Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
18.12.2007 | 10:34
REI, REI ekki um jólin
Það verður ekki um það deilt að REI-málið er eitt mesta pólitíska hitamál ársins í íslenskum stjórnmálum. Það væri gaman að vita hversu margar fréttamínútur ljósvakamiðlanna á aðeins örfáum vikum hafa snúist um REI. Þetta mál hefur legið þungt yfir Orkuveitu Reykjavíkur og því skiljanlegt að starfsmenn þar hafi snúið þessu upp í grín nú fyrir jólin.
Þeir hafa nú gert bráðskemmtilegt myndband þar sem málið er sett í spéspegil með laginu Nei, nei ekki um jólin eftir Björgvin Halldórsson við ljóð Björgvins, Þorsteins Eggertssonar og Ladda. Lagið heitir að sjálfsögðu REI, REI ekki um jólin.
Það ættu allir að hafa gaman af þessu myndbandi. Skemmtilegur húmor og vel gert hjá starfsmönnum OR. Sérstaklega gaman að sjá vin minn úr flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins, Loft Má Sigurðsson, sem hefur verið mjög virkur í flokksstarfinu í Grafarvogi, í aðalhlutverki þarna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2007 | 00:13
Uppsveifla nýliðans - Clinton talar gegn Obama

Fyrir forsetakosningarnar 2004 var mikið skorað á Hillary Rodham Clinton að gefa kost á sér gegn George W. Bush. Þá hefði hún getað snúið allri samkeppni upp bara með því að blikka augunum til flokksmanna. Hillary fór ekki fram enda vildi hún standa við loforð til íbúa í New York um að klára kjörtímabil sitt. Hún var hyllt sem sigurhetja á flokksþinginu í Boston árið 2004 og þau hjónin voru stjörnur þingsins þar sem krýna átti John Kerry sem forsetaefni flokksins í heimaborg sinni. Stjörnumáttur þeirra var þar yfirgnæfandi allt þingið, þó sérstaklega væri gætt upp á að þau kæmu saman fram bara fyrsta þingdaginn.
Það verða mikil tíðindi ef Hillary tapar fyrir Barack Obama í þessari baráttu. Það er þó margt sem bendir til þess að Hillary eigi framundan tvísýna baráttu við Obama. Það kristallast vel í ummælum Bill Clinton, fyrrum forseta Bandaríkjanna, sem minnti á reynsluleysi Obama í stjórnmálum um helgina. Hann hafi aðeins gegnt kjörnu embætti í tvö ár og sé óskrifað blað. Nefndi að hann hefði átt að bíða. Líkti sér við hann. Eins og flestir muna var skorað á Clinton að fara fram í forsetakosningunum 1988 en þá ákvað hann að bíða vegna reynsluleysis. Clinton forseti svona gaf í skyn að Obama hefði átt að gera slíkt hið sama. Það væri of mikil áhætta að veðja á hann.
Sigurför Obama að undanförnu þarf kannski ekki að koma að óvörum. Fyrir ári var frækin för hans um New Hampshire mikið í umræðunni. Hún var jafnvel borin saman við það þegar að John F. Kennedy, 35. forseti Bandaríkjanna, kom þangað fyrir hálfri öld og lagði grunninn að lykilsigri sínum þar sem markaði hann sem forsetaefni demókrata og það sem tók við í sögulegum forsetakosningum sama ár þar sem hann lagði Richard M. Nixon, sitjandi varaforseta, að velli. Obama þykir hafa sjarmann og útgeislunina sem Kennedy hafði og virðist maður nýrra tíma meðal demókrata, ekki ósvipað því sem Bill Clinton var á sínum tíma.
Fram að þessu hefur Hillary þótt stjarna á sviði flokksins. En er Hillary búin að missa sinn sjarma? Er hún að missa tökin á stöðunni? Þetta eru stórar spurningar óneitanlega. Það hlýtur að fara altént um Clinton-hjónin í þessari stöðu. Það er alveg ljóst að tapi Hillary mun ekki aðeins hún veikjast verulega á þessari áhættu sem fylgdi framboðinu heldur líka eiginmaður Hillary, Bill Clinton, 42. forseti Bandaríkjanna. Þau leggja allt sitt í framboðið og sækja bæði alla peninga sem þau geta safnað og leita í allar áttir stuðningsmanna sem þau telja mögulega geta styrkt framboðið.
Það sem styrkir Obama mest nú er að hann fær stimpil sem framtíðarstjarna, er viss vonarneisti fyrir Demókrataflokkinn eftir átta ár utan Hvíta hússins. Hillary er reynd og eiginkona síðasta forseta demókrata, en það vita allir hver hún er og hún boðar fátt nýtt, utan þess að verða auðvitað fyrsta konan á forsetastóli nái hún alla leið. Baráttan er allavega jöfn og greinilega barist harkalega um sigur í fyrstu fylkjunum.
![]() |
Obama spurður um íslenska vetnissamfélagið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.12.2007 | 22:13
Steingrímur J. æfur yfir samþykkt þingskaparlaga

Þetta eru vissulega mjög erfið málalok fyrir vinstri græna. Þeir máluðu sig algjörlega út í horn í þessu máli. Voru sem stærsti flokkur stjórnarandstöðunnar í minnihluta í andstöðunni. Það hlýtur að teljast pínleg aðstaða. Hverjir voru annars að leggja vinstri grænum lið í samfélaginu í þessari baráttu? Varð ekki var við þá marga þann tíma sem rætt var um breytingatillögurnar. Flestir voru hlynntir því að stokka mál upp og samþykkja málið.
Það virðist vera sem að vinstri grænir séu í frekar erfiðri stöðu, frekar einangraðir í ýmsum málum. Það er ekki nýtt hlutskipti svosem. Það verður þó áberandi í þessu máli, þar sem greinilega var reynt að koma til móts við þá. Ræðutíminn var lengdur frá upphaflegum frumvarpsdrögum og t.d. voru sérreglur sett um fjárlagaumræðuna. Það dugði ekki vinstri grænum. Það er svona eiginlega ekki hægt annað en meta það sem svo að þeir hafi aldrei viljað semja.
Vissulega markar samþykkt þessara laga nokkur þáttaskil í þingstarfinu. Nú erum við laus við hinar goðsagnakenndu og hrútleiðinlegu klukkustundarlöngu ræður Steingríms J. og Jóns Bjarnasonar. Kvarta ekki yfir því. Held að það séu tækifæri í þessu. Þingið verður nú mun skilvirkara og vonandi öflugri stofnun, sem fólk vill fylgjast með, en andvarpar ekki í hvert skipti eða blótar yfir hinum löngu ræðum sem skildu fátt sem ekkert eftir sig.
14.12.2007 | 18:05
Betri tímar á Alþingi með nýjum þingsköpum

Það hefur verið talað um þessar breytingar í alltof mörg ár. Man að bæði Halldór Blöndal og Sólveig Pétursdóttir höfðu þetta á stefnuskrá sem þingforsetar en samkomulag náðist ekki milli aðila að neinu marki, enda var vissulega eðlilegt að taka sinn tíma í starfið. Nú loksins verður eitthvað úr öllu talinu. Það er hrútleiðinlegt stundum að fylgjast með störfum þingsins, sérstaklega vegna suddalega leiðinlegra og langra ræðuhalda sumra þingmanna. Það eru til þingmenn sem tala von úr viti og tefja störf þingsins um of. Það þarf að vera mikill áhugamaður um störf þingsins til að haldast yfir þeim.
Það er ekki hægt annað en að kenna í brjósti um vinstri græna. Þeir líta hálf klaufalega út í þessu þingskapamáli. Þingmenn þeirra hafa verið vanir að setja ræðumet á hverju þingi, tala mikið og lengi, án þess að flest að því verði minnisstætt. Kannski er skiljanlegt að þeir vilji ekki breyta þingsköpum og stytta ræðutímann. En þeir eru með algjörlega glataðan málstað í höndunum. Þeir eru ekki margir sem hafa stutt málstað þeirra, enda held ég að flestir landsmenn vilji að þingið verði markvissara og þar verði tekið til hendinni, einkum í að breyta leikreglunum þar.
Vinstri grænir hafa verið utanveltu í stjórnarandstöðunni í þessu máli. Meirihluti andstöðunnar stendur enda að frumvarpinu um þingsköpin. Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn hafa komið fram af mikilli ábyrgð í málinu og stutt það eindregið. Enda á þetta ekki að vera flokkspólitískt mál. Þetta snýst um að stokka upp störf þingsins. Tiltrú almennings á þinginu hefur sífellt minnkað og er ekki viðunandi lengur að sjá þá hnignun, sem er að verða ansi áberandi. Þar skipta ný vinnubrögð miklu máli til að taka á vandanum.
![]() |
Þingskapafrumvarp orðið að lögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.12.2007 | 22:04
Hillary missir flugið - Obama sækir í sig veðrið
Þrem vikum fyrir fyrstu forkosningar demókrata í Iowa sýna kannanir að Hillary Rodham Clinton sé að missa veglegt forskot sitt, bæði á landsvísu og í lykilfylkjum, og Barack Obama sé að sækja í sig veðrið. Obama leiðir nú bæði í Iowa og í New Hampshire í baráttunni um það hver verði forsetaframbjóðandi Demókraflokksins í nóvember á næsta ári. Greinilegur skjálfti er kominn upp í herbúðum Hillary og augljóst að þar á bæ er óttast að Obama sé að ná upp stemmningu og raka að sér fylgi.
Það blasir við að Obama græddi umtalsvert á því að Oprah Winfrey skyldi koma fram opinberlega á kosningafundi með honum í Iowa. Stjörnuljómi hennar er mikill og það er greinilegt að margar konur vilja kjósa eins og Oprah. Oprah átti reyndar í stökustu vandræðum með að velja hvort hún ætti að styðja Hillary eða Obama, enda hefur hún verið vinkona Clinton-hjónanna og studdi þau ötullega í kosningunum 1992 og 1996. Oprah valdi að lokum að styðja blökkumanninn í framboði og liðssveit Obama minnir vel á það hvar spjallþáttadrottningin er í liði. Þetta eru skilaboð sem skipta máli. Stjörnuljóminn er óumdeilanlega til staðar.
Kvennafylgið leitar nú í áttina að Obama og virðist á könnunum sem að stærsta sveiflan sé einmitt þaðan. Það er mikið áhyggjuefni fyrir Hillary ef að hún missir mikið kvennafylgi til Obama og gæti það jafnvel kostað hana útnefningu Demókrataflokksins er yfir lýkur. Enn hefur Hillary þó forskot á landsvísu, en það hefur minnkað verulega. Það mun þó varla duga henni. Að mörgu leyti skiptir lykilmáli að vinna fyrstu fylkin, eins og ég hef svo oft bent á í pólitískum pælingum hér. Með því kemur upp stemmning sigurvegarans. Það getur ráðið úrslitum - það gerðist t.d. síðast er John Kerry sló Howard Dean við í upphafi og missti ekki forskotið eftir það.
Könnunin í dag sem sýndi Obama með forskot í New Hampshire var gríðarlegt áfall fyrir Hillary. Bill Shaheen, forystumaður framboðs Hillary í fylkinu, sagði í fjölmiðlum í kjölfarið að myndi Obama verða forsetaefni flokksins myndu repúblikanar velta sér upp úr viðurkenningu Obama á því að hann hefði prófað eiturlyf og myndu jafnvel gefa í skyn að hann hefði farið dýpra í dópið en hann hefði viðurkennt. Mikið fjaðrafok varð vegna ummælanna sem þótti kristalla óttann í herbúðum Hillary í fylkinu og víðar um land reyndar. Síðla dags hafði Hillary beðið Obama opinberlega afsökunar á ummælum Shaheen.
Það stefnir í spennandi orrustu Hillary og Obama. Spennan vex með hverri könnuninni sem sýnir landslagið breytast. Fyrir nokkrum vikum töldu allir Hillary komna með útnefninguna allt að því örugga í hendurnar og að forkosningaferlið yrði eins og krýningarathöfn fyrir hana. Sumir voru meira að segja farnir að spyrja um hver myndi mæta Hillary, að því gefnu að hún hefði svo mikið forskot að það myndi haldast, vissulega minnka en hún næði þessu fljótt og vel. Það hafa verið teikn um það síðustu vikur að kosningamaskína Hillary sé farin að hökta; þar sé óttast um að Obama bæti við sig og baráttan verði raunveruleg.
Það er enginn vafi á því að það verður umtalsvert pólitískt áfall fyrir bæði Hillary Rodham Clinton og Bill Clinton nái hún ekki útnefningunni fljótlega í þessu ferli og muni jafnvel missa af henni vegna þess að Obama sé talinn framtíðarkandidat en hún ekki. Clinton-hjónin hafa verið draumateymi demókrata í einn og hálfan áratug, verið hinn eini sanni stjörnuljómi hans. Það blasir við samkvæmt könnunum að lykilstaða þeirra er í talsverðri hættu og alvöru barátta blasi við Hillary um farmiðann í baráttuna um Hvíta húsið.
Í sjálfu sér er gleðiefni að þetta verði jöfn og spennandi barátta. En það er þó ljóst að enginn mun tapa meira á jafnri baráttu meira en Hillary. Hún veit að til þess að ná stjörnuglampa á næstu vikum þarf hún að taka lykilfylkin í upphafi og vinna helst stórt til að ná glampa á leiðarenda. Það verða mikil pólitísk tíðindi ef henni verður hafnað í þessum forkosningaslag og því alveg ljóst að Hillary mun berjast eins og ljón með eiginmanninn sér við hlið á aðventunni og um jólahátíðina í þeim fylkjum sem fyrst er kosið í.
![]() |
Obama saxar á forskot Clintons |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.12.2007 | 12:40
Vel gert hjá Ingibjörgu Sólrúnu

Bandaríkjastjórn á sér engar málsbætur í þessu máli. Það er alveg lágmark að við fáum hreina og afgerandi afsökunarbeiðni úr þeim herbúðum og þeir finni fyrir reiði okkar. Við eigum ekki að leggjast flöt undir svona vinnubrögð, heldur láta reiði okkar í ljósi. Það hafa allir sem kynnt hafa sér mál Erlu Óskar undrast það óréttlæti sem hún mætti með því að vera hlekkjuð á höndum og fótum og ekki fengið svo mikið sem matarbita í varðhaldi.
Því er mikilvægt að utanríkisráðherra okkar standi í lappirnar og láti í sér heyra, án hiks. Hún á hrós skilið fyrir sín viðbrögð.
![]() |
Mun krefjast afsökunarbeiðni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.12.2007 | 01:37
Björn segir brotthvarf sitt hreinan uppspuna

Það er ekki langt síðan að einn auðugasti maður landsins keypti heilsíðuauglýsingu til að tala gegn Birni Bjarnasyni og vildi koma tilmælum til kjósenda um það hvernig atkvæðaseðill þeirra ætti að vera í tilteknu kjördæmi. Það er ein ómerkilegasta aðförin að íslenskum stjórnmálamanni árum saman og hún dæmdi sig sjálf. Sumir gárungarnir segja að sú auglýsing hafi tryggt Birni ráðherrastólinn áfram. Veit ekki hvort svo er, en ég tel blasa við öllum að Björn hefur notið mikils trausts innan Sjálfstæðisflokksins árum saman.
Björn varð þrisvar, að loknum kosningum, ráðherra án þess að vera kjördæmaleiðtogi. Það umfram allt sýnir sterka stöðu hans. Hann hefur haft forystuhlutverki að gegna innan Sjálfstæðisflokksins árum saman og verið þekktur fyrir vinnusemi sína og heiðarleika. Vefsíða hans er eitt traustasta merki þeirrar vinnusemi, en hann ólíkt mjög mörgum stjórnmálamönnum hefur haldið úti vef af elju og ástríðu allt frá fyrsta degi á meðan að flestir aðrir hafa koðnað niður að loknum kosningum og hætt að skrifa.
Björn hefur setið lengst allra núverandi ráðherra ríkisstjórnarinnar í embætti; var menntamálaráðherra 1995-2002 og dómsmálaráðherra frá 2003. Hann á að baki langan feril og hefur verið kjörinn fulltrúi í nafni Sjálfstæðisflokksins í um tvo áratugi. Hann hefur verið í stjórnmálum af lífi og sál eins og verk hans og netskrif sýna vel. Það hefur mátt treysta því að hann hafi skoðanir og láti í sér heyra um hitamál samfélagsins, á meðan að margir aðrir ráðherrar eru mun minna áberandi.
Það er kannski ekki undrunarefni að fjölmiðill úr þessari áttinni reyni að koma af stað orðrómi um brotthvarf Björns á næstu mánuðum. Þessi yfirlýsing er samt augljóst merki þess að Björn ætlar að sinna sínum verkum áfram, en hefur vissulega ekki tekið ákvörðun um hvað taki við að kjörtímabilinu loknu.
12.12.2007 | 15:54
Pólitísk klókindi bragðarefsins Pútíns
Það er svolítið sérstakt að fylgjast með stöðu mála í Rússlandi. Vladimír Pútín, fráfarandi forseti Rússlands, stýrir lykilákvörðunum lýðræðis í rússneskum stjórnmálum eins og taflborðinu heima hjá sér. Hann hefur handvalið væntanlegan forseta og útnefnt sjálfan sig, með góðvild handvalda forsetaefnisins að sjálfsögðu, sem forsætisráðherra frá og með marsmánuði er seinna kjörtímabilinu lýkur. Þessi kapall sýnir umfram allt pólitísk klókindi bragðarefsins Pútíns. Hann vill velja forsetaefni til að fylla upp í forsetaferil sinn og ætlar sér að fara fram í kosningunum árið 2012.
Þetta blasir við öllum sem horfir á atburðarásina eftir allt sem á undan er gengið. Pútín hefur á áratug gert rússneska pólitík algjörlega að sinni pólitík og tryggt sér bæði mikil völd og áhrif á forsetastóli. Fyrir áratug, síðsumars 1999, vissu fáir utan Rússlands hver Vladimir Pútín var þegar að Borís Jeltsín ákvað að skipa hann forsætisráðherra. Hann var vissulega gegnheill leyniþjónustukall frá KGB-tímanum og fáum óraði fyrir að þar færi næsti risi rússneskra stjórnmála, lykilspilari á alþjóðavettvangi.
Margir töldu þá að þar væri kominn enn einn forsætisráðherrann sem færi fyrir lok forsetaferils Jeltsíns, sem hafði haft tögl og hagldir allt frá því að hann hafði tekið völdin afgerandi eftir valdaránið misheppnaða árið 1991 og hafði risið upp úr öskustó kommaveldisins. Hann var skapmikill drykkjumaður sem markaði áhrif - og var líka þekktur fyrir að sparka forsætisráðherrum. Jeltsín var einn eftirminnilegasti stjórnmálamaður tíunda áratugar 20. aldarinnar þrátt fyrir persónuleikabrestina.
Mörgum að óvörum ákvað Jeltsín að segja af sér forsetaembættinu í áramótaávarpi á gamlársdag 1999. Allt í einu var leyniþjónustudulan Pútín orðinn einn valdamesti maður heims sem starfandi forseti landsins fram að kosningum; sigraði forsetakosningarnar í mars 2000 og var endurkjörinn strax í fyrri umferð árið 2004 - einn vinsælasti stjórnmálamaður í sögu Rússlands, með allt að 80% stuðning. Auk þess með alla fjölmiðla á bakvið sig og ríkir með járnkrafti eins og fyrrum lykilstjórnmálamenn Sovétríkjanna.
Pútín hefur semsagt markað sig sem hinn stóra afgerandi drottnara veldis síns. Staðan í Rússlandi er mikið áhyggjuefni. Mér finnst þar horfa ansi margt til fortíðar og vert að hugsa um framtíðina sem blasir við. Stjórnarskráin meinar Pútín að gefa kost á sér í kosningunum næsta vor og rúmlega átta ára forsetaferli er því að ljúka. Atburðarás vikunnar er þó ekki beinlínis með þeim hætti að Pútín ætli sér að hverfa út í sólarlagið eins og George W. Bush, sem brátt lætur ennfremur af embætti.
Hann ætlar sér að stjórna atburðarásinni eins og kvikmyndaleikstjóri úr fjarska, halda um alla spotta og ráða örlögum landsins, jafnt sem stuðningsmannahjörðar sinnar. Hann ætlar sér að vera meginspilari áfram á sviðinu. Það kemur mér samt sem áður að óvörum að Pútín velji svo ungan eftirmann. Það eru óvæntustu tíðindin. En taflið breytist ekkert við það.
Ekkert meinar Pútín að fara fram eftir fimm ár í kosningunum þá og væntanlega er plottið að þá komi hann með sinn steinrunna svip eins og riddarinn á hestinum hvíta inn á pólitíska sviðið í Rússlandi. Á meðan horfum við öll út í gráðið og hugsum okkur um það hvort að Rússland sé að verða sama sjúka einræðisríkið og það var áður en múrinn féll og kommagrýlan var sigruð. Flashbackið til fortíðar í Rússlandi er verulegt áhyggjuefni, segi ég og skrifa.
Steve Bell hjá Guardian sér stemmninguna í Rússlandi réttum augum og myndin hans hér efst í færslunni segir meira en þúsund orð.
![]() |
Rice: Medvedev hluti af nýrri kynslóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2007 | 13:46
Egill verður bleikur fyrir femínistana
Þetta er líka svolítið áberandi friðarhugur í beinni útsendingu. Það vantaði bara að Egill væri með friðarpípuna upp í sér. Það hefur reyndar verið ansi harkalega ráðist að forystukonum femínistanna. Man ekki eftir harkalegri átökum lengi og sennilega er Sóley Tómasdóttir ein umdeildasta konan í samfélaginu; beinlínis hötuð víða. Samt er hún ein af valdakonunum í Reykjavíkurborg, með talsverð völd og er t.d. ritari vinstri grænna, forystukona þar innan borðs.
Egill virkaði mjög hress og kammó með þeim valkyrjunum áðan. Blár hefur verið einkennislitur þáttarins í mörg ár. Nú er hann orðinn bleikur. Verður bleiki liturinn í bakgrunni Egils hér eftir? Það verður spennandi að sjá.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.12.2007 | 01:14
Stórfelldur fjárdráttur sveitarstjórans í Grímsey

Enginn vafi leikur á því að þetta mál er mikill harmleikur fyrir hið fámenna samfélag í Grímsey, þar sem það er í raun eins og ein stór fjölskylda. Spurningar vakna þó hvernig svo víðtækur fjárdráttur gat gengið, en sögusagnir eru um að hann hafi staðið meira og minna öll þrjú ár Brynjólfs sem sveitarstjóra.
Veit ekki hvernig eyjaskeggjar vinna sig frá áfalli af þessu tagi. Þetta mál er að mörgu leyti einstakt, en ég man ekki dæmi þess að stjórnandi sveitarfélags hafi misnotað traust samstarfsmanna sinna og umbjóðanda með svo grófum hætti sem fráfarandi sveitarstjórinn út í eyju hefur gert.