


mbl.is Hryðjuverkalög of harkaleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íkveikjur í Eyjum

Ansi áberandi er hversu margar íkveikjur eru í Vestmannaeyjum. Flestum er í fersku minni er kona kveikti í íbúð sinni þar og var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar í land til að geta komið fyrir dómara. Innan við áratugur er svo frá einum stærsta eldsvoða Íslandssögunnar er kveikt var í Ísfélagi Vestmannaeyja, í desember 2000.

Mikið var talað um þá staðreynd á síðasta ári að á því tímabili urðu fleiri íkveikjur í Vestmannaeyjum en Reykjavík. Varla eru tengsl á milli allra þessara mála í Vestmannaeyjum. Þetta vekur hinsvegar mikla athygli almennings í ekki stærra samfélagi en þetta.


mbl.is Játuðu aðild að íkveikju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

L-listinn gefst upp - sterk staða fjórflokksins

Ég er ekki undrandi á því að L-listinn hafi gefist upp á þingframboði. Í kappi við tímann er nær vonlaust fyrir ný framboð að taka slaginn við rótgróin framboð og þarf mikla maskínu, bæði mannafla og peninga til að taka þann slag. Kannanir gefa til kynna að þetta verði kosningar fjórflokksins. Þeir muni styrkjast á kostnað fimmta flokksins sem verið hefur á þingi síðustu tíu árin og nýju framboðin nái engu flugi. Þegar er Borgarahreyfingin t.d. farin að dala í könnunum, hvað svo sem síðar verður.

Þegar safna þarf rúmlega 2500 meðmælendum á landsvísu á nokkrum vikum og ná 126 manns í framboð þarf mjög trausta maskínu. Grasrótarsamtök eða framboð virðast eiga erfitt með að ná þeim stuðningi. Eftir því sem ég heyri gengur misjafnlega að safna meðmælendum fyrir nýju framboðin. Þeir sem áður töluðu um að það yrði lítið mál eru þegar farnir að kvarta yfir því að það gangi brösuglega.

Mér sýnist að þessar kosningar muni mun frekar snúast um hvernig styrkleikahlutföll breytast meðal fjórflokksins frekar en hverjir aðrir nái inn í þá mynd. Við sjáum hvað setur. Það eru aðeins 22 dagar til kosninga og lítill tími til stefnu fyrir ný nöfn í nýjum framboðum að stimpla sig inn. Ákvörðun L-listans er fyrsta veruleikamerkið um það.

mbl.is Hættir við þingframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvænt forstjóraval - móða og stórfiskar

Ég verð að viðurkenna að val ríkisstjórnarinnar á Gunnari Andersen sem forstjóra Fjármálaeftirlitsins kom mér nokkuð á óvart. Enda hafði ég eins og fleiri átt von á að ríkisstjórnin tæki pópúlismann á þetta og myndi velja Vilhjálm Bjarnason sem forstjóra. Gunnar er mun minna þekktur og t.d. það lítið þekktur að engin nógu stór mynd er til af honum enda er hann í móðu bæði á fréttavef Moggans og vísis.is.

Vona samt að Gunnari gangi vel. Hans bíða mikil verkefni hjá Fjármálaeftirlitinu, eftir að síðasti viðskiptaráðherra skildi FME eftir nær stjórnlaust fyrir nokkrum vikum. Ég vona að Gunnar muni hafa annað að gera en nornaveiðar á fjölmiðlamönnum. FME hlýtur að geta elt uppi stærri fiska í sjónum en þá.

mbl.is Gunnar Andersen forstjóri FME
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarlegur flótti á Suðurnesjum

Ekki er hægt annað en kenna eilítið í brjósti um lögreglumennina á Suðurnesjum sem misstu belgíska fangann úr varðhaldi. Þetta er mjög neyðarlegt klúður. Þessi flótti er ekki síður vandræðalegur en þegar löggan í Reykjavík missti Annþór Karlsson úr haldi með miklum mistökum. Vonandi tekst að handsama fangann og ljúka þessu máli með sóma.

Lögreglan getur vissulega gert mistök. Mistök hennar verða þó neyðarlegri en ella í svona tilfellum. Vonandi tekst þó að leysa úr þessari vandræðalegu flækju.

mbl.is Enn leitað að Belganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálaeftirlitið vill láta skjóta sendiboðana

Mér finnst það ekki merkileg forgangsröðun hjá Fjármálaeftirlitinu að vilja láta skjóta sendiboða hinna válegu tíðinda, blaðamennina sem birtu upplýsingar um alvarlegt verklag í bönkunum, glæpsamlegu verkin umdeildu. Auðvitað er eðlilegt að þessar upplýsingar séu gerðar opinberar og mun frekar á að verðlauna þessa blaðamenn fyrir góð störf frekar en ráðast að þeim. Kannski er þetta skólabókardæmi um hvernig vinnuferlið hefur verið í Fjármálaeftirlitinu, eftirlitsstofnun sem svaf gjörsamlega á verðinum.

Mikið er talað um bankaleynd og hversu langt hún eigi að ganga. Mér finnst blasa við að ýmislegt miður geðslegt á að fela bakvið tjöldin með bankaleyndinni, hún eigi að ná mun lengra en eðlilegt er. Eðlilegt er að velta fyrir sér hvort ekki eigi að afnema hana og koma með allt á borðið.

Mjög mikilvægt er að hreinsa út og greinilegt að þeir eru í bönkunum sem leka gögnum og koma málum á borðið framhjá þeim sem yfir þeim eru og hefur verið falin forysta í bönkunum þó þeir hafi verið á kafi í ruglinu þar áður fyrr.

mbl.is Brutu þau bankaleynd?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brekkusöngur á þingi



Ég neita því ekki að það var eilítið skondið að fylgjast með þinghaldinu um eða upp úr miðnætti. Ákvað að sleppa því að horfa á þessar ræðukúnstir og setti All the President´s Men frekar í dvd-spilarann og missti því af öllum ræðunum. Stjörnuframmistöðu kvöldsins átti þó væntanlega brekkusöngvarinn Árni Johnsen þegar hann söng Laugardagskvöld á Gili. Ekki hægt annað en brosa út í annað yfir þessum söng.

Annars finnst mér á mjög gráu svæði að funda síðla kvölds og hvað þá að næturlagi. Varla er þetta boðlegt verklag. En þingræðið er greinilega komið í færibandavinnu fyrir framkvæmdavaldið. Ekki við öðru að búast en þeir sem töluðu um að reisa við þingræðið standi fyrir svona verklagi og stjórnarskrárbreytingum á slíkum methraða og án samkomulags.

mbl.is „Hættið þessu helvítis væli"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyðilegar auðmannsvillur

Sumarbústaður Sigurðar Einarssonar
Fyrir nokkrum vikum var sýnt í fréttatíma Sjónvarpsins frá hálfköruðu og eyðilegu auðmannssetri Sigurðar Einarssonar í Borgarfirði. Þar sem fjöldi manna voru að vinna við þetta mikla verk fyrir nokkrum mánuðum var engin sála nú. Ástand efnahagslífsins kom þar fram án nokkurra orða. Það talaði sínu máli.

Mér fannst þetta táknræn myndræn framsetning hjá Sjónvarpinu. Frétt dagsins um sveitasetrið kemur því ekki að óvörum. Það er táknmynd um hrunið mikla.

mbl.is 200 milljóna veð í sveitasetri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignir fólks fuðra upp - aðgerðarleysi algjört

Mjög dapurlegt er að sjá hvert stefnir hjá fjölda fólks í íslensku samfélagi. Á hverjum degi heyrum við fréttir af fólki sem er komið að fótum fram, ævistarfið fuðrað upp í bálinu og enginn sem tekur á vandanum af festu og alvöru. Þetta er hinn napri veruleiki málsins. Stjórnvöld hafa ekki staðið sig í stykkinu. Enginn er að taka ákvarðanir sem skipta máli og tekur á stöðunni. Okkur vantar leiðtoga sem hafa bein í nefinu, skilja vandann og geta ráðist að rótum hans án hiks og málalenginga.

Stjórnvöld virðast ekki hafa bein í nefinu til að standa sig, sofa á verðinum og virðast vera að bíða eftir að einhverjir aðrir en þeir nái tökum á vandanum. Mér finnst raunalegt að sjá fjármálaráðherra þjóðarinnar ástunda ásökunarpólitík á fullum hraða þegar hann ætti að vera að taka ákvarðanir og leiða þessa þjóð. Hann virðist engar lausnir hafa á vandanum eða beinar aðgerðir á takteinum til að taka forystuna og leiða þjóðina út úr ólgusjó vandræðanna.

Sjálfsagt erum við komin í ferli þar sem stjórnvöld halda áfram að sofa af sér vandann og vona að allt lagist af sjálfu sér. En það mun ekki gerast. Okkur vantar fólk sem þorir að taka ákvarðanir og leiða okkur úr vandanum.

mbl.is Ævistarfið farið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutlausi Baldur fer í þingframboð

Mér finnst mjög skondið að fréttaskýrandinn hlutlausi Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor, sé kominn úr felum og í varaþingmannsframboð fyrir Samfylkinguna. Kannski fyrirsjáanlegt eftir fréttaskýringar hans hvaða skoðanir hann hafði og betra að segja þær hreint út en undir grímu hræsninnar og felulitanna.

Í og með er þetta samt svolítið tragískt. Árum saman hefur þessi maður verið kallaður í fréttatíma sem hlutlaus álitsgjafi og undir fræðimannsheiti til að rýna í spilin. Hvernig er hægt að varpa þeirri ímynd af sér og fara að selja eitt stykki stjórnmálaflokk. Svolítið fyndið samt.

Samfylkingin hættir aldrei að koma manni á óvart með hræsni sinni.

mbl.is Listar samþykktir í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimenn setja neyðarhemilinn á

Nú þegar vinstrimenn geta ekki lengur kennt Davíð Oddssyni um allt sem aflaga fer í Seðlabankanum hljóta menn að hugsa um hvað hafi gerst á vakt Seðlabankans síðustu dagana. Krónan súnkar niður og allt er í voða. Hverjum ætla vinstrimenn að kenna um nú? Vandi er um að spá. Varla fara þeir að kenna sjálfum sér um þetta, sem þó væri ansi rökrétt túlkun á því sem gerist þessa dagana. Og þó.

Frumvarpið í þinginu er neyðarhemill á alla lykilþætti. Við erum að stefna í haftatíma á fullum krafti. Allt í boði vinstrimanna. Þetta er ekki beysin framtíðarsýn, ofan í skattatalið og hugleiðingar um höftin. Kannski ættu menn að fara að rifja upp hvernig Ísland var á tímum haftanna.

mbl.is Brýnt og óumflýjanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurlaunin hennar Evu - ábyrgð Jóhönnu

Eftir mikla andstöðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, við ofurlaun og mörg orð gegn því verklagi er eilítið sérstakt að sjá þau færa Evu Joly slík ofurlaun í ráðgjafahlutverki sínu. En kannski þarf ekki að undrast. Jóhanna, sem hefur talað fyrir pólitískri ábyrgð og gegnsæi í pólitísku starfi, hefur verið dæmd fyrir að brjóta stjórnsýslulög og fara á svig við stjórnarskrána þegar norski aðgerðarlausi seðlabankastjórinn, sem er ekki að standa sig, var skipaður í embætti.

Mér finnst þeir oftast hlægilegir sem tala fyrir siðferði og breyttum vinnubrögðum en falla í forarpyttinn sjálfir þegar mest á reynir. Mér finnst verklagið við ráðningu Evu og einkum vörnin fyrir ofurlaunum hennar minna mig einna helst á pópúlisma sem einkennt hafa Össur Skarphéðinsson og suma Samfylkingarmenn sem hafa verið í liðsveit hans fyrr og nú. Jóhanna fellur kylliflöt í þessa sömu gryfju nú. Mun heiðarlegra væri að hún predikaði ofurlaunastefnu sína í verki en ekki bara orði. Annars verður hún auðvitað ómarktæk.

Ekki svo að skilja að ég sé á móti Evu Joly og því að fá hana til verka. Hef margoft stutt þá ákvörðun í skrifum hér. Vil allt upp á borðið og bind vonir við að niðurstaða málsins verði sú að öll minnstu smáatriði í bland við stóru punkta aðdraganda bankahrunsins verði gerð opinber, allt verði opinbert. En stjórnmálamenn þurfa að vera samkvæmir sjálfum sér, alveg sama hvað þeir heita, hvort það er heilög Jóhanna eða einhver annar.

Ég heyrði ekki betur en alþýðukonan Jóhanna messaði að tími ofurlauna væri liðinn á landsfundi Samfylkingarinnar. Gott og blessað. Sömu helgina kvittar hún hinsvegar upp á ofurlaun handa fransknorsku Evu. Ekki fara saman orð og gjörðir.

Vonandi hefur þjóðin vit á að hafna svona hentistefnu í kosningunum. Við þurfum að fá stjórnmálamenn til valda sem meina það sem þeir segja og segja það sem þeir meina.


mbl.is Dapurlegar fréttir af Samson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæpsamlegir peningaflutningar til Tortola

Fyrir nokkrum mánuðum vildi Jón Ásgeir Jóhannesson ekki kannast við eyjuna Tortola í Silfursviðtali við Egil Helgason. Nú er ljóst að helstu auðmenn landsins og aðilar tengdir þeim hafa skotið fé undan til þessarar eyju. Ekki þarf rannsókn til að sjá þetta þegar fleiri hundruð félög hafa verið stofnuð þar af Íslendingum gagngert til að geyma fé. Þetta þarf að kanna og flétta hulunni ofan af öllu dæminu.

Þeir tímar eiga að vera liðnir að þjóðin láti bjóða sér hálfkveðnar vísur og snúning í lygahringekjunni hjá þessum mönnum. Staðreyndir tala sínu máli nú þegar og í raun ljóst að þarna hefur óeðlilega verið staðið að málum og þjóðin verið höfð að fífli með ómerkilegum útúrsnúningum líkt og fyrrnefndu Silfursviðtali.

Stóra spurningin nú er hvort þessir menn muni hjálpa þjóðinni á þessum örlagatímum eða stinga af til Tortola með allan sinn auð endanlega. Velji þeir seinni kostinn verða þeir landflótta ræflar sem missa endanlega allan trúverðugleika hér heima. Þá verður Tortola þeirra föðurland.

mbl.is Samson greiddi fé til Tortola
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjarnan Emiliana



Emiliana Torrini hefur verið uppáhaldssöngkonan mín árum saman, eiginlega síðan ég heyrði hana fyrst syngja. Hún er einfaldlega algjörlega í sérflokki - frábær rödd og traustur persónuleiki. Hún er ekki að þykjast vera neitt nema hún sjálf. Hefur alltaf verið trú sínu og ekki breytt sér fyrir frægðina eða eitthvað stjörnulúkk, hefur einfaldlega komist áfram af eigin verðleikum og skapað sína ímynd, ekki ósvipað Björk.

Ég er ekki fjarri því að mér hafi fundist hún ná traustum stalli í sínum bransa á síðustu árum, ekki aðeins hérna heima heldur um víða veröld. Lagið hennar Jungle Drum þótti mér sérstaklega gott og það var ekki hægt annað en hrífast með. Algjörlega magnað lag. Hitti beint í mark.



Emiliana ávann sér sess í huga og hjarta þjóðarinnar með plötunum sínum um miðjan tíunda áratuginn. Þær eru urðu báðar feykivinsælar hér heima og stjarna var fædd. Af öllum frábæru lögunum sem hún söng þá finnst mér The Boy who giggled so sweet algjörlega í sérflokki. Yndislegt lag.



Gollum song úr kvikmyndinni Lord of the Rings: The Two Towers frá árinu 2003 er traust lagasmíð. Yndislegt lag, með dökkum og sorglegum undirtón en yndislega fallegt samt sem áður. Nær að fanga tóninn í myndinni, sálarflækjur og innri baráttu Gollums, sem er margklofinn og andlega bugaður.



Ekki má svo gleyma túlkun Emiliönu á Simon og Garfunkel-smellinum Sounds of Silence úr sýningunni frábæru Stone Free á árinu 1996. Ógleymanleg sýning fyrir alla þá sem hana sáu. Yndisleg og sætt.

mbl.is Emilíana fær góða dóma í NYT
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margeir teflir traust - reisir við fallið veldi

Mér líst vel á að Margeir Pétursson hafi reist við fallna merki Spron og eigi að byggja eitthvað á rústunum. Alltaf verður jákvætt og gott þegar einhverjum tekst að byggja upp þar sem allt er hrunið og nái að horfa fram á veginn. Margeir var löngum þekktastur fyrir útsjónarsemi í skáklistinni og mikla seiglu.

Margeir hefur á undanförnum árum sannað seiglu sína og útsjónarsemi í viðskiptum og kemur nú fram sem maðurinn sem rífur Spron upp úr því feni sem vissir menn komu því með því að vera djarfir og spiluðu rangt. Margeir var þekktur fyrir að vera ekki djarfastur skákmanna en spila traust.

Nú þegar útrásarjólasveinarnir hafa spilað öllu sínu í strand, mennirnir sem þóttu svo djarfir og risu sem hálfguð í augum sumra, kemur Margeir fram á sviðið. Honum hefur tekist að spila sína skák til sigurs á meðan hinir djörfu enduðu úti í skurði.

mbl.is MP banki eignast SPRON
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumt væl úr horni frjálslyndra

Frjálslyndi flokkurinn virðist á vonarvöl í þeirri snörpu kosningabaráttu sem er hafin. Allt loft virðist úr flokknum. Liðsflóttinn hefur sjaldan eða aldrei verið meiri en í aðdraganda þessara kosninga og engu líkara en allir séu að flýja sökkvandi skip nema þeir sem geta ekkert annað farið. Nú nýlega hefur sjálfur varaformaðurinn gefist upp á félagsskapnum eftir heila níu daga í hlutverki sínu og yfirgefið fleytuna, væntanlega áður en hún sekkur.

Í miðri þessari varnarbaráttu fyrir tilvist Frjálslynda flokksins er örlítið sérstakt að hlusta á Guðjón Arnar Kristjánsson, akkeri og þungavigtarmann Frjálslynda flokksins alla tíð, koma með aumt væl úr horninu sem flokkurinn hefur alla tíð verið í. Hið auma væl snýst um að fólk fari þaðan með mútum yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er í besta falli ótrúverðugt en mun frekar aumingjalegt blaður manns sem á engar aðrar skýringar.

Væntanlega vísar hann þar til Gunnars Örlygssonar og Jóns Magnússonar, þingmanna sem flúðu úr flokkaerjum í Frjálslynda flokknum yfir í annan flokk, sterkan flokk sem þeir töldu nær skoðunum sínum og vera betra vinnuumhverfi fyrir sig pólitískt. Þeir náðu hvorugur markmiðum sínum í prófkjörum en taka fullan þátt í flokksstarfinu, sátu báðir landsfund um helgina í Laugardalshöll.

Guðjón Arnar ætti að fara að líta í eigin barm og leita að skýringum í sukkuðu umhverfi þar að ástæðum þess að flokkurinn hans er að deyja.

mbl.is Ná fólki frá okkur með mútum eða öðru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlagarík mistök óreyndrar framsóknarforystu

Augljóst er að stuðningurinn við minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og VG er að snúast upp í örlagaríkustu og dýrkeyptustu mistök Framsóknarflokksins áratugum saman. Er sennilega þegar búin að kosta flokkinn möguleikann á endurreisn fylgislega og forystulega séð næstu árin. Óreyndri forystu flokksins skjöplaðist á oddastöðu sinni og missti taflið úr höndunum og eru nú eins og viljalaus verkfæri, í einskonar gíslingu, hjá vinstriflokkunum. Hvort reynsluleysi Sigmundar Davíðs er einu um að kenna skal ósagt látið, en það er stór hluti vandans vissulega.

Framsóknarflokkurinn kom mjög sterkur af flokksþingi sínu í janúar. Með nýjum formanni hafði hann öll tækifæri til að ná oddastöðu í íslenskum stjórnmálum, halda henni eftir næstu þingkosningar og endurbyggja sig aftur sem sterkt afl, eftir afhroðið í þingkosningunum 2007, þar sem fimm þingsæti fóru fyrir borð og flokkurinn þurrkaðist út í Reykjavík og varð fyrir miklu áfalli í nær öllum kjördæmum nema rótgrónustu lykilsvæðum í sögu sinni.

Sigmundi Davíð hefur ekki tekist að halda um taumana eftir að minnihlutastjórnin tók við og er í mjög vondri stöðu. Hann tók þann kostinn að spila öllu undir, gaf kost á sér í Reykjavík í stað þess að fara í öruggt þingsæti í Suðurkjördæmi. Áhættan verður flokknum dýrkeypt gangi hún ekki upp. Fátt bendir til þess að sætið í Reykjavík sé öruggt. Fjarri því. Þar verður barist upp á allt og flokkurinn verður í krísu gangi það ekki upp.

Þessi stjórnarstuðningur tryggði að Framsókn fékk kosningarnar sínar. Hinsvegar misstu þeir taflið annars úr höndunum. Hafa lent úti í horni og oddastaðan virðist skammverm pólitísk sæla. Varnarbarátta bíður Framsóknar enn og aftur, rétt eins og 2007. Fátt bendir til þess nú að þeir nái vopnum sínum og eflist mikið frá því sem var síðast. Þeir eru ekki öfundsverðir af því að hafa klúðrað sínum málum svo svakalega.

mbl.is Þolinmæði framsóknarmanna þrotin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynslóðaskipti í Sjálfstæðisflokknum

bjarniben2
Ég var að koma heim til Akureyrar eftir yndislega helgi í Reykjavík á fjölmennasta landsfundi í sögu Sjálfstæðisflokksins, öflugum og góðum landsfundi. Kynslóðaskipti urðu í forystu flokksins á þessum fundi. Nýjir tímar hefjast með því að valdaskeiði þeirrar kynslóðar sem náði undirtökum í Sjálfstæðisflokknum með formannskjöri Þorsteins Pálssonar sem eftirmanns Geirs Hallgrímssonar árið 1983 lýkur. Eftirmenn hans, Davíð Oddsson og Geir H. Haarde, hafa verið ólíkir forystumenn að mörgu leyti en allir eru þeir sömu kynslóðar.

Sjálfstæðisflokkurinn treysti ungu fólki fyrir forystunni þegar Geir Hallgrímsson hætti formennsku og sama gerist aftur nú. Þorsteinn var vel innan við fertugt þegar hann varð einn valdamesti stjórnmálamaður landsins og varð forsætisráðherra á fertugsafmæli sínu árið 1987. Davíð Oddsson varð 34 ára gamall borgarstjóri í Reykjavík og forsætisráðherra rétt rúmlega fertugur. Hann hætti í pólitík eftir að hafa verið forsætisráðherra í hálfan annan áratug fyrir sextugt. Þessar staðreyndir sýna vel að ungu fólki er treyst í flokknum.

Þáttaskil verða nú, ekki aðeins í landsmálum heldur og í sveitarstjórnarmálum. Forystumenn flokksins í borg og landsmálum eru fulltrúar nýrra tíma. Augljóst er að miklar breytingar verða á þingliði Sjálfstæðisflokksins í vor og nú hefur flokksforystan í Valhöll verið yngd verulega upp.

Í þessum þáttaskilum felast mikil tækifæri og ég efast ekki um að flokkurinn mun breytast mikið með því að ný kynslóð taki þar við völdum, kynslóð með nýjar áherslur og sýn á framtíðina, trausta framtíðarsýn. Mikilvægt er að uppstokkun verði í pólitíkinni og nýtt fólk taki við forystunni.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lengi talað um mikilvægi þess að frelsinu fylgi ábyrgð, áður en bankahrunið skall á. Nú er það hans að leiða stefnumótun til framtíðar í flokknum og stokka hann markvisst upp. Sú vinna hófst af miklum krafti á þessum landsfundi.

Nú er það forystumanna flokksins um allt land að leiða nýtt upphaf í flokksstarfinu. Bjarni og Þorgerður Katrín eru flott tvíeyki í forystunni og njóta trausts flokksmanna og hafa traust umboð eftir þennan fjölmenna og góða fund.

Ég vil þakka öllum þeim sem ég ræddi við og átti skemmtilegar stundir með á landsfundi fyrir spjallið og vináttuna. Þetta var frábær helgi í góðra vina hópi.

mbl.is Nýrri kynslóð treyst til verks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Benediktsson kjörinn formaður

Bjarni Benediktsson hefur nú verið kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hér í Laugardalshöll. Ég vil óska honum innilega til hamingju með glæsilega kosningu. Formannsslagur Bjarna og Kristjáns Þórs var góður fyrir flokkinn, tel ég. Hann gerði landsfundinn enn meira spennandi en ella og tryggði lífleg en snörp málefnaleg átök.

Þetta er styrkleikamerki fyrir Sjálfstæðisflokkinn að öllu leyti og við fylkjum okkur nú að baki forystunni, sem hefur enn traustara og öflugra umboð en ella. Kristján Þór stóð sig vel í sinni kosningabaráttu og getur verið stoltur af sínum árangri, þó ekki hafi sigur náðst. Ræða hans áðan var mjög traust og honum til mikils sóma.

Bjarni er tákn nýrra tíma í stjórnmálum. Hann verður næstyngsti flokksleiðtoginn í komandi kosningum, skýr valkostur þeirra sem vilja uppstokkun í pólitíkinni.

Þetta verður snörp og spennandi barátta næstu vikurnar - Sjálfstæðisflokkurinn heldur sterkari til þeirrar baráttu en ella eftir svo líflegan landsfund.


mbl.is Bjarni kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður landsfundur - þrumuræða Davíðs

Ég er mjög ánægður með landsfund okkar sjálfstæðismanna. Þetta hefur verið frábær helgi með góðum vinum og kunningjum. Okkur hefur tekist að skyggja algjörlega á fundinn hjá Samfylkingunni og ná fókus á okkar mál og baráttupunkta fyrir kosningarnar. Davíð Oddsson flutti mikla þrumuræðu og gerði upp átakamál síðustu mánaða traust og flott. Hann var í essinu sínu, tókst algjörlega að skyggja á formannsefnin og um leið að klára lykilmál síðustu mánaða. Þetta var traust uppgjör.

Spennandi lokadagur fundarins er framundan. Kosið verður milli góðra valkosta í formannskjörinu. Þeir fluttu báðir góðar ræður og komu sínum áherslum vel til skila. Flokksmenn hafa þó skýra og ólíka valkosti í kjörinu. Framtíðin verður mótuð með kjöri nýs formanns.

mbl.is Víkingar með Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband