Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
9.9.2009 | 00:59
Er vinstristjórnin á Álftanesi fallin?
Auðvitað er það erfitt fyrir eitt sveitarfélag að horfa upp á aðra eins sundrung eins stjórnmálaframboðs og þessa Álftaneslista. Vandræðalegt er þegar menn geta ekki klárað kjörtímabilið sem þeir hafa verið kjörnir til, þó vissulega með mjög naumum meirihluta. En eftir átökin í þessu sveitarfélagi og allt sem á undan er gengið þarf varla að koma að óvörum að þeim hafi mistekist að klára árin fjögur.
Vonandi fá íbúar þarna betri stjórn og farsælli en þá sem ráðið hefur för og er fyrir nokkru komin út í skurð.
Bæjarstjóraskipti á Álftanesi? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.9.2009 | 17:50
Svartur kafli í sögu þjóðarinnar
Sérstaklega var sláandi að hlusta á lýsingar af því sem gerðist á drengjaheimilinu í Breiðavík fyrir áratugum í Kastljósþætti á sínum tíma; sorglegt og nísti í hjartastað. Það hversu lengi þögnin stóð um afbrotin í Breiðuvík og fleiri stöðum er vitnisburður um það að það verður að tala um kynferðislegt ofbeldi hreint út og því miður hefur komið í ljós að þeim sem var treyst fyrir velferð brothættra barna í vanda brugðust stórlega.
Það að lýsingar á kynferðisofbeldinu og líkamlegum barsmíðum sem börn þurftu að þola komist fyrst í umræðuna fyrir alvöru nú er að mínu mati stóralvarlegt mál. Hversvegna var þetta mál í þagnarhjúpi öll þessi ár? Hvar var eftirlitið á þessum tíma eiginlega og hvar voru þeir sem báru ábyrgð á málaflokknum? Með skýrslunni er mörgum spurningum svarað, en eðli afbrotanna hvílir enn sem mara og gerir mjög lengi.
Jóhanna biðst afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.9.2009 | 01:34
Ölvunarakstur í umferðinni
Akstur í vímu, annaðhvort að völdum áfengis eða eiturlyfja, er vaxandi vandamál sem kristallast æ meir með alvarlegum atvikum - í sjálfu sér tel ég þetta orðið eitt mesta vandamálið í umferðinni í dag.
Það er engin trygging fyrir því þegar fólk sest undir stýri og heldur út í umferðina að það mæti ekki fólki undir áhrifum vímugjafa - út úr heiminum í sínu annarlega ástandi.
Þetta er mikið áhyggjuefni sem full þörf er að tala um með mjög áberandi hætti.
Ölvaður ferðamaður á ofsahraða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.9.2009 | 18:40
Svansí í pólitíkina
Helst hefði ég viljað fá Svansí í framboð fyrir síðustu alþingiskosningar... ofarlega á framboðslista Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi. Ég vona að þetta gefi fyrirheit um að hún fari í framboð í næstu þingkosningum. Okkur vantar traust og gott fólk á borð við hana í pólitíkina.
Svanhildur til Sjálfstæðisflokks | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.9.2009 | 12:22
Landsbankanafnið er orðið ónýtt vörumerki
Sá banki á sér enga framtíð, þó tilkynnt hafi verið að hann sé farinn af listanum. Orðsporið er ónýtt og verður að byggja nýja undirstöðu. Þetta eru sorgleg endalok fyrir vörumerki sem þótti traustast í íslensku bankakerfi fyrir nokkrum misserum.
Þó ansi mörg íslensk vörumerki séu búin að vera eftir íslensku útrásina á alþjóðavettvangi er, tel ég, sárast að Landsbankanafnið renni í sandinn - vörumerki sem stóð alla tíð fyrir trausta og stönduga bankastarfsemi fram að útrás.
Erfitt að starfa undir nafni Landsbankans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.9.2009 | 00:23
Björgvin G. tekur slaginn gegn nafnlausu níði
Fjarri er að allir nafnleysingjar bloggi ómerkilega, sumir þeirra vanda sig mjög vel og geta notað nafnleyndina heiðarlega og vega ekki að öðrum úr launsátri. En þeir sem það gera eyðileggja fyrir öllum hinum með ómerkilegum skrifum sínum. Þeir sem geta skrifað af ábyrgð, sýnt allavega lágmarks virðingu, þó oft séu ekki allir sammála um grunnatriði lífsins, verða alltaf miklu traustari í sinni tjáningu.
Fjarri er að ég sé stuðningsmaður Björgvins né heldur hafi verið sáttur við öll verk hans á ráðherrastóli. En skrif hans um nafnlaus skrif eru góð - mikilvægt að þau séu hugleidd vel.
Björgvin G.: Ný vídd í nafnlausu níði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.9.2009 | 16:10
Stiglitz ver krónuna - blendin ánægja með IMF
Eftir allar árásirnar og niðurrifsstarfsemina gegn gjaldmiðlinum var innlegg hans mjög athyglisvert og vekur spurningar um hversu margir hafa dregið krónuna niður bara með orðavali sínu. Fleiri hlusta af athygli á Stiglitz nú en áður.... forðum var fámennt á fyrirlestra hans hér og lítið um þá fjallað.
Tryggvi Þór Herbertsson, alþingismaður og prófessor, hefur bent á að þegar hann kom á blómatíma útrásarinnar hafi verið fámennt á fyrirlestra þegar Hagfræðistofnun fékk hann til landsins. Nú er hlustað á hann... og það eðlilegt.
Segir AGS standa sig betur hér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2009 | 01:25
Upplausn og Icesave - hvað varð um Steingrím J?
Það yrðu aðallega endalok fyrir ríkisstjórnina - henni yrði ekki sætt lengur ef henni tekst ekki að festa í sessi afstöðu Alþingis með traustum vinnubrögðum í samskiptum við Breta og Hollendinga. Þá er fullreynt með samstarf þessara flokka og þeir mistekist í mesta lykilmáli Íslendinga áratugum saman. Auðvitað eiga íslenskir ráðamenn að tala við þessi stjórnvöld beint og reyna að landa málinu með beinni aðkomu en ekki sitja heima og bíða þess sem verða vill. Þetta er aumingjaskapur.
Vinstristjórnin hefur nú setið við völd í heila sjö mánuði. Hún hefur enn ekkert gert til bjargar heimilunum og fyrirtækjunum í landinu. Hvað varð um skjaldborgina um heimili landsins sem Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, talaði svo digurbarkalega um við upphaf stjórnarsamstarfsins í febrúar? Aðeins hefur verið lengt í hengingaról fjölmargra en ekkert markvisst verið gert. Enda tala gárungarnir um að Jóhanna hafi verið að tala um gjaldborg heimilanna.
Brátt stendur vinstristjórnin frammi fyrir því að taka af skarið um hvort hún tekur stöðu með heimilunum í landinu eður ei. Hún hefur enn ekki gert það eftir sjö mánuði og ekki líklegt að það gerist ef marka má undirlægju Samfylkingarinnar í fjármálaráðuneytinu. Þar á bæ er aðeins boðið upp á hótanir til þeirra sem eru að sligast.
Upplausn hér verði Icesavelögum hafnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.9.2009 | 19:48
Dramatískt uppgjör á miklu umbrotaári
Ekki er laust við að það sé algjör gæsahúð að sjá trailerinn að myndinni Guð blessi Ísland - ekki óeðlilegt enda er myndin dramatískt uppgjör á miklu umbrotaári í sögu Íslands.... árinu þegar bankarnir féllu og pólitískur stöðugleiki varð að engu í kjölfarið. Táknrænt er að frumsýna myndina 6. október nk. þegar ár er liðið frá eftirminnilegu ávarpi Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Mér skilst að á sama tíma hefjist heimildaþáttaröð um sama umfjöllunarefni í Ríkissjónvarpinu.
Trailerinn er þess eðlis að allir munu vilja sjá þessa mynd... heyra í lykilpersónum hruns hins íslenska viðskiptalífs og pólitísku byltingunni sem fylgdi í kjölfarið... með litlum sýnilegum breytingum ári síðar, enda er enn deilt um hvað eigi að gera til hjálpar heimilunum og fyrirtækjunum í þessu landi. Við erum enn í svolítið undarlegri stöðu og alls óvíst hversu þungt áfallið verður. Sumir tala um að botni verði ekki náð fyrr en eftir einhver ár. Sjokkið sé ekki orðið algjört í þessu hruni.
Okkur öllum vantar heiðarlegt og hreinskiptið uppgjör á þessu mikla hruni, bæði með því að fræða okkur um allar staðreyndir og allt fari upp á borðið í því uppgjöri. Mikið vantar enn upp á það... enn fáum við bita hér og bita þar í hinni ógeðfelldu heildarmynd hrunsins. Enn er beðið uppgjörsskilum frá þeim nefndum og aðilum sem taka málið fyrir. Gott fyrsta skref er að fá heiðarlegt uppgjör í heimildarmyndaformi á því hvað gerðist fyrir og eftir hrun... gera upp hrunið.
Þessi mynd lofar góðu í því að gera upp anno 2008... örlagaárið mikla, og allt sem bæði fylgdi í kjölfarið og gerðist fyrir hrunið, enda augljóst að ekki er hægt að horfa til framtíðar fyrr en fortíðin hefur verið gerð upp.
Tárfelldi yfir stiklu úr Guð blessi Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.9.2009 | 01:59
Ráðist að velferðarkerfinu - tvöfaldur Ögmundur
Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra og formaður BSRB, er ekki öfundsverður í tvöföldu hlutverki sínu. Hann sem formaður stéttarsambands opinberra starfsmanna þarf nú sem heilbrigðisráðherra væntanlega að taka ákvarðanir sem leiða til uppsagna í opinbera geiranum og lækka laun opinberra starfsmanna, þegar heyrist af 3-10% launalækkunum hjá Stjórnarráðinu sem er augljóslega fyrsta skrefið - fróðlegt verður að sjá þegar enginn verður með hærri laun en Jóhanna.
Í næsta mánuði verður þing BSRB. Þar mætir sennilega ráðherrann blóðugur upp fyrir axlir eftir uppsagnir og niðurskurð í verkalýðsjakkafötunum sínum og flytur grafalvarlegur ræðu sína sem formaður BSRB. Þvílíkur farsi... verður hann með rauða rós í annarri hendi en niðurskurðarhnífinn í hinni? Er þetta ekki svipað og formaður LÍÚ væri sjávarútvegsráðherra?
Starfsfólk óttast uppsagnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |