Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
4.12.2007 | 16:37
Hillary Clinton missir fylgi og forystuna í Iowa

Það er alveg ljóst að skoðanakönnun Zogby-fyrirtækisins í nóvember varð umtalsvert áfall fyrir Hillary. Þar sást að framboð hennar var brothættara en nokkru sinni áður - verið gæti að hún væri sigurstjarna flokksins en gæti hinsvegar ekki sigrað sjálfar forsetakosningarnar. Könnunin varð vatn á myllu bæði Obama og John Edwards, sem segja að Hillary geti ekki sigrað að lokum svo að þeir eigi betri séns. Þetta hefur gengið og umtalsvert fylgistap Hillary er að mörgu leyti sláandi, enda töldu flestir hana vera búna að taka slaginn innan flokksins áður en hann hófst í forkosningaferlinu.
Í grein minni um könnunina þann 26. nóvember sl. spáði ég því að slagurinn hjá demókrötum yrði jafnari en mörgum óraði fyrir. Fannst könnunin hjá Zogby boða þau tíðindi. Það er allt sem stefnir í það núna að það verði harðvítug barátta um sigurinn í Iowa. Það skiptir gríðarlega miklu máli að verða sigursæll í upphafi slagsins til að ná sigursjarma. Allir muna eftir því hvernig Howard Dean var með talsvert forskot á þessum tímapunkti meðal demókrata fyrir fjórum árum. Hann tapaði fyrstu forkosningunum sínum og varð lúser, fólk flúði frá honum og John Kerry markaði sér stöðu sem sigursælasti frambjóðandinn og náði útnefningunni.
Það eitt er víst að allra augu verða á Iowa eftir mánuð þegar að forkosningaferlið hefst. Það skiptir máli fyrir Hillary að taka Iowa og næstu fylki á eftir með trompi. Takist það ekki gæti hún misst þetta út úr höndunum. Það er mikið áhyggjuefni fyrir Hillary að vera undir í Iowa nú í desemberbyrjun, enda tel ég að Hillary verði að ná þeim glampa allt frá upphafi að vera sigurvegari. Fari hún að tapa lykilfylkjum í upphafi gæti hún misst allt út úr höndunum. Það má búast við að Hillary leggi nótt við dag á aðventunni við að tryggja stöðu sína í Iowa og næstu fylkin sem fylgja á eftir.
Fyrir nokkrum vikum töldu flestir nærri ráðið að Hillary Rodham Clinton og Rudy Giuliani myndu takast á um Hvíta húsið. Nýjasta könnunin sýnir að allt er opið í sjálfu sér. Það er ekkert búið enn í þessum slag og til mikils sannarlega að berjast í fyrstu forsetakosningunum í átta áratugi þar sem hvorki forseti né varaforseti eru í forkosningaferlinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2007 | 12:33
Grafalvarlegar fregnir

Koma þessar fregnir sem nokkuð reiðarslag eftir uppbyggingu í skólamálum á undanförnum árum, en vel hefur verið unnið víða í málaflokknum. Stærðfræðiþekkingin hlýtur að vera mesta áfall okkar þegar að litið er yfir námsgreinar, en við erum þar á hraðri niðurleið. Það er svosem ekkert nýtt vandamál að stærðfræðiþekkingu sé kannski ábótavant en það hlýtur að teljast áfall að sjá niðursveiflu af þessu tagi.
Við höfum markað okkur sess sem lestrarþjóð, þar sem lykilatriði hefur jafnan verið að lesa mikið af bókum og lesturinn hefur verið okkar helsta lykilstoð að mjög mörgu leyti. Það að lestrarkunnáttu barna á lokastigum grunnskóla hraki umtalsvert eru dökkar fregnir og hljóta að leiða til þess að við hugsum um það á hvaða leið við erum eiginlega.
Við þurfum að hugsa okkar ráð í kjölfar þessarar niðurstöðu. Það getur varla talist annað en lykilmál til að taka á að ungmenni landsins séu með lélegan námsárangur og lestrarkunnáttu þeirra hraki. Það verður áhugavert að sjá hvernig að yfirmenn menntamála taki á þessari niðurstöðu.
![]() |
Staða Íslands versnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.12.2007 | 02:22
Þegnarnir hafna Chavez sem einræðisherra
Það kom skemmtilega á óvart að þegnarnir í Venezuela ákváðu að hafna Hugo Chavez sem einræðisherra. Það er öllum ljóst að hefðu stjórnarskrárbreytingar hans náð fram að ganga hefði einræði þessa vitfirrta þjóðarleiðtoga verið endanlega staðfest. Ekki aðeins hefði hann getað ríkt til eilífðarnóns heldur hefði hann getað haft alræðisvald yfir fjölmiðlum og getað skipað upp á sitt einsdæmi borgar- og bæjarstjóra í landinu.
Með þessu eru kjörtímabilsmörk Chavez staðfest og hann hverfur því úr embætti á eðlilegum tíma, að óbreyttu. Hann fetar þar í fótspor fjandvinar síns, George Walker Bush, sem er eins og flestir vita bundinn kjörtímabilsmörkum og getur ekki gefið kost á sér oftar í forsetakosningum. Það er að mínu mati eðlilegur hluti lýðræðis að menn geti ekki gert sjálfa sig að drottnurum með því að breyta stjórnarskrá og skipa sjálfa sig í guða tölu með alræðisvaldi.
Held að íbúar Venezuela geti verið stoltir af því að láta ekki fagurgala Chavez blinda sér sýn og hafna tillögum hans. Þarna var í pípunum enda einræðisstjórn af sama kalíber og sú sem Castro hefur leitt í hálfa öld í Kúbu. Castro er fyrirmynd Chavez og augljóst var að hann vildi feta í fótspor hans með kosningunni. Það er engum vinstrimanni til sóma að fasistar vilji láta skipa sig alvalda til eilífðarnóns, allt í nafni sósíalisma.
En það sér samt ekki fyrir lokin á þessu ferli tel ég. Chavez var strax farinn að tala um það í gær að endurtaka kosninguna. Hann ætlar sér að ná þessu í gegn sama hvað tautar og raular. En vonandi tekst honum það ekki. Það verður áhugavert að sjá hvað gerist og hvernig Chavez reynir að þröngva sér framhjá lýðræðinu og færa landið í einræðisátt, miðað við ummæli hans um úrslit kosninganna.
![]() |
Bandaríkin fagna ósigri Chavez |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.12.2007 | 18:05
Dró sveitarstjórinn í Grímsey sér fé frá hreppnum?

Það gerist ekki á hverjum degi að skrifstofur sveitarfélags séu innsiglaðar vegna gruns um fjárdrátt og bókhaldssvik stjórnanda innan þess og vekur það því sannarlega mikla athygli. Svona vont mál hlýtur að liggja sem þung mara yfir jafn litlu sveitarfélagi og Grímsey er, þar sem samfélagið er eins og ein samheldin fjölskylda í raun og veru.
Það hljóta að hafa verið þung spor fyrir menn að taka svona á málum en eitthvað hlýtur að hafa legið fyrir sem grundvöllur ákvörðunar af þessu tagi. Fyrst og fremst er mikilvægt að fara vel yfir allt málið og athuga hvert umfang þess hefur í raun verið. En þetta eru vondar fregnir fyrir Grímseyinga og vonandi ná þeir að vinna úr þessu dökka máli.
![]() |
Skrifstofa sveitarstjórnar Grímseyjar innsigluð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.12.2007 | 13:42
Verðskuldaður heiður fyrir Margréti Pálu
Það er óhætt að segja að Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri og hönnuður Hjallastefnunnar, verðskuldi að hljóta barnamenningarverðlaunin. Hún hefur markað skref í skólamenninguna hér á landi og verið talsmaður nýrra hugmynda í skólamálum sem vakið hafa athygli og verið farsælar.
Hjallastefnan hefur verið áhrifavaldur víða um land og braut upp gamaldags skólakerfi hér á sínum tíma og opnaði eiginlega nýja sýn á það fyrir okkur öll. Margrét Pála fékk mörg góð tækifæri og hefur sannarlega staðið undir þeim og gott betur en það. Það höfum við séð t.d. hér á Akureyri, en Hjallastefnan rekur hér leikskólann Hólmasól með glæsibrag.
Fannst samt Margrét Pála rísa eiginlega hæst í málflutningi sínum þegar að hún sagði í Silfri Egils síðasta vetur að sjálfstæður skólarekstur gæti verið konum til hagsbóta, veitt þeim áhrif, myndugleik og umfram allt betri laun í staðinn fyrir að þær séu það sem hún nefndi "valdsviptar vinnukonur kerfisins". Hún leiftraði af mælsku við útskýringarnar.
Margrét benti þar enda á að um 60% kvenna væru að vinna hjá hinu opinbera, en það væri aðeins rúmlega 20% karla. Held að vinstri grænir hafi aldrei stuðast eins mikið og þá, gleymi aldrei svipnum á Guðfríði Lilju Grétarsdóttur sem var í þættinum með henni. Ögmundur var líka fljótur að svara Margréti Pálu í einhverri grein. Svona frjálsræði og hugsun hugnaðist ekki vinstri grænum.
Margrét Pála er fyrst og fremst þekkt fyrir þetta; frumlega nálgun og skemmtilega óvænta. Hún er þó ekki með neitt blaður út í bláinn, heldur er krafturinn og farsældin sýnileg í verkum Margrétar Pálu. Óska henni til hamingju með þennan heiður.
![]() |
Margrét Pála hlaut Barnamenningarverðlaun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.11.2007 | 18:36
Eru herskáir nýnasistar að koma til Íslands?
Mér finnst persónuhatrið og ógeðið sem þrífst þarna undir nafnleynd fyrir neðan allar hellur. Það er ekki hægt annað en að undrast hversvegna fólk getur fyllst hatri af þessu tagi. Það á að vera lykilmál í því samfélagi sem við lifum í að fólk beri virðingu fyrir hvoru öðru og geti lifað í sátt og samlyndi. Hatur á fólki vegna kynþáttar er það alvarlegt mál að taka verður á því með öllum þeim brögðum sem til eru.
Aðdáun á nasisma af því tagi sem þarna sést vekur líka fjöldamargar spurningar. Það segir allt sem segja þarf að enginn vill taka ábyrgð á þessu efni. Það er annars engin furða að nafnleysi sé yfir skrifunum, enda vilja þeir sem að þessum boðskap standa væntanlega ekki fara í fangelsi eða svara til saka fyrir það.
Heilt yfir finnst mér nafnlaust ógeð vera að aukast á netinu. Það er alltof mikið af fólki sem skrifar ógeðslega um aðra, allt í skjóli nafnleyndar. Skoðanir sem myndu aldrei koma fram ef nafn fylgdi með. Það gildir sannarlega um það ógeð sem grasserar á þessari fyrrnefndu vefsíðu.
30.11.2007 | 17:33
Kárahnjúkavirkjun gangsett formlega

Það er ekki hægt annað en að nefna virkjunina eitt mesta pólitíska hitamál áratugarins, það stærsta ef fjölmiðlamálið er undanskilið, það varð umdeilt bæði á vettvangi stjórnmála sem og í samfélaginu. Tekist var á innan þings og í samfélaginu um málið á öllum stigum, meira að segja var deilt um Hálslón er örlög þess voru ráðin, en Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, staðfesti framkvæmdina þótt heitið væri á hann um annað.
Það leikur enginn vafi á því að þessi framkvæmd skiptir Austfirðinga miklu máli og finna má hversu mjög framkvæmdir á öllum stigum hafa styrkt Austurland allt, ekki síður Egilsstaði og nágrenni en Fjarðabyggð, en það er ekki hægt að líkja Reyðarfirði á þessum tíma saman við það sem var fyrir nokkrum árum, svo miklar hafa breytingarnar orðið á samfélaginu þar, til hins góða.
Vil óska Austfirðingum til hamingju á þessum degi. Það þurfti mikla baráttu til að tryggja framkvæmdirnar fyrir austan, baráttu sem var sannarlega vel þess virði.
![]() |
Ræs! sagði Össur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.11.2007 | 08:08
Ólafur F. snýr aftur með læknisvottorð á vasann
Hingað til hafa kjörnir fulltrúar haft umboð kjósenda í farteskinu í verkum sínum, sótt umboð í gegnum framboðslista sína sem kjósendur hafa kosið og til þess bær yfirvöld staðfesta að kosningum loknum með formlegum hætti. Annað þarf ekki að framvísa. Það hefur oft gerst að fólk taki sér leyfi frá störfum og svo snýr það bara aftur að eigin vilja, hvort sem leyfistímanum er lokið eður ei. Ólafur F. er kjörinn aðalfulltrúi í borgarstjórn Reykjavíkur og ætti ekki að þurfa að sækja umboð til lækna um endurkomu sína. Umræðan um eðli veikinda Ólafs F. Magnússonar minnkar ekki við þetta læknisvottorð, þó það sé læknir sem framvísar vottorðinu.
Mér finnst þetta eiginlega frekar niðurlægjandi fyrir Ólaf hvernig sem á er litið og varla verður hægt að líta á veikindi hans sem eðlileg. Það hefur reyndar merkilega lítið verið rætt um þessi veikindi, miðað við að Ólafur er einn oddamanna þessa veikburða vinstrimeirihluta og hefur mikil örlög í sinni hendi sem þessi oddamaður. Það skiptir þó máli hvort hann geri það sjálfviljugur að afhenda vottorðið eða krafinn um það.
Fréttaflutningurinn finnst mér þó frekar gefa til kynna að sú krafa komi innan úr Ráðhúsinu, sé það rétt verður það óhjákvæmilega að spurningu um traust milli aðila. Hvar er þá Ólafur F. staddur? Er hann það illa á sig kominn að læknisvottorð sé ofar sett en umboð hans frá borgarbúum úr síðustu kosningum? Af hverju nægir það umboð ekki fyrir hann til að snúa aftur til verkanna sem honum voru falin í kosningum?
![]() |
Ólafur F. látinn skila vottorði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.11.2007 | 18:19
Mun Ólafur F. sprengja meirihlutann í RVK?

Hávær orðrómur er um að Ólafur F. muni sprengja samstarfið þegar að honum hentar. Víst er að hans staða er mjög sterk í væntanlegum meirihluta og hann getur orðið örlagamaður af sama kalíber og Björn Ingi Hrafnsson var áður en hann lokaði sig inni í nýjum meirihluta, án möguleika á því að fara í aðrar áttir. Þeir sem þekkja Ólaf F. vita að hann er mjög ákveðinn í verkum og ekki þekktur fyrir að láta sinn hlut. Ólafur F. veit vel að honum bjóðast önnur tækifæri horfi hann til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn og jafnvel gæti fengið meiri völd. Það verður held ég mun meira spennandi að fylgjast með þessum meirihluta við endurkomu Ólafs F.
Eitt lykilmálanna í borgarstjórn á komandi árum er flugvöllurinn í Vatnsmýrinni. Ólafur F. fór fram í síðustu kosningum með það sem sitt lykilmál að flugvöllurinn yrði á sama stað og hefur ekki ljáð máls á neinum málamiðlunum með það. Athygli hefur vakið að Margrét Sverrisdóttir, starfandi forseti borgarstjórnar og varamaður Ólafs F, hefur talað um möguleika á því að færa hann til innan borgarmarkanna. Það er ekki stefna F-listans eins og allir þekkja sem muna kosningabaráttuna 2006 þar sem Ólafur talaði ákveðið um völlinn á sama stað óháð öðrum möguleikum, og það innan borgarmarkanna.
Ein kjaftasagan segir að Ólafur F. og Vilhjálmur hafi eitthvað plottað saman um nýjan meirihluta. Það vakti enda mikla athygli að sá sem fyrstur tilkynnti um endurkomu Ólafs í borgarstjórn var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, og samstarfsmaður Ólafs í borgarmálum innan Sjálfstæðisflokksins í rúman áratug. Þeir þekkja hvorn annan mjög vel og vita um áherslur hvors annars - geta sameinast um margt. Vissulega var Ólafur F. mjög kalinn á hjarta eftir meirihlutamyndun Björns Inga og Vilhjálms, en víst er að Ólafur F. yrði mun valdameiri í tveggja framboða meirihluta en fjögurra flokka.
Áhugaverðir tímar eru framundan í borgarmálunum. Það er ekki óvarlegt að spá því að áhrifamaður nýja meirihlutans verði Ólafur F, er hann snýr aftur. Hann hefur að mörgu leyti pálmann í höndunum og á eftir að selja sig dýrt í vinstrimeirihlutanum við að tala sínu máli og hikar varla við að líta í aðrar áttir, eins og sást af orðalagi Margrétar Sverrisdóttur um endurkomu Ólafs F. í fjölmiðlum, þar sem hún getur ekkert fullyrt um afstöðu Ólafs á komandi misserum.
27.11.2007 | 17:57
Gleðileg tíðindi
Í miðjum hversdagslegum átökum um hin ýmsu mál samfélagsins hljóta allir að fagna glæsilegri útkomu Íslands á lista Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna um lífskjör. Þar erum við í efsta sæti. Enda var greinilega samstaða á þingi í dag um að lýsa yfir ánægju með þessa útkomu. Það er varla annað hægt en að gleðjast yfir því sem gott telst.
Þetta er auðvitað gæðastimpill fyrir okkur. Við getum talið okkur trú um að við séum á góðri leið. Samt sem áður verða alltaf til vandamál að einhverju leyti. Það er sennilega aldrei hægt að búa til svo fullkomið samfélag að allir séu hoppandi glaðir og sælir með sitt. Enda eru alltaf vandamál að einhverju tagi í heiminum. En þetta er samt vísbending um það að við getum glaðst yfir hinu góða.
Mikið er talað um misskiptingu hins góða í samfélaginu. Það á alltaf að vera markmið okkar að vinna að því að við séum sátt með okkar og hjálpa beri þeim sem ekki eru jafn lánsamir í lífinu. En þessi skilaboð frá Sameinuðu þjóðunum eru sannarlega jákvæð og hvað svo sem okkur finnst getum við metið þetta veganesti mikils. En við verðum alltaf að halda vöku okkar og muna að við verðum aldrei fullkomin, það er alltaf verk að vinna.
![]() |
Þingmenn gleðjast yfir góðum árangri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |