Styttist í stóru stundina hjá Eiríki í Helsinki

Eiríkur Hauksson Aðeins fimm sólarhringar eru þar til að Eiríkur Hauksson mun syngja lagið Valentine Lost í Helsinki. Stóra spurningin er auðvitað hvort að Eiríki takist að komast upp úr undanriðlinum. Það er fyrsta baráttan í spilinu. Tvisvar hefur okkur Íslendingum mistekist að lyfta okkur af botninum í keppninni og nú er spurt hvort að þriðja skiptið verði farsælla.

Eiríkur Hauksson er maður sögu í Eurovision. Hann hefur keppt tvisvar áður og er mjög reyndur, bæði sem tónlistarmaður og áhugamaður um Eurovision. Hann býr að þeirri reynslu í þessari þriðju ferð sinni út. Lagið er vissulega mjög gott, textinn venst en er ekkert meistaraverk þó. Mörgum, þar á meðal mér, finnst íslenska útgáfan mun betri, hún rennur betur í gegn finnst mér og hljómar betur í heildina. Myndbandið við lagið vakti athygli og hann hefur fengið mikla bylgju stuðnings héðan að heiman.

Á síðasta ári söng Silvía Nótt sig út úr keppninni með bæði eftirminnilegum og magnþrungnum hætti. Hún stuðaði allt og alla í Aþenu en vakti um leið mikla athygli. Hún öðlaðist þó sögulegan sess í keppninni er púað var á hana fyrir og eftir flutning sinn. Hún gleymist allavega ekki. Rauða ljónið kemur úr allt annarri átt og svo mikið er víst að þessir tveir söngvarar eru ólík eins og dagur og nótt.

Íslenski hópurinn er kominn út og æfingar eru þegar hafnar. Það styttist í örlagaríku stundina. Það verða víða partý á fimmtudaginn þar sem við fylgjumst með okkar manni. Það verður fróðlegt að sjá hvort að þar verði þjóðargleði eða þjóðarsorg er úrslit undanriðilsins liggur fyrir. Það verður varla neitt millibil þar á.

Það verður mikið áfall nái Eiríkur ekki að komast á úrslitakvöldið þann 12. maí. Það verður strax litlausara kosningakvöldið komist hann ekki áfram. Augu allra landsmanna verða á því sem gerist í Helsinki þann 10. maí og við vonum að þetta fari allt vel.

mbl.is Fyrsta æfingin í Helsinki í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinhildur Torfadóttir

hmmm...ég er ekki svo viss um að lagið sé mjög gott...það fellur hins vegar vel inn í þessa annars hallærislegu keppni, sem held ég aðeins íslendingar eru svona spenntir yfir, hér þar sem ég bý, er varla að fólk viti hvað þetta er, og ef svo er, þá hlægja þeir að þessu...en Íslendingar eru spes...

Sveinhildur Torfadóttir, 5.5.2007 kl. 15:15

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Íslendingar halda bara með sínum manni. Það er mikill stuðningur hér heima við Eirík og ég held að áhuginn í hvert skipti ráðist á því hvert lagið er og hver syngur. En vissulega erum við mjög tónlistarlega þenkjandi og höfum áhuga. Mér finnst þetta ágætis krydd inn í tónlistarmenninguna. Annars eru lögin auðvitað misjafnt. Mér finnst íslenska lagið gott en mér finnst aftur á móti enski textinn vondur en hann svosem venst.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 5.5.2007 kl. 15:24

3 Smámynd: Eurovision

Ég held að það sem við munu berja augum þarna á fimmtudagskvöldið verði eitt af þeim flottustu og skemmtilegaustu mómentum í Eurovisionsögu íslands. Hef góða tilfinningu fyrir þessu núna, ég hafði hana ekki í fyrra né þegar Selma keppti. En Eiríkur er eitthvað svo.... PRO og gerir allt rétt ! Áfram Eiki !

Eurovision, 5.5.2007 kl. 19:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband