Færsluflokkur: Tónlist

Styttist í stóru stundina hjá Eiríki í Helsinki

Eiríkur Hauksson Það eru aðeins tveir dagar þar til að Eiríkur Hauksson syngur Valentine Lost í Helsinki. Þá ráðast örlögin - mun Eiríkur syngja lagið aftur í úrslitunum á laugardag eða kemst hann ekki áfram? Þetta er stóra spurningin hér heima þessa dagana fyrir utan pólitíkina, en brátt verður ljóst hverjir hljóta kjör á löggjafarþingið næstu fjögur árin.

Það er mikil spenna meðal landsmanna vegna keppninnar. Það er mikill meðbyr með Eiríki hérna heima, þjóðin stendur þétt að baki hans. Það er nú oftast nær auðvitað að þjóðin styður söngvarann í keppninni alla leið. Þó finnst mér orðið nokkuð síðan að maður hefur fundið svona sterkan byr með íslenska flytjandanum í keppninni. Silvía Nótt var umdeild hérna heima en Selma var vinsæl og það voru þjóðinni þegar að hún komst ekki áfram, hafandi orðið önnur í Jerúsalem 1999.

Fimmtudagskvöldið verður mikið partýkvöld. Alveg óhætt að segja það. Við ætlum að vera með fjölskyldupartý á fimmtudaginn og hafa gaman af þessu. Það verður klárlega annaðhvort þjóðargleði eða þjóðarsorg eftir keppnina, ekkert millibil þar á. Vonandi kemst Eiríkur áfram. Bundnar eru allavega miklar vonir við það í Helsinki að hann nái áfram.

Vonum það besta bara. Annars höfum við oftast nær gert okkur miklar væntingar og oftar en ekki orðið fyrir vonbrigðum. Vonandi verða ekki vonbrigði þetta árið. Farmiði á úrslitakvöldið er aðalmarkmiðið auðvitað. Allt annað er og verður talið stórsigur í stöðunni, enda er botnsaga okkar í keppninni orðin löng og erfið, allt frá því að Birgitta náði inn á topp tíu og brilleraði í Riga. Síðan hefur þetta verið þrusubotn.

mbl.is Slegist um Eirík í Helsinki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í stóru stundina hjá Eiríki í Helsinki

Eiríkur Hauksson Aðeins fimm sólarhringar eru þar til að Eiríkur Hauksson mun syngja lagið Valentine Lost í Helsinki. Stóra spurningin er auðvitað hvort að Eiríki takist að komast upp úr undanriðlinum. Það er fyrsta baráttan í spilinu. Tvisvar hefur okkur Íslendingum mistekist að lyfta okkur af botninum í keppninni og nú er spurt hvort að þriðja skiptið verði farsælla.

Eiríkur Hauksson er maður sögu í Eurovision. Hann hefur keppt tvisvar áður og er mjög reyndur, bæði sem tónlistarmaður og áhugamaður um Eurovision. Hann býr að þeirri reynslu í þessari þriðju ferð sinni út. Lagið er vissulega mjög gott, textinn venst en er ekkert meistaraverk þó. Mörgum, þar á meðal mér, finnst íslenska útgáfan mun betri, hún rennur betur í gegn finnst mér og hljómar betur í heildina. Myndbandið við lagið vakti athygli og hann hefur fengið mikla bylgju stuðnings héðan að heiman.

Á síðasta ári söng Silvía Nótt sig út úr keppninni með bæði eftirminnilegum og magnþrungnum hætti. Hún stuðaði allt og alla í Aþenu en vakti um leið mikla athygli. Hún öðlaðist þó sögulegan sess í keppninni er púað var á hana fyrir og eftir flutning sinn. Hún gleymist allavega ekki. Rauða ljónið kemur úr allt annarri átt og svo mikið er víst að þessir tveir söngvarar eru ólík eins og dagur og nótt.

Íslenski hópurinn er kominn út og æfingar eru þegar hafnar. Það styttist í örlagaríku stundina. Það verða víða partý á fimmtudaginn þar sem við fylgjumst með okkar manni. Það verður fróðlegt að sjá hvort að þar verði þjóðargleði eða þjóðarsorg er úrslit undanriðilsins liggur fyrir. Það verður varla neitt millibil þar á.

Það verður mikið áfall nái Eiríkur ekki að komast á úrslitakvöldið þann 12. maí. Það verður strax litlausara kosningakvöldið komist hann ekki áfram. Augu allra landsmanna verða á því sem gerist í Helsinki þann 10. maí og við vonum að þetta fari allt vel.

mbl.is Fyrsta æfingin í Helsinki í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Goðsögn í lifanda lífi - hús Cash brennur

Johnny Cash og June Carter Cash Johnny Cash varð goðsögn í lifanda lífi. Hann var einn virtasti söngvarinn í bandarískri tónlistarsögu og hafði mikil áhrif í bransanum. Johnny og eiginkona hans, June Carter Cash, voru mjög áberandi í sinni tónlistarsköpun og sterk heild. Þau létust bæði á árinu 2003. Tónlist þeirra hefur lifað góðu lífi síðan og sagan af byrjun litríks sambands þeirra var sögð í kvikmyndinni Walk the Line árið 2005.

Ég skrifaði einmitt um þá kvikmynd hér að kvöldi páskadags og fór yfir skoðanir mínar á myndinni og helstu hliðum hennar. Þetta er auðvitað mjög sterk mynd, bæði í frásögn og öllum umbúnaði. Túlkun Joaquin Phoenix á söngvaranum var óaðfinnanleg, ekki aðeins lék hann Cash heldur túlkaði lögin hans með bravúr. Reese Witherspoon fékk óskarinn fyrir túlkun ferilsins í hlutverki June og markaði sig sem alvöru leikkonu með öll tækifæri í bransanum.

Heimili Cash-hjónanna í Henderson í Tennessee var þeirra helgasti reitur í lífinu. Þar áttu þau heima allan sinn búskap, allt frá giftingunni árið 1968 þar til yfir lauk árið 2003. Nú berast fréttir af því að það sé brunnið. Það eru nokkur tíðindi. Þar vann Cash nær alla tónlist sína frá árinu 1968 og þar var unnið að hinum ógleymanlegu plötum með Cash undir lok ferilsins sem römmuðu allt ævistarf hans inn í glæsilega gylltan ramma. Myndbandið við hið frábæra lag, Hurt, var þar tekið upp. Þetta hús átti sér merka sögu, einkum var byggingarstíllinn eftirminnilegur. Nýlega hafði Barry Gibb, úr Bee Gees, keypt húsið.

Í tónlistarspilaranum hér er að finna fjögur lög með Johnny Cash; Ring of fire, Hurt, On the Evening Train og We´ll Meet Again. Fyrstnefnda lagið er eitt af vinsælustu lögum ferils hans en hin eru af hinum eftirminnilegu plötum undir lok ferilsins með síðustu hljóðritununum, árin 2002 og 2003. On the Evening Train er yndislegt lag, fallegur texti og túlkunin er næm. Hurt er sterkt lag, sem rammar inn ævi söngvarans við leiðarlok. Mögnuð túlkun. We´ll Meet Again er þekktast í túlkun Veru Lynn frá stríðsárunum og hljómaði t.d. í kvikmyndinni Dr. Strangelove.

Að lokum er þar einn frægasti dúett þeirra Johnny og June; Jackson, algjört klassalag. Þarna er frægasta útgáfa þess, úr tónleikunum frægu úr Folsom-fangelsinu.

mbl.is Hús Johnny Cash brann til grunna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur sigur Jógvans í X-Factor

Jógvan Hansen

Mér fannst allt frá upphafi X-Factor-keppninnar að Færeyingurinn Jógvan Hansen væri stjarnan sem mest væri varið í af öllum fjöldanum. Glæsilegur og afgerandi sigur hans í keppnislok kemur mér ekki á óvart, enda bar hann algjörlega af. Mér fannst hann, Guðbjörg, Hara og Siggi Ingimars vera í algjörum sérflokki í keppninni. Kannski var Inga Sæland líka hinn duldi sigurvegari, enda var hún ekki beint staðalímynd í svona keppni.

Jógvan sannaði í kvöld úr hverju hann er gerður, tók mjög ólík lög og sérstaklega var áhugavert hjá honum að blanda saman Lionel Ritchie og Bon Jovi. Nýja frumsamda lagið var líka sem sniðið fyrir hann. Og sigurinn var afgerandi, krýning er rétta orðið. Þjóðin heillaðist af Færeyingnum metnaðarfulla.... og hún kaus hann. 70% kosning Jógvans segir allt sem segja þarf. Hann kom, sá og sigraði. Einfalt mál það. Og ég held að hann eigi farsæla framtíð fyrir sér í söngnum.

Held að það sé rétt munað hjá mér að hann endaði aldrei á botninum í gegnum alla keppnina. Segir meira en mörg orð um stöðu mála. Hann fékk líka mikla skólun á samstarfinu við umboðsmann Íslands, Einar Bárðarson, sem er auðvitað hreinn meistari á sínu sviði. En Hara er líka sigurvegari að vissu marki. Þær heilluðu þjóðina, voru flott dúó saman og alveg eldfimar, þær munu alveg hiklaust slá í gegn ekkert síður. Var reyndar rosalega svekktur þegar að Siggi var sendur heim fyrir miðja keppni, enda átti hann ekki skilið að fara út svo snemma. Sorglegt bara.

Var rafmagnað andrúmsloft er úrslitin voru tilkynnt. Bæði stóðu Jógvan og Hara sig vel í kvöld en þetta var að mínu mati alveg tryggt hjá Færeyingnum. Hef ekki verið í vafa um sigur hans meginhluta keppninnar. Var framan af hræddur um að erlendur uppruni hans, þó kominn sé frá frændþjóð okkar fornri og góðri, myndi spilla fyrir möguleikum hans, en það gerði það sem betur fer ekki. Enda á talent að njóta sannmælis.

En já, þetta voru gleðileg úrslit. Sendi Jógvan mínar bestu kveðjur með glæsilegan sigur og óska honum að sjálfsögðu velgengni á tónlistarbrautinni, en þar liggur farsæld hans mun frekar en í því að klippa hár fólks. Það er eflaust rífandi stemmning í Færeyjum núna. Þau í Klakksvík hljóta að vera gargandi glöð. Sendi auðvitað góðar kveðjur til frænda okkar í Færeyjum.


Rómaður ellismellur syngur í Höllinni

Sir Cliff Richard Ellismellurinn Sir Cliff Richard söng öll sín þekktustu lög á litríkum tónlistarferli í Laugardalshöll í gærkvöldi. Það hafa væntanlega margir verið ánægðir með það að fá hann loks til landsins, en merkilegt nokk hefur hann aldrei komið hingað fyrr.

Það verður seint sagt að ég sé aðdáandi Cliffs, en ég kynntist honum þó fyrir margt löngu enda áttu foreldrar mínir það sameiginlegt að hafa gaman af tónlist hans merkilegt nokk og áttu einhverjar plötur með honum. Sir Cliff kom vel fyrir í Kastljósviðtali á mánudag, sem var áhugavert að sjá. Cliff á mörg góð lög.

Hann er partur af Eurovision-sögunni eftir að hafa næstum því tekist að vinna Eurovision árið 1968 með Congratulations. Silvía Nótt og Cliff Richard eiga ekki margt sameiginlegt en hafa þó bæði sungið í Eurovision með lag undir þessu heiti.

Uppáhaldslag mitt með Cliff, það eina sem ég hef fyrir alvöru fílað fyrir utan Congratulations, er Summer Holiday, sígilt og gott lag. Það er hér í spilaranum.

mbl.is Sir Cliff Richards á tónleikum í Laugardalshöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar skotnir í Josh Groban

Josh Groban Það er greinilegt að Íslendingar eru skotnir í Josh Groban, ef marka má aðsóknina á tónleika hans í maí og áhugann á þeim. Þar varð uppselt í forsölu á einni mínútu. Það munu vera 700 miðar. Ótrúleg aðsókn hreint út sagt. Þetta er nú með því ótrúlegra held ég hreinlega. Það er greinilegt að þeir sem ætla að fá sér miða í almennri sölu á morgun verða að vera duglegir að berjast fyrir miðum.

Josh Groban er að mig minnir ekki nema 26 ára gamall. Er með ótrúlega góða lýríska baritónsöngrödd. Það eru svona fjögur til fimm ár síðan að hann sló í gegn. Minnir að fyrsta alvörulagið hans hafi verið To Where You Are, sem Óskar Pétursson söng í íslensku útgáfunni. Annars þekki ég feril hans svosem ekkert mikið meira, veit þó reyndar að mamma hans er ættuð að einhverju leyti frá Noregi, en faðir hans er af gyðingaættum. 

Eitt þekktasta lag Josh Groban, You Raise Me Up, er hér í spilaranum. Óskar Pétursson hefur líka sungið það í íslensku útgáfunni. Norðmaður samdi lagið. Margir vilja meina að það sé undir áhrifum að lagi Jóhanns Helgasonar, Söknuður, sem Villi Vill gerði ódauðlegt skömmu fyrir andlát sitt fyrir þrem áratugum. Þau eru sláandi lík þessi tvö lög allavega.

mbl.is 700 miðar seldust á innan við mínútu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiríkur verður rauðhærður í Helsinki í maí

Eiríkur Hauksson Flestum landsmönnum brá eilítið í brún við að sjá Eirík Hauksson dökkhærðan í tónlistarmyndbandinu við Valentine Lost, framlag Íslands í Eurovision, í gærkvöldi, enda er rauða hárið talið vörumerki hans. Eiríkur mun þó ætla sér að vera rauðhærður er hann stígur á svið í Helsinki í maí þegar að hann flytur lagið í keppninni.

Í viðtali hjá Gesti Einari og Hrafnhildi á Rás 2 í morgun sagði Eiríkur að mistök hefðu orðið við litun hársins við undirbúning upptöku myndbandsins og þetta væru því hrein mistök sem átt hefðu sér stað. Hann myndi því ekki verða dökkhærður í aðalkeppninni.

Sitt sýnist hverjum um lagið. Mörgum finnst það betra á íslensku en sumum enn betra á ensku. Persónulega líst mér vel á lagið og vona að þetta gangi vel úti. Eins og ég sagði hér í gær er markmiðið fyrst og fremst að komast úr forkeppninni. Allt annað er stór plús. Er ekki í vafa um að Eiríkur rauði verður okkur til sóma í Helsinki.

Eiríkur hinn rauði dökkhærður í Valentine Lost

Eiríkur Hauksson Framlag Íslands í Eurovision í Helsinki í maí, Valentine Lost, var frumflutt í keppnisútgáfunni í Kastljósi í kvöld. Þar vakti talsverða athygli að söngvarinn Eiríkur Hauksson var orðinn dökkhærður og rauða hárið, vörumerki Eiríks, því hvergi sjáanlegt. Það var ansi áberandi í heildarútgáfunni. Annars fannst mér myndbandið frekar dökkt og kuldalegt og missa verulega marks, en lagið sem slíkt er sem fyrr gott.

Fannst þó textinn þónokkuð óskiljanlegur á köflum og þurfti ég að gera mér ferð til að sjá myndbandið á vef Ríkisútvarpsins til að ná einhverjum kontakt við textann og átta mig alveg á honum. Ennfremur finnst mér frekar leitt að sólókaflanum hefur verið breytt og tekinn úr samhengi við það sem áður var. Laginu hefur verið hraðað greinilega á milli söngkafla og finnst mér ekki gott að taka sólókaflann út, enda fannst mér hann gefa laginu mikið.

En já, svona er þetta. Tekur smátíma að venjast laginu á ensku en mér fannst upprunalega útgáfan betri ef á að spyrja mig. En ég trúi því ekki að Eiríkur verði dökkhærður í Helsinki í maí. Ef svo er finnst mér það glapræði. Eirík rauða til Finnlands, ekki Eirík dökkhærða! Þetta er frekar ömurleg eyðilegging á vörumerki Eiríks að mínu mati. Hann var betri áður. En vonandi kemst lagið áfram í úrslitahlutann. Það er fyrst og fremst markmiðið.

Það verður spennandi að sjá hvernig á að hafa þetta almennt, en það er greinilegt að það á að fórna rauða hárinu. Sýnist það. Finnst það ekki passa vel við bílnúmerið í myndbandinu sem er Big Red. Hann á að fara rauðhærður út allavega. Tel að flestir séu sammála mér um það held ég. En svona er þetta. Fannst mínusar vera við þetta en ekki ráðandi þó. Átti þó von á að helsta vörumerki hans myndi standa sem grunnur, en svo virðist ekki vera.

Vonum bara að partýkvöldin verði tvö í maí og að Eiríkur komist á aðalkvöldið, 12. maí. Ef svo fer verður það dúndurdagur; kosningar og Eurovision. Ekki amalegt það!

Fagrir kvikmyndatónar

Hef sett inn fagra en ólíka kvikmyndatóna í spilarann minn hérna. Ennio Morricone hlaut heiðarsóskarinn aðfararnótt mánudags fyrir sinn glæsilega feril. Tvö falleg stef ferils hans eru í spilaranum; Death Theme úr The Untouchables og The Good, the Bad and the Ugly, eðallinn sjálfur úr spagettí-vestrunum. Setti líka inn guðdómlegt saxófónstef Bernard Herrmann úr Taxi Driver, kvikmynd meistara Martin Scorsese, sem hlaut loksins leikstjóraóskarinn í vikunni. Það var kominn tími til að akademían heiðraði þessa miklu meistara. Saxófónstefið varð síðasta kvikmyndatónverk hins mikla snillings Herrmann og tekið upp aðeins nokkrum klukkustundum áður en hann varð bráðkvaddur.

Svo er þarna inni Tangóstefið ódauðlega með Carlos Gardel, en það gleymist engum sem sáu Scent of a Woman, myndinni sem færði Al Pacino löngu verðskulduð óskarsverðlaun. Tangóinn hans og Gabrielle Anwar í myndinni með stefið ómandi undir gleymist svo sannarlega ekki. Kvikmyndagaldrar. Svo er líka óskarsverðlaunalag Bob Dylan, Things have Changed, úr Wonder Boys. Besta lag Dylans frá gullaldarárunum. Svo má ekki gleyma I Don´t Want to Miss a Thing, óskarsverðlaunalagi Aerosmith sem prýddi myndina Armageddon árið 1998.

Svo er þarna Son of a Preacher´s Man með Dusty Springfield, en allir þeir sem sjá nokkru sinni Pulp Fiction gleyma því lagi ekki svo glatt. Svo er þarna að lokum síðast en ekki síst Streets of Philadelphia með Bruce Springsteen. Hann fékk óskarinn fyrir lagið, en það prýddi myndina Philadelphia árið 1993, myndinni sem færði Tom Hanks sinn fyrri óskar.


Börn tónskálds berjast fyrir heiðri hans

Það leikur enginn vafi á því að Friðrik Jónsson hafi verið eitt virtasta tónskáld Þingeyinga. Hann samdi nokkur ódauðleg lög sem mikið eru spiluð enn í dag - lög sem lifað hafa með þjóðinni. Nú eru deilur uppi um hvort hann hafi samið frægasta lag sitt, Við gengum tvö. Börn Friðriks hafa nú svarað umfjöllun Morgunblaðsins í gær með yfirlýsingu sem birt er í blaðinu í dag. Þetta er athyglisvert mál og virðist þar börn tónskáldsins fyrst og fremst koma til varnar heiðri hans sem tónskálds. Er greinilegt að þau taka umfjöllun mbl illa.

Friðrik er án vafa þekktastur fyrir að hafa samið þetta lag og auk þess hið ódauðlega lag Rósin, sem er orðið eitt helsta jarðarfararlag landsins og virt í tónlistarheimum í flutningi bæði Álftagerðisbræðra og ýmissa söngvara. Lagið Við gengum tvö varð frægt í flutningi Ingibjargar Smith á miðjum sjötta áratugnum og hefur í danslagaþáttum alla tíð síðan og er eitt laganna sem lifað hafa með þjóðinni og öðlast sess í óskalagaþætti t.d. Gerðar B. Bjarklind sem stendur vörð um gömul lög gullaldartímabils íslenskrar tónlistar.

Friðrik, sem lést árið 1997, var organisti í nokkrum kirkjum í Suður-Þingeyjarsýslu sem lærði undirstöðuatriðin hjá föður sínum, en hann var organisti og söngstjóri. Friðrik fór suður til Reykjavíkur á unglingsárum og hlaut frekari tilsögn í orgelleik í Tónskóla þjóðkirkjunnar. Hann fékkst síðan við söngkennslu og margvísleg tónlistarstörf eftir það og varð fljótlega vinsæll og eftirsóttur harmonikuleikari. Hann fór víða um héraðið og lék fyrir dansi og gladdi sveitungana síma með tónflutningi og lagasmíðum.

Lagið Við gengum tvö varð til um 1940 en textann orti hagyrðingurinn Valdimar Hólm Hallstað sem var afkastamikið söngtextaskáld, en orðrómur hefur alla tíð verið um að hann hafi samið textann við hið þekkta lag, Í fjarlægð, en í flestum söngbókum er textinn merktur nafnlausum manni, Cæsari, að nafni.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessari "baráttu" um heiður Friðriks Jónssonar sem tónskálds. Það er allavega greinilegt að börn hans standa vörð um heiður hans í tónlistargeiranum. Það sést vel af þessari yfirlýsingu.


mbl.is Samdi Við gengum tvö skömmu fyrir 1940
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband