Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
23.11.2007 | 21:40
Opinskátt uppgjör Guðna við Halldór og Davíð

Það sem er áhugaverðast að mörgu leyti er þó að heyra lýsingar á því hvernig Halldórsarmurinn ætlaði gjörsamlega að svína á Guðna er Halldór Ásgrímsson ákvað að hætta í stjórnmálum, lotinn að kröftum og með Framsóknarflokkinn í algjöru rusli, þó hann hefði forsæti ríkisstjórnarinnar í höndum sér. Halldór naut sín aldrei sem forsætisráðherra og minna 21 mánaða ferill hans í embættinu, sem hann þráði svo lengi, einna helst á píslargöngu frekar en sigurstund litríks stjórnmálaferils. Guðni var ekki metinn verðugur eftirmaður og taka átti hann með sér í fallinu, er kom að því að Halldór brast þrek og þróttur.
Það varð flestum ljóst þegar að Framsóknarflokkurinn tapaði stórt í sveitarstjórnarkosningunum í fyrra að Halldór var á útleið. Þreytan og vonbrigðin láku af honum sem svitaperlur. Einna best skynjaði ég það er ég sá viðtal Helga Seljan, frænda míns, við Halldór á hinni sálugu NFS síðla kosninganætur í hófi flokksmanna í Þjóðleikhúskjallaranum. Þar fór bugaður maður sem talaði um að hann þyrfti að axla ábyrgð á vondum kosningaúrslitum. Flokkurinn tapaði stórt í þessum kosningum; missti t.d. tvo menn í gamla höfuðvígi sínu hér á Akureyri og ennfremur í Kópavogi, þar sem Sigurður Geirdal hafði drottnað árum saman - náði hinsvegar naumlega að tryggja Björn Inga Hrafnsson, örlagamann borgarmálanna, inn í borgarstjórn.
Það var greinilega gengið mjög harkalega fram í því að reyna að draga Guðna út af sviði stjórnmálanna með Halldóri. Það er alveg með ólíkindum að heyra lýsingarnar af því hvernig Guðni var beðinn um að afsala sér réttinum til formennsku í flokknum, sem sitjandi varaformaður, vegna þess að Halldór hafði misst stöðu sína, var búinn að vera en gat ekki hugsað sér að varaformaðurinn tæki við. Enda muna flestir mómentið á Þingvöllum kvöldið sem Halldór sagði af sér, gjörsamlega bugaður og flokkurinn í eymd, að þar talaði hann mikið um Finn og framlag hans til flokksins og allt að því flutti pólitíska líkræðu yfir Guðna með orðavali sínu.
Guðni er djarfur í frásögnum greinilega, fer alla leið í uppgjöri. Hann vitnar bæði í einkasamtöl sem eru mjög nálæg í tíma og fellir þunga dóma yfir þeim sem hann vann mest með í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks; þeim Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni. Uppgjörið verður öflugra en ella vegna þess að báðir menn eru enn sprelllifandi og atburðirnir mjög nálægir í tíma - heitustu lýsingarnar eru enda á málum sem lítið hefur verið skrifað um, enda aðeins eins til þriggja ára. Uppgjör Guðna á pólitíska hitasumrinu 2004 virkar altént mjög tæpitungulaus.
Það verður eflaust mjög freistandi fyrir fjölmiðlamenn að leita viðbragða þeirra sem Guðni gerir hvað mest upp við; framsóknarforingjans fallna og norræna diplómatsins í Köben og yfirmannsins í Svörtuloftum. Enda er mjög merkilegt að heyra lýsingar á ofríki Davíðs og linkind Halldórs, sem einna helst er lýst sem hugleysingja undir lok samstarfsins við Davíð. Guðni er tæpitungulaus og er mikið í mun að gera upp við báða þessa menn. Það uppgjör eru stærstu tíðindi þessarar bókar.
Það verður gaman að fá sér eintak á morgun og byrja að lesa!
![]() |
Hörðum átökum Guðna og Halldórs lýst í nýrri bók |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.11.2007 | 17:30
Áhugaverðar pólitískar lýsingar hjá Guðna
Guðni hefur verið í pólitísku starfi mjög lengi, svo hann hefur vissulega frá mörgu að segja. Hann hefur setið á þingi fyrir Suðurland í tvo áratugi, var landbúnaðarráðherra í tvö kjörtímabil, varaformaður Framsóknarflokksins í sex ár og tók við flokksformennsku á krossgötum flokksins í vor, eftir að honum var hafnað af landsmönnum og horfðist í augu við stjórnarandstöðu í þriðja skiptið á fjórum áratugum. Þetta er því eflaust saga manns á krossgötum eftir að hafa verið í eldlínu stjórnmálanna í áraraðir.
Guðni er reyndar að gera upp margt í þessari bók - greinilega fyrst og fremst að gera upp við Halldór Ásgrímsson. Það er ekkert hernaðarleyndarmál að þeir áttu ekki skap saman og tókust oft harkalega á. Framsóknarflokkurinn stendur illa núna, hefur ekki náð að lyfta sér af sínum botni og margir telja Guðna biðleik innan flokksins, sé aðeins millibilsformaður. Það eru giska vond örlög fyrir mann sem hefur beðið lengi eftir tækifærinu að leiða flokkinn, en tók við honum í rúst. Talað er um hvort Framsóknarflokkurinn sé einfaldlega að líða undir lok, sérstaklega þegar að traust flokksfólk eins og Anna Kristinsdóttir er farin úr honum.
Það er að ég tel einsdæmi að starfandi flokksformaður í hita og þunga íslenskra stjórnmála skrifi sögu sína og það var mjög vel ráðið hjá Guðna að fá Sigmund Erni til að leggja sér lið við bókina. Þar fer enginn flokkshestur Framsóknarflokksins og því alveg ljóst að farið er gagnrýnið yfir pólitíska sögu Guðna, sem um leið verður pólitísk saga Framsóknarflokksins á umbrotatímum - það er saga sem hefur ekki verið rituð af hreinskilni fyrr og því áhugavert að fá sér eintak og lesa.
![]() |
Forsetinn ætlaði einnig að hafna breyttum fjölmiðlalögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2007 | 09:39
Bjarni farinn í fýlu og stingur af frá REI

Mér finnst ímynd Bjarna hafa skaðast mikið í þessu REI-máli. Meðan að hann leiddi Kaupþing, Fjárfestingabankann, Íslandsbanka og að lokum Glitni þótti hann heiðarlegur og grandvar viðskiptamaður sem virkaði eins og táknmynd hins heiðarlega. Í hinu pólitíska feni REI-málsins hefur ímynd hans markast með öðrum hætti en áður og fólk sér hann sem táknmynd auðvalds sem hugsar ekki um hag almennings en þess þá frekar um eigin hag númer eitt, tvö og þrjú. Það eru vissulega dapurleg örlög fyrir Bjarna að hafa flækst í þessu erfiða máli en ímynd hans hefur skaðast á því.
Kannski er þar með eðlilegt að hann flýi af velli. En það verður umdeilt að hann græðist svo mjög á málinu, tel ég. Hann græðir enda mjög talsvert á þeim viðskiptum sem fylgja sölunni. Ég hef aldrei farið leynt með þá skoðun mína að samningar við Bjarna um kauphlut og fleiri þætti voru til algjörrar skammar fyrir þáverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og ákvarðanir á öllum stigum málsins mjög vondar. Þar inn í hljóta að teljast kaupréttarsamningarnir og allar sponsurnar á hverju strái sem voru sem dimm mara yfir embættisverkum Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og Björns Inga Hrafnssonar.
Enn bíður almenningur eftir að tekin verði ákvörðun um hvað gerist í þessu langvinna máli. En brotthvarf Bjarna vekur sannarlega athygli á þessum tímapunkti. Hann hefur kannski fengið nóg af því að vera pólitískur örlagavaldur og ætlar að reyna að laga ímynd sína, sem er sködduð eftir.
![]() |
Bjarni Ármannsson selur OR hlut sinn í REI |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.11.2007 | 09:05
JFK óttaðist tilræði í Chicago - ráðgátan mikla

Spurningunni um morðingja Kennedys er enn ekki svarað að fullu. Opinber rannsóknarnefnd, Warren-nefndin, komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir, eins og vel kom fram í umdeildri kvikmynd Oliver Stone, JFK, árið 1991. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Lyndon B. Johnson, eftirmaður Kennedys á forsetastóli, hafi skipulagt ódæðið. Allt frá fyrsta degi hafa tilgáturnar verið margar og þeim mun fjölga á næstu árum er opinber skjöl málsins verða loks opinberuð.
Ætla að horfa á JFK aftur um helgina. Horfi alltaf á þessa mynd einu sinni á ári, enda finnst mér hún lifandi vísbending þess sem ég tel að hafi orðið, að Kennedy hafi fallið vegna innri átaka með verk hans. Það er djörf samsæriskenning en engu að síður mjög líkleg að mínu mati. Kvikmyndin kemur með aðra útgáfu en þá opinberu og þær samsæriskenningar sem þar komu fram hafa alltaf verið umdeildar. Ólíklegt er að niðurstaða, sem allir sætta sig við, fáist nokkurn tíma en ekkert lát er á umfjöllun um morðið, bæði í bókum og fjölmiðlum þótt rúmir fjórir áratugir séu liðnir frá morðinu á forsetanum.
Það er áhugavert að heyra nú hulunni svipt endanlega af áhyggjum Kennedys forseta á tilræði í Chicago í Illinois í nóvemberbyrjun 1963. Lengi hefur verið lífseig sagan að Kennedy hafi hætt við þá ferð vegna morðtilræðis sem komið hafi verið upp um og hann hafi óttast svæðið, enda mjög umdeildur þar. Engu að síður mun ég samt aldrei skilja ákvörðun forsetans að halda í gegnum Dallas í óvörðum bíl, algjört skotmark andstæðinga sinna. Enda hefur bandarískur forseti ekki ekið með þessum hætti í stórborg í opnum bíl.
En örlög Kennedys voru sorgleg, en hann lifir með heimsbyggðinni. Svipmynd hans gleymist ekki. Í ferð minni til Washington í október 2004 fór ég í Arlington-þjóðargrafreitinn að grafreit Kennedys forseta. Á gröf hans og Jacqueline, konu hans, sem lést árið 1994, lifir hinn eilífi logi, táknmynd þess að vonarneistinn slokknar aldrei, hvað sem á bjátar.
![]() |
Áform um að myrða Kennedy í Chicago |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.11.2007 | 00:17
Musharraf einangrast - kosningar án baráttu

Svo virðist þó vera að Musharraf ætli sér að sleppa tökum á hernum þegar að nýtt kjörtímabil tekur gildi á næstu dögum, en hann hefur stjórnað bæði her og þjóð í um áratug, haft algjör yfirráð í landinu. Hann hefur þó sagt það svo oft áður að hann ætli sér að hætta sem yfirmaður hersins að því verður ekki trúað fyrr en það gerist. Reyndar hefur hæstiréttur staðfest loks kjörgengi Musharrafs sem forseta, en það kemur varla að óvörum enda hefur hann sett leppa sína í réttinn og sparkað öllum dómurum þar með neyðarlögunum.
Nýjasta sjónarspilið hjá Musharraf er svo að boða kosningar í janúar. Einhver telur það eflaust gott skref, en það versnar yfir því þegar að ljóst er að herlögin eiga að gilda fram að kosningum. Með því er tryggt að engin verður kosningabaráttan, sem flestum þykir jú eðlileg þegar að tekist er á milli flokka í aðdraganda kjördags. Það er greinilegt að þessar kosningar verða marklausar með öllu, þar sem ekki verður tryggð kosningabarátta og alvöru átök við menn valdsins, menn Musharrafs.
Það verður áhugavert að sjá hversu lengi Bandaríkjastjórn mun halda hlífðarskildi yfir einræðisstjórn Musharrafs og hvort hún ætlar sér að blessa þann skrípaleik sem kosningarnar í janúar eru dæmdar til að verða.
![]() |
Pakistan vikið úr Samveldinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.11.2007 | 21:37
Eru átök í meirihlutanum um Orkuveituna?

Það eina sem var gert er meirihlutinn var myndaður var einfaldlega að koma sér saman um það hvaða toppembætti hver ætti að fá. Held þó að fyrst og fremst verði áhugavert að sjá hvaða samstöðu nýr meirihluti nær um Orkuveitu Reykjavíkur og verklag mála á þeim bæ. Um þau mál hefur verið deilt mjög. Eftir að nýr meirihluti var myndaður hefur hann tekið við sama leyndarhjúp um málefni OR og einkenndi störf fyrri meirihluta. Það eru ekki trúverðug vinnubrögð. Ég sé altént ekki mikinn mun á þögninni yfir OR og leyndarhjúpnum og sem er til staðar undir stjórn þessa meirihluta og hins fyrri.
Háværar kjaftasögur hafa verið um að gera eigi REI að fjárfestingararmi Orkuveitunnar, selja eigi einfaldlega eignir félagsins til Geysis Green Energy og um leið að kaupa hlut í félaginu, sem er eins og flestir vita undir forystu Hannesar Smárasonar og FL Group. Það er varla ofmælt að kjósendur verða hafðir af fíflum af nýja meirihlutanum ef þetta verður niðurstaða mála. Það er eðlilegt svosem að deilt sé um sjónarmið varðandi Orkuveituna. Fyrir meirihlutamyndun í október voru Björn Ingi Hrafnsson og borgarfulltrúar þáverandi minnihluta að tala fyrir ólíkum áherslum, en eru nú að reyna að finna úr úr því.
Fróðlegt verður að sjá hvort að vinstri grænir ætli sér að fara í samstarf með Geysi Green Energy eftir öll stóru orðin um að orkuauðlindir landsmanna eigi að vera að fullu í opinberri eigu. Á prinsipp vinstri grænna nú að verða með þeim hætti að standa að því að einkaaðilum sé hjálpað við landvinninga sína í orkumálum? Ef það verður niðurstaðan í Reykjavík er ljóst að vinstri grænir hafa skipt um skoðun á landsvísu í þessum efnum. Þannig að það verður áhugavert að sjá hversu langt prinsipp vinstri grænna ná í raun og veru.
Frá fyrsta degi hefur verið áhugavert að fylgjast með því hvort muni standa uppi sem sigurvegari rimmunnar um REI og OR innan nýja vinstrimeirihlutans, REI-listans, sem sumir nefna X-listann, með kómískum hætti; Björn Ingi eða Svandís. Annað þeirra mun þurfa að gleypa mjög stór orð. Vissulega varð Björn Ingi að hopa mjög með riftun samruna REI og GGE, en víst er að margir munu líta þann sigur Svandísar öðrum augum fari svo að REI verði að fjárfestingararmi Orkuveitunnar í beinu samstarfi við GGE.
Það verður áhugavert að sjá hver niðurstaða meirihlutans í Reykjavík verði. Tafir á ákvörðunum eru til marks um að eitthvað höktir innan meirihlutans og áhugavert að sjá hvaða sambræðingur kemur út úr þessu, er yfir lýkur.
![]() |
Stjórnarfundi í OR frestað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.11.2007 | 08:47
Afnotagjöldin hækka fyrir laun útvarpsstjóra

Það er varla furða að almenningi í landinu blöskri endalausar sjálfhverfar hækkanir hjá Ríkisútvarpinu. Ef RÚV vill borga yfirmanni sínum ofurlaun, frá því sem fyrir var, og gefa honum dýrasta jeppann í bókinni að vinnulaunum, væri ráð að einkavæða loksins þessa stofnun. Það er annars engin vörn til fyrir margfalda launahækkun Páls og bruðlið í kringum embætti hans. Mikið var talað um það sem Markús Örn Antonsson hafði sem útvarpsstjóri en Páll er að njóta mun meiri fríðinda og hærri launa en hann hafði nokkru sinni.
Ég hef verið þeirrar skoðunar í ótalmörg ár að ríkið eigi ekki að reka fjölmiðil. Ég get ekki betur séð en að ríkið sé með hækkun þessara gjalda í kjölfar launahækkana og jeppakaupa að færa stuðningsmönnum einkavæðingar gild rök fyrir sínu máli upp í hendurnar. Ég hlýt að fagna því að vissu marki.
![]() |
Afnotagjald RÚV hækkar um 4% 1. desember |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.11.2007 | 19:06
Munu Grímseyingar sameinast Akureyri?

Þegar hefur sameining orðið í smærri skömmtum hér í firðinum, en þrjú ár eru til dæmis síðan að Akureyri og Hrísey sameinuðust í eitt sveitarfélag. Kosið var um heildarsameiningu fjarðarins í landskosningu um sameiningu haustið 2005, en þá var það fellt á öllum stöðum nema Ólafsfirði og Siglufirði, sem sameinuðust í Fjallabyggð í kjölfarið. Grímsey var þá reyndar ekki í kosningunni eitt sveitarfélaga í Eyjafirði.
Ég er frekar hlynntur sameiningu af þessu tagi að svo stöddu. Tel að það gæti orðið gott mál að treysta böndin með þeim hætti. Það verður sannarlega saga til næstu bæja ef sú verður raunin að Akureyri og Grímsey verði ein sveitarstjórnarheild. Þá eru báðar perlur Eyjafjarðar, eyjurnar tvær, sameinaðar Akureyri.
Sameiningarkosningin 2005 var augljóslega of stórt skref á því stigi. Þá spáði ég reyndar í skrifum að langt yrði í heildarkosningu af sama tagi, en þess þá styttra í sameiningar innbyrðis á svæðinu í skömmtum. Það hefur orðið raunin og ég tel að þetta sé þróun sem verði áberandi á næstu árum.
![]() |
Vilja ræða um sameiningu Grímseyjar og Akureyrar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.11.2007 | 00:07
Fogh áfram forsætisráðherra í Danmörku

Það vekur athygli að kjör Edmunds Joensen, fyrrum lögmanns Færeyinga, á danska þingið tryggir sigur hægriblokkarinnar í Danmörku. Þetta er ekki ósvipað og því er Poul Nyrup Rasmussen hélt velli sem forsætisráðherra í þingkosningunum 1998 á atkvæðum frá Færeyjum. Þá munaði rétt um 100 atkvæðum að hinn litríki forystumaður Venstre, Uffe Ellemann Jensen, utanríkisráðherra í tíð borgaralegu stjórnarinnar 1982-1993, yrði forsætisráðherra. Það greiddi leiðina fyrir innkomu Fogh sem leiðtoga Venstre og hann hefur nú markað spor í danska stjórnmálasögu á þessu kvöldi.
Þó að naumt hafi staðið með stjórnina er yfir lauk má segja með sanni að Fogh hafi sterkasta umboðið til að stjórna í Danmörku er úrslitin liggja fyrir. Þó að Helle Thorning Schmidt hafi sett mark sitt á baráttuna tapar Jafnaðarmannaflokkurinn fylgi undir hennar stjórn, frá kosningunum 2005 er Mogens Lykketoft fékk sinn séns. Þetta er versta útkoma Jafnaðarmannaflokksins danska. Eins og ég sagði hér fyrr í kvöld er það mikið áfall fyrir kratana og þeir hljóta að hugsa mikið á þessu kvöldi. Hefðu þeir bætt einhverju við sig hefðu þeir getað staðið uppi sem sigurvegarar og jafnvel getað náð tökum á stjórnarmyndun hefði tæpar staðið. En svo fór ekki.
Vinstrimennirnir í SF eru stærstu sigurvegarar kosninganna, fyrir utan hægriblokkina sem heldur völdum þriðju kosningarnar í röð. Þeirra árangur er sannarlega glæsilegur og mikil fylgisaukning staðreynd. Þeir eru enda glaðir á þessu kvöldi, fagna fyrir alla vinstriblokkina í heild sinni. Ekki geta kratarnir brosað allavega á þessu kvöldi. Helle hafði viðurkennt ósigur nokkuð snemma í kvöld, enda ljóst að hún yrði ekki forsætisráðherra og umboð kratanna veikst frá síðustu kosningum sem þóttu það slæmar að Lykketoft hrökklaðist frá. Helle fær þó greinilega annan séns, þó marin sé eftir kosningarnar.
Fogh tók auðvitað mikla áhættu með að flýta kosningum. Það er ekkert gefið í þessum efnum þó kosningabaráttan sé stutt, aðeins þrjár vikur. Það fékk Poul Nyrup Rasmussen að reyna fyrir sex árum, þar sem hann notaði tímabundna uppsveiflu sem ástæðu til að flýta kosningum. Sú áhætta var dýrkeypt og hann horfði á eftir völdunum til Fogh. Þó Fogh standi eftir áfram sem forsætisráðherra er meirihlutinn tæpur og gætu verið spennandi ár framundan. Tel að það verði ekki svo langt í næstu kosningar altént.
En það er vissulega ánægjulegt fyrir Dani að geta tekið kosningar með trompi með þessum hætti, tekið slaginn á aðeins þrem vikum. Þetta er eitthvað allt annað en hérna heima þar sem kosningabaráttan stendur meira og minna í 8-9 mánuði.
![]() |
Joensen tryggir Fogh meirihluta á danska þinginu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.11.2007 | 20:50
Danska stjórnin heldur velli - áfall kratanna

Helle var kjörin leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins í apríl 2005. Tók hún við forystu flokksins af Mogens Lykketoft, eftir að flokknum mistókst aðrar kosningarnar í röð að verða stærsti flokkur Danmerkur og hlaut vonda útreið í kosningunum 2005. Thorning-Schmidt er tengdadóttir Neil Kinnock, sem var leiðtogi breska Verkamannaflokksins í áratug, 1983-1992. Þessi úrslit eru sögulegt áfall fyrir danska krata, nú verða þeir næststærsti flokkur landsins þriðju kosningarnar í röð og virðast vera heillum horfnir.
Um leið er það mikil pólitískt afrek fyrir Anders Fogh Rasmussen að halda völdum og tryggja að Venstre sé stærsti flokkurinn á danska þinginu þriðju kosningarnar í röð, sérstaklega verður sigurinn sætur ef stjórnin heldur völdum eins og stefnir í. Það þótti sögulega merkilegt að Fogh og Venstre tryggðu stöðu sína í kosningunum 2005 en úrslitin nú hljóta að verða enn merkilegri og þess þá meiri áfall fyrir kratana. Eftir sex ára stjórnarandstöðuvist kratanna og þriðja tapið í röð hlýtur naflaskoðun að taka við hjá þeim.
Sigurvegarar kosninganna, fyrir utan stjórnarblokkina, eru auðvitað vinstrimennirnir í Socialisk Folkeparti (SF) sem virðist vera að ríflega tvöfalda þingmannatöluna sína. Radikale Venstre er að tapa stórt, tapar átta þingmönnum frá eftirminnilegum kosningasigri fyrir tæpum þrem árum. Dansk Folkeparti er að bæta sig um eitt þingsæti og Konservative stendur í stað með sína átján menn. Heilt yfir er áhugavert að sjá stöðuna. Enn er þó spurt að leikslokum, enda eftir að telja nokkuð enn. En staðan nú sýnir nokkuð vel að Fogh verður áfram við völd.
Úrslitin eru fyrst og fremst áfall Jafnaðarmannaflokksins. Eftir áralanga stjórnarandstöðu hljóta danskir kratar að vera áttavilltir yfir stöðu mála, varla er hægt að tala um annað en ósigur þeirra.
![]() |
Danska ríkisstjórnin heldur velli samkvæmt kosningaspá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)