Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Anders Fogh áfram forsætisráðherra

Anders Fogh Ég fæ ekki betur séð en að útgönguspár í dönsku þingkosningunum í dag bendi allar til þess að Anders Fogh Rasmussen verði áfram forsætisráðherra Danmerkur. Stóra spurningin nú er þó hvort að stjórnin heldur velli óbreytt eða þarf að leita eftir samstarfi við Nýja aflið. Það veltur allt á því hvernig flokkarnir sem standa að ríkisstjórninni munu standa er talningu lýkur.

Það var áhætta hjá Fogh að boða til kosninga. Hann hefur áður þorað að taka áhættur á stjórnmálaferli sínum, boða til kosninga fyrir lok kjörtímabilsins. Sama gerði hann árið 2005. Þá hreinsaði hann loftið, kratar töpuðu styrk og Mogens Lykketoft datt upp fyrir í dönskum stjórnmálum.

Það sem mér finnst merkilegast við útgönguspárnar er hversu lítið kratar eru að bæta við sig í Danmörku. Þeir eru annaðhvort að tapa broti úr prósenti eða standa í staði. Það eru stórtíðindi, en kratar voru vanir að toppa og vera langstærsti flokkur landsins hér á árum áður. Það eru stórtíðindi fari svo sem spáð er að Venstre verði stærstur þriðju kosningarnar í röð.

Þetta verður spennandi kosningakvöld í Danmörku. Þó er Fogh að því er virðist með pálmann í höndunum. Helle Thorning Schmidt sem gat orðið fyrsti kvenforsætisráðherra Danmerkur þarf sennilega að bíta í það súra að missa af tækifærinu til að ná völdum en sennilega fær hún að leiða kratana aftur í gegnum kosningar.

mbl.is Útgönguspár benda til sigurs dönsku stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógeðslegt kynþáttahatur og árásir á forsetahjónin

Ólafur Ragnar og Dorrit Það er orðið langt síðan að maður hefur fyllst öðrum eins viðbjóð og hægt er að upplifa er vefsíðan skapari.com er lesin. Þar er ekki aðeins boðað kynþáttahatur heldur ráðist harkalega að forsetahjónunum Ólafi Ragnari Grímssyni og Dorrit Moussaieff og þau nefnd Óvinir Íslands ásamt fleirum.

Oft hefur verið skrifað gegn vissum einstaklingum í samfélaginu en aldrei af sömu óvirðingu og lágkúru og þarna er gert. Er erfitt að finna almennilega út hvað mörg lög eru brotin með þessari vefsíðu og boðskap hennar. Þetta er grófasta dæmið um kynþáttahatur hérna heima sem sést hefur lengi.

Það er vonandi að þeir sem standa að þessum ófögnuði verði að svara fyrir hann.

Þrjú ár frá andláti Yasser Arafat

Mahmoud Abbas í skugga Yasser Arafat Í gær voru þrjú ár liðin frá andláti Yasser Arafat. Á þessum þrem árum hefur Palestína færst mörg ár til baka, sumir segja allt aftur á upphafspunkt á baráttuárum Arafats. Palestínska heimastjórnin er í molum og á svæðinu ríkir algjör glundroði og stjórnleysi. Harðvítugir bardagar hafa verið á árinu á milli meginpólanna á svæðinu: Hamas og Fatah, sem barist hafa um völdin eftir óvæntan kosnignasigur Hamas fyrir tæpum tveim árum.

Þeim lauk með fullnaðarsigri Hamas á Gaza-ströndinni og þeir hertóku megnið af svæðinu. Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, brá á það ráð að leysa upp palestínsku heimastjórnina og lýsa yfir neyðarástandi á Gaza-ströndinni. Vald forsetans var stórlega lamað með atburðarásinni á árinu en hann stjórnar í umboði sínu til fimm ára. Uppgjörið um framtíðina bíður betri tíma að því er virðist. Á meðan ræður hver valdablokkin sínum svæði og heldur um kjarnavöld sín þar.

Það er erfitt að sjá hvað er í raun eftir af palestínsku heimastjórninni nema sundurskotin eymdin ein. Palestína er á mestu krossgötum sínum allt frá upphafsárum baráttu Arafats. Það hefði fáum órað fyrir því fyrir ellefu árum er Arafat var kjörinn forseti heimastjórnarinnar að svo skömmu síðar yrði allt í bál og brand. Arafat hlaut á sínum tíma friðarverðlaun Nóbels með Peres og Rabin vegna sögulegs friðarsamnings. Hann kostaði Rabin lífið en Peres varð á gamals aldri forseti Ísraels. Ekki hafði þó langur tími liðið þar allt var í bál og brand.

Það er mikil hætta á því að Hamas komi á íslömsku ríki á þessu svæði. Fari svo er útséð með að nokkuð vestrænt ríki vilji ljá máls á að tala máli Palestínu. Þegar hafa fjöldi aðila afturkallað aðstoð við svæðið og Bandaríkjastjórn mun að sjálfsögðu styðja Mahmoud Abbas út í rauðan dauðann, meðan að hans nýtur við sem forseta. Hamas er fylking af því tagi sem ekki er hægt að styðja og viðbúið að þau ríki sem hafa ljáð máls á að styðja Palestínu hrökklist frá verði þarna íslamskt ríki og ofbeldið grasseri af því tagi sem verið hefur.

Það verður fróðlegt að sjá hvað tekur við. Það sem eftir er af palestínsku heimastjórninni er þó ekki beysið og vandséð hvernig þar verði komið á stjórntæku ástandi í þessum glundroða öllum. Helstu átakalínur verða um hvernig forsetaembættið verði mannað á komandi árum. Kjörtímabili Abbas sem forseta lýkur eftir um tvö ár. Hann tilkynnti þegar í forsetakosningunum 2005 að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Baráttan um forsetaembættið verður hörð.

Yasser Arafat var umdeildur stjórnmálamaður en hinsvegar einn af þeim eftirminnilegustu síðustu áratugina. Ég fjallaði um hann í ítarlegum pistli er hann dó, í nóvember 2004.
mbl.is Þúsundir minnast Arafat á Gaza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Hugo Chavez endanlega að flippa yfir um?

Hugo ChavezÞað er ánægjulegt að Juan Carlos, Spánarkonungur, hafi sagt einræðisherranum Hugo Chavez í Venezuela að þegja í gær þegar að hann réðst að José María Aznar, fyrrum forsætisráðherra Spánar, á leiðtogafundi ríkja Rómönsku Ameríku. Fundinum var ætlað að færa saman hinar rómönsku þjóðir en hefur sennilega aðeins fært þær í sundur. Það sést sífellt betur að einræðisherrann Chavez kann sig ekki á alþjóðavettvangi og hefur enga stjórn á sér.

Það er með óhug sem hugsað er til stjórnar Chavez í Venezuela. Hann hefur nú beitt valdi sínu til að tryggja að hann geti boðið sig endalaust fram aftur og meira að segja gerst svo óforskammaður að lengja kjörtímabilið sem hann var kjörinn til fyrir nokkrum árum um tvö ár. Það stefnir því allt í að Chavez muni drottna þarna árum saman. Þetta er ekkert frábrugðið því sem Robert Mugabe gerði, utan þess að hann á sér varla stuðningsmenn utan lands síns. Vinstrimenn víða hafa jú varið þennan einræðisherra með áberandi hætti.

Juan Carlos, Spánarkonungur, hefur jafnan þorað að tala þegar þess þarf. Það gerðist í Santiago í gær á meðan að Chavez sýndi hverslags ruddi hann er á alþjóðavettvangi. Það hvernig hann talaði um fyrrum stjórnmálamann einnar þjóðarinnar, sem lét af embætti fyrir um fjórum árum, var fyrir neðan allt og með ólíkindum hverskonar þráhyggju þessi einræðisherra er haldinn. Hann er endanlega að flippa yfir um og er vinstristefnu um allan heim til skammar.


mbl.is Spánarkonungur sagði Chaves að þegja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg túlkun Árna - tækifæri fyrir Húsvíkinga

Húsavík Ég fæ ekki séð að ákvörðun Landsvirkjunar um að hætta viðræðum um sölu á raforku til nýrra álvera á Suður- og Vesturlandi séu skilaboð um að stöðva allar stóriðjuframkvæmdir. Í þessu felast tækifæri fyrir Húsvíkinga að mínu mati. Það verður seint sagt að þensla sé hér á Norðurlandi og það er áberandi krafa héðan að álver komi til sögunnar við Bakka. Það sást vel í kosningabaráttunni í vor að mínu mati.

Ég tel niðurstöðu gærdagsins vera tíðindi af því tagi að Húsvíkingar fái sóknarfæri í baráttunni fyrir nýju álveri. Það er ekkert leyndarmál að barist hefur verið fyrir nokkrum álverum. Það er þó gott að forgangsraða. Ég tel álver við Bakka farsælan kost. Þar er talað um að virkja jarðvarma, orku Þingeyinga. Það hefur komið vel fram að hugur Þingeyinga er afgerandi með stóriðju.

Fréttir Björns Þorlákssonar á Stöð 2 síðustu daga sýna vel að byggðum Þingeyinga blæðir út. Þar þurfa að koma til ný tækifæri - öflug markmið til uppbyggingar. Í þeim efnum dugir engin tæpitunga. Með réttu ætti að halda íbúakosningu í Norðurþingi um þetta mikilvæga mál. Fá fram afgerandi skoðun þeirra á málinu, hvert eigi að stefna. Ef fólk er á móti því þarf að koma fram hvað eigi að gera á Húsavík ef þessi innspýting eigi ekki að koma til greina. Við viljum skýr svör.

mbl.is Skilaboð stjórnvalda um að hægja beri á stóriðjuframkvæmdum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn í tilvistarkreppu - holur hljómur Guðna

Guðni Ágústsson Heldur fannst mér holur hljómurinn í ræðu Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, á miðstjórnarfundi hér á Akureyri í dag. Það blasir við öllum að tilvistarkreppa Framsóknarflokksins er gríðarleg, flokkurinn hefur misst sérstöðu sína og er orðinn eins og landlaust rekald á útsjónum. Guðni virðist vera veikur formaður. Staða flokksins hefur ekki batnað í stjórnarandstöðu í tæpt hálft ár. Engin teikn eru á lofti um að staða Framsóknarflokksins hafi breyst til hins betra síðan að þjóðin hafnaði honum í vor.

Ræða Guðna í dag sýnir vel helsta vanda Framsóknarflokksins. Tómleiki ræðunnar sýnir umfram allt hversu mjög stjórnarandstöðuvistin er erfið Framsóknarflokknum. Þar eru fá mál til að slá sér upp með og farið í uppnefningar á pólitískum andstæðingum til að upphefja sjálfan sig. Það er reyndar ekki öfundsvert að vera í stjórnarandstöðu í þeirri stöðu sem uppi er. Segja má að stjórnarandstaðan sé áhrifalaus að mestu leyti; þrír flokkar hennar eru til samans með fimm þingmenn færri en Sjálfstæðisflokkurinn einn. Baráttuþrek hennar er enda veikt, eins og sést hefur.

Guðni Ágústsson er reyndur stjórnmálamaður, hefur verið lengi í pólitísku ati og tókst að verða formaður Framsóknarflokksins, þrátt fyrir að Halldór Ásgrímsson hefði barist gegn því er hann yfirgaf pólitíska sviðið. Guðni varð þó formaður á erfiðum tímum í sögu þessa elsta starfandi flokks landsins; eftir auðmýkjandi kosningaósigur og við upphaf endurbyggingar rústa flokksins. Hann virðist ekki hafa það sem til þarf til að rífa flokkinn upp ef marka má kannanir. Staða hans er erfið og við öllum blasir að Framsóknarflokkurinn er í gríðarlegri tilvistarkreppu og vandséð að úr rætist.

Þrátt fyrir stjórnarandstöðuvist er Framsóknarflokkurinn enn að mælast með innan við tíu prósentustig, rétt eins og meðan að flokkurinn hafði völd. Margir áttu von á að Framsókn tækist í stjórnarandstöðu að byggja sig upp. Landsmenn hafa þó ekki öðlast trú á flokknum og hann er í gríðarlega erfiðri stöðu að öllu leyti. Því er holur hljómur formannsins skiljanlegur.

Eflaust er einn vandi flokksins að hann hefur ekki endurnýjað sig í forystu. Eftir afhroðið í vor leiða tveir ráðherrar liðins valdatíma flokkinn. Hann nýtur ekki trausts landsmanna og hefur ekki hafið sig upp úr sögulegu afhroði. Að óbreyttu verður spurt að því hvenær að Guðni hrökklist frá formannsstólnum og hver taki við.

mbl.is Guðni: Forsætisráðherra er daufur og sinnulaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun ákvörðun LV flýta fyrir álveri við Húsavík?

Ákvörðun Landsvirkjunar í dag um að ganga ekki til viðræðna um raforkusölu við fyrirtæki sem stefna á álversbyggingu á Suður- og Vesturlandi eru góð tíðindi fyrir okkur sem höfum talað fyrir álveri á Bakka við Húsavík. Það er skiljanlegt að Alcan sé ekki sátt við stöðuna og Rannveig Rist sé vonsvikin yfir þessu. En við hér fyrir norðan hljótum að sjá tækifæri í þessu.

Húsvíkingar, vinir mínir, vonuðu langflestir að Hafnfirðingar felldu stækkun álversins í Straumsvík fyrr á árinu af skiljanlegum ástæðum. Kannski má segja að Húsvíkingar og nærsveitamenn mínir í Þingeyjarsýslum sem styðja álver við Bakka gleðjist mest yfir ákvörðun Landsvirkjunar. Það hlýtur að fara svo að þessi ákvörðun Landsvirkjunar styðji stöðu Húsavíkur sem stóriðjukosts.

Það er oft sagt að eins dauði sé annars brauð. Þeir á Húsavík munu sækjast eftir því að nýta tækifærin sem koma til staðar með þessu. Það hefur sést vel á fréttum að staðan fyrir austan er erfið, byggðinni blæðir út. Þar þarf ný tækifæri - það þarf að vinna vel nú við að tryggja að þau verði að veruleika.


mbl.is Rannveig Rist: Ákvörðun Landsvirkjunar vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun skandall Keriks skaða Rudy Giuliani?

Bernard Kerik Það er ekki hægt að segja annað en að spillingarverk Bernard Kerik, fyrrum lögreglustjóra í New York, í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001, skaði Rudy Giuliani, forsetaframbjóðanda og fyrrum borgarstjóra í New York. Spilling Keriks varð á vakt Giulianis í New York, sem hélt hlífðarskildi yfir honum. Kerik hefur nú gefið sig fram við yfirvöld og verður væntanlega formlega ákærður um spillingu. Giuliani hefur um langt skeið verið fremstur í kapphlaupinu um útnefningu repúblikana við forsetakosningarnar eftir ár.

Bernard Kerik hefur verið mjög umdeildur árum saman. Hann varð heimsfrægur í kjölfar hryðjuverkanna í New York fyrir sex árum og ennfremur er George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, útnefndi hann sem ráðherra heimavarnarmála í stað Tom Ridge í desember 2004. Nokkrum dögum síðar varð hann að hætta við að þiggja útnefninguna þar sem fjölmiðlar flettu ofan af því að Kerik hafði farið á svig við bæði skatta- og innflytjendalög vegna ráðningar barnfóstru. Þótti málið vera mikill álitshnekkir fyrir forsetann og nánustu samstarfsmenn hans, en greinilegt var að fortíð Keriks hafði ekki verið könnuð.

Kerik vann traust og virðingu margra með framgöngu sinni eftir hryðjuverkin. Hafði hann skömmu fyrir ráðherraútnefninguna starfað í Írak þar sem hann vann m.a. að því að endurskipuleggja lögreglusveitir. Kerik hefur gegnt herþjónustu, starfað í fíkniefnalögreglunni og er með svartabeltið í tae kwondo. Nú á síðustu misserum hefur komið í ljós víðtæk spilling Keriks í embættistíð sinni. Málið er vandræðalegt fyrir Giuliani nú þegar að lokaspretturinn fyrir forkosningar flokkanna hefjast. Giuliani hefur verið á fullu í fjölmiðlum að reyna að tala Kerik af sér, en það breytir ekki því að þetta er skaðlegt mál.

Margfrægt er að samskipti Bush forseta og Giuliani sködduðust verulega eftir að flettaðist ofan af skrautlegri fortíð Keriks, enda hafði Giuliani mælt sérstaklega með honum við forsetann. Bað hann forsetann formlega afsökunar á að hafa komið nafni hans í umræðuna og í samræðum við forsetann. Var fljótt brugðist við og héldu borgarstjórinn fyrrverandi og kona hans strax til Washington og fóru á góðgerðarjólatónleika í borginni með forsetahjónunum til að sýna fram á að samskipti þeirra væru enn traust og öflug.

Nú er Giuliani í vænlegri stöðu - útnefning Repúblikanaflokksins virðist honum í sjónmáli í forkosningunum eftir nokkra mánuði. En verður Bernard Kerik ljón á veginum fyrir manninn sem leiddi stórborg í Bandaríkjunum í gegnum örlagatíma?

mbl.is Lögreglustjóri sakaður um spillingu gaf sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvæg yfirlýsing - skytturnar skjóta yfir markið

Geir H. Haarde Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefur nú gefið út frá sér afgerandi yfirlýsingu vegna samruna REI og GGE og farið yfir sína hlið á upphafi þess. Í mínum huga skiptir miklu máli hvort samruninn hafi verið kynntur honum einn og sér eða hvort í því fólust nákvæm lýsing á öllum þáttum og hann lagt blessun sína yfir hann. Nú hefur Geir sagt með afgerandi hætti að hann hafi ekki blessað eitt né neitt. Það er mikilvægt að fá þennan þátt málsins fram.

Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi, vék að þessum þætti fyrir nokkrum dögum. Það var augljóslega partur af einhverri vörn eða beina sviðsljósinu annað, fyrst vék Pétur Gunnarsson að þessum þætti og Björn Ingi svaraði honum svo. Þetta er enn eitt afgerandi merki spunamennskunnar þeirra á milli. Mér finnst enda fréttavefurinn eyjan.is ótrúlega hliðhollur Birni Inga og augljóst að hann er ekki óháður í þessum efnum. Varnarrullan fyrir Björn Inga og Framsóknarflokkinn birtist oft með áberandi hætti, svo mjög að eftir er tekið, af fréttavef að vera.

Það er reyndar með ólíkindum að fylgjast með spunaskyttunum þremur; Valgerði Sverrisdóttur, Birni Inga og Pétri Gunnarssyni í þessum efnum. Pistill Valgerðar í dag birtist sem hneykslunarskrif á því að borgarfulltrúarnir sex hefðu farið eftir pólitískri sannfæringu sinni. Var þetta eins og móðurlegar leiðbeiningar til þeirra um að standa ekki við pólitískar hugsjónir sínar - skrifa upp á samruna án almennilegrar kynningar. Ég held að Valgerður ætti að hugsa um vonda stöðu eigin flokks áður en hún lítur í aðrar áttir. Framsóknarflokkurinn er enn að dansa í níu prósentum í nýjustu könnun Gallups. Aumt er það fley orðið.

Yfirlýsingar Björns Inga sem eiga að beina kastljósinu að Geir H. Haarde vekja athygli. Þær verða þó auðvitað flokkaðar sem sú smjörklípa er við blasir. Spunaskyttur Framsóknar hafa skotið vel yfir markið og verður áhugavert að sjá hvað kemur næst frá þessu liði.

mbl.is Geir segist ekki hafa lagt blessun sína yfir samruna REI og GGE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Ingi talar ekkert um eigin hliðar REI-málsins

Björn Ingi Hrafnsson Það hlýtur að teljast pólitískt afrek að Birni Inga Hrafnssyni, borgarfulltrúa, tókst að flytja ræðu í hálftíma í borgarstjórn síðdegis án þess að víkja einu orðið að aðkomu sinni að REI-málinu og breyttri stöðu þess innan vinstrimeirihlutans á síðustu dögum, þar sem tekinn var allt annar kúrs en hann talaði fyrir. Vék Björn Ingi í löngu máli að ummælum og verkum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um málið og fór reyndar um víðan völl í smjörklípum. En hann talaði ekkert um stöðu málsins í dag.

Sat ekki Björn Ingi í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og REI? Var hann ekki sem leiðtogi meirihlutaflokks á fullu í öllum lykilákvörðunum þessa máls? Hann var eini kjörni fulltrúi borgarbúa í stjórn REI og eðlilega er því spurt um pólitíska ábyrgð hans í málinu. Hversvegna talar hann enn um afstöðu Sjálfstæðisflokksins? Það er ekki nema von að spurt sé. Björn Ingi hefur slitið samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn vegna stöðu REI-málsins en nú hefur nýji meirihlutinn slegið á puttana á honum og stefnt málinu í betri áttir að mínu mati. En það er fjarstæðukennt að Björn Ingi tali ekki um sinn þátt málsins.

Það sem mér fannst reyndar fyndnast var að Björn Ingi sagðist hafa axlað pólitíska ábyrgð á REI-málinu með því að sprengja meirihlutann. Þetta er nú með því fyndnara sem komið hefur úr þessari áttinni lengi. Ég man að DV og ýmsir fjölmiðlar, meira að segja Bjarni Harðarson, alþingismaður Framsóknarflokksins, kröfðust afsagnar Björns Inga Hrafnssonar í hita REI-málsins. Hvar er sú gagnrýni núna? Bjarni er þagnaður (þagnaði vandræðalega í beinni örlagadaginn 11/10) og það er pressan líka, eða ég fæ ekki betur séð.

En það er vissulega pólitískt afrek fyrir Björn Inga að geta haldið hálftímaræðu með staðreyndum út og suður án þess að tala um eigin þátt, nýja stöðu mála og framvindu þess í framhaldinu. Það er ekki furða að sumir nefni Björn Inga konung smjörklípunnar eftir þessa ræðu.

mbl.is Björn Ingi: Kannski er byltingarforinginn fundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband