Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
27.11.2007 | 14:06
Klúður bæjaryfirvalda á Akureyri í skipulagsmálum

Öll ættum við að muna fregnirnar af málinu í Sómatúni. Þar reyndar breytti bærinn um reglur í miðju máli og ætlaði bara að halda fast við sitt, var hinsvegar rekinn til baka af úrskurðarnefndinni. Bæjaryfirvöld gengu fram af hörku og hreinum dónaskap við eiganda Síðubúðarinnar og ætluðu að láta rífa húsið án þess að hann fengi nokkuð í staðinn. Eins og flestir vita tapaði bærinn því máli fyrir dómstólum. Þetta eru alvarleg mál að mínu mati, mál þar sem vafi leikur á hvort hinir kjörnu fulltrúar okkar sem eru á vaktinni í skipulagsmálum séu hreinlega vakandi.
Mér finnst úrskurðurinn nú varðandi Glerártorg stóralvarlegt mál, í einu orði sagt. Þetta kemur það fljótt á eftir hinum málunum að við hljótum að spyrja hvað sé að gerast hjá þeim sem stjórna för. Eins og flestir vita krafðist Akureyrarbær eignarnáms hjá Svefni og heilsu vegna lóðarréttinda á byggingasvæðinu sem um ræðir. Nýjasti úrskurðurinn er einfaldur en þar segir að Svefn og heilsa eigi enn óbein eignarréttindi á lóðinni umdeildu. Það verður fróðlegt hvernig bæjaryfirvöld leysa úr þessum hnút. Væntanlega þarf bærinn að punga út hið minnsta 300 milljónum fyrir reitinn.
Þessi mál vekja umræðu um það hvar við stöndum. Það er ekki viðeigandi að tala um tilviljanir, þetta eru mál sem eru of stór og áberandi til að þau verði þögguð niður. Það er engin furða þó að hávær sé umræðan í bænum um það hversu traustar lagalegar ráðleggingar Akureyrarbær nýtur.
![]() |
Byggingarleyfi fellt úr gildi á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.11.2007 | 12:57
Undarleg minnimáttarkennd femínista í garð Egils
Það eru vissulega valdamiklar konur í samfélaginu sem hafa mætt til Egils, enda eru víða áhrifakonur í stjórnmálum, konur með völd og sem skipta máli - þær hafa komið til Egils í viðtöl. Enda eðlilegt að þeim sé boðið, því þær skipta máli í stjórnmálaumræðunni. Þær hafa jafnan talað tæpitungulaust og verið beinskeyttar, hef ekki orðið var við annað. Egill á vissulega við það vandamál að stríða að færri konur eru alþingismenn og ráðherrar en karlar. Það er vel þekkt staðreynd að konum fækkaði á þingi bæði í kosningunum 2003 og 2007. En hinsvegar hefur mér fundist Egill vera nokkuð heiðarlegur í sinni umfjöllun. Get ekki séð neina gríðarlega kynjaslagsíðu.
Egill hefur vissulega sínar skoðanir á málum og tjáir þær óhikað, meðal annars á jafnréttismálum. Hann er ekkert einn um það og hlýtur að mega tala hreint út hvað þau varðar. Hvað varðar þessa frétt er hún svolítið spes. Sú kjaftasaga gengur annars að Sóley Tómasdóttir hafi sent út fjöldapóst á konur þar sem þær eru hvattar að mæta ekki til Egils. Hvert erum við komin ef það er staðan að konurnar sem gagnrýna Egil þiggja ekki gestaboð til hans? Af hverju þiggja þær ekki að tala hreint út þegar að þær fá boð? Er það ekki svolítið ankanalegt? Annars sýnist mér þetta vera aðallega vinstri græn femínistaslagsíða sem er að tala gegn Agli.
Annars er ekkert nýtt að Sóley og Egill skiptist á kuldalegum kommentum og viðbúið að þau yrðu enn harkalegri. Fyrir nokkrum dögum sá ég frétt þar sem stjórnmálakona í Venezuela réðst inn í prógramm þekkts sjónvarpsstjórnanda og tók hann engum vettlingatökum - braut gleraugun hans og öskraði ókvæðisorð að honum. Ég vona að Sóley fari ekki að leika þetta eftir og komi öskrandi inn í settið í næsta þætti. Er annars ekki öryggiskerfið í Efstaleitinu rock solid eftir að geðveili kallinn tók rafmagnið og vararafkerfið úr sambandi þar um árið?
![]() |
Konur sniðganga Silfrið í mótmælaskyni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.11.2007 | 09:54
Ólafur F. verður forseti borgarstjórnar fyrir áramót
Háværar kjaftasögur voru um veikindi Ólafs F, enda fannst mörgum mjög sérstakt að hann skyldi ekki vera áberandi sem forystumaður framboðs síns í meirihlutaviðræðum við Framsóknarflokk, Samfylkingu og VG, eftir að upp úr meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks slitnaði. Þess í stað varð Margrét Sverrisdóttir í forsvari F-listans og varð forseti borgarstjórnar, fyrst allra, án þess að vera kjörinn aðalmaður í borgarstjórn Reykjavíkur. Deilt var um umboð hennar, en það er ekki hægt í tilfelli Ólafs F. sem hefur afgerandi umboð kjósenda sem kjörinn borgarfulltrúi.
Endurkoma Ólafs á næstu vikum hefur þau áhrif að Margrét hættir sem forseti borgarstjórnar. F-listinn á jú aðeins eitt sæti í borgarstjórn og þau munu ekki bæði sitja fundi. Ólafur F. hefur verið lengi í borgarmálunum, var lengi varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en náði kjöri fyrir hann í borgarstjórn árið 1998 en sagði sig úr flokknum eftir hörð átök á landsfundi árið 2001 um umhverfismál. Hann ákvað að bjóða fram með Frjálslynda flokknum við kosningarnar 2002, enda var Margrét Sverrisdóttir þá framkvæmdastjóri flokksins og er dóttir stofnanda hans. Mörgum að óvörum, og gegn öllum könnunum, tókst honum að ná kjöri.
Ólafur F. var að mörgu leyti sigurvegari borgarstjórnarkosninganna 2006; hann fékk mun meira fylgi en Framsóknarflokkurinn og styrkti stöðu sína mjög. Ólafur F. hafði meira að segja gengið formlega til liðs við Frjálslynda flokkinn á árinu 2005, eftir að hafa verið óháður í þrjú ár í störfum í nafni framboðs með tengingar í flokkinn. Hann yfirgaf flokkinn í kjölfar þess að Margrét Sverrisdóttir ákvað að yfirgefa hann. Það voru eflaust gríðarleg vonbrigði fyrir Ólaf að geta ekki nýtt sigur sinn og myndað meirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að mynda ekki meirihluta með honum og vonbrigði hans voru skiljanleg.
Nú er Ólafur F. að verða einn lykiláhrifamanna Reykjavíkurborgar eftir setu í borgarstjórn í áratug, verður forseti borgarstjórnar með einkabílstjóra og bifreið til umráða. Man samt ekki eftir viðtali við hann í sjónvarpi í háa herrans tíð. Ólafur einhvern veginn hvarf eftir að honum mistókst að mynda meirihluta sumarið 2006. En nú snýr hann aftur sem einn lykilspilara borgarmálanna. Það verður áhugavert að sjá hvernig hann notar það sviðsljós.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.11.2007 | 08:25
Samræmdu prófin heyra sögunni til
Eflaust hefði mér þótt það gleðileg tíðindi þegar að ég var að lesa fyrir samræmdu prófin fyrir rúmum fjórtán árum að leggja ætti þau niður. Þetta skiptir sannarlega talsvert minna máli núna. En samt eru þetta mikil tíðindi. Líst vel á það hjá Þorgerði Katrínu að stokka þetta upp og breyta til í því verkefni að kanna stöðu nemenda.
Það virðist annars vera nóg framundan í menntamálaráðuneytinu, nokkur frumvörp sem væntanlega munu vekja athygli. Það hefur mikið verið talað um það hvað fá frumvörp hafa farið í gegn í menntamálaráðherratíð Þorgerðar Katrínar. Það eru þó stór frumvörp, nægir þar að nefna uppstokkun á Ríkisútvarpinu.
Þorgerður Katrín ætlar greinilega að stokka málin upp. Hún hefur þó sem betur fer saltað umdeildustu mál skólanna síðustu árin; samræmdu stúdentsprófin og styttingu námstímans. Hið fyrra var leiðindamál og fannst mér alltaf stórundarlegt að Tómas Ingi Olrich skyldi ekki salta það á réttum tímapunkti, enda frá upphafi gjörsamlega glatað mál.
Ég og við ungliðar í Sjálfstæðisflokknum í Norðausturkjördæmi vorum annars í því ömurlega hlutverki í kosningunum 2003 að standa vörð um menntamálaráðherrann sem ætlaði að setja á samræmd stúdentspróf. Umdeildari mál í skólakerfinu undanfarin ár er vandfundið og þetta varð hitamál skiljanlega hér.
Þetta var glatað mál þá og átti að slá af á þeim tímapunkti. Það er gleðiefni að hætta eigi líka með samræmd próf í grunnskólunum.
![]() |
Samræmd próf aflögð og kennaranám lengt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2007 | 20:18
Styttist í forkosningarnar - er Hillary ósigrandi?

Það er nefnilega það versta sem fyrir Hillary getur komið á lokasprettinum fyrir forkosningarnar að mælingar sýni að hún sé vissulega vonarstjarna innan flokksins en sé hinsvegar talin geta tapað í forsetakosningunum sjálfum og það fyrir hvaða frambjóðanda repúblikana sem er. Þessi nýjasta könnun verður án nokkurs vafa eitt sterkasta vopn bæði Barack Obama og John Edwards gegn Hillary í aðdraganda forkosninganna - þeir munu keyra á því dag og nótt allt til enda forkosninganna að Hillary muni ekki geta sigrað t.d. Rudy Giuliani eða John McCain. Hún sé of umdeild meðal hinna ýmsu hópa samfélagsins til að ná lýðhylli.
Hitinn í kosningaslag demókrata hefur verið að aukast stig af stigi. Hann var settlegur lengst af, en er orðinn persónulegur og kuldalegur. Athygli vöktu nýlegar persónulegar árásir Edwards á Hillary. Hún svaraði fyrir sig mjög hvasst og stingandi í garð Edwards í kappræðum forsetaefna demókrata fyrir nokkrum dögum. Þar var Hillary reyndar langöflugust og náði aftur afgerandi forskoti, eftir að hún hafði sýnt merki þess að vera farin að hökta. Það hefur vissulega ekki verið vafi nokkuð lengi hvert stefni í slag demókrata - Hillary hefur um eða yfir 20 prósentustiga forskot og stefnir að því að vinna stórt.
Howard Dean hafði líka vænt forskot á þessum tímapunkti fyrir fjórum árum en missti það niður eftir vont upphaf í forkosningum og eftir fræga ræðu þar sem hann öskraði eins og galinn maður. Eftir það var hann talinn lame duck og fólk flúði hann unnvörpum. Hillary veit að hún er í þeirri stöðu að allir ráðast á hana, jafnt samherjar í flokknum sem og frambjóðendur repúblikana. Hún er í miklum hita verandi sú sem virðist ein örugg um að vera í slagnum til enda, vera raunverulegur keppinautur um Hvíta húsið eftir tæpt ár. Það gerir það að verkum að sótt er að henni ekki síst innan flokksins.
Hillary Rodham Clinton veit að hún fær aðeins þetta eina tækifæri til að verða forseti Bandaríkjanna. Mistakist henni nú er aðeins tímaspursmál hvenær hún hætti í stjórnmálum. Hún mun því verða miskunnarlaus í baráttunni, leggja allt undir og vera áberandi og beitt - við hlið eiginmannsins, sem sjálfur var á forsetavakt í átta ár. Þau hafa verið draumateymi Demókrataflokksins í fimmtán ár. Hann er eini forseti demókrata frá því að Reagan vann Hvíta húsið af Carter og þau hafa sögu að verja. Tap núna myndi veikja sögulega stöðu þeirra beggja til lengri tíma litið.
Það eru spennandi átök framundan. Þessi könnun veitir sóknarfæri gegn Hillary innan eigin flokks. Það verður áhugavert að sjá hvernig henni gangi í gegnum viðkvæmasta hluta baráttunnar. Persónulega tel ég að forkosningar demókrata gætu orðið spennandi. Annaðhvort vinnur Hillary stórt í upphafi eða þetta verður harkaleg barátta þar sem allt getur gerst. Hillary þarf að vinna stórt og það fljótt til að verða sigurstjarna.
![]() |
Repúblikanar vinsælli en Clinton |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2007 | 11:45
Vondar fregnir

Þar veltur mikið á Seðlabankanum. Veit þó ekki hvort hann er að gefa gagn eða ógagn með ákvörðunum. Varð fyrir vonbrigðum með hann í síðustu ákvörðun sinni. Ég tel að upptaka Evru sé engin heilög lausn á vanda þjóðarinnar. En það þarf að ræða þessi mál þó fordómalaust. Það er fjarstæða að halda úti gjaldmiðli bara stoltsins vegna. Ef við getum ekki varið krónuna og stöðu okkar hér verður íslenska krónan sem myllusteinn um hálsinn á okkur.
Veit ekki á hvaða leið við erum, en það er þó ljóst að það er okkur til vansa missi fólk trúna á okkur, bæði getu okkar og styrkleika. Í þeim efnum er ekki hægt að una. Held þó að örlög krónunnar ráðist brátt. Ef okkur tekst ekki að verja hana bráðlega verður álitamál hversu sterk hún sé, til framtíðar.
![]() |
Hafa misst trúna á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.11.2007 | 00:06
Nauðaómerkilegur spuni Össurar
Það er langt síðan að ómerkilegri pistill og ódýrari spunamennska um stjórnmál frá málsmetandi manni með áhrif hefur verið saminn en sá sem Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, ritaði í skjóli nætur fyrir tæpum sólarhring, laust fyrir klukkan tvö aðfararnótt laugardags. Það er mjög mikið undrunarefni að iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar beini kastljósinu að Sjálfstæðisflokknum í REI-málinu nú. Flokkurinn fer ekki með völd í borgarmálum nú og heldur ekki á stjórnartaumunum í þeirri atburðarás sem nú fer fram.
Það eru öll teikn á lofti um það að félagshyggjumeirihlutinn í Reykjavík nái sér ekki saman um niðurstöðu mála. Hefur það annars komið fram að VG ætli sér að staðfesta orkuútrásina í óbreyttri mynd og færa stærstu mál REI til einkaaðila í GGE? Hefur ekki verið ágreiningur um áherslur málsins milli meirihlutaframboðanna fjögurra? Ég held það nú. Það er nauðaómerkileg pólitík hjá Össuri að ætla að beina svartapétri þessa máls til borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Það eina sem þau gerðu var að kalla eftir upplýsingum um málið, fá að vita meira en á kvöldfundi daginn fyrir milljarðasamruna, sem enginn stuðningur var á bakvið.
Ég fæ ekki betur séð en að skrif Össurar séu dapurleg tilraun til að beina kastljósinu annað. Þetta minnir á leikritið þar sem glæpur er framinn á sviðinu - til að enginn sé að horfa á glæpinn framinn á sviðinu hefur önnur leiktjáning verið sett fram á hinum enda sviðsins, svo að athyglin sé ekki á glæpnum. Þetta er allavega mitt álit á skrifum Össurar. Þau bera öll merki þess að reyna eigi að kenna öðrum um glötuð tækifæri og lélega stjórnun REI-málsins í nýjum meirihluta, en þeim sem hafa völd til að stjórna málinu.
Iðnaðarráðherrann er varla með réttu ráði ef hann ætlar að reyna að selja okkur þann spuna að valdalaust fólk ráði því hvernig málið endar að lokum. Þetta varð örlagamál, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins sleit meirihlutanum á því. Væntanlega var það gert til að geta fært málið í sinn farveg. Samt er sami borgarfulltrúi enn bloggandi og vælandi með þeim hætti að allt sé enn á vonarvöl og ekkert hafi farið eftir hans handriti. Hvað er að gerast í þessum meirihluta fyrst báðir valdsins menn flokkanna á bakvið hann skrifa með þessum hætti?
Það fer að koma að því að maður hugleiði hvort iðnaðarráðherrann sé að flippa út, bæði á blogginu og ekki síður á sviði stjórnmálanna. Þeir sem stýra för í Reykjavík ættu hinsvegar að hafa full völd á atburðarásinni og þurfa ekkert að beina svartapétri annað nema þá vegna þess að málið er þeim ofviða.
![]() |
Össur: Valdarán sexmenninganna skaðaði OR gríðarlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.11.2007 | 19:37
Var Geirfinnur Einarsson grafinn í Garðabæ?
Samsæriskenningarnar um hvað varð um lík Geirfinns og hvernig hann dó hafa alla tíð verið margar. Ein þeirra umdeildasta á síðustu árum er lýsing Guðrúnar Magneu Helgadóttur, sem hefur skrifað hér á moggabloggið og er bloggvinkona mín, á því að Geirfinnur hafi verið jarðaður við íbúðarhús við Markarflöt í Garðabæ. Á bakvið þá sögu hennar er lygileg saga, sem eiginlega er erfitt að trúa. Hefur hún komið þeirri sögu á framfæri t.d. við lögreglu og kjörna fulltrúa.
Væntanlega verður ráðgátan um örlög Geirfinns Einarssonar og það hvað gerðist nóvemberkvöldið 1974 sem hann hvarf aldrei leyst. En kjaftasögurnar deyja ekki.
24.11.2007 | 17:30
Well, I used to vote for John Howard, but.....

Ég heyrði oft hjá áströlskum vinum mínum og stjórnmálaskýrendum í Eyjaálfu í þessari kosningabaráttu eina smellna setningu sem verður eflaust litríkasta setning þessa kjördags þar sem John Howard er hafnað - vísað á dyr; Well, I used to vote for John Howard, but.... Að því kom að landsmenn fengu einfaldlega nóg af Howard og þeir hafa nú sent honum reisupassann, vissulega kuldalega og miskunnarlaust. En þetta þarf ekki að koma neinum að óvörum. Howard hafði verið lengi í stjórnmálum og mátti vita að það væri að tefla á tæpasta vað að reyna við þessar kosningar.
Það er oft gallinn með þaulsetna leiðtoga að þeir kunna ekki þá list að fara af hinu pólitíska sviði með sæmd. Geta ekki hætt leik þá er hann hæst stendur og fara hnarreistir og öflugir frá völdum. Howard hafði mörg gullin tækifæri á síðasta kjörtímabili að fela Peter Costello völdin. Í þeim efnum hefði hann getað tryggt hægrimönnum annað kjörtímabil í Ástralíu. Hann gerði það ekki, taldi sig ómissandi. Howard fer nú í flokk með stjórnmálamönnum á borð við Margaret Thatcher og Helmut Kohl, sigursæla stjórnmálamenn sem skynjuðu ekki endalokin sem voru öllum öðrum orðin ljós.
Segja má að flokksfélagar Howards hafi verið of kurteisir við hann í aðdraganda þessara kosninga. Margir vöruðu hann við áhættunni, sem hann lét sem vind um eyrun þjóta. Eflaust taldi Howard það geta gengið að feta í fótspor Tony Blair og veifa mögulegum eftirmanni sem gulrót fyrir kjósendur: Ef þið kjósið mig fáið þið þennan í þokkabót. Blair tókst að selja sig með Gordon Brown með nákvæmlega þessum hætti árið 2005. En pólitískt kapítal Howards var búið. Þetta er persónulegur ósigur hans, áfellisdómur með að hafa ekki getað hætt standandi.
Enda hefði ekkert þurft að kalla á stjórnarskipti í Ástralíu beint. Ástralir standa vel að mjög mörgu leyti. Þrátt fyrir að Howard auglýsti sig með góðum efnahag og farsælum verkum að mörgu leyti fékk hann reisupassann, rétt eins og John Major í Bretlandi fyrir áratug. Vindarnir höfðu einfaldlega blásið í aðrar áttir. Kevin Rudd varð sameiningartákn breytinganna eins og Blair forðum í Bretlandi.
Dómgreindarbrestur Howards verður hægriblokkinni í Ástralíu dýrkeyptur. Það verður fróðlegt að sjá hver tekur við af Howard sem leiðtogi þessa hóps. Peter Costello hefði verið ídeal eftirmaður hans en það hefur margt breyst í dag. Forsætisráðherraembættið er runnið Costello úr greipum að sinni og ekki undrunarefni ef hann færi í aðrar áttir.
![]() |
Howard viðurkenndi ósigur sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.11.2007 | 11:56
Vinstrisigur í Ástralíu - Howard tapar þingsætinu

Þessi úrslit eru vægast sagt háðugleg endalok á litríkum stjórnmálaferli Howards, sem hafði unnið fjórar þingkosningar og var orðinn einn þaulsetnasti forsætisráðherra Ástralíu. Hann hafði setið við völd allt frá sögulegum kosningasigri í ársbyrjun 1996 er hann felldi Paul Keating frá völdum. Hann hafði verið eins og teflon-maður alla tíð síðan og kötturinn með níu lífin á sínum forsætisráðherraferli. Howard verður annar forsætisráðherrann í ástralskri sögu sem missir þingsætið.
Flestir töldu hann búinn að vera í aðdraganda kosninganna 2004 en hann vann að lokum góðan sigur á Mark Latham, sem spáð var forsætisráðherraembættinu um langt skeið. Þá tókst honum að snúa vörn í sókn. Hann sá hinsvegar aldrei til sólar í þessari kosningabaráttu. Mjög umdeilt þótti hjá honum að halda í fimmtu kosningarnar, enda þótti flestum tími hans vera liðinn sem framlínustjórnmálamanns. Hann storkaði þar örlögunum með sama hætti og hinn þýski Helmut Kohl.
Margir vildu að hann rýmdi til fyrir Peter Costello, augljósum arftaka hans allan valdaferilinn, frekar en að sækjast eftir fimmta kjörtímabilinu. Það hefði verið virðulegri endalok fyrir Howard en þessi slátrun sem ástralskir hægrimenn verða fyrir nú. Þessi ólga varð það mikil að Howard tilkynnti að myndi hann sigra í kosningunum yrði rýmt til fyrir arftakanum Costello fljótlega á næsta kjörtímabili. Landsmenn voru orðnir hundleiðir á Howard og honum hefur nú verið refsað harkalega. Litlar líkur eru annars á að Peter Costello taki við frjálslynda flokknum og fari frekar í viðskiptaheiminn.
Nú er Kevin Rudd, verðandi forsætisráðherra Ástralíu, með öll spil á hendi - hann verður nú örlagavaldur ástralskra stjórnmála, hefur fellt Howard af stalli sínum. Flestir muna eftir athyglisverðu eyrnamergsáti Rudds, en í kosningabaráttunni var myndband af þeirri lítt geðslegu iðju hans opinberað. Það hafði engin áhrif, eins og sést á úrslitunum, þó farið væri með þá fregn eins og stórtíðindi.
![]() |
Ástralskir jafnaðarmenn lýsa yfir sigri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)