Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hörkutólið á vaktinni

Eva Joly er mikið hörkutól - við getum verið stolt að hafa hana á vaktinni. Hún hefur sýnt mikið þor, með því að þora að tala gegn stjórnvöldum sé hún ósammála og hefur velt við öllum steinum í sinni rannsókn. Hún talar á mannamáli. Ég kann að meta þetta og verð æ sáttari við þá ákvörðun að fá hana til verksins. Við þurftum einmitt á henni að halda, enda er hún fagleg en ákveðin í sínum verkum.

Hún er traustur málsvari Íslands á þessum erfiðu tímum - allir kunna að meta framlag hennar með greinaskrifunum fyrir nokkrum vikum þegar hún þorði að rífa kjaft á alþjóðavettvangi meðan íslenskir ráðherrar sögðu ekki múkk þegar að landinu var sótt til að reyna að halda dyrum opnum hjá Evrópusambandinu. Hún þorði meðan aðrir lympuðust niður.

Hörkutólið á vaktinni hefur fyrst og fremst stuðning þjóðarinnar - við getum treyst henni til að gera rétt og þora að verja Ísland á alþjóðavettvangi.

mbl.is Bankahrun líkist máli Madoffs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnús Árni víkur - hvað varð um Sigmund?

Magnús Árni Skúlason átti að segja sig úr bankaráði Seðlabankans fyrr í dag, þegar ljóst var að honum væri ekki sætt, frekar en reyna að koma sér úr vandanum með pínlegum afsökunum og ásökunum í garð blaðsins sem sagði frá staðreyndum málsins. En hvað varð um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins? Af hverju tók hann ekki fyrr á þessu máli með því að slá það út af borðinu þegar um hádegisbil.

Þetta er vandræðalegt mál fyrir Framsóknarflokkinn og hinn nýja formann. Hann átti að klára þetta mál sjálfur en ekki láta það dankast gegnum daginn og bíða eftir að Magnús Árni viki sjálfur með vandræðalegri tilkynningu sem viðurkennir ekki pínleg vinnubrögð hans og er í ásökunartón gagnvart fjölmiðlum.

Framsókn reynir að hreinsa sig af spillingarstimpli en er samt á bólakafi í svo pínlegu máli. Nýr formaður var hvergi sýnilegur í umræðunni við að klára það fumlaust og traust.

mbl.is Fer fram á lausn frá störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu þingmennirnir yfirgefa Borgarahreyfinguna?

Vandséð er hvernig Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari geti verið þingmenn Borgarahreyfingarinnar áfram eftir ósigur þeirra í kosningu um lög hreyfingarinnar. Niðurstaðan virðist fela í sér að hreyfingin sé algjörlega ótengd þingmönnunum, enda verða þeir að velja á milli hreinna afarkosta og lögum sem þau geta ekki samþykkt.

Í raun má segja að hreyfingin hafi liðið undir lok í deilumáli Margrétar og Þráins Bertelssonar fyrir nokkrum vikum - eftir það hefur hún varla verið starfhæf og óeiningin augljós bak við tjöldin. Þingmennirnir standa nú frammi fyrir því að vinna eftir lögum sem þau telja óaðgengileg eða fara ella úr hreyfingunni.

Fari þingmennirnir burt er hreyfingin í raun búin að vera enda hefur hún þá ekki lengur nein tengsl við þingið og stendur eftir sem hópur þeirra sem standa utan þingflokksins. Þetta eru kostuleg endalok á grasrótarframboðinu, sem fór úr tengslum við grasrótina á innan við hálfu ári.

mbl.is Tillaga þingmanna féll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sættir Framsókn sig við svona vinnubrögð?

Vandséð er hvernig Magnús Árni Skúlason geti setið áfram í bankaráði Seðlabankans eftir uppljóstranir um vinnubrögð hans. Nú reynir á hvernig hin nýja forysta Framsóknarflokksins tæklar svona vandræðalegt mál, hvort þeir sætta sig við verklagið eða taka á svona vandræðamáli ákveðið og fumlaust strax. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er sem formaður Framsóknarflokksins í þeirri stöðu að verða að taka af skarið strax, af eða á með bankaráðsmanninn.

Fyrir nokkrum mánuðum var gerð tillaga um Magnús Árna í annað sætið á framboðslista Framsóknar í Reykjavík norður - Sigmundur Davíð stillti honum upp í sætið á eftir sér. Eins og flestir muna fór Alfreð Þorsteinsson þar í pontu og gerði út af við uppstillinguna með þeim orðum að óþarfi væri fyrir Framsókn að sækja inn spillingu í flokkinn. Magnús Árni dró framboðið til baka.

Þetta er vandræðaleg staða fyrir Framsóknarflokkinn - flokk sem hefur á bakinu gamlan spillingarstimpil og hefur reynt mjög ákveðið að hreinsa hann af sér, t.d. með kynslóðaskiptum í forystu og flestir forystumenn gömlu tímanna hafi vikið af sviðinu. Þarna reynir á hvort það var ekta eður ei.


mbl.is Gegn markmiðum Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju sagði Anna Kristine þessa sögu ekki fyrr?

Algjörlega óskiljanlegt er að Anna Kristine Magnúsdóttir hafi beðið í rúm tvö ár með að segja frá hvernig komið var fram við hana eftir skrifin um Kumbaravogsmálið. Þetta var ekki síður frétt en þau skrif. Tengslin milli Landsbankans og bankastjórans við kortamálið tengt Önnu Kristine er þess eðlis að þetta átti að verða forsíðufrétt á þeim tíma... nú hefur fréttin minna vægi en þá hefði verið... en er samt sem áður stórfrétt.

Hvernig stendur á því að þaulvanir fjölmiðlamenn sem hafa fréttanef og skynja stórfrétt þegar þeir komast á sporið þagna þegar annað eins mál gerist? Það er stórmál þegar einn banki lokar á viðskiptavin af engum sökum og reyna að koma henni í mikil vandræði, enda hefði hún verið handtekin með "stolið" kort hefði verslunarstjórinn ekki þekkt hana.

Hvernig er hægt að þaga yfir svona í yfir tvö ár?

mbl.is Anna Kristine var þjófkennd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnalegar árásir Jóns Ásgeirs á Egil Helgason

Jón Ásgeir Jóhannesson fer mikinn í viðtalinu við Viðskiptablaðið. Barnalegar árásir hans á Egil Helgason eru frekar slappar. Held að það væri meiri sómi fyrir Jón Ásgeir að viðurkenna að hann talaði gegn betri vitund í Silfursviðtalinu um Tortola á sínum tíma og reyndi að afvegaleiða almenning á lokahring Baugshringekjunnar, sem tókst að teyma þorra þjóðarinnar allt of lengi með því að stýra fjölmiðlum og almenningsumræðunni með peningaaustri í allar áttir.

Jón Ásgeir talar mikið um hvað þetta hefði verið gott ef svona hefði verið gert og þetta verið gert öðruvísi. Þetta er uppgjör manns sem vissi fyrir löngu í hvað stefndi og hafði fullt vit á hvað var að gerast. Hann hélt samt hringekjunni áfram og reyndi að ráðast að öllum sem bentu honum á augljósar staðreyndir... sýndi engan áhuga á að gera upp ósómann og breyta rétt... hann er ekki rétti maðurinn til að gera upp eigin mistök og afglöp.

Ætlar kannski einhver að segja manni að þetta hafi allt hrunið yfir Jón og vini hans upp úr þurru? Partýið var búið löngu áður en allar veitingarnar kláruðust.


mbl.is Áttum að hætta árið 2005
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurskipulagning í Valhöll

Ég sé að mikið er gert úr endurskipulagningu í Valhöll og breytingum þar innanhúss. Held að það sé eðlilegt að stokkað sé þar upp eftir að fylgi flokksins minnkaði í þingkosningum og ýmsar aðrar breytingar hafa orðið í þjóðfélaginu. Mikilvægt var að færa þar til verkefni og mér finnst Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hafa staðið sig vel í þeirri uppstokkun.

Varla var því að búast að allt yrði eins í starfsemi flokksins eftir úrslit þingkosninganna og full þörf á að breyta til. En breytingar af öllu tagi verða sjaldan sársaukalausar fyrir alla hlutaðeigandi. En fyrst og fremst tel ég lykilatriðið í þessum breytingum að þær efli bein tengsl við flokksmenn og skilvirkni verði meiri í flokksstarfinu.

Augljóst er að mikið verk er framundan fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þar skiptir mun meira máli hvernig hugað er að flokkskjarnanum frekar en skrifstofuhaldi.

mbl.is Starfsmönnum í Valhöll sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurði sparkað - vinstrierjur á Álftanesi

Seint verður sagt að það komi að óvörum að Sigurði Magnússyni hafi verið sparkað af bæjarstjórastóli á Álftanesi. Vinstristjórnin þar hefur verið stjórnlaus og hvorki getað stjórnað Álftaneslistanum og hvað þá sveitarfélaginu - þar hefur verið stjórnarkreppa í allt sumar og í raun verið frekar vont andrúmsloft meginhluta kjörtímabilsins... erjur innan meirihlutans hafa sligað sveitarfélagið og þar er algjört stjórnleysi nú í boði vinstrimanna.

Svona staða er ömurleg fyrir eitt sveitarfélag - þegar eitt framboð getur ekki höndlað umboð bæjarbúa og komið sér saman um aðgerðir eða vinnubrögð er eðlilegt að aðrir taki við. Bæjarstjóranum hefur mistekist að leiða þennan hóp og fær reisupassann. Stutt er til kosninga og vont að meirihlutinn sem vann með þremur atkvæðum í kosningum 2006 hafi ekki ráðið við verkefnið.

Þetta er vandræðalegt fyrir þennan hóp og leitt fyrir sveitarfélagið að búa við stjórnleysi of lengi. Verst af öllu er ef enginn meirihluti er fyrir hendi og þörf á stjórnleysi allt fram í júní þegar ný bæjarstjórn tekur við völdum. En þetta er sameiginlegt átak vinstrimannanna - aðrir koma þar ekki nærri.


mbl.is Sigurður lætur af störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heldur Guðmundur að fólk sé heimskt?

Heldur þykir mér vandræðaleg yfirlýsing Guðmundar Haukssonar um að hann hafi ekki vitað af innherjaviðskiptunum í SPRON. Heldur hann að fólk sé heimskt eða hreinlega fífl? Flestir sjá örugglega í gegnum þessi vinnubrögð. Í sannleika sagt held ég að öllum ofbjóði þessi vinnubrögð og hvernig unnið var bakvið tjöldin.

Þetta er ekki eina málið af þessum toga - við erum öll að verða vön að fá skammt hér og þar af vinnubrögðunum bakvið tjöldin. Þetta mál í SPRON er eitt af mörgum, en með þeim óhuggulegri.

mbl.is Guðmundur: Bjó ekki yfir upplýsingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálaeftirlitið fær ekki að skjóta sendiboðana

Góð tíðindi eru að Fjármálaeftirlitið fái ekki að skjóta sendiboða hinna válegu tíðinda, blaðamennina sem birtu upplýsingar um alvarlegt verklag í bönkunum, glæpsamlegu verkin umdeildu. Auðvitað er eðlilegt að þessar upplýsingar séu gerðar opinberar og mun frekar á að verðlauna þessa blaðamenn fyrir góð störf frekar en ráðast að þeim. Kannski er þetta skólabókardæmi um hvernig vinnuferlið hefur verið í Fjármálaeftirlitinu, eftirlitsstofnun sem svaf gjörsamlega á verðinum.

Mikið er talað um bankaleynd og hversu langt hún eigi að ganga. Mér finnst blasa við að ýmislegt miður geðslegt á að fela bakvið tjöldin með bankaleyndinni, hún eigi að ná mun lengra en eðlilegt er. Eðlilegt er að velta fyrir sér hvort ekki eigi að afnema hana og koma með allt á borðið.

Mjög mikilvægt er að hreinsa út og greinilegt að þeir eru í bönkunum sem leka gögnum og koma málum á borðið framhjá þeim sem yfir þeim eru og hefur verið falin forysta í bönkunum þó þeir hafi verið á kafi í ruglinu þar áður fyrr.

mbl.is Öllum kærum á hendur blaðamönnum vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband